Eru augun loks að opnast?

Ég tek heilshugar undir með Einari K. Guðfinnssyni, sjávarútvegsráðherra, að það er tímabært að kalla eftir þverpólitísku samráði um aðgerðir í sjávarútvegsmálum í ljósi svörtu skýrslunnar frá Hafró - hún er þungt áfall fyrir atvinnugreinina í heild sinni.

Raunar hefði ráðherrann mátt taka af skarið fyrr - til dæmis þegar neyðarkallið barst frá almennum borgarfundi á Ísafirði undir yfirskriftinnui "lifi Vestfirðir" nú í vor. Þá var ráðherrann fjarverandi og virtist lítt skeyta um skilaboð fundarins. Sá hinsvegar ástæðu til þess að mæta á óformlegan fund sem boðarður var með "óábyrgum hætti" fyrir á þriðja tug sjálfstæðismanna nokkru síðar - eins og það gæti með einhverjum hætti bætt fyrir eða talist jafngildi þess að hlusta á raddir hins almenna íbúa. En látum það vera liðna tíð.

Auðvitað er löngu tímabært að menn stilli saman krafta þegar vá er fyrir dyrum - hvort sem hún beinist að einum landsfjórðungi, eða heilli atvinnugrein. Pólitísk sérstaða er óviðeigandi þegar grípa þarf til alvarlegra björgunaraðgerða - og ef Einar K. Guðfinnssyni er nú farið að skiljast það, er það vel. Í hans heimabyggð hafa 200 störf horfið frá áramótum, flest í fiskvinnslu. Ef skýrsla Hafró fær staðist er ljóst að sjávarútvegurinn í heild sinni hefur orðið fyrir miklum búsifjum. Raunar er skýrslan harður áfellisdómur yfir þessu fiskveiðistjórnunarkerfi. Og sem betur fer virðist sem ýmsir séu farnir að sjá það - og þora að tala um það. 

Einn þeirra er  fyrrverandi ráðherra sjálfstæðismanna, Matthías Bjarnason, sem nú hefur tjáð sig með afgerandi hætti um hætturnar af þessu kerfi. Ekki aðeins felur það í sér misskiptingu í útgerðinni og varnarleysi byggðanna gagnvart gróðaviðleitni einkaframtaksins, heldur virðist nú ljóst að það ógni þorskstofninum. Sú aðferð að taka ekki við smáfiski og greiða einungis fullt verð fyrir stærsta fiskinn kallar á gegndarlaust brottkast. Það segir sig sjálft að menn hirða ekki smáfiskinn sem lendir í trollum og netum fiskiskipa ef þeir fá ekki greitt fyrir hann. Afleiðingin er sú að menn veiða mun meira en ella væri - henda því sem þeir fá ekki fullgreitt og koma aðeins með stærsta fiskinn að landi.

Afleitt fyrirkomulag - og þessu verður að breyta.

En þorir Einar K. Guðfinnsson að beita sér raunverulegri breytingu á þessu kerfi? Og munu aðrir stjórnmálaflokkar koma til aðstoðar? Því er ósvarað að sinni.


mbl.is Sjávarútvegsráðherra: Stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Eru menn ekki bara að tala sig inn í svikamylluna? Að láta ríkið koma með nýja peninga aftur og aftur til að  halda uppi atvinnulífinu?

Hvers vegna ætli menn tali ekki um þetta umbúðalaust?

Sigurður Sigurðsson, 3.6.2007 kl. 22:27

2 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég tel fremur ólíklegt að augu sjávarútvegsráðhr.Einars K.Guðfinnssonar opnist í þessu máli.Þeir stóru hagsmunaaðilar , sem hér eiga hlut máli leyfa stjórnmálamönnum ekki neinar breytingar á fiskstjórnunarkerfinu og allra síst við þær aðstæður ef á að draga stórlega saman fiskveiðiheimildir,eins og Hafrannsóknarstofnun leggur til.

Ég tel fremur ósennilegt,að Samfylkingin nái fram neinum breytingum á kerfinu,enda stefna þeirra ómarkviss og  óljós . Ég hef ekki séð frá Samfylkingunni neinar tillögur um að banna leigu og sölu á kvóta,sem eru þó aðalmeinsemdir kerfisins.Þá hafa þeir lítið haft sig í frammi að koma á varanlegum byggðakvótum,sem óheimilt væri að framselja og greitt væri hæfilegt veiðigjald til ríkisins.

Þá hef ég ekki séð  tillögur frá neinum stjórnmálaflokki um að rannsaka vel, hvort fæðutegundir t.d.þorsksins eins og loðna,rækja og kolmuni séu ofveiddar og kunni að ráða mestu um,að ekki hafi tekist að byggja upp stofninn.Þetta er álit margra gamalreyndra fiskveiðiskipsstjóra.

Þá gefur einnig auga leið,að leiðsagnir Hafrannsóknarstofnunar um árlegt veiðimagn hafa  ekki verið marktækar, þar sem vitað er að  tugþúsundum  tonna af fiski er kastað í sjóinn og löndunarskýrslur falsaðar.Ég hef undanfarið verið að ræða við skipstjóra og sjómenn,sem leigja fiskheimildir frá stórútgerðum,þar er ástandið hreint út sagt hrikalegt og staðfestir vel það sem fram kom í Kompásþættinum á Stöð 2 nýlega.

Ég er afar svartsýnn,að neinar umtalsverðar breytingar verði gerðar á kerfinu.Ég hef undanfarið verið að blogga nokkrum sinnum um þessi mál og hvatt sjómenn og útgerðarmenn að taka höndum saman og hafa frumkvæði í þessum málum.

Kristján Pétursson, 3.6.2007 kl. 23:10

3 Smámynd: Skafti Elíasson

Kristinn erum við ekki með sérfræðinga til þess að segja okkur hve mikið við megum veiða af þessum tegundum ?  Væri ekki glapræði að fara beint á móti ráðleggingum manna sem sérhæfa sig í að vita um þessa hluti ?  Ef við ætlum ekki að fara að ráðleggingum eigum við þá ekki hreinlega að leggja hafró niður og veiða bara eins mikið og hentar hverju sinni ?

Skafti Elíasson, 4.6.2007 kl. 00:11

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að stýra sjávarútvegsráðuneytinu í 16 ár samfleytt. Nú þegar þeim hefur tekist, þrátt fyrir aðvaranir að koma öllu í kaldakol kalla þeir eftir samráði eins og druknandi maður, en streitast í raun á móti og svamla á haf út í óráði.

Ólína, þú ættir að biðja góða menn í þínum flokki að reyna að koma vitinu fyrir EKG og félaga sem eru í herkví LÍÚ. 

Sigurður Þórðarson, 4.6.2007 kl. 10:10

5 Smámynd: 365

Núna er sögulegt tækifæri í vændum, er ekki svo?  Þegar búið verður að landa þessu þverpólítískt þá verður væntanlega byggðarkvóti hafður í hávegum.  Ef fallið verður í sama farið þá endurtekur bara sagan sig aftur eftir nokkra mánuði eða ár.  Látum reyna á byggðarkvótann!!

365, 4.6.2007 kl. 11:27

6 identicon

Það sýnist alveg ljóst að þegar aflaheimildir þorskveiða fara stöðugt minnkandi ár frá ári, þvert  á tilgang kvótakerfisins,eftir 23 ára "veiðistjórnun" , að þá er eitthvað mikið að...mjög mikið. Nú er lagt til að veiða 130.000 t./árinu

Hvað veldur þessu :

- Er veitt miklu meira af þorski en aflaheimildir eru fyrir...þá bæði með vigtarsvindli og   kannski til viðbótar óheyrilegt brottkast á smáþorski ? Hent dauðum í sjóinn.

- Hvað með sístækkandi botntroll ?  Þyngd og umfang þessara veiðarfæra hefur     margfaldast frá því var á gömlu síðutogurunum. Þegar botninn á veiðislóðum er skrapaður með þessum veiðarfærum áratugum saman þá getur varla verið gróðurvænlegt á þeim botni. Þetta er svona ein og að keyra jarðýtur yfir gróið land í tíma og ótíma... Við sjáum afleiðingarna þar með eigin augum en hvað með sjávarbotninn...enginn sér áhrifin þar. Erum við að búa til eyðimerkur á miðunum kringum landið , lífvana ?

- Hvað með veiðar á fæðutegundum þorksins  ?   Förum við offari þar ?

- Sókn í stórþorskinn, sem er burðarfiskur stofnsins...er hún orsakaþáttur slæmrar nýliðunar ?

Þetta eru svona spurningar sem hljóta að vega þungt þegar núverandi staða er hugleidd. 

Annar kapituli er  svo afleiðingar af þessu kvótakerfi sem er framsal á aflaheimildum. Þeir sem engar aflaheimildir eiga eru neyddir til að kaupa af kvótaeigendum óveiddan fiskinn í sjónum á okurverði...Þeir aðilar eru í raun þrælar kerfisins. Og það liggur í hlutarins eðli að þessir aðilar eru neyddir til að velja aðeins þann fisk sem gefur þeim hæsta verðið...hitt fer dautt í sjóinn aftur.  Þessi háttur er gjörþekktur meðal sjómanna .

Byggðir við sjávarsíðuna hringinn í kringum landið hafa í aldanna rás orðið til vegna nælægðar við gjöful fiskimið sem sótt voru af krafti allra meðan frjáls veiði var heimil. Síðan er settur á kvóti eyrnamerktur einstaklingi (fyrirtæki) og þar með er frumbyggjrétturinn til veiða í viðkomandi plássi af fólki tekinn... réttlæti það.

Afleiðingarnar þekkja allir í dag... einn kvótaeigandi getur tekið lífsbjörgina frá fólkinu í plássinu og skilið allt eftir í rúst ...fólkið er réttlaust með öllu.

Þarf ekki að skera þetta kerfi niður við trog og stokka allt upp á nýtt ? 

Saevar Helgason (IP-tala skráð) 4.6.2007 kl. 13:25

7 Smámynd: Skafti Elíasson

Maður áttar sig ekki á hversu víðtækar rannsókir eru gerðar hjá Hafró enda hafa þeir kannski ekkert verið að veifa hvaða forsendur þeir eru að notast við.

Skafti Elíasson, 4.6.2007 kl. 20:57

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Mér finnst það frekar ótrúverðugt að Einar Kr. Guðfinnsson vilji nú gott samstarf allra stjórnmálaflokka um sjávarútveginn. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að skella skollaeyrum við hverri einustu viðvörun um hvílík helstefna þetta kvótakerfi er og hunsa allar tillögur stjórnarandstöðuflokkanna (að undanskildri Framsókn, sem gerðu hvort eð er bara eins og Sjálfstæðisflokkurinn vildi) um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Þetta er sami sjávarútvegsráðherrann og blés á gagnrýni í Kompásþættinum um að landanir framhjá vigt tíðkuðust í miklum mæli og gaf í skyn að um dylgjur væri að ræða, allt væri í fínu lagi.

Þessi sami sjávarútvegsráðherra sagði það ekki vera kvótakerfinu að kenna þó 120 manns misstu lífsviðurværi sitt á Flateyri. Hvernig í ósköpunum fær hann það út að það geti ekki verið kvótakerfinu að kenna þegar skuldir vegna keypts kvóta safna á sig vöxtum, þegar fyrirtækið þurfti að leiga kvóta á 200 kr/kg að sögn, en fá 270 kr/kg fyrir aflann? Þá á eftir að borga olíukostnað, laun, vexti af skuldum og allan annan rekstrarkostnað.

Ef 50 manns atvinnulausir í hans eigin heimabæ og 120 á Flateyri dugðu ekki til að hreyfa við sjávarútvegsráðherranum til að gera eitthvað til að breyta þessu hræðilega fiskveiðistjórnunarkerfi (og losa sig úr herkví LÍÚ), þá held ég að ekkert dugi til þess.

Og ef Einar Kr. meinar eitthvað með þessu sáttaboði í hverju á sáttin að felast? Á hún að felast í því að aðrir stjórnmálaflokkar samþykki allt sem Sjálfstæðisflokkurinn vill gera? Á hún að felast í áframhaldandi varðstöðu um hagsmuni sægreifanna í stað fólksins sem býr í þeim byggðarlögum sem eiga allt sitt undir fisknum? Það er engin sátt.

Theódór Norðkvist, 4.6.2007 kl. 22:47

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl verið þið - og takk fyrir innlegg ykkar.

Ég tek undir það að ef sátt á að nást um breytingar á kerfinu verður að vera um raunverulegt samráð að ræða. Það dugir ekki að kalla stjórnarandstöðuna til fundar og kynna henni áform sjálfstæðisflokksins (eða ríkisstjórnarinnar) og kalla það svo samráð. Það dugir heldur ekki að skella skollaeyrum við tillögum stjórnarandstöðunnar en halda því svo fram eftir á að við þá hafi verið haft samráð. Ef menn ætla í einhverja skollaleiki af því tagi þá verða þeir afhjúpaðir snarlega.

Ég ef grun um að það verði fylgst vel með Einari K Guðfinnssyni og hans framgöngu í þessu máli á næstunni - a.m.k. vona ég að fjölmiðlar og almenningur muni anda niður um hálsmálið á ríkisstjórninni þar til skynsamlegar tillögur liggja fyrir. Sömuleiðis held ég að það verði fylgst vel með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar - því nú reynir á það hvort menn vilja raunverulega leggja gott til mála - eða hvort þeir missa sig í lýðskrum og áróður.

Oft var þörf á ábyrgð og yfirvegun, en nú er nauðsyn. Þetta verður stóra prófið fyrir ríkisstjórnina - og stjórnarandstöðuna.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.6.2007 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband