Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Kirkjukórskonan ... enginn veit sína ævina

 

kórsöngurEnginn veit sína ævina ... segir máltækið, og sannast á mér þessa daga.

Haldið ekki að ég sé komin í kirkjukór - að vísu bara sem íhlaupamanneskja þessa vikuna, svona rétt til þess að bjarga málum í fermingarmessunni sem framundan er í Suðureyrarkirkju á Hvítasunnudag. En það er sama - aldrei hélt ég að ég ætti eftir að taka mér stöðu í kirkjukór Suðureyrar í Súgandafirði. En þau voru í svolitlum vandræðum vegna mannfæðar - aðeins ein kona í altinni - og kórinn verður ekki nema svona 8-10 manns, svo ég sagði auðvitað já við erindinu. Og nú er eins gott að standa sig.

Það kom auðvitað í ljós á fyrstu æfingu að ég þekkti ekki nema helming sálmanna - og hef ekki sungið altröddina við nema einn. Ekki bætti úr skák að nóturnar eru með allt öðrum textum en þeim sem sungnir verða, þannig að ég er þessa dagana í hörðu textanámi til þess að geta fylgt nótunum í messunni (án þess að þurfa samtímis að finna texta neðar á blaðinu - en það er ekkert grín skal ég segja ykkur). Svo eru messusvörin - og þetta er svo metnaðarfullt fólk að það ætlar að sjálfsögðu að radda þau líka! Jamm ... ég hef nóg að gera í þessu fram að helgi.

Annars hefur sönglíf mitt verið óvenju fjörugt að undanförnu. Ég söng með á tónleikum Sunnukórsins á Ísafirði fyrir viku og svo með kvennakórnum Vestfirsku valkyrjunum á laugardaginn. Í síðara tilvikinu sungum við nokkur lög á samtónleikum með Árnesingakórnum sem haldnir voru í Ísafjarðarkirkju. Um kvöldið var samfagnaður þessara tveggja kóra yfir borðhaldi með miklum söng og skemmtilegheitum. Frábær kvöldstund - og skemmtilegt fólk þessi Árnesingakór.

Framundan er svo tveggja vikna tónleikaferð með Sunnukórnum til Svíþjóðar, Finnlands og Eistlands um miðjan júní. Munum m.a. syngja í hellakirkjunni í Helsinki. Það er mikið tilhlökkunarefni.

En næst á dagskrá er það semsagt fermingarmessan á Suðureyri á Hvítasunnudag. Er búin að læra Hvítasunnusálminn (Skín á himni skír og fagur...). Næst er það "Legg þú á djúpið ..." og röddunin við "Heilagur, heilagur" í messusvörunum. Úff!


Óskasteinar og áhrif þeirra

hrafnshreiður  Í dag langar mig að taka frí frá heilabrotum um stjórnarmyndun og úrslit kosninga og fjalla um eitthvað allt annað. Í dag ætla ég að fjalla um trú á náttúrusteina - og deila með ykkur svari mínu við nýlegri fyrirspurn vísindavefnum: Hvað er vitað um töfrasteina eins og óskasteina og huliðshjálmssteina?

Trú á mátt töfrasteina er ævagömul á Íslandi. Í Grágás, íslenskri lögbók frá því um miðja þrettándu öld, er lagt bann við því að „fara með steina eða magna þá til þess að binda á menn eða fénað“. Til dæmis varðar það fjörbaugsgarð „ef maður trúir á steina til heilindis sér eða fé sínu“ (19). Af þessu má ráða að steinar voru fyrst og fremst notaðir til lækninga og heilla, eins og nafngiftir þeirra gefa ótvírætt til kynna.

Þeir sem áttu óskasteina fengu óskir sínar uppfylltar. Lausnarsteinar auðvelduðu konum fæðingu og íslenskar yfirsetukonur áttu sumar hverjar slíkan stein. Sagt var að með lífsteini mætti lífga dauðvona mann og ef lífsteinn var í húsi var því trúað að það gæti ekki brunnið. Með huliðshjálmsstein undir vinstri handarkrika gat maður ferðast óséður. Fésteinar færðu mönnum fé. Ýmsir steinar voru notaðir til lækninga, til dæmis surtarbrandur sem sagður var góður við kveisu.

Þeir steinar sem koma fyrir í íslenskri þjóðtrú, til dæmis óskasteinar, huliðshjálmssteinar og lausnarsteinar, eru ekki alltaf raunverulegir steinar, heldur töfragripir sem líkjast steinum þegar búið er að verka þá og magna eftir kúnstarinnar reglum. Stundum voru slíkir gripir magnaðir upp af fuglseggjum eða jafnvel sjávarfangi, til dæmis
pétursskipinu.

Ein aðferð til að koma sér upp huliðshjálmssteini var að taka nýorpið hrafnsegg, sjóða það og setja síðan í hreiðrið aftur, þar sem krummi reyndi að klekja því út. Talið var að þegar hann gæfi það upp á bátinn græfi hann eggið í jörðu. Væri það tekið áður en krummi gróf það var huliðshjálmssteinninn sagður vera inni í því. Egg annarra fugla, til dæmis kjóa og músarrindils, gátu gert sama gagn. Í íslenskri galdrabók frá 17. öld birtust eftirfarandi leiðbeiningar um huliðshjálm:

Tak þér eitt hænuegg og lát þar í blóð undan stórutá á vinstra fæti. Síðan kom egginu undir fuglinn og lát hann unga. Síðan tak ungann og brenn á eik, síðan lát í einn línpoka og ber á höfði þér (443).


Í þjóðsögum Jóns Árnasonar eru leiðbeiningar um hvernig maður eigi að leita að töfrasteinum. Það mun best á páskadags- eða hvítasunnumorgunn undir sólaruppkomu. „Þá liggja allir steinar lausir á jörðu“ og er þeirra helst að leita við sjó þar sem eru rauðir sandar.

Óskasteinar og huliðshjálmssteinar koma stundum fyrir í íslenskum galdramálum. Í gamalli skræðu sem fannst í Skálholti um miðbik 17. aldar er galdur þar sem óskasteinn kemur við sögu. Árið 1680 var maður að nafni Jón Eggertsson á Ökrum í Skagafirði ákærður fyrir að fara með huliðshjálm en ekki kemur fram í dómskjölum hvort þar var um stein að ræða. Í Kormákssögu (9. kafla) er getið um lyfstein og lífsteinn er nefndur í Göngu-Hrólfs sögu (3. kafla og 25. kafla).

Að lokum vil ég til gamans vísa hér á skemmtilega frásögn á bloggsíðunni hjá Salvöru Gissurardóttur þar sem hún segir frá afleiðingum þess að magna íslenska náttúrusteina í ógáti. Fyrirsögn hennar er tilvísun í fallegt lag eftir Hildigunni Halldórsdóttur, svohljóðandi:

Fann ég á fjalli fallega steina.
Faldi þá alla, vildi þeim leyna.
Huldi þar í hellisskúta heillasteina,
alla mína unaðslegu óskasteina.

Langt er nú síðan leit ég þá steina.
Lengur ei man ég óskina neina
er þeir skyldu uppfylla um ævidaga.
Ekki frá því skýrir þessi litla saga.

Gersemar mínar græt ég ei lengur,
geti þær fundið telpa' eða drengur,
silfurskæra kristalla með grænu' og gráu,
gullna roðasteina rennda fjólubláu.

 

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir, frekara lesefni og mynd

  • Fornaldarsögur Norðurlanda I-III. Guðni Jónsson og Bjarni Vilhjálmsson sáu um útgáfuna. Forni, Reykjavík 1943-1944.
  • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson o.fl. sáu um útgáfuna, Reykjavík 1992.
  • Hall, Judy 2003: The Crystal Bible. A definitive guide to crystals. Godsfield Press, Hampshire, UK.
  • Íslendingasögur og þættirI-III. Bragi Halldórsson o.fl. sáu um útgáfuna. Bókaútgáfan Svart á hvítu, Reykjavík 1987.
  • Jón Árnason (safnaði) 1961-1968: Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I-VI. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðustu útgáfuna. Bókaútgáfan Þjóðsaga. Reykjavík. (1. útg. 1862-1864).
  • Matthías Viðar Sæmundsson 1992: Galdrar á Íslandi. Íslensk galdrabók. Vaka Helgafell, Reykjavík, bls. 443.
  • Ólína Þorvarðardóttir 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
  • Steinar. Gagnavefur Kennaraháskóla Íslands:
  • Mynd: Raven & nest. Flickr.com. Höfundur myndar er Kevin. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.

 


Fuglar himinsins og helgidagalöggjöfin

 fuglarhimins2 Loksins lét ég verða af því að mæta hjá Ólöfu Nordal, myndlistarkonu, til þess að gera mína eigin leirlóu í altaristöfluna sem sett verður upp í Ísafjarðarkirkju í sumar. Við hjónin drifum okkur á verkstæðið í Vestrahúsinu síðdegis í gær og gerðum hvort sinn fuglinn. Mín lóa er nr. 707 og hans nr. 708.  Þetta var ótrúlega gaman - þarna sá maður leirfugla í hundraða tali. Sumir báru með sér að vera gerðir af áköfum barnahöndum, aðrir voru haganleg smíði, og svo allt þar á milli. Eftir handverkið skráði maður nafn sitt í bók þar sem númer fuglsins kemur fram, og hér eftir getur maður dundað sér við - ef maður missir athygli prédikarans í kirkjunni - að finna fuglinn sinn í altaristöflunni.

 

Sagan sem varð kveikjan að þessu listaverki er svona: Þegar Jesú var lítill drengur fór hann að dunda sér við það á sunnudegi að búa til leirfugla - það voru lóur. Farísearnir komu að honum heldur þungir á brún og töldu það helgispjöll að vinna slíkt verk á sunnudegi. Ætluðu þeir að uppræta ósómann og brjóta fyrir honum fuglana. En í þann mund flugu fuglarnir til himins með fjaðrabliki og söng.

Mér kom í hug helgidagalöggjöfin, þegar ég heyrði þessa sögu. Í kvöldfréttunum í gær var sagt frá fólki sem ákvað að spila bingó á Austurvelli til þess að mótmæla skemmtanabanni föstudagsins langa. Lögreglan var á vappi í námunda og fylgdist með, en hafðist ekki að. Og hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að auðvitað var fólkið ekkert að gera af sér - samt var það að brjóta lögin. Leiðinleg klemma fyrir laganna verði að vera settir í þessa stöðu. Þeir hefðu sjálfir raskað helgidagafriðnum ef þeir hefðu farið að handtaka fólkið sem sat þarna með börnin sín og spilaði bingó. Fyrir vikið gerði löggan ekkert (sem betur fer) en braut um leið eigin starfsskyldur. Fáránleg staða.

Því skyldi fólk ekki mega gera sér glaðan dag á helgidegi? Gera eitthvað skapandi, eða bara skemmtilegt? Það þarf augljóslega að endurskoða þessa löggjöf.

Flest erum við hlynnt því að samfélagið haldi í heiðri reglur sem tryggja rétt fólks til þess að eiga "helga" daga. Þá er ég ekki að tala um hástemmda andaktuga daga, tileinkaða trúarlífi sem einungis hluti þjóðarinnar virðir í reynd, heldur daga sem fólk hefur fyrir sjálft sig: Daga helgaða friðsemd, afþreyingu eða hvíld frá daglegu amstri, daga þar sem fólk ráðstafar tíma sínum sjálft. Bann við ákveðnum tegundum skemmtana tryggir enga "helgi". Það er ekkert verra að spila bingó heldur en fara á skíði, fara á tónleika eða móta leirlóur á föstudaginn langa.

Lög samfélagsins eru ekki náttúruögmál - það þarf alltaf að vaka yfir þeim, endurskoða þau og bæta í takt við samfélagsþróunina. Og nú er sennilega kominn tími á helgidagalöggjöfina. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband