Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Landbúnaðurinn og ESB

kyr2 Ég er ein þeirra sem lengi vel óttaðist inngöngu í ESB. Ég taldi að með henni yrði stoðum svipt undan íslenskum landbúnaði. Við myndum missa sjálfstæði okkar Íslendingar, ofurselja okkur miðstýrðu fjölþjóðlegu valdi. Já, ég var beinlínis hrædd við tilhugsunina. Ég ímynda mér að svipaða sögu sé að segja af  þeim sem hvað harðast tala gegn ESB aðild. Þeir vita hvað þeir hafa en virðast ekki átta sig á því hvað þeir fá. Á þessu þarf að taka með opinni og upplýstri umræðu.  Annars verður það óttinn sem ræður för - og hann er afleitur förunautur.

ESB hefur sett sér ákveðna byggðastefnu þar sem ríkt tillit er tekið til dreifðra byggða með stuðningi við vistvænar framleiðsluaðferðir, ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og vöruþróun. Gengið er út frá sjálfbærri landbúnaðarstefnu og styrkjakerfi sambandsins samþætt byggðastefnu þess. Í þessu felast ýmsir möguleikar fyrir íslenska bændur, hvort sem þeir sinna ferðaþjónustu eða sauðfjárrækt. Það er engin ástæða til að halda að stuðningskerfi ESB sem er aðlagað breytingum, nýsköpun og þróun í samstarfi og samskiptum þjóða í áranna rás sé neitt lakara en íslenska styrkjakerfið í landbúnaði.

Geta má nærri að gengissveiflur og ótryggt rekstrarumhverfi hljóta að reynast íslenskum  bændum þung í skauti. Við inngöngu í Evrópusambandið og með upptöku Evrunnar má gera sér vonir um stöðugra efnahagsumhverfi með minni gengissveiflum, lægra vaxtastigi og bættum almennum lífskjörum.  Í slíku umhverfi er auðveldara að gera langtímaáætlanir í rekstri - ekki síst búrekstri sem á mikið undir innfluttum aðföngum. Vissulega þyrftu íslenskir bændur að keppa við innflutta matvöru - en á móti kemur að samkeppnisstaða þeirra sem matvælaframleiðenda myndi batna til muna. Markaðir í Evrópu myndu opnast fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og um leið margvíslegir möguleikar til nýsköpunar og vöruþróunar. Við erum hér að tala um 500 milljón manna tollfrjálsan markað sem Íslendinga fengju fullan og aðgang að.

Grundvallaratriðið er þó að vita eftir hverju er að slægjast. Íslendingar - ekki síst bændur - verða að skilgreina þarfir sínar og væntingar til fjölþjóðlegs samstarfs á borð við ESB. Sækja síðan um aðild, fara í viðræður og gefa loks þjóðinni kost á að taka afstöðu til þess sem í boði er með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er eina færa leiðin. Sem stendur höfum við allt að vinna - en ekkert að óttast.

 

(Efnislega samhljóða greinar um þetta mál hafa nýlega birst í Mbl og Bændablaðinu)


Fæst orð bera minnsta ábyrgð ... en ég stend nú samt með Dorrit

dorrit Gamla máltækið að fæst orð beri minnsta ábyrgð hefur sannað gildi sitt á Bessastöðum undanfarna sólarhringa. Það er slæmt þegar forseti landsins er borinn fyrir óábyrgum ummælum á alþjóðavísu, hvort sem þau eru tekin úr samhengi eður ei. Nú held ég það sé ráð fyrir forsetaembættið að draga aðeins úr fjölmiðlasamskiptum á þessum viðkvæmu tímum, enda ljóst að fjölmiðlar, jafnt innlendir sem erlendir eru með blóðbragð á tungu yfir öllu sem sagt er þessa dagana.

Ég gat þó ekki að mér gert að skella upp úr við frásagnir af viðureign þeirra forsetahjóna frammi fyrir erlendum blaðamanni sem sagt var frá í gær. Alveg sá ég þau í anda: Ólaf ábyrgan og virðulegan að reyna að ræða alvarlega stöðu lands og þjóðar; Dorrit óþreyjufulla og trúlega hundleiða á þessum formlegheitum að reyna að komast inn í umræðurnar. Hún fór að leika við hundinn. Hann rökræddi við blaðamanninn (grunlaus um þann úlfaþyt sem á eftir fylgdi).  Pex og hjónametingur. 

 En, gott fólk? Hversu mörg miðaldra hjón geta ekki séð sjálf sig í svipuðum sporum, þó við aðrar aðstæður sé? 

Dorrit er góð fyrir það að vilja brjótast út úr formlegheitum. Ég stend með  henni í því að segja það sem henni býr í brjósti. Um leið get ég vel skilið Ólaf Ragnar að vilja halda aðeins aftur af henni. Hún er jú forsetafrú. Þau hafa bæði nokkuð til síns máls. Wink

En þessi uppákoma milli þeirra hjóna sýnir okkur umfram allt að þau eru manneskjur af holdi og blóði eins og við hin - fólk með taugar og tilfinningar. Það vill stundum gleymast.


mbl.is Viðtalið tekið úr samhengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott!

Gott hjá íslenska utanríkisráðuneytinu að afþakka bara með kurt og pí komu ísraelska menntamálaráðherrans eins og á stendur. Þeir óskuðu ekki einu sinni eftir að fá að koma heldur tilkynntu komu sína. Það sýnir nú kannski hugarþelið hjá þessari hernaðarþjóð sem lætur sprengjum rigna yfir saklausa borgarar til þess að uppræta fámennan hóp uppreisnarmanna sem sumir vilja kalla hryðjuverkamenn.

Sæju menn það gerast í New York til dæmis að Manhattan yrði sprengd í loft upp fyrir það að hryðjuverkamaður eða skæruliði (misjafnt hvernig menn vilja skilgreina þessa Hamas liða) hefði komið sér þar fyrir? Varla.

Ísraelar verða að fá að finna andúð siðaðra þjóða á framferði þeirra. Það er það minnsta sem við getum gert.

Fyrr í vikunni sendi Amnesty International út form að áskorunarbréfi til forseta Ísraels vegna mannfallsins og aðstæðnanna á Gaza. Bréfið má einnig finna á heimasíðu samtakanna (hér). Ég vona að sem flestir finni sig knúna til að prenta það út, undirrita og senda.


mbl.is Heimsókn Ísraela til Íslands afþökkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsað til Ingibjargar Sólrúnar

ISG Mikið hefur mætt á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur síðustu vikur og mánuði. Hún hefur verið undir ómanneskjulegu álagi við þær erfiðustu aðstæður sem nokkur stjórnmálamaður getur hugsað sér - á sama tíma hefur hún mátt kljást við alvarlegan heilsubrest.

Í þessum erfiðleikum hefur hún hvergi hlíft sér - ekkert frekar en gæðingurinn sem fasmikill skeiðar fram völlinn. Úrvalsgæðingar halda fullri reisn meðan stætt er. Þannig er Ingibjörg Sólrún. Ég óttast að hún hafi gengið fram af sér; að hún sé nú að gjalda með heilsu sinni fyrir úthaldið.

Elsku Ingibjörg Sólrún. Þúsundir félaga þinna og samverkafólks hugsa til þín  núna. Þú hefur staðið þig eins og hetja - staðið með þjóð þinni eins og stólpi í hafróti undangenginna mánaða. Þú hefur tekið á þig ágjafir, árásir og vanþakklæti - vina sem óvina - af yfirvegun og aðdáunarverðri stillingu.

"Fyrst kemur fólkið - svo flokkurinn" sagðir þú einbeitt á síðasta flokksstjórnarfundi. Enginn sem þekkir þig efast um heilindi þín gagnvart þjóðinni - umhyggju þína og skyldurækni. 

Eins og fleiri á ég nú þá þá ósk heitasta þér til handa, að þú fáir næði til þess að endurheimta heilsuna.

Við eigum enn ógengnar svo margar slóðir á Hornströndum. Og enn er svo mikið verk að vinna fyrir þig sem stjórnmálaleiðtoga.

Guð veri með þér og blessi verk þín. Heimurinn er ríkari með þig innanborðs.

Góðan bata. Heart


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband