Á fullu tungli

ulfar Tungl er fullt í kvöld. Á fullu tungli er lífið löðrandi af magni og orku. Hundar verða órólegir, úlfar senda sín langdregnu væl út í nóttina - töfrasteinarnir og snjókristallar glitra í náttmyrkrinu. Fjöllin verða björt og hafið slegið silfurdregli.

Á fullu tungli fæðast börnin flest, elskendur finna lífsorku og ástríður ólmast í brjóstinu. Fullt tungl er tími fullkomnunar - samruna - fyllingar. Samningar eru undirritaðir, áföngum fagnað. Séu erfiðleikar í lífi fólks munu þeir trúlega ná hámarki á fullu tungli - sé lausn vandamáls í sjónmáli eða undirbúningi mun hún ná fram að ganga á fullu tungli.  fullt tungl

 

Í þrjá daga njótum við þessarar fyllingar - svo tekur tungl að myrkvast á ný. Þá dregur smámsaman úr framkvæmdagleði og atorku, kúfurinn minnkar og magn þess sem á undan er gengið sömuleiðis.

Nú er tími til að hreinsa skrifborðið, þvo þvottinn, taka til í herberginu, rífast og sættast, elskast.

Það er dásamlegt að vera til á fullu tungli. Njótum þess að horfa upp í himininn og anda að okkur birtu þessarar náttsólar - leyfa silfurgeislum hennar að streyma um æðarnar og fylla brjóstið. Þó ekki sé nema eitt augnablik. Það er þess virði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Var einmitt að stara á tunglið áðan, vona svo sannarlega að það verði bjart aðra nótt, ætla að stilla á mig klukku og kíkja út um 3 leytið.  GN.

Ásdís Sigurðardóttir, 19.2.2008 kl. 22:55

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Maður verður nú bara hálf tunglsjúkur af þessari mergjuðu lýsingu og fer að spangóla upp í tunglið. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.2.2008 kl. 23:08

3 Smámynd: Tiger

Þetta var falleg færsla. Segi það sama og Sigurður - lá við að maður missti sig í smá spangól. Minn tími á tunglið var fyrr í kvöld er ég var stopp á rauðu ljósi í engri umferð á heimleið.

Óendanlega fallegt tunglið dróg mig að sér þannig að ég missti af þegar mín ljós komu og beið ég því bara tunglheillaður eftir þeim næstu - pollrólegur en töfraður. Galdrakvenndi í minni ætt eru margar og nokkrir seiðkarlar líka - en því miður hef ég ekkert af þeirra töfraljóma - nema kannski fölskvalausa stríðnina sem mér er svo samvaxin. Takk fyrir fallegan texta sem mun veita huga manns nógan eldivið er svefninn svífur á.

  

Tiger, 20.2.2008 kl. 04:20

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Fann að það var einkvað. Einhver meiri innri kraftur hefir verið viðvarandi núna. Kannski er það tunglið. Þetta er þá tími hugskeyta en þau draga lengst þegar það er fullt tungl. Já heimsálfa á milli. Þetta er satt.

Valdimar Samúelsson, 20.2.2008 kl. 11:42

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flott færsla hjá þér Ólína, mystisk í samræmi við tilefnið.  Mér sýndist líka óvenju hásjávað í kvöld. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.2.2008 kl. 21:17

6 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

þegar fullt túngl er þá opnast straumar frá Alheiminum sem gefa nýjar hugmyndir og ef á þarf að halda hjálp til sjálfshjálp !

Bless inn í kvöldið !

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 20.2.2008 kl. 22:13

7 Smámynd: Hlynur Jón Michelsen

Það var fullt tungl hjá Össuri Skarpa í gær...

Hlynur Jón Michelsen, 21.2.2008 kl. 00:51

8 identicon

Sæl Ólína.

já,sérstök færsla.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 04:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband