Harðindi fyrir hundinn - hörkupúl fyrir mig

Vetrarnámskeið BHSÍ á Steingrímsfjarðarheiði var mikið ævintýri. Hér kemur ferðasagan.

Undirbúningur:  

  skafrenningur Daginn áður en námskeiðið hófst fór ég ásamt félögum mínum Auði og Skúla til þess að finna og merkja út hentug æfingasvæði. Við lögðum af stað um morguninn og vorum komin upp á heiði upp úr hádegi. Ekki vorum við heppin með veður. Það var mikill skafrenningur og blint þannig að okkur sóttist starfinn seint. Snjóbíll og tveir björgunarsveitarmenn frá Hólmavík aðstoðuðu okkur. Skúli var með vélsleða meðferðis og þau Auður með GPS tæki til þess að taka punkta á svæðunum. Hefði þessi búnaður ekki verið til staðar er næsta víst að værum öll týnd á heiðinni, því satt að segja sáum við ekki glóru.

Með nokkrum erfiðismunum tókst okkur að merkja út tvö svæði, en urðum að láta þar við sitja. Önnur tvö svæði urðu því að bíða næsta dags.

 

Fyrsti dagurinn:

Fyrsti dagurinn á svona námskeiði fer yfirleitt að mestu í að moka holur fyrir æfingarnar. Þá er tekin tveggja metra djúp gröf, síðan mokað inn þar til kominn er hæfilega stór hellir fyrir mann að liggja í og láta fara vel um sig. Síðan er mokað ofan í gröfina og skilin eftir svolítil rás eða op sem "fígúrantinn" getur smeygt sér niður um. Þegar hann er kominn ofan í er gatinu svo lokað og þarna dúsa menn þar til hundurinn finnur þá. Nú, eða þeir finnast með öðru móti, því fyrir kemur að hundarnir finna ekki. Þá koma að góðu gagni snjóflóðaýlarnir sem allir verða að hafa á sér við þessa iðju. Wink

 

Og hvernig liðu dagarnir? 

ReykjanesMannskapurinn gisti í Reykjanesi. Þar var stjanað við okkur í mat og öðru atlæti.

Klukkan sjö að morgni fór fólk á fætur og viðraði hundana. Þeir héldu til í búrum þessi grey.  Sumir í bílunum, aðrir inni í íþróttahúsi, svo það þurfti að viðra þá oft og reglulega. 

Klukkan hálfátta tók við morgunmatur. Við smurðum okkur nesti, settum heitt vatn á brúsa og tókum okkur til. Síðan var lagt af stað upp á svæði upp úr kl. hálfníu. Þangað kom hópurinn klukkutíma síðar.

Þá var tekið til við að hleypa úr dekkjum svo bílarnir kæmust inn á sjálf æfingasvæðin. Svo þurfti að byrja á því að opna holurnar, hreinsa upp úr þeim frá deginum áður og gera þær klárar. Þetta er heilmikið basl og brölt. Og þá - um það bil tveim tímum síðar - hófust æfingar sem stóðu með hléum til kl. hálf fimm. Þá var haldið heim á leið, eftir svolítið bras og snúninga í snjónum, menn þurftu að dæla lofti í dekkin að nýju, og það tók nú tímann sinn. 

Upp úr sex var mannskapurinn yfirleitt kominn í hús. Þá voru haldnir leiðbeinendafundir og í beinu framhaldi flokksfundir. Síðan kvöldmatur. Að honum loknum - eða klukkan átta - voru haldnir fyrirlestrar og erindi um eitt og annað sem lýtur að snjóflóðabjörgun og leit. Svo skelltu menn sér í laugina sem er heit eins og hitapottur. Þar var gott að slaka á eftir daginn.

 

Útkallsæfing: 

Þannig liðu dagarnir einn af öðrum. Á sunnudagskvöldinu var dagskráin brotin upp með útkallsæfingu strax eftir kvöldmat. Með aðstoð lögreglu var sett á svið raunverulegt snjóflóð og útkallshundarnir virkjaðir í leit: 9-10 manns "týndir" á skíðasvæði. Þetta var tilkomumikil æfing fannst mér og tókst í alla staði mjög vel. Frá því björgunarhundarnir voru komnir á svæðið og þar til tilkynnt var um síðasta fundinn liðu 53 mínútur sem er vel viðunandi.

 Síðasta kvöldið, á fimmtudagskvöld, var svo haldið lokahóf með afhendingu skírteina og viðurkenninga, skemmtiatriðum og söng og fólk gerði sér glaðan dag eftir erfiði vikunnar.  Á föstudagsmorgni tygjaði mannskapurinn sig til heimferðar - en menn voru misjafnlega hressir eins og gengur. Wink

 

Harðræði fyrir hundinn:

 Balti Ég sagði í síðustu færslu að ég væri úrvinda. Nú er ég öll að braggast - en það er önnur hér á heimilinu þreytt eftir þetta alltsaman. Það er tíkin mín hún Blíða. Þetta námskeið var mikið harðræði fyrir hana.

Það skyggði nokkuð á gleði daganna að hundurinn veiktist hjá mér og var eiginlega alveg ónýtur mestalla vikuna. Fyrsta vandamálið var eyrnabólga, og svo tók við svokölluð "vatnsrófa", á þriðja degi. Vatnsrófa (water-tale) hendir hunda sem lenda í vosbúð og bleytu (t.d. slyddu). Þetta er afar sársaukafullt fyrir hundinn og krefst verkjalyfja.  Taugaendar við rófuna  bólgna upp svo rófan lamast. Þetta líkist því helst að hundurinn sé rófubrotinn.  Blíða blessunin bar sig því illa um tíma, og ég var komin á fremsta hlunn með að taka hana heim. Hún gerði að vísu það sem fyrir hana var lagt en augljóst var að hún hafði enga gleði af því. Woundering Ég þarf því aðeins að hugsa þetta betur, hvað ég vil leggja á hana í framtíðinni.

Lærdómsríkt: 

breidadalsheidi07 Fyrir mig var þetta þó afar lærdómsríkt. Við fengum m.a. að leita  A-svæði með tveimur týndum sem hundurinn fann á innan við 25 mínútum. Mér skilst að svæðisvinnan mín hafi verið góð (í þessaari tilraun) og mér fannst mjög gaman að spreyta mig á þessu.

Ekki byrjaði ég þó glæsilega. Framarlega í svæðinu sökk ég á bólakaf í snjó og lá kylliflöt. Ekki beint tilkomumikið upphaf. Blush Ég veltist um góða stund í skaflinum, innan um snjóflóðastöngina og skófluna sem þvældust fyrir mér, og ætlaði aldrei að hafa mig á fætur. Það tókst þó með erfiðismunum, og áfram hélt ég. Þetta var svona eins og lífið sjálft - maður sekkur, bröltir upp aftur og heldur svo áfram. Wink

Jamm ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta hljómar alveg magnað. Fólk þarf að vera hraust og vel á sig komið til að fara í gegnum svona eldraun. Og þá hundarnir! Í framhaldi af þessum pistli langar mig að spyrja um hundana. Er eitthvað eitt hundakyn betra en annað í svona vinnu? Eruð þið með alls konar hunda eða er einhver ein tegund algengari en aðrar?

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.3.2008 kl. 12:40

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl Lára Hanna.

Það eru ýmsar hundategundir sem nýtast vel við björgunarstörf. Sjálfri finnast mér Border-Collie blendingarnir vera að standa sig best, enda eru Border-Collie hundar lang stærsti hópurinn í BHSÍ. Þeir hafa góðan feld, eru örir og áhugasamir með ríka veiðihvöt og fljótir að læra. Labrador hundar hafa líka komið ágætlega út. Þeir eru rólegri, en afar sterkir og góðir hundar. Schaefer hundar geta margir hverjir gert góða hluti í þessu - en þeir eru seinþroska og krefjast töluverðrar vinnu.

Í raun er hægt að þjálfa nánast hvaða hund sem er til þess að leita og finna. Hinsvegar verða hundarnir að hafa gott úthald og þola vel kulda og erfiðar aðstæður. Þar t.d. vandast málið hvað varðar Dalmatíuhund, eins og minn. Hann hefur aðeins einfaldan feld og er kulsækinn - sem er mikill ókostur við þessar aðstæður.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.3.2008 kl. 13:20

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gaman að heyra hvað þú ert öflug og frísk gamla vinkona. Óska þér til hamningju með að framkvæma þessa skemmtilegu hugmynd þína. Sjálfur var ég í björgunarsveit Ingólfs í Reykjavík, en vegna þess að henni var skipt í flokka þurfti ég aldrei að fara í gegnum það sem þú gerðir.

Ég var nefnilega í svonefndum flugflokki og þar að auki einn í honum. Árangri náði flokkurinn ekki nema úr lofti og því skjót för heiman og heim, enda um það að ræða í framhjáhlaupi að nýta þessa aðstöðu sína til að vera helst fyrstur með fréttir og myndir. Best heppnaðist það í leit einni á Hellisheiði þar ég fann hinn týnda og sparaði fjölda félaga minna erfiði með því. Gat svo lent og tekið viðtal við týnda manninn og var kominn til Reykjavíkur með það eftir kortér.

Vona síðan að þú takir ekki illa upp hrekk sem ég gerði þér meðan þú varst í burtu þegar ég sá blogg þitt um flugafrekið í Þýskalandi.

Ómar Ragnarsson, 15.3.2008 kl. 17:11

4 Smámynd: Tiger

 Treadmill  Þvílíka hörkupúlið sem þið þurfið að ganga í gegnum. Eins gott að vera í góðu formi ef maður ætlar sér að starfa með björgunarsveitunum. Þetta hljómar þó eins og það sé endalaust gaman að þessu og að þetta sé mjög mikið gefandi, sannarlega þess virði.

Leitt að lesa um hvutta greyið og vonandi líður honum betur skottinu - en mikið ljúft að vita til þess hve miklu munar um blessuð dýrin þegar mannslíf liggja í húfi. Það er gott að vita af góðu fólki sem leggur stundum líf og limi í hættu við að bjarga mannslífum, og þess virði að hvetja alla til að standa við bakið á björgunarsveitunum um landið. Takk fyrir mig Ólína, skemmtileg lesning.




Tiger, 17.3.2008 kl. 14:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband