1. maí - mörg eru vígin að verja

Krofudagur1  Á baráttudegi verkalýðsins leitar hugurinn óneitanlega til þess sem áunnist hefur í réttindabaráttu verkafólks og almennum lífskjörum í landinu. Margt hefur áunnist - en mörg eru enn vígin að verja.

Okkur er sagt að lífskjör hafi batnað. Talað er um kaupmáttaraukningu og hagvöxt – þjóðin hafi aldrei haft það betra – að meðaltali. Segja má að maður sem stendur með annan fótinn í sjóðandi vatni en hinn í ís, hafi það að meðaltali gott. Sama má segja um velferð þjóðarinnar um þessar mundir, að kalin sé hún á öðrum fæti en brennd á hinum.

Undanfarin ár hafa einkennst af mikill þenslu og ójafnvægi í íslensku efnahagslífi: Misskiptingu fjármagns, vaxandi fátækt og þyngri vaxtabyrði með versnandi hag fjölskyldufólks, einstæðra mæðra og aldraðra. Grafið hefur verið undan réttindum verkafólks með undirboðum á vinnumarkaði, einkum við stóriðjuframkvæmdir. Svo langt er gengið að menn eiga það ekki lengur víst að vinna við mannsæmandi skilyrði, eins og fréttir frá Káranhnjúkum sanna. Þar hafa hundruð verkamanna veikst vegna óviðunandi vinnuaðstæðna og mengunar - á því herrans ári 2007 – í samfélagi sem kennir sig við velferð!

Lífskjör hverra hafa batnað?

Á sama tíma og þanþol hagkerfisins hefur verið spennt til hins ýtrasta með stóriðjuframkvæmdum, skattalækkunum hátekjufólks og breytingum á lánakerfinu hefur vaxta- og skuldabyrði almennings aukist. Fátækt hefur einnig aukist, einkum meðal eldra fólks og einstæðra foreldra. En olíufurstarnir fara sínu fram í skjóli missmíða á löggjöfinni – og ekki væsir um lánastofnanir eða stóreignamenn sem þurfa hvorki að axla ábyrgð né bera byrðar með öðrum. Stjórnvöld hafa gert þeim lífið bærilegra en nokkru sinni fyrr. Hagtölur sýna að hópurinn sem notið hefur kaupmáttaraukningar undanfarinna ára er sá tíundihluti þjóðarinnar telst hátekjufólk – kaupmáttur hátekjuhópsins hefur aukist um 118%. Hinu er þagað yfir, að meðaltal árlegrar kaupmáttaraukningar hefur ekki verið lægra á neinu öðru kjörtímabili, nema í stjórnartíð Davíðs Oddssonar 1991-2000.

Borgimannlegar eru yfirlýsingar stjórnvalda um að atvinna sé nú með mesta móti. Er einhver undrandi yfir því á miðju þensluskeiði með stóriðjuframkvæmdir í fullum gangi þó atvinnustig mælist þokkalegt? En hvað þegar þeim lýkur?  Þjóðhagsspá segir atvinnuleysi aukast umtalsvert á þessu ári og næsta, þegar þensluáhrifin hjaðna. Við lok ársins verður það komið yfir 2%,  á því næsta yfir 3% og stefnir hærra. Seðlabankinn spáir 5% atvinnuleysi.

Við Íslendingar höfum lægsta hlutfall þeirra sem njóta framhalds- og háskólamenntunar á Norðurlöndum. Ísland er í 23. sæti af 30 OECD ríkjum þegar kemur að menntun. Hvað segir það okkur um möguleika íslenskrar æsku til lífsgæða og athafna í hnattvæddum heimi framtíðarinnar – ég tala nú ekki um þegar kreppir að á vinnumarkaði?

Í kaupmáttarumræðunni hefur lítið farið fyrir þeirri staðreynd að fjöldi fátækra barna hefur þrefaldast í tíð núverandi stjórnarherra (úr 2,1% árið 2000 í 6,6% árið 2004). Fjöldi fátækra barna einsstæðra foreldra hefur nánast tvöfaldast (úr 10,5% í 18%) á sama tíma:  Það lætur nærri að vera fimmta hvert barn.

Barn foreldra sem hafa ekki efni á að greiða fyrir íþróttir þess, tómstundastarf eða tannlæknaþjónustu er fátækt barn. Börn sem hreyfa sig minna en önnur born, heldur fitna, hafa verri tannheilsu og heilsufar almennt, geta ekki klæðst eins og hin börnin - það eru fátæk börn sem eiga á hættu félagslega einangrun.  Ekkert barn á það skilið að vera dæmt frá þeim lífsgæðum að vera jafnoki annarra og fullgildur meðlimur í hópi – síst á Íslandi nú á dögum.

Meðan það glymur í eyrum okkar að lífskjör séu að batna fjölgar stöðugt þeim fjölskyldum sem  leita framfærsluaðstoðar. Séu opinberar tölur lesnar ofan í kjölinn sést að fátækt er meiri á Íslandi en í nokkru hinna Norðurlandanna um þessar mundir. Fátækt er tvöfalt meiri á Íslandi en í Noregi, svo dæmi sé tekið. Hvergi á öllum Norðurlöndum hefur fátækt aldraðra aukist jafn hratt og hér. Hún var 13,6% árið 1998, er nú nálægt  30% . Í þessu landi velmegunar og kaupmáttar lifir um þriðjungur ellilífeyrisþega undir viðurkenndum fátæktarmörkum – og einnig þriðjungur einstæðra foreldra ( 31% ). Það er þrisvar til fjórum sinnum hærra hlutfall en á öðrum Norðurlöndum.

Okkur er sagt að lífskjör séu að batna.  Samt lengjast biðlistarnir eftir hjúkrunarrýmum og heilbrigðisþjónustu. Neyðarástand hefur skapast á BUGL sökum biðtíma eftir geðheilbrigðisúrræðum við börn og unglinga. Það er sama hvert litið er í velferðarþjónustunni, allsstaðar eru biðlistar. Var það þetta sem verkalýðshetjurnar sáu fyrir sér í upphafi vegferðar? Að það væru hinar vinnandi stéttir sem stæðu undir velmegun hinna án þess að hljóta fullan skerf af sameiginlegum gæðum?

Nei, að sjálfsögðu ekki. En þessar leikreglur eru ekki settar á vettvangi verkalýðsbaráttunnar. Þær eru settar við ríkisstjórnarborðið og á hinu háa alþingi. Réttindabarátta verkafólks er því ekki eingöngu háð með stéttabaráttu eða við samningaborð í kjaradeilum. Hún á sér líka stað í kjörklefanum.

Sé eitthvað til í því sem stjórnarherrarnir segja um batnandi lífskjör - þá er ekki seinna vænna að dreifa meðaltalinu betur. Skipta gæðum gnægtarborðsins og setja sanngjarnar leikreglur. Til þess var verkalýðshreyfingin stofnuð - til þess var barist.

Leiðarljós jafnaðarmanna um heim allan er draumurinn um samfélag þar sem hver maður gefur eftir getu og þiggur eftir þörfum. Á þeirri hugsjón hafa systraþjóðir okkar á Norðurlöndum byggt sín velferðarkerfi - og það er vígið sem íslensk verkalýðshreyfing þarf að verja.

Enn er verk að vinna!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband