Lúpína og kerfill eru allt að kæfa!

spanarkerfill Þetta nær engri átt. Lúpína og kerfill bókstaflega vaða yfir allt. Heilu landspildurnar hafa breyst í bláar breiður - og óræktarlönd með gróðurþekju eru að verða hvít af kerfli.

Fyrir fáum árum "átti" ég svolitla blómabrekku í hlíðinni hér fyrir ofan bæinn. Þangað brá ég mér til þess að tína blóm í vasa á góðviðrisdögum. Þar uxu ýmsar tegundir, blágresi, freyjubrá, hrafnaklukkur, brennisóleyjar, jafnvel munkahettur (sennilega afsprengi úr görðum í nágrenninu) og ýmislegt fleira. Þar voru líka lúpína og kerfill byrjuð að stinga sér niður. Á tveimur árum tóku þessar tvær tegundir yfir í blómabrekkunni, og nú eru allar aðrar blómategundir horfnar þaðan.

Sé litið upp í hlíðina ofan við Ísafjörð blasir ekki betra við. Kerfillinn veður bókstaflega yfir allt - í kappi við lúpínuna. Hann heldur sig við graslendið og kæfir allt þar, hún æðir hinsvegar yfir lyngmóana ofar í fjallinu. Þar sem áður voru grænar lyngbrekkur blasa nú við bláar breiður sem fara veldisvaxandi ár frá ári.

lupinubreida Höfuðborgarbúar hafa á síðustu árum séð viðlíka þróun í nágrenni borgarinnar, t.d.  við Rauðavatn og upp með Norðlingaholti og Sandskeiði, þar sem íslenskur lággróður er bókstaflega að hverfa undir lúpínubreiðurnar.

 Einhvern tíma var því haldið fram að lúpínan væri dásamleg jurt - hún yxi þar sem annar gróður ætti sér ekki von, hún byndi jarðveginn og myndi svo hopa fyrir öðrum gróðri. Jæja, ég hef hvergi séð þetta gerast, því miður, nema "annar gróður" hafi átt að þýða "trjágróður eingöngu".  Þvert á móti sé ég ekki betur en lúpínan nái allstaðar yfirhöndinni þar sem hún kemur sér fyrir. Heiðmörkin er t.d. að breytast í lúpínubreiðu milli trjáa. Þar sést varla nokkur íslensk jurt lengur, hvað þá berjalyng.

lupinaVíst er lúpínan falleg jurt - svona í hófi. Vandinn er bara sá að hún sést ekki lengur í hófi. Ég er hrædd um að menn hafi farið offari í því að setja þessar tegundir niður, nánast hvar sem er. Ágengar og harðgerar jurtir geta átt rétt á sér þar sem gróðursnautt er - en að setja þetta niður þar sem gróður er fyrir - íslenska lággróðurinn sem má ekki við miklu - er ekki snjallt .

Væri nú ekki ráð fyrir landgræðsluna og/eða umhverfisstofnun að leita leiða til þess að stemma stigu við þessum ósköpum?

 

kerfill


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er búinn að blóta kerflinum um nokkurn tíma. Hlíðin fyrir ofan Ísafjörð var mitt aðal leiksvæði þegar ég var að alast upp og ég man eftir því hvað það svæði var grösugt. Þar sem ég bý á Suðureyri er ég búinn að berjast við kerfil í garðinum hjá mér og skorið upp það sem ég næ til af rótinni án þess þó að fara í miklar framkvæmdir og gröft. Ávalt kemur samt kerfillinn aftur.

Ég hef hinsvegar ekkert út á lúpínuna að setja. Hana hef ég séð blómstra á stöðum sem áður var ekki að finna stingandi strá og með henni er farið að spretta gras.

Unnar (IP-tala skráð) 11.7.2007 kl. 08:52

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Lúpínan er svona eins og blessaður mávurinn. Falleg, en í hófi þó. Verst að mávurinn skuli ekki éta lúpínu, en svona er þetta bara.

Halldór Egill Guðnason, 11.7.2007 kl. 12:03

3 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Já, þú segir nokkuð.

Ég var einmitt að fá mér lúpínufræ frá Englandi og sú lúpína er í öllum mögulegum litum og er miklu hávaxnari en gamla fjólubláa lúpínan. 

Ég ætla að skreyta hjá mér með þessari fallegu og harðgeru jurt en ekki hafa allt í fjólubláu. 

Sigurður Sigurðsson, 11.7.2007 kl. 13:20

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég man hvað minn ágæti frændi Árni Waag kennari og umhverfisunnandi hataði lúpínuna innilega. Sjálfum finnst mér hún nú bara falleg og vissulega hefur hún klætt gróðurlausa mela af dugnaði og eljusemi. Ég er þó nokkuð viss um að hún getur orðið óþolandi í græðgi sinni og frekju þegar hún er komin að holtagróðri og öðrum "innfæddum" grastegundum.

Mér er sagt að erfitt sé að vinna bug á henni þegar hún er búin að helga sér búsvæði. það er slæmt því auðvitað má hún ekki taka yfir. Kerfilsfjandinn er auðvitað hræðileg ófreskja og næstum ódrepandi.

Ég man að Árni sagði mér að við ættum íslenskar tegundir sem gætu gert sama gagn og lúpínan en ekki hef ég séð eða heyrt neitt annað um þá ályktun. 

Ég leyfi mér að trúa því að okkur takist að ná tökum á útbreiðslu lúpínunnar og ekki megum við útrýma henni. þar vísa ég fyrst til þeirrar gagnsemi hennar sem Ævar Jóhannesson hefur fundið og sannað með undralyfinu sem hann notar hana í og reynst hefur ótrúlega magnaður lífgjafi mörgum krabbameinssjúklingum.

 þetta er í það minnsta trú ýmsra þeirra sem notað hafa lúpínuseyðið og sjálfur hef ég kynnst fólki sem ég hef fulla trú á að lyf þetta hafi hreinlega læknað.

og

Árni Gunnarsson, 11.7.2007 kl. 14:23

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála þér Ólína, þetta er slæm þróun, og hefur farið vaxandi, síðan sauðkindinni var úthýst, hún hefur sennilega haldið þessum fjanda í skefjum.  En mér er sérstaklega illa við að sjá hana vaða yfir allar fallegu jurtirnar okkar í skóginum, lyngið, íslensku orkideurnar, brönugrösin og allan smágróður sem var í jafnvægi, en er nú ógnað af lúpínu.  Og ég er farin að halda að eftri x mörg á verði hún búin að útrýma berjalyngi.  Eigum við að bíða eftir því, eða slá saman í baráttu gegn þessum skaðvaldi ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.7.2007 kl. 20:36

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já, hlustið nú á garðyrkjufræðinginn hana Ásthildi! Það er ekkert vit að láta lúpínu og kerfil kæfa annan gróður sem á í vök að verjast. Spurningin er bara, hvað er best að gera. Það verða garðyrkjufræðingarnir að segja okkur leikmönnunum

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.7.2007 kl. 21:00

7 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Sæl Ólína. Góð færsla. Ég er nú búin að hafa ómælda ánægju af því að horfa í áttina að Esjunni að Mógilsá þegar ég kem akandi úr Mosfellsbænum á leið heim, með alla breiðuna af lúpínu, skógarkerfli og öllum trjágróðrinum. Þetta er einstök litadýrð, en það eru ekki allir sammála.

Ég held að Ásthildur hafi sett klukkleik af stað hér á blogginu og nú klukka ég þig!

Edda Agnarsdóttir, 12.7.2007 kl. 00:52

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Úbbs - hvað geri ég þá? Klukka þann næsta sem ég geri athugasemd hjá?

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.7.2007 kl. 23:00

9 Smámynd: Halldór Jónsson

Hann Hákon Bjarnason skógræktarstjóri hefði orðið 100 ára á morgun.

Sá maður gerði margt fyrir þetta land sem þeir yngri hafa ekki hugmynd um. Þegar hann hóf störf var landið næsta nakið. Urð og grjót voru það sem blast við á holtunum í kringum Reykjavík og í Esjuhlíðunum. Birkikræðurnar í Hljómskálagarðinum náðu ekki metra á hæð eftir áratugi í næðingnum. Það voru stöku húshá tré í gömlum görðum í Reykjavík. Það kostaði átök að varðveita síðustu leifar af birkiskógum landsins, sem voru að étast og blása upp.

Hákon breytti þessu öllu. Hann vakti þjóðina til umhugsunar. Hann var trúboði sem fór um landið og flutti vakningaræður og sýndi myndir frá öðrum löndum sem dæmi um hvað gæti orðið hér. Án þess að fá greidda yfirvinnu NB. Margir sögðu hann vitlausan, að ætla að rækta eldspýtur á Íslandi og þaðanaf gáfulegar lýstu sauðbeitarmenn vizku sinni um landnytjar.

Nú horfir maður yfir höfuðborgina þar sem stórskógur gnæfir upp við flest hús. Alaskaöspin ,sem Hákon kom með,  hefur breytt landinu okkar úr berangri í gróðurvinjar.

Eyðisandar eins og Mýrdalssandur voru stórhættulegir yfirferðar ef hreyfði vind, sem er algengara en hitt. Nú aka menn þar yfir í skjóli Alaskalúpínunnar, Bieringspunstsins og Kerfilsins án þess að hætta á að eyðileggja bílana sína.

Mér finnst það alltaf eitthvað það besta sem Hákon gerði var að koma með Alaskalúpínuna til landsins. Þessi magnaða jurt hefur breytt örfoka löndum í gróðurvinjar. Þessi nýnbúi ætti að að bera sæmdarheitið "Þjóðarblóm Íslands"  fremur en nokkur önnur jurt. Þessi himinbláa breiða, sem bylgjast í blænum þar sem áður voru klungrin ein,  gefur manni trú á mátt íslenzkrar moldar. Nokkuð sem fáir trúðu að gæti verið mögulegt í mínu ungdæmi, svo hrikaleg var eyðimörkin.

Íslenzkir áhugamenn um landgræðslu og skógrækt ættu að reisa Hákoni Bjarnason styttu í Asparlundi vörðuðum af Sitkatrjám með lúpínubreiður allt í kring.

Hann var í mínum augum einn besti sonur Íslands sem trúði á landið sitt og að menningin yxi  í lundum nýrra skóga. Hann var maður fólksins í beinum skilningi. Hann var Johnny Appleseed þessa lands. Það sem hann kenndi fólkinu er orsök þess sem við sjáum í dag allstaðar á landinu. Nýja skógarlundi, nýjar gróðurbreiður.

Allt niðurrifsfólk landsins mun aldrei hafa orku í það að eyðileggja allt það sem hann áorkaði fyrir þjóðina.   Til þess er það bæði of fátt og of latt sem betur fer. Þetta lúpínueyðingarnöldur vil ég flokka með sjálfum mér sem óvitahjal og segi eins og Bruno á bálinu. Ó þú heilaga einfeldni. Ég vorkenni því fólki sem finnst eyðimörkin vera þjóðleg verðmæti.  

Halldór Jónsson, 12.7.2007 kl. 23:24

10 Smámynd: Albertína Friðbjörg

Sæl Ólína,
   mikið er ég sammála þér með lúpínuna og kerfilinn.  En það er nú þannig að ég var klukkuð á blogginu af Samfylkingarkonu á Ísafirði og ákvað því að viðeigandi væri að klukka aðra Samfylkingarkonu á Ísafirði - Þú ert því hér með klukkuð

Albertína Friðbjörg, 13.7.2007 kl. 13:18

11 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir athugasemdir ykkar (og klukkið þitt Albertína).

Vegna orða Halldórs Jónssonar vil ég bara árétta, að ég tel ekkert athugavert við það að setja harðgerar og hraðvaxta jurtir í gróðursnautt land og örfoka. En það er augljóst mál, varðandi lúpínu og kerfil, að menn hafa gengið allt of langt í því að gróðursetja þessar ágengu jurtir þar sem þær eiga ekkert erindi. Og svo er ekkert fylgst með því hvernig þær fara með þann gróður sem fyrir er.

Það er með þetta eins og eldinn - hann er góður meðan hann yljar og vermir - en við viljum hafa stjórn á honum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.7.2007 kl. 16:36

12 Smámynd: Halldór Jónsson

Ef maðurinn bjó til íslenzka grjóturð úr gróðurlendi,  hvort á meiri tilvistarrétt í landinu, urðin eða hið horfna gróðurlendi ? Holtin kringum Reykjavík eru þannig til orðin.

Það dettur mér ekki í hug að kalla þig einfeldning eða niðurrifsmann. Ég vil bara fá þig til að ljúka upp augunum þínum.   Ef þú sérð ekki fegurðina í lúpínubreiðunum núna þar sem áður var tómt grjót og urð með stöku Jakobsfífli og brönugrasi,  þá er mér það nokkuð áhyggjuefni, -þín vegna. 

Ég veit ekki til þess að lúpínan hafi útrýmt öðrum gróðri á grónu landi. Þar sem gróður er að hörfa hvort eð er og landið er að blása upp þá fer lúpínan í sárin. Oft má finna gömlu torfurnar innan í bláu breiðunum.

Hvaða afstöðu hefur þú Ólína mín til áformanna um að höggva öll barrtréin upp á Þingvöllum svo að svæðið megi komast á heimslista SÞ ? Finnst þér barrtréin menga Þingvelli ?  Finnst þér þetta rétt ?

Halldór Jónsson, 16.7.2007 kl. 00:32

13 Smámynd: Halldór Jónsson

lupina

Halldór Jónsson, 16.7.2007 kl. 00:34

14 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Halldór og þakka þér athugasemdirnar.

Fegurðarsmekkur okkar tveggja þarf ekkert að fara saman - ég skal virða þinn smekk, en vil gjarna fá að hafa minn og segi því með sama rétti við þig, eins og þú sagðir við mig: Ef þú sérð ekki fegurðina í hálfgrónum grjótskriðum þar sem berjalyng og mosi hafa komið sér fyrir í skjóli hárra steina, þá hef ég áhyggjur af því - ekki aðeins þín vegna heldur líka vegna íslenskrar náttúru.

Vissulega getum við bæði haft efasemdir um ágæti þess að leggjast í skógarhögg á Þingvöllum. En það má með nokkrum rétti segja að jafnvel skógræktin þarfnast fyrirhyggju - það er ekki alveg sama hvar menn planta niður trjám. Ég er t.d. ekkert sérlega hrifin af því að sjá barrtrjám plantað ofan í vel gróið berjaland. Þá vil ég heldur hafa fjalldrapa, berjalyng, mosa og lágvaxið birkikjarr. Barrtré stækka, þau hindra útsýni, draga til sín mikla næringu úr jarðvegi og í skógarbotnum þéttra barrskóga þrífst vart neinn gróður, jafnvel ekki gras.

Vissulega þarf að huga vel að því hvar á að planta hávöxtum trjám og hvar er rétt að planta kjarri. Tilhneigingin er nefnilega sú að setja trjáplöntur niður á gróðursælum stöðum, því þar dafna þær best (á kostnað annarra plantna).

Því árétta ég bara það sem ég hef alltaf sagt: Fyrirhyggja og hóf, það eru lykilorðin í íslenskri landgræðslu.

Sumarkveðja

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.7.2007 kl. 00:15

15 Smámynd: Kolgrima

Sæl Ólína, við erum skemmtilega sammála.

Ég segi eins og þú að ég veit þess ekki dæmi að lúpínan hafi gert gagn. Ég er að vísu þeirrar ónáttúru að finnast melar fallegir, af því að þeir eru svo óskaplega íslenskir! Sé í sjálfu sér ekki þörf á því að planta í þá en það eru til leiðir til að hjálpa náttúrunni til að ná sér á strik - í stað þess að hafa vit fyrir henni!

Með bestu kveðju, Ragnhildur Halldórsdóttir

Kolgrima, 18.7.2007 kl. 14:14

16 Smámynd: Begga

Eins og nafnið gefur til kynna er ég bóndadóttir og eins og góðum bóndadætrum sæmir þá hef ég farið nokkrar ferðir út í haga að sækja bæði kýr og kindur og í þeim högum vaxa bæði brönugrös, berjalyng, litlat víðiplöntur og fleira. En í einu horninu á garðinum þar hefur lúpínan tekið öll völd :( Ekki það að mér finnst skrautlúpína mjög fallleg þar sem hún á við en það er ekki allstaðar. Mjög leiðinlegt því að hún er svo harðgerð að ég hef séð hana koma úppúr malbiki!!

En nóg af þessu rausi. Maður er farin að hljóma eins og mótmæla-liði sem ég er ekki par hrifin f þssa dagana :)

sumarkveðjur

Bóndadóttirin búsældarlega :)

Begga, 18.7.2007 kl. 18:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband