Færsluflokkur: Fjármál

Sjálfstæðisflokkur í panik

fúlgurfjár Ætlaði virkilega einhver að gleypa við þeirri barbabrellu Sjálfstæðisflokksins að við Íslendingar ættum að taka upp evru með milligöngu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?

Sú hugmynd að taka upp evru með stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er algerlega óraunhæf enda varpað fram undir lok kosningabaráttunnar til þess eins að breiða yfir innbyrðis klofning Sjálfstæðisflokksins og andstöðu hans við áherslur stærstu samtaka launafólks og atvinnurekenda sem vilja hefja samningaviðræður um aðild að ESB og upptöku evru strax eftir kosningar.

Í frétt sem birtist í Financial Times 7. apríl var þessari leið í raun hafnað af Evrópusambandinu sem óraunhæfri. Sama hefur evrópski seðlabankinn gert. Auk þess hafa sérfræðingar í alþjóðamálum bent á að það sé ekki hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hlutast til um samningaviðræður fullvalda ríkis og yfirþjóðlegs valds.

Sjálfstæðisflokkurinn er í einhverri panik þessa dagana. Það kemur bara ekkert af viti frá honum.


mbl.is AGS getur ekki haft milligöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigna- og hagsmunatengsl í íslenskum stjórnmálum

Nýlega voru settar reglur um fjármál alþingismanna, líkt og tíðkast víða erlendis. Enginn vafi er á því að reglur af þessu tagi eru til mikilla bóta og til þess fallnar að efla traust og gegnsæi stjórnarathafna. Það er þinginu og þeim sem stýrðu vinnunni til sóma að þetta skyldi til lykta leitt í ágætri sátt. Samkvæmt reglunum ber alþingismönnum að gefa upp tilteknar eignir og gjafir. Þeim ber ekki að upplýsa um eignatengsl maka eða skuldir, en hugsanlega verður slíkum ákvæðum bætt við síðar. Satt að segja vona ég að svo verði.

Fjölskyldutengsl stjórnmálamanna við félög og fyrirtæki, sem hugsanlega þurfa síðar að leita ásjár stjórnvalda, geta verið allt eins hamlandi fyrir heilbrigða stjórnsýslu og ef um væri að ræða persónuleg eignatengsl. Sömuleiðis getur skuldastaða stjórnmálamanna í vissum tilvikum valdið efasemdum um hæfi þeirra.

Nokkrir stjórnmálamenn hafa að svo komnu birt upplýsingar um eignir og skuldir, og er það vel. Aðrir hafa hikað. Þeim kann að finnast full nærgöngult að opna fjárreiður sínar almenningi. Bæði sjónarmið eru skiljanleg. Enn aðrir hafa heitið því að gefa upp eigna- og skuldastöðu og “taka allt upp á borðið” án þess að af því hafi orðið. Þess hefur líka orðið vart að menn bregðist reiðir við umræðu um hagsmunatengsl þeirra. En reiði og vanefndir eru þó sennilega röngustu viðbrögð sem hugsast geta í því andrúmslofti tortryggni sem nú ríkir í samfélaginu. Sé allt með felldu ætti enginn skaði að hljótast af því að gera grein fyrir tengslum og eignastöðu. Þvert á móti er það eini raunhæfi mótleikurinn við vantrausti og kviksögum.

Hvað er athugavert við eigna- og hagsmunatengsl stjórnmálamanna?

Nú er gott eitt um það að segja að athafnamenn og fyrirtækjaeigendur sitji á Alþingi. Fjölskyldutengsl inn í athafna- og viðskiptalíf eru að sjálfsögðu enginn glæpur. En þegar kemur að því að taka stjórnvaldsákvarðanir sem hafa afgerandi áhrif á afkomu og afdrif þessara sömu fyrirtækja, þá vandast málið. Hvernig bregst þá til dæmis ráðherrann við sem hugsanlega er tengdasonur, maki, systir eða sonur?

Það er ekki nóg að viðkomandi sé heiðarlegur í hjarta og sinni. Hæfi hans til ákvörðunar þyrfti að vera hafið yfir allan vafa.

Íslenskt samfélag er svo lítið að tengsl stjórnmálamanna við fyrirtæki, fjármálastofnanir og hagsmunasamtök eru raunveruleg ógn við heilbrigða stjórnsýslu og stjórnmál. Sú meinsemd hefur nú þegar grafið undan trausti almennings á stjórnmálum og fjármálakerfi.

Við þessu er fátt annað að gera en að kjörnir fulltrúar upplýsi um hvaðeina sem valdið getur vanhæfi þeirra á síðari stigum. Leiðbeinandi reglur setja mönnum engar skorður í því efni að upplýsa um fleira en reglurnar segja til um. Þær setja einfaldlega lágmarkið.

----------

PS: Samhljóða grein eftir mig var birt í Fréttablaðinu fyrr í vikunni.


Ríkisendurskoðun gefur ekki út siðferðisvottorð til stjórnmálamanna

Ætlast Guðlaugur Þór til þess að Ríkisendurskoðun gefi honum siðferðisvottorð í REI málinu? Það er ekki hlutverk Ríkisendurskoðunar að túlka athafnir manna sem sitja við pólitíska kjötkatla.

Ríkisendurskoðun er sjálfstæð stofnun sem starfar á vegum Alþingis. Hún endurskoðar ríkisreikning og reikninga opinberra stofnana.

Hvað ætti Ríkisendurskoðun að geta lagt til málanna varðandi risastyrk FL-Group til Sjálfstæðisflokksins í stjórnarformannstíð Guðlaugs Þórs hjá OR?

Svar: Ekki neitt. Nákvæmlega ekkert.

Mér er til efs að stofnunin taki það í mál að fara að gefa út vottorð í siðferðilegu álitamáli sem þessu. Máli sem snýst ekki um reikningshald Orkuveitur Reykjavíkur, heldur himinháa peningagreiðslu frá FL-Group til Sjálfstæðisflokksins á sama tíma og samningar stóðu yfir um eignatilfærslu á gífurlegum almenningsverðmætum frá OR í hendur einkaaðila. Já, einkaaðilans sem greiddi risastyrkinn inn á reikning Sjálfstæðisflokksins sem fór með málið á þessum tíma og hafði sinn fulltrúa sem stjórnarformann í OR. Angry


mbl.is Óskar úttektar á störfum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking gerir hreint fyrir dyrum

skalgert Þá hefur Samfylkingin gert hreint fyrir sínum dyrum og opnað bókhald sitt fyrir árið 2006 þannig að nú má sjá hverjir greiddu flokknum styrki. Það er vel.

Á þessu ári eru 14 ár liðin síðan Jóhanna Sigurðardóttir flutti í fyrsta sinn lagafrumvarp á Alþingi um opið bókhald stjórnmálaflokka. Slík lög tóku loks gildi í ársbyrjun 2007. Fram til þess hafa ársreikningar Samfylkingarinnar verið aðgengilegir á vef hennar - og svo hefur verið allt frá stofnun flokksins. Þar má sjá heildaryfirlit styrkja frá einstaklingum og lögaðilum. Nöfn einstakra styrktaraðila hafa hinsvegar ekki verið birt, fyrr en með nýjum lögum árið 2007.

En þó að Samfylkingunni beri ekki lagaleg skylda til þess að opna bókhald ársins 2006 með þeim hætti sem nú hefur verið gert, var hárrétt ákvörðun að gera það engu að síður í ljósi síðustu atburða.

Yfirlitið ber með sér að Samfylkingin hefur ekkert að fela. Þarna kemur fram að ennfremur er verið að taka saman styrki kjördæmis- og fulltrúaráða og einstakra félaga fyrir árið, og verða þeir einnig birtir opinberlega þegar tölur liggja fyrir. Slíkar upplýsingar virðist enginn annar flokkur ætla að veita.

Fram kemur  í þessari frétt á eyjan.is að styrkir frá bönkunum hafi skv. almennum reglum bankaráðanna verið farnir að nema fjórum til fimm milljónum kr. árið 2006. Það er há upphæð - en virðist hafa verið það sem aðrir stjórnmálaflokkarnir fengu. Hins vegar er eftirtektarvert að hæsti einstaki styrkur til Samfylkingarinnar er 6 sinnum lægri en sá sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk frá FL Group.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort aðrir stjórnmálaflokkar munu opna bókhald sitt fyrir árið 2006 með þessu hætti.


mbl.is Samfylking opnar bókhaldið 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkur eða mútur?

 "Ertu að segja að Sjálfstæðisflokknum hafi verið mútað - er það það sem þú ert að segja?" sagði Bjarni Benediktsson formaður flokksins reiðilega þegar hann var spurður i sjónvarpsviðræðum um 55 mkr greiðslur frá FL-Group og Landsbankanum síðla árs 2006.  Í beinu framhaldi talaði hann um "nýja forystu" Sjálfstæðisflokksin og gerði hvað hann gat að skilgreina sig frá málinu. Með "nýrri forystu" á Bjarni væntanlega við sjálfan sig og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varaformann flokksins, sem  er nú ekki beint nýkjörin í það embætti.

Er nema von þó að orðið "mútur" beri á góma vegna þessa máls? Tímasetningarnar eru a.m.k. afar óheppilegar eins og fram kemur í þessari frétt á visir.is.

Málið er grafalvarlegt.

Í OR/REI málinu munaði einungis hársbreidd að hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavík Energy Invest yrði seldur í hendur einkaaðilum. Þar með hugvit og verðmætt raforku- og gagnaflutningakerfi sem  varð til fyrir fjármuni almennings og í hans þágu. Og hverjir skyldu nú hafa viljað koma þessum verðmætum í einkaeign? Það voru Sjálfstæðismenn í Reykjavík. Hverjir áttu hagsmuna að gæta að komast yfir verðmætið? Það var m.a. FL-Group.  

Því skal til haga haldið að Guðlaugur Þór var á þessum tíma stjórnarformaður OR.

Hér má rifja það upp að umrætt haust sameinuðustu tvö fyrirtæki, Reykjavik Energy Invest (REI) og Geysir Green Energy (GGE) og báru eftir það nafn þess fyrrnefnda sem við skammstöfum REI.

REI var 93% í eigu OR en 7% voru í eigu Bjarna Ármannssonar, stjórnarformanns, og Jóns Diðriks Jónssonar, starfsmanns REI.

GGE var 43,1% í eigu FL Group (sem var í eigu Baugs m.a.), 16,1% í eigu Glitnis, 32% í eigu Atorku og 8,8% í eigu annarra, þar með félaga, sem kennd eru við framsóknarmenn undir forystu Finns Ingólfssonar. Ráðgjafi GGE í sameiningarferlinu var Glitnir.

Það kom í hlut Bjarna Ármannssonar, stjórnarformanns REI og Hannesar Smárasonar, stjórnarformanns í GGE og forstjóra FL-Group, að kynna samruna félaganna á fjárfestafundi FL- Group í London þann 4.október 2006.

Þannig voru sumsé eignatengslin á þessum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn fór með meirihlutavald í Borgarstjórn Reykjavíkur og hlutaðist til um að koma þessari almenningseign í hendur einkaaðilanna. Því var naumlega forðað.

Sá möguleiki blasir við hverjum sem vill sjá, hvað hér gæti hafa gerst. 

Á sama tíma og verið var að taka ákvörðun um að færa gífurleg verðmæti úr almenningseigu í hendur einkaaðila berast 30 mkr frá þeim sem á að hreppa hnossið (FL-Group) inn á bankreikning stjórnmálaaflsins sem ræður afdrifum málsins.

Og nú keppast menn við að þræta fyrir aðkomu sína að málinu. Það er beinlínis vandræðalegt á að hlýða. Geir Haarde - sem eins og allir vita er að vikinn af vettvangi - reynir að bjarga flokknum með því að taka á sig alla ábyrgð. Já, hann heldur því m.a. fram að hvorki Kjartan Gunnarsson fv. framvkæmdstjóri flokksins (og stjórnarmaður í Landsbankanum) né Andri Óttarsson, núverandi framkvæmdastjóri, hafi vitað um þetta. Ja hérna! Hvorugur framkvædastjórinn hafði vitneskju um 50 mkr sem bárust flokknum. Þeir hafa ekki litið oft yfir bókhaldið blessaðir.  Angry

Nei, nú duga engin vettlingatök. Þetta mál ber að rannsaka sem sakamál.


mbl.is Styrkir endurgreiddir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brask, spilling og ... ríkisaðstoð?

fúlgurfjár Kastljós Sjónvarpsins fjallaði í kvöld um eins milljarðs króna lánveitingu stjórnarformanns Byrs Sparisjóðs til félags sem notaði fjármunina til þess að kaupa stofnhlut stjórnarformannsins í Byr stuttu eftir bankahrun.

Ekki nóg með það. Stjórnarmenn fyrirtækjanna Byrs Sparisjóðs, Exeter og MP-banka virðast hafa höndlað með lánsfé til hlutbréfakaupa sín á milli, þar sem þeir sátu beggja vegna borðsins í samofnum eigna- og hagsmunatengslum.

Til að kóróna allt annað mun Byr Sparisjóður nú hafa óskað eftir ríkisaðstoð í kjölfar "kreppunnar". Ó já, þegar stjórnarformaðurinn hefur fengið það sem hann þurfti og forðað sér á þurrt, þá er farið fram á ríkisaðstoð. Þá má blessaður almenningurinn aðstoða fyrirtækið.  Angry

Umræddur stjórnarformaður mun nú hafa látið af störfum - en ekki kom fram hvert framhald málsins verður.

Þetta er líklega bara skólabókardæmi um það hvernig kaupin hafa gengið á eyrinni í íslenskum fjármálaheimi bæði fyrir og eftir hrun.

Horfið á þessa umfjöllun Kastljóssins HÉR - hún er fróðleg.


Aðeins meira um 20% niðurfærsluleið

óbundin Mikið hefur verið skeggrætt um svokallaða 20% niðurfærsluleið sem kynnt var fyrir fáeinum vikum sem einföld lausn á skuldavanda fólksins í landinu. Hugmyndinni var strax tekið af velviljuðum áhuga allra þeirra sem láta sig hag almennings varða. Hún var skoðuð gaumgæfilega m.a. innan Samfylkingarinnar, enda vissulega þess virði að ígrunda vel allar lausnir sem boðnar eru - nógir eru nú erfiðleikar þjóðarinnar.

Seðlabanki Íslands gerði skýrslu um málið, byggða á gagnagrunni sem bankinn hefur yfir að ráða um skuldir og eignir landsmanna. Í skýrslunni er því haldið fram að kostnaður af 20% niðurfærslu allra skulda í landinu myndi lenda á ríkissjóði annarsvegar eða erlendum kröfuhöfum hinsvegar. Af skýrslunni má glöggt ráða að í þessu felist eignatilfærsla frá einstaklingum til fyrirtækja og að heildarkostnaðurinn við þetta muni verða 900 milljarðar króna, þar af 285 milljarðar vegna húsnæðisskulda eingöngu. Sú upphæð er 45% af heildarútgjöldum hins opinbera.

Skuldir ríkissjóðs sem áætlaðar eru 1100 milljarðar króna í lok þessa árs myndu því tvöfaldast við þetta.

Bent er á að flöt niðurfelling húsnæðisskulda myndi hafa ólík áhrif á mismunandi hópa. Þannig myndi aðeins helmingur umræddrar niðurfærslu nýtast þeim sem eru í alvarlegum vandræðum.

Magnús Þór Torfason doktorsnemi við Columbia Business School hefur skrifað mjög áhugaverða grein sem hann nefnir Að þykjast gefa þeim fátæku en gefa í raun þeim ríku sem ég hvet ykkur til þess að lesa. Þá hefur Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia háskóla skrifaði grein þar sem hann bendir á eignatilfærslu frá landsbyggð til höfuðborgar sem hlytist af þessari leið.

Það er athyglisvert að ýmsir Sjálfstæðismenn hafa talað á móti þessari leið. Ég bendi til dæmis á Pétur Blöndal og Elliða Vignisson bæjarstjóra í Eyjum.

Kjarni málsins er þó þessi: Ef hægt væri að sýna fram á að 20% niðurfærsluleið fæli í sér eitthvert réttlæti og raunverulega aðstoð við þá sem sárast þurfa hennar með, þá myndi ég heilshugar styðja hana. Fram á það hefur ekki verið sýnt. Þvert á mót bendir flest til þess að flöt niðurfærsla myndi fela í sér gífurlega eignatilfærslu frá einstaklingum til stórskuldugra fyrirtækja - við værum jafnvel að tala um mestu eignatilfærslu af því tagi sem um getur.

Niðurfærsla lána hjá þeim sem helst þurfa á því að halda er annað mál. Sé tekið mið af greiðslugetu fólks þannig að niðurfærslan nýtist þar sem hennar er helst þörf, þá horfir málið öðruvísi við.

Jöfnuður felst ekki endilega í flötum aðgerðum, heldur að hver og einn fái það sem hann þarfnast.


Athyglisverð skrif um "Enron-verðmyndun" í íslenskum sjávarútvegi

fiskveiðarGetur verið  að dularfullar "verðhækkanir" fiskveiðiheimilda hafi átt uppruna sinn ofarlega í bankakerfinu  og viðskiptabankarnir hafi haft mikla og beina hagsmuni af því að lána útgerðarfyrirtækjum sem allra mest - til að styrkja rýrnandi lausafjárstöðu sína?

Þannig spyr Kristinn Pétursson í athyglisverðri bloggfærslu sem ég hvet ykkur til þess að lesa.

Voru útgerðarmenn hugsanlega blekktir til aukinnar lántöku? Sóttust viðskiptabankarnir eftir veði í aflaheimildum - hugsanlega til að skapa  sjálfum viðskiptabönkunum nýtt lausafé? ... 

... spyr hann ennfremur.

Það sem Kristinn gerir hér að umtalsefni er það sem hann nefnir "Enron verðmyndun" í sjávarútveginum.  Enron hafði áhrif á raforkuverð í USA með skipulögðum raforkuskorti. Kristinn leiðir rök að því að sama hafi átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi með skipulögðum hætti. Verðmyndunin hafi byggt á samráði þar sem framkallaður hafi verið skortur á veiðiheimildum sem aftur hafi verið nýttur til óraunhæfrar verðhækkunar aflaheimilda.

Hann styður mál sitt vel og með athyglisverðum gögnum. Málið - skoðað í þessu ljósi - er sláandi. Svo virðist sem íslenskur sjávarútvegur sé undirlagður sömu  meinsemdum og urðu íslensku fjármálakerfi að falli.

Málið þarfnast rannsóknar.

 


Hvernig er þá hin "harða" frjálshyggja?

fúlgurfjár Bjarni Benediktsson formannskandídat í Sjálfstæðisflokknum hafnar því að hörð frjálshyggja hafi ríkt í landinu. Einmitt.

Ef það var ekki "hörð" frjálshyggja sem réði krosseignatengslum og taumlausri einkahlutafélagavæðingu utan um fjárfestingar og hlutabréfakaup sem höfðu veð í sjálfum sér - hvað var það þá?

Ef það var ekki "hörð" frjálshyggja í bland við sérhagsmunastefnu sem réði ferðinni við hina svokölluðu "sölu" bankanna (sem var auðvitað ekkert annað gjafaúthlutun), hvað var það þá?

Ef það var ekki "hörð" frjálshyggja sem stjórnaði útrás íslenskra fjármálastofnana á erlendum vettvangi - hvað var það þá?

Ef það var ekki "hörð" frjálshyggja og sérhagsmunagæsla sem réði ferðinni þegar hið frjálsa framsal fiskveiðiheimilda varð að veruleika með þeim afleiðingum að sjávarbyggðir landsins voru sviptar náttúrurétti sínum til viðurværis af fiskveiðum og hafa margar ekki borið sitt barr síðan - hvað var það þá?

Ef þetta sem nú er nefnt var hin mildari útgáfu frjálshyggjunnar, Guð hjálpi okkur þá ef Bjarni Benediktsson og hans skoðanasystkin komast einhvern tíma til valda.


mbl.is Hér var ekki hörð frjálshyggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátækt fólk og velferðarkerfið

glaucoma_surgery_photo Á krepputímum er fátt dýrmætara en traust velferðarkerfi sem vegið getur upp á móti afleiðingum atvinnumissis og tekjutaps.

Það er því þyngra en tárum taki að fólk sem þarf læknisþjónustu skuli ekki geta veitt sér hana. Þá er ég  til dæmis að hugsa um gamalt fólk sem þarf á liðskiptaaðgerðum að halda og hefur jafnvel beðið mánuðum saman. Svo þegar röðin kemur að því er komin kreppa og viðkomandi telur sig ekki hafa efni á því að ganga í gegnum aðgerðina og það sem henni fylgir. Sama er sjálfsagt að segja um ýmiskonar lýtaaðgerðir, kjálka- og tannréttingar og fleira.

Miðaldra kona ákveður að bíða með hjartaþræðinguna - hún hefur hvort eð er fundið fyrir hjartsláttartruflunum svo lengi. Karl á svipuðum aldri telur sér trú um að hann geti beðið til betri tíma með að láta fjarlægja fjólubláan, óreglulegan blett á bakinu. Gamall maður ákveður að ganga bara áfram með ónýtu mjöðmina - harka af sér og nota stafinn.

Fréttir um að fólk veigri sér við að nota heilbrigðisþjónustuna segja þó ekki aðeins til um kreppuna í landinu. Þær sýna okkur svart á hvítu hvernig heilbrigðiskerfi okkar er orðið - "þökk" sé Sjálfstæðisflokknum og þeirri frjálshyggju- einkavæðingarstefnu sem hann hefur staðið fyrir áratugum saman með gjaldtöku og verðlagningu velferðarþjónustunnar. Angry

Sorglegt - í einu orði sagt. Sorglegt.

 


mbl.is Afpanta rannsóknir og aðgerðir lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband