Fagurt er rökkrið við ramman vætta söng

þrettándabrenna Það er einhver dulræn helgi yfir þrettándanóttinni - rökkrið aldrei fegurra en þá, sjáist til himins á annað borð.

Næsta sólarhringinn hverfur ljós af tungli. Þá er eins og veröldin haldi niðri í sér andanum þar til tungl kviknar á ný. Þegar svo stendur á er best að fara sér hægt, bíða úrlausnar og nýrra tækifæra. Leyfa sálinni að hvílast eins og barni sem sefur um nótt. Innan tíðar kviknar nýtt tungl, með vaxandi þrótti og framkvæmdagleði. 

Margir finna mun á sér eftir tunglstöðunni.  Ég veit t.d. að ég var ekki sú eina sem átti erfitt með að vakna í morgun  Wink  þó ég hafi sofnað á skikkanlegum tíma við lestur góðrar bókar í gær. Ýmsir velta því sjálfsagt fyrir sér hversvegna þeim gengur stundum illa að vakna - og láta sér ekki detta í hug að setja það í samband við ný eða nið - nú eða loftþrýstinginn, þegar lægðir eru á leiðinni.

En nú fer sumsé dulmögnuð nótt í hönd. Vættir á kreiki, álfar og huldufólk - kýrnar tala í fjósunum. Á þrettándanum og nýjársnótt gátu menn setið úti á krossgötum og leitað fregna um framtíðina. Þegar leið á nótt komu álfarnir og buðu útisetumanninum gull og gersemar. Mikið lá þá við að segja ekkert og líta ekki á gullið - því væri það gert hvarf það allt jafnóðum. En ef menn gátu setið á sér og þagað afskiptalausir til morguns féll þeim allt í skaut sem lagt var fyrir þá um nóttina.

Því fór illa fyrir karlgarminum sem hafði staðið af sér freistingarnar allt framundir morgun. En rétt fyrir dögun dró huldukonan upp tólgarplötu og bauð karli. "Sjaldan hef ég flotinu neitað" sagði þá sá gamli - og þar með hurfu honum gersemarnar eins og dögg fyrir sólu.

 Ýmsar sögur eru til af jóla- og nýjársgleði álfa og tiltektum þeirra á þrettándanum. Héldu þeir dýrindis veislur og lögðu undir sig heilu bæina meðan fólk var við messu. Oft var einhver maður látinn gæta bæjarins á meðan annað fólk sótti kirkju, og gat þá gengið á ýmsu. Sumir urðu ærir eftir samskiptin við álfana, aðrir sýndu ráðsnilld og hugrekki og urðu gæfumenn æ síðan. Hér læt ég fylgja eina sögu sem ég fann á netinu um Jólanótt í Kasthvammi.

Góða skemmtun í kvöld - þið sem ætlið að brenna út jólin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Fyrirgefðu Ólína mín það var alveg óvart að fyrirsögnin okkar varð svona lík. Var ekki búin að sjá greinina þína.    Góða Þrettándagleði.   

Ía Jóhannsdóttir, 6.1.2008 kl. 15:50

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Æi er hálf þunglynd þegar jólin hafa runnið sitt skeið á enda.  Læt lítið fyrir mér fara á meðan.

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.1.2008 kl. 22:21

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mér finnst alltaf gott að hafa kaflaskipti, nú er allt komið í réttar skorður.  Næst er það þorrinn og svo vorið. Hlakka alltaf til hverrar árstíðar fyrir sig, finnst þær allar yndislegar. Gangi þér vel í amstri dagsins og eigðu góða daga.

Ásdís Sigurðardóttir, 6.1.2008 kl. 22:47

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þú kannt að orða hugsanir þínar Ólína.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 6.1.2008 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband