Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Þinghlé skapar svigrúm fyrir Icesave-málið

Ice-save samningurinn er eitt þyngsta mál sem komið hefur til kasta Alþingis í lýðveldissögunni.  Nú ríður á að vinna málið af þeirri vandvirkni sem það verðskuldar, og ná því upp úr farvegi áróðurs og æsingakenndrar umræðu.

Sú ákvörðun að fresta nú þinghaldi um eina viku og gefa fjárlaganefnd þar með svigrúm til þess að vinna Ice-save málið sem best úr garði nefndarinnar, verður vonandi til þess að ná málinu upp úr skotgröfunum og yfir í farveg ábyrgari umræðu en verið hefur.

 Við Birgir Ármannsson ræddum þetta og fleira tengt Ice-save og störfum þingsins á Morgunvaktinni í morgun (hlusta hér).

 


mbl.is Rýnir í gögn vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og ....?

Hver er þá niðurstaða ráðherrans?

Allt það sem Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segir í þessu viðtali gæti ég sagt ... það vantar bara botninn í þessi spakmæli öll sömul. 

Hver er skoðun Ögmundar?

 


mbl.is Ögmundur: Hugsum um þjóðarhag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söguleg stund

Já - við erum á leið í aðildarviðræður. Þetta er stór dagur.

Alþingi Íslendinga hefur ákveðið að kjörnir fulltrúar fólksins, setji af stað lýðræðislega málsmeðferð í einu veigamesta hagsmunamáli þjóðarinnar á síðari tímum.

Alþingi sjálft hefur ákveðið að beita þingræðinu til þess að tryggja lýðræðið - svo þjóðin geti átt síðasta orðið um lyktir þessa mikilvæga hagsmunamáls í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 Þetta er sögulegt tækifæri fyrir Alþingi Íslendinga til þess að sýna í verki ómetanlegt fordæmi um framkvæmd sjálfs lýðræðisins.

Ég trúi því að aðild Íslendinga að ESB yrði heillaspor fyrir þjóðina. Við Íslendingar verðum að stíga markviss skref í átt til stöðugra efnahagslífs og bættra lífskjara  á Ísland. Innganga í Evrópusambandið gæti ennfremur verið liður í því  að styrkja stjórnsýslu okkar, bæta viðskiptaumhverfi, efla byggðaþróun, sjálfbærari og vistvænni framleiðsluhætti og skapa fjölbreyttari menntunarkosti og atvinnumöguleika fyrir ungt fólk

Þetta er sú framtíðarsýn sem við jafnaðarmenn höfum hafa fram að færa.

Hversu raunhæf vonin er verður aðeins leitt  í ljós með aðildarumsókn og síðan þeim samningsdrögum sem af henni leiðir. Sú vinna er eftir og afrakstur hennar er í raun eina  haldbæra vísbendingin sem  við getum fengið um þá möguleika sem innganga í ESB getur falið í sér fyrir okkur sem þjóð.

Það er verkefnið sem bíður okkar nú.


mbl.is Samþykkt að senda inn umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíu spurningar og svör um Ice-save

Að undanförnu hafa streymt inn til mín fjölmargar spurningar og athugasemdir varðandi Ice-save samninginn. Ég hef verið að vinsa úr þessu efni þau meginatriði sem ég sjálf hef viljað ígrunda betur og afla nánari upplýsinga um, m.a. með því að senda fyrirspurnir til frumvarpshöfunda og starfsmanna stjórnsýslunnar. Í tilefni þess að nú stendur yfir í þinginu fyrsta umræðan um ríkisábyrgðina í Ice-save málinu, þá vil ég nú deila með ykkur, lesendur góðir, þeim svörum sem ég hef fengið við tíu spurningum. Svörin læt ég birtast hér óbreytt:

1)  Vaxtagreiðslur af Icesave láninu munu koma úr sjóðum ríkissjóðs en ekki af sölu eigna Icesave. Reglan er sú að vextir eru ekki forgangskröfur í þrotabú. Hví skyldu þá aðrir kröfuhafar  samþykkja að hærri fjárhæð en sem nemur höfuðstól innlánskrafna sé ráðstafað af sölu eigna Landsbankans?
 
Svar: Það er rétt að vextir af kröfu á hendur fjármálafyrirtæki í slitameðferð eru eftirstæðar kröfur eftir úrskurðardag, sem er í tilviki Landsbankans 22. apríl 2009. Hins vegar ber að líta á það að eignir Landsbankans bera vexti, sem verða að eignum búsins og er deilt út til kröfuhafa, þar á meðal Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og þar með lækkar sú fjárhæð sem fellur á Tryggingarsjóð og íslenska ríkið. Það er heldur ekki hægt að tala um að 5.5% af 700 milljörðum falli á ríkissjóð. Hafa verður í huga að gert er ráð fyrir að úr búi Landsbankans verði úthlutað eignum á þessu sjö ára tímabili. Gert er ráð fyrir að þessar greiðslur til forgangskröfuhafa hefjist strax og kröfulýsingu er lokið og gengið hefur verið frá því hver röð kröfuhafa er og að greiðslur verði inntar af hendi a.m.k. einu sinni á ári á næstu 7 árum. Það er því langt frá því að öll upphæðin beri vexti í 7 ár.

Áætlanir hafa verið gerðar um að 75-95% af kröfum forgangskröfuhafa fáist greiddar og þó að vextir falli á íslenska ríkið er ljóst, ef þessar spár ganga eftir, að ríkið mun aðeins greiða lítinn hluta af heildarupphæðinni.

Loks er rétt að taka fram að ef hagstæðari kjör bjóðast er hægt að greiða lánið upp hvenær sem er án kostnaðar, en vandséð er að hægt sé að fá hagstæðari kjör með föstum vöxtum núna.


2) Því hefur verið haldið fram að ekki verði ekki hægt að greiða út af reikningum (vegna sölu eigna og innflæðis fjármuna Landsbankans) inn á lánin frá Bretum og Hollendingum í nóvember 2009, heldur mun seinna. Ástæðan sé  að  þó svo að lýsingafrestur verði liðinn í þrotabúið sé líklegt að einhverjir kröfuhafar muni láta á lagasetninguna reyna fyrir dómstólum og fá lögbann á greiðslu til einstakra kröfuhafa á grundvelli laganna fyrr en dómur er fallinn.  Fær þetta staðist?

Svar: Slitastjórn hefur þegar gefið út innköllun vegna kröfumeðferðar í greiðslustöðvun. Kröfulýsingarfrestur hefur verið ákveðinn 6 mánuðir frá fyrri birtingu innköllunar, eða til 30. október 2009. Eftir að kröfulýsingarfresti lýkur skal slitastjórn gera skrá um þær kröfur sem lýst er. Jafnframt skal slitastjórn taka afstöðu til einstakra krafna og upplýsa um þá afstöðu í kröfuskránni.

Eftir að kröfulýsingarfresti lýkur skal slitastjórn gera skrá um þær kröfur sem lýst er. Jafnframt skal slitastjórn taka afstöðu til einstakra krafna og upplýsa um þá afstöðu í kröfuskránni. Kröfuhafi sem ekki unir afstöðu slitastjórnar til kröfu sinnar þarf að lýsa yfir mótmælum. Slitastjórn skal reyna að jafna ágreining sem kann að koma upp á fundinum. Takist það ekki skal haldinn sérstakur fundur með þeim sem hlut eiga að máli og ef ekki tekst að jafna ágreining þar skal slitastjórn vísa málinu til héraðsdóms. 

Eftir kröfuhafafund slitastjórnar er slitastjórn heimilt að greiða viðurkenndar kröfur að hluta eða að fullu skv. 6. mgr. 102. gr. laganna. Það er háð ákveðnum skilyrðum. Í fyrsta lagi má eingöngu greiða viðurkenndar kröfur. Í öðru lagi þarf að tryggja að eignir bankans dugi til að greiða öllum hliðsettum kröfuhöfum jafn háa greiðslu í hlutfalli við kröfufjárhæðir. Í þriðja lagi þarf að gera ráð fyrir að fjármunir séu til staðar til að greiða kröfur sem ekki hefur endanlega verið leyst úr ágreiningi um. Með lagabreytingu nr. 61/2009 var bætt svofelldu bráðabirgðaákvæði við lögin: ,,Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. 102. gr. er skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem naut heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku laga nr. 44/2009 , um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. ákvæði til bráðabirgða II, heimilt, á tímabilinu frá gildistöku laga þessara og þar til skilyrði eru fyrir efndum krafna á grundvelli 6. mgr. 102. gr., að greiða skuldir vegna launa, þ.m.t. laun í uppsagnarfresti, og vegna innlána sem veittur var forgangsréttur með 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, ef víst er að nægilegt fé sé til að greiða að fullu eða í jöfnu hlutfalli kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð."

Það er því ekkert í lögum sem segir að þeir megi ekki greiða laust fé út strax, en það er háð mati skilanefndar hverju sinni hvað mikið er til af fjármagni og hvað hægt er að greiða.

3)      Ef þetta verður raunin, hversu hár verður þá reikningurinn sem fellur á íslenska skattgreiðendur, án möguleika á að fá það bætt í gegnum eignir Icesave?

Svar:Það er ekki vitað á þessari stundu hve mikið fæst úr búi Landsbankans og því erfitt að segja hver endanleg tala verður. Í lánasamningum er miðað við að 75% af heildarfjárhæðinni fáist úr búi LÍ. Skilanefndin hefur spáð 83% endurheimtu og breska ráðgjafafyrirtækið CIPFA breskum ráðleggur sveitarfélögum sem áttu fé á þessum reikningum að miða við 95%.

4)  Verðmat á eignunum er  óljóst og hleypur á 10% til eða frá - eru þetta viðunandi skekkjumörk til svo langs tíma?  

Svar: Vísað er til svars við spurningu 3. Ekki er vitað um heimtur úr búi LÍ, en vonast að þær nái yfir stærstan hluta þessara skuldbindinga.

5)  Fullyrt hefur verið að fyrir hverjar 2 krónur sem innheimtast upp í þessar forgangskröfur fari 1 kr til að greiða niður lán Íslands við Breta og Hollendinga og 1 kr fari beint til þeirra þjóða.  Við séum þannig ekki að ábyrgjast eingöngu greiðslu upp á lögboðnu hámarki innlánstryggingasjóðanna, heldur einnig allt sem viðkomandi stjórnvöld greiddu umfram það.  Ef 1000 milljarðar fáist fyrir eignir Landsbankans, þá muni einungis 500 milljarðar fara til greiðslu þess láns sem ríkið ætlar að taka, hinir 500 milljarðarnir renni beint til Breta og Hollendinga til móts við það sem þær þjóðir greiddu umfram 20,000 evra hámarkstryggingu. Hverju er hér til að svara?

Svar:Heildarfjárhæð innstæðna á Icesave reikningunum í Amsterdam-útibúi Landsbankans við hrun bankans í október var 1.674.285.671 evrur. Þar af voru innstæður undir 20.887 evrum samtals 1.329.242.850 evrur, sem falla á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Eftir standa 345.042.821 evrur sem eru utan ábyrgðar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Hollensk yfirvöld (Seðlabanki Hollands, DNB) greiddu innstæðueigendum út innstæður upp að 100.000 evrum og bera þeir kostnað vegna þessa að því marki sem það er umfram lágmarkstrygginguna og fæst ekki úr þrotabúi Landsbankans. Alls áttu 469 innstæðueigendur innstæður umfram 100.000 evrur, samanlagt nemur sú upphæð 40 milljónum evra. Þessir innstæðueigendur eiga forgangskröfu í bú Landsbankans, en verða að bíða skiptaloka til að sjá hvert tap þeirra verður.
    Heildarfjárhæð innstæðna á Icesave reikningum í London-útibúi Landsbankans við hrun bankans í október nam 4.526.988.847 pundum. Þar af eru a.m.k. 2.176.988.847 pund utan ábyrgðar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Um helmingur innstæðna London-útibúsins hefur því verið greiddur út af breska innstæðutryggingarsjóðnum og breska ríkinu. Breski tryggingarsjóðurinn (FSCS) greiddi innstæðueigendum upp að 50.000 pundum. Breska ríkið greiddi svo afgang innstæðnanna, þannig að almennir breskir innstæðueigendur hafa fengið innstæður sínar greiddar að fullu. Vegna þessara útgreiðslna á breska ríkið kröfu á þrotabú Landsbankans, en mun sjálft bera þann hluta sem ekki fæst úr búinu.
    Lánasamningarnir snúa aðeins að almennum innlánseigendum (e. retail deposits), þ.e. innlánum einstaklinga. Heildsöluinnlán (e. wholesale deposits), þ.e. innlán flestra fyrirtækja, félagasamtaka og stofnana, standa utan tryggingakerfa Bretlands og Hollands og falla því ekki undir lánasamningana. Í hópi þessara innlánseigenda eru mörg sveitarfélög og líknarsamtök. Fjárhæðir heildsöluinnlána í London-útibúi Landsbankans voru í október 2008 544.553.275  pund og fjöldi innlánseigenda var á annað hundrað. Í Amsterdam-útibúinu voru um 30 heildsöluinnstæðueigendur. Fjárhæð innlána þeirra var 250.133.293  evrur. Þessir innlánseigendur njóta íslenskrar lágmarkstryggingar (20.887 evrur) og munu fá greitt úr þrotabúi Landsbankans eins og aðrir forgangskröfuhafar eftir því sem skiptum vindur fram.

Það er því langt frá því að Ísland beri allar byrðar varðandi Icesave. Það er hins vegar eðlilegt að allar kröfur sem byggjast á innstæðum njóti sömu rétthæðar í búi LÍ og því eiga þessir aðilar jafnstæðar kröfur á hendur LÍ.

6) Enn er óljóst hvaða eignir íslenska ríkisins eru aðfararhæfar komi til greiðslufalls.  Lögspekingar eru á öndverðum meiði í þessu máli - en ætti sú óvissa ekki einmitt að nægja til þess að hafna þessum samningi og fá nákvæmlega úr því skorið hvaða eignir eru undir og hverjar ekki?

Svar: Í báðum samningum er ákvæði um að rísi ágreiningur um efni þeirra skuli um slíkt fara eftir breskum lögum. Það er venja í alþjóðlegum lánasamningum að um ágreining gildi annað hvort lög þess ríkis sem veitir lánið eða bresk lög, sem skýrist af stöðu London sem alþjóðlegrar fjármálamiðstöðvar. Það varð að samkomulagi milli aðila að um bæði hollenska og breska lánasamninginn giltu bresk lög og bresk lögsaga. Í því felst að hægt er að bera ágreining um túlkun og framkvæmd samninganna fyrir breska dómstóla, eða aðra dómstóla sem hafa lögsögu, en þá ber jafnframt að leggja bresk lög til grundvallar.

Íslenska ríkið nýtur að þjóðarétti friðhelgisréttinda í lögsögu annarra ríkja. Þessi friðhelgisréttindi stæðu í vegi fyrir lagalegri úrlausn deilumála vegna samningsins ef ekkert væri að gert. Það er föst venja í lánasamningum milli ríkja að víkja slíkum friðhelgisréttindum til hliðar. Dæmi um slíkt er að finna í MTN lánaramma ríkissjóðs, en síðustu ár hafa flest erlend lán ríkissjóðs verið tekin á grundvelli þess samnings. Slík ákvæði hafa eðli málsins samkvæmt eingöngu gildi þar sem friðhelgi er til staðar, þ.e. í lögsögu erlendra ríkja. Án slíks fráfalls væri ekki hægt að stefna máli, né reka það, fyrir umsömdum dómstóli.

Með þessum ákvæðum falla tryggingarsjóðurinn og Ísland frá hugsanlegum friðhelgisrétti í lögsögu annarra ríkja. Slíkt fráfall réttinda á einnig við um eignir tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins erlendis. En þess ber auðvitað að geta að nær óþekkt er að ríki beiti hvert annað fullnustuaðgerðum af því tagi að gengið sé að eigum skuldara. Ástæða er til að árétta að eignir utanríkisþjónustunnar eru varðar af ákvæðum Vínarsamningsins um stjórnmálatengsl og að samkvæmt breskum lögum eru seðlabankar erlendra ríkja sérstakir lögaðilar og verður því ekki gengið að eignum þeirra nema skuldbindingar hvíli beint á þeim. Seðlabankinn er ekki aðili að þessum samningum og getur því ekki orðið ábyrgur fyrir þeim skuldbindingum sem í samningunum felast. Ákvæði þessi hafa sem slík engin áhrif að innanlandsrétti og fela því ekki í sér sjálfstæðar heimildir til handa lánveitendum til að ganga að eigum íslenska ríkisins á Íslandi. Um það efni gilda almennar reglur, þar með talið undantekningar vegna eigna sem eru órjúfanlegur þáttur í rækslu hlutverks íslenska ríkisins sem fullvalda ríkis.

7) Þá er óljóst hver á að vera umsýsluaðili með þeim eignum sem ganga eiga upp í skuldina.  Ef það á að vera skilanefnd Landsbankans, þá er hún ekki í vinnu fyrir íslenska ríkið heldur fyrir kröfuhafa.  Í ljósi þess að innlánseigendur eru að fullu tryggðir með því frumvarpi sem leggja á fram, þá er skilanefndin í raun og veru í vinnu fyrir alla hina kröfuhafana.  Skilanefnd verður því uppálagt að fá eins hátt verð fyrir hverja einustu eign, á meðan ríkið myndi vilja selja eignir út á föstu verði eins fljótt og vera má (ríkið myndi vita hvaða verð nægði, og myndi reyna að fá það verð eins fljótt og mögulegt væri til að greiða niður skuld við Breta og Hollendinga eins hratt og hægt er til að lágmarka vaxtakostnað). Er ekki hætt við því að þar sem aðrir kröfuhafar munu ekki njóta andvirðis sölunnar nema umfram það fasta verð, muni þeir leggja áherslu á að flýta sér hægt og fá sem allra hæsta verð fyrir eignina, sér í lagi ef vextir af Icesave láninu eru ekki forgangskrafa í bú Landsbankans? Er ekki kominn þarna upp mögulegur hagsmunaárekstur sem bitnar á skattgreiðendum?

Svar: Ljóst er að það er skilanefnd Landsbankans sem er vörsluaðili eigna LÍ samkvæmt lögum. Þeim verður ekki breytt um þetta. Skilanefnd á samkvæmt lögum að gæta hagsmuna allra kröfuhafa. Það verður ekki séð að hagsmunir íslenska ríkisins og Tryggingarsjóðs séu aðrir en annarra kröfuhafa. Þessir aðilar vilja fá sem hæst verð fyrir eignirnar, en ekki að þær verði seldar strax á brunaútsölu.


8) Óttast menn ekki lagalega óvissu um það hvort neyðarlögin  frá í október fái staðist fyrir alþjóðlegum dómstólum? Má ekki teljast líklegt að einhverjir kröfuhafa vilji láta reyna á lögin fyrir dómstólum og niðurstaðan geti orðið  Íslandi í óhag því afleiðingarnar af því að dæma það löglegt að riðla kröfuröð eftir á myndi hafa það í för með sér að allir lánasamningar í veröldinni væru í uppnámi?

Svar: Ganga verður út frá því að neyðarlögin standist stjórnarskrá og alþjóðlega samninga sem Ísland er aðili að. Ef niðurstaðan verður önnur verður að skoða stöðu Íslands heildstætt því svo margt annað en þetta væri þá í uppnámi.


9) Ef svo fer að dæmt verði í máli á þann veg að lagasetningin hafi verið óheimil, verður íslenska ríkið þá  ekki bæði að virkja ríkisábyrgðina að fullu til að standa við þann samning sem staðfesta á og bera skaðabótaskyldu fyrir óheyrilegar fjárhæðir?

Svar: Þessari spurningu er erfitt að svara - ganga verður út frá því að neyðarlögin standist stjórnarskrá og ekki hægt að gefa sér annað á þessari stundu.


10)   Hvað myndi gerast ef við hreinlega neituðum að staðfesta þetta plagg og færum fram á að samið yrði upp á nýtt?   Myndu Bretar og Hollendingar ekki -  hvort sem þeim myndi líka betur eða verr - þurfa að vinna með okkur í að koma eignum Landsbankans hæsta mögulega verð á hverri eign og þannig ná sínum fjármunum til baka?

Svar:Slíkt myndi leiða til algerrar einangrunar Íslands í alþjóðlegum fjármálasamskiptum og fyrir þjóð sem byggir velferð sína á greiðum útflutningsviðskiptum er slíkt einfaldlega ekki valkostur. Þess fyrir utan verður að hafa í huga að Ísland er eitt af nánustu samstarfsríkjum ESB-ríkjanna á grundvelli EES-samningsins. Í aðild Íslands að EES felast bæði rík réttindi og ríkar skyldur. ESB-ríkin hafa mjög skýra afstöðu til þess hverjar skyldur Íslands eru í Icesave málinu. Virði Ísland að vettugi umræddar skyldur sínar á innri markaði sambandsins er ljóst að þátttaka þess í EES getur verið í uppnámi.

Lokaspurningin er þá hvort hægt sé að ná samningum um betri skilmála fyrir þeim heildarlánum sem hér eru tekin. Ef samningar yrðu opnaðir aftur fæli það í sér að báðir aðilar kæmu óbundnir til samninga að nýju. Bretar og Hollendingar myndu ekki síður reyna að sækja betri niðurstöðu heldur en Ísland. Samningaviðræður myndu í besta falli taka einhverja mánuði. Allur dráttur á lokaafgreiðslu þessa máls er dýru verði keyptur fyrir Ísland vegna tengsla þess við allt endurreisnarstarf íslensks efnahagslífs.


Valtýr er vanhæfur - ekki óhæfur

 Umræðan um vanhæfi Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara er að sjálfsögðu enginn áfellisdómur yfir honum sem einstaklingi. Vanhæfi snýst ekki um það hvernig menn eru innréttaðir eða hvað þeir kunna, heldur hitt hver tengsl þeirra eru úti í samfélaginu gagnvart málum sem koma inn á borð til ákvörðunar, dómsuppkvaðningar eða saksóknar. 

Við Íslendingar erum allt of uppteknir af því að afsagnir manna eða tilfærslur í starfi - hvort sem um er að ræða stjórnmálamenn eða embættismenn - sé einhverskonar persónulegt tap fyrir þá sjálfa. Auðvitað getur það haft óhagræði í för með sér að skipta skyndilega um starf, eða breyta stefnu á einhvern hátt. En afsögn er einfaldlega til vitnis um að menn viðurkenna aðstæður, skynja ábyrgð sína í þeim aðstæðum og taka henni.

Valtýr hefur fyrir löngu lýst sig vanhæfan varðandi rannsóknina á bankahruninu. Skiljanlega. En einmitt þess vegna verður hann að standa fjarri sem ríkissaksóknari á meðan sú rannsókn stendur yfir. Það er ekki nóg að hann standi einungis utan við þá tilteknu rannsókn. Meðan hann er við störf sem ríkissaksóknari má segja að allir hans starfsmenn séu vanhæfir til þess að koma að rannsókn málsins.

Annars var komið inn á þetta í Kastljósinu í gærkvöld þar sem við skiptumst á skoðunum hjá Sigmari, ég og Ólafur Arnarson. Þar var líka rætt um Ice-save málið (sjá hér).


mbl.is Valtýr vill ráða Evu Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umskiptingar umræðunnar

Umræðan um Ice-save samningin er orðin gjörsamlega galin. Aðrar eins yfirlýsingar og sést hafa hér á blogginu í fyrirsögnum, færslum og athugasemdum, eiga sér ekki fordæmi (ekki einu sinni í Lúkasar-málinu víðfræga).

Stjórnarandstæðingar virðast hafa náð þeim merka árangri í þessu máli að trylla almenning úr hræðslu. Ábyrgur málflutningur eða hitt þó heldur. Í því ljósi er athyglisvert að rifja upp málflutning eins þeirra, Bjarna Benediktssonar, fyrir fáeinum mánuðum síðan, þegar hann talaði fyrir samkomulagi af þessu tagi í þinginu, eins og bent hefur verið á (hér). Það er ekki að sjá að hér tali einn og sami maðurinn.

Nú er látið í veðri vaka að stjórnvöld hafi skrifað undir samning sem muni koma þjóðinni á vonarvöl. Kjörin sem okkur bjóðist í þessum samningi séu afleit, og við munum aldrei geta risið undir þessu. Allt er þetta rangt.

Í samningnum felst að við getum hvenær sem er fengið að greiða þetta lán upp - og það getum við ef okkur býðst annað hagstæðara lán.  Auk þess gefst okkur greiðslufrestur fyrstu sjö árin - og það munar um minna í þeim þrengingum sem þjóðin gengur í gegnum nú.

Enginn samningur er undirritaður fyrir hönd þjóðarinnar nema með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Það er því mikil rangfærsla að láta eins og hér sé verið að skuldbinda þjóðina án samráðs við þingið. Þetta mál verður að sjálfsögðu til umfjöllunar og endanlegrar staðfestingar þar. Stóð aldrei annað til.

Hins vegar er jafn ljóst að það er hlutverk stjórnvalda að framkvæma stjórnarathafnir og gera samninga í umboði kjósenda. Þau stjórnvöld sem nú sitja hafa fullt umboð til þess sem þau eru að gera. Þau voru til þess kosin. Það er svo Alþingi sem hefur síðasta orðið - í þessu máli sem öðrum.

Hér er farið að landslögum. Hér er unnið í þágu lands og þjóðar. 


Óhemjuskapur og ótímabært upphlaup

Stjórnarandstaðan varð sér til skammar á Alþingi í gær með ótímabæru upphlaupi og ásökunum um landráð. Tilefnið var samkomulag það sem íslensk stjórnvöld hafa nú náð í Ice-save deilunni. Samkomulag sem er liður í því að endurheimta traust Íslands í alþjóðlegum viðskiptum. Samkomulag sem felur í sér lán frá Hollendingum og Bretum til 15 ára með 7 ára greiðslufresti. Lán sem góðar líkur eru á að muni að langmestu leyti greiðast með eignum Landsbankans (75-95%). Samkomulag sem felur í sér að Ísland getur hvenær sem er fengið að greiða upp þetta lán ef svo ólíklega skyldi vilja til að okkur byðist betra lán annarsstaðar á hagstæðari kjörum.

Þetta er besta niðurstaðan sem orðið gat af málinu. Fyrir lá fyrr í vetur að samkomulag af þessu tagi væri forsenda þess að við Íslendingar gætum átt lána von hjá nágrannalönd okkar. Eins og menn muna vafalaust stefndi í að 27 Evrópuþjóðir myndu loka á alla lánafyrirgreiðslu til okkar að öðrum kosti.

Þannig er þetta samkomulag forsenda þess að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga og að við getum notið lánafyrirgreiðslu nágranna og vinaþjóða til að efla gjaldeyrisforðann.

Fyrstu áhrif þessa samkomulags eru þegar að koma í ljós. Bretar hafa ákveðið að aflétta frystingu á eignum Landsbankans þar í landi 15. júní n.k.

Þetta eru m.ö.o. góðar fréttir  miðað við allar aðstæður.

 

 

 

 


mbl.is 50 milljarðar á reikningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hitti ég Dalai Lama

dalai_lama1 Mér brá heldur betur í brún þegar ég heyrði í útvarpinu um helgina að enginn alþingismaður hefði "séð ástæðu" til þess að þekkjast boð um að eiga fund með Dalai Lama. Var helst að skilja á fréttinni að okkur hefði öllum verið sent bréf með boði um að hitta trúarleiðtogann að máli.

Og ég sem hafði öfundað þá þingmenn sem sitja í forsætisnefnd og utanríkisnefnd Alþingis af því að fá að hitta Dalai Lama - átti ég þess svo kost eftir alltsaman?

Nei - að sjálfsögðu ekki. Hvorki mér né neinum öðrum óbreyttum alþingismanni var gefinn kostur á að hitta höfðingjann í eigin persónu. Njet. Yfirlýsingar aðstandenda heimsóknarinnar þar að lútandi voru einfaldlega rangar. Við fengum ekkert bréf. Því miður. Ég hefði þegið slíkt boð.

Hvað skipuleggjendum heimsóknarinnar gekk til með því að koma því inn hjá fjölmiðlum að alþingismenn væru að sniðganga Dalai Lama, veit ég ekki. Hvað fjölmiðlum gekk til með því að éta þetta upp bara sísvona - án þess að hringja í svosem eins og einn, til að vita hverju þetta sætti - veit ég ekki heldur.

Hitt veit ég, að trúarleiðtoganum hefur verið sýndur margvíslegur sómi á ferð sinni hér, og aðstandendur heimsóknarinnar geta verið hæstánægðir með þær viðtökur sem hann hefur fengið af hálfu Alþingis, kirkjunnar manna og almennings. 

Enda er Kínverjum ekki skemmt, eins og best sést á því að þeir hafa kallað sendiherra sinn heim frá Íslandi.

Það segir sína sögu.


mbl.is Dalai Lama í Alþingishúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enga sérmeðhöndlun, takk

ESBÉg fyrirverð mig hálfpartinn fyrir það að íslenskir fréttamenn skuli hafa spurt Olli Rehn hvort Íslendingar myndu fá sérmeðhöndlun hjá Evrópusambandinu, eins og það væru væntingar  íslenskra stjórnvalda. Ég átta mig heldur ekki á því hvers vegna alið hefur verið á þessari umræðu um sérmeðhöndlun fyrir okkur umfram það sem aðrar þjóðir hafa fengið. 

Í mínum huga snýst málið um allt annað. 

Málið snýst um það hvernig Ísland getur fallið inn í regluverk, stefnumótun og áætlanir ESB. Ég er þá t.d. að tala um byggðaáætlunina, landbúnaðarstefnuna, sjávarútvegsstefnuna og umhverfisstefnuna. Hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur, lífskjör okkar, efnahagsástand, atvinnu- og viðskiptaumhverfi að ganga inn í þessar áætlanir.

Við Íslendingar höfum góða von um að geta náð fram því sem nágrannar okkar (t.d. Finnar og Svíar) hafa fengið út úr slíkum viðræðum. Í því er fólginn hinn hugsanlegi ávinningur fyrir okkur - en ekki hinu að koma eins og beiningamaður að dyrum ESB og biðja um "sérmeðhöndlun".

Í þessum viðræðum þarf að skilgreina vel samningsmarkmið okkar Íslendinga gagnvart landbúnaði, sjávarútvegi og auðlindum. Að loknum aðildarviðræðum kemur það svo í ljós hvernig dæmið lítur út, og þá fyrst veit þjóðin til fulls hvað er í húfi og um hvað hún er að kjósa.

Málið er ekki flóknara.

Hér er svo ágæt vefsíða www.evropa.is - þar er núna uppi grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson sem sem er vel þess virði að lesa.


mbl.is Þarf ekki einhug um umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er málið?

Það er einkennilegt að fylgjast með sterkum yfirlýsingum einstakra þingmanna VG  undanfarinn sólarhring meðan formenn flokkanna eru að reyna að mynda ríkisstjórn. Það er eins og stjórnmarmyndunarviðræðurnar séu á tveimur vígstöðvum - við samningsborð forystumanna flokkanna og í fjölmiðlum.

VG samþykkti á landsfundi sínum ekki alls fyrir löngu að aðildarumsókn að ESB skyldi útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er einmitt það sem Samfylkingin hefur lagt til. VG hefur lagt áherslu á það að stór og þýðingarmikil mál verði útkljáð með þjóðaratkvæði.

Hvað er málið?

Þjóðin var rétt í þessu að færa ráðamönnum þau skilaboð upp úr kjörkössunum að a) hún vildi félagshyggjustjórn. og b) að hún vildi aðildarumsókn að ESB.

Þetta eru skýr skilaboð. Það er skylda þessara tveggja flokka að svara þessu kalli.


mbl.is Enn ósætti um ESB-málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband