Sigurvegarar - og byggðarlag í sárum

Flateyri Flateyri hefur orðið fyrir reiðarslagi: Um hundrað fjölskyldur standa nú frammi fyrir atvinnuleysi og búseturöskun eftir að útgerðarfyrirtækið Kambur - aðalvinnustaðurinn í plássinu - tók að selja frá sér veiðiheimildir og skip. Hjá fyrirtækinu starfa um 120 manns, þar af 50 sjómenn. Fyrirtækið hefur yfir að ráða um 3000 þorskígildistonnum að andvirði um 7 milljarða króna.


Fari veiðiheimildirnar úr byggðarlaginu þýðir það hrun Flateyrar - það er svo einfalt mál. Þetta eru ein alvarlegustu ótíðindi í atvinnumálum Vestfirðinga frá því að kvótakerfinu var upphaflega komið á.

Á sama tíma blasir við á vefsíðu bb.is mynd af gleiðbrosandi sjávarútvegsráðherra með fyrirsögninni: "Við erum sigurvegarar".  Vestfirðingurinn Einar Kristinn Guðfinnsson er þar að fagna kosningaúrslitum og góðu gengi Sjálfstæðisflokksins. Honum líður eins og sigurvegara. En hvað með sveitunga hans - fólkið á Flateyri? Hvernig ætli því líði núna?

Og hversu margir úr þeim hópi skyldu nú hafa kosið þessa "sigurvegara"? Flokkinn sem ber ábyrgð á óréttlátu kvótakerfi sem er þannig úr garði gert að það kallar hrun yfir heilu byggðarlögin ef og þegar útgerðarmönnum þóknast að selja kvótann í burtu.

Eigandi Kambs heldur á fjöreggi sinnar byggðar - hann hefur verið sannkallaður máttarstólpi. En nú er honum farið að leiðast þófið, hann nennir þessu ekki lengur. Ætlar að selja. Eftir stendur (eða liggur, ættir ég frekar að segja) byggðin hans í sárum.

Sigurvegarar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við verðum að athuga það að það eru tvær hliðar á öllum hliðum og við verðum því að vanda orð okkar mjög vel!

Hmmm.... (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 15:15

2 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Hver er hinn möguleikinn?  Að láta misvitra stjórnmálamenn skipta kvótanum milli byggðarlaga eftir því hvaða byggðarlag hefur hæst í fjölmiðlum?  Ef þeir ætluðu nú að flytja kvóta til Flateyrar þá tækju þeir hann væntanlega einhvers staðar annars staðar og fólk myndi væntanlega missa vinnuna þar.

Þetta er hins vegar hrikalegt mál fyrir Flateyringa.  Þeir verða nú að setjast niður í sameiningu og leita að lausnum.  Það gerir það enginn annar fyrir þá, alla vega ekki til langs tíma.  Þetta eru Vestfirðingar sem hafa lifað þarna í þúsund ár.  Ef einhverjir finna flotta lausn þá eru það þeir.

Hvað hefur Flateyri sem aðrir staðir hafa ekki?  Það er lykillinn að lausninni.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 18.5.2007 kl. 16:05

3 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

BLOGGVINIR: Vegna góðra viðbragða við birtingu á þýðingu á smásögu eftir Tolkien (Laufblað eftir Nostra) á blogginu mínu hef ég ákveðið að birta frumsamda smásögu eftir sjálfan mig (sic!) á blogginu. Sagan er hér ef þið hafið áhuga:

Ásgeir Rúnar Helgason, 18.5.2007 kl. 22:29

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort að samfylkingarfólk á Vestfjörðum verði tilbúið að styðja ríkisstjórn S og D sem mun að öllum líkindm reka óbreytta stefnu í fiskveiðimálum sem mun örugglega halda áfram að grafa undan byggðunum

Sigurjón Þórðarson, 20.5.2007 kl. 18:06

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já, Sigurjón. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvað kemur út úr ríkisstjórnarviðræðum S og D í sjávarútvegsmálum. Ég tek undir það með þér. Það eru nefnilega ekki allir sem átta sig á því hvað þetta kvótakerfi hefur haft í för með sér (ekki heldur Samfylkingarfólk).

Menn virðast halda að kvótakerfið sé eitthvert lögmál sem ekki veðri breytt - en þetta kerfi er mannasetning og ekkert annað. Það er hægt að breyta því, ef menn bara ÞORA. Hinsvegar verður það erfiðara eftir því sem tíminn líður - tíminn vinnur ekki með sjávarbyggðunum í þessu máli. Því miður.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 21.5.2007 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband