Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Faðirvorið milt og hlýtt með skuldunautum á beit

bænÉg man hvað Faðirvorið var mér mikil ráðgáta þegar ég var barn. Þegar mamma sagði "nú skulum við fara með faðirvorið" hugsaði ég ósjálfrátt um ilmandi vor kennt við föðurinn á himnum. Og í þessu milda vori reikuðu skuldunautin, skjöldótt og sælleg um iðagræn tún himnaríkis þar sem þau slöfruðu í sig safaríkt góðgresi. Umhverfis sveimuðu englarnir og dreifðu molum hins daglega brauðs niður af hvítum skýjahnoðrum, svona eins og þegar börnin gefa öndunum á tjörninni.

Já, merkingarfræðin var ekki beint að sliga barnshugann - enda má segja að sýn mín á inntakið hafi verið einhverskonar "innri skilningur" - sannur á sinn hátt.

Enn eru börn að læra Faðirvorið án þess að botna upp eða niður í merkingu þess. Þau fara bara með þuluna sína. Sjálf hef ég stundum hugsað mér að uppfæra bænina, til þess að fara skiljanlega með hana þegar kemur að því að setjast á rúmstokkinn með barnabörnunum og signa þau fyrir nóttina. Hef ég þá hugsað mér hana á þessa leið:

Faðir minn og móðir,
þú sem ert mér æðri,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki.
Verði  þinn vilji
svo á jörðu sem á himni.

Veit þú mér fæði, klæði og skjól.
Fyrirgef mér syndir mínar
og ég mun sjálf fyrirgefa öðrum.

Leiddu mig um réttan veg
og frelsa mig frá öllu illu,
því að þitt er ríkið
mátturinn og dýrðin
að eilífu.

Svo myndi ég að sjálfsögðu segja amen á eftir efninu. Halo

Þar með svifi barnið inn í svefninn á dúnléttum skýhnoðra eigin hugsana með ömmukoss á kinn. 

En ... amma sæti sennilega eftir um stund og um hana færi svolítill efafiðringur: Til hvers er maður að breyta bænum? Er rétt að svipta lítið barn hlýju og mildu faðirvori bernskunnar með skjöldóttum skuldunautum á beit?

 Woundering

 

 


Bænastund vegna ungs Ísfirðings

kertalog Ungur Ísfirðingur liggur nú milli heims og helju á gjörgæsludeild, með alvarlega höfuðáverka. Hann fannst illa á sig kominn í Höfðatúni í Reykjavík aðfararnótt laugardags - hafði farið að skemmta sér með jafnöldrum fyrr um kvöldið. Því lauk með þessum hætti - og enginn veit á þessari stundu hvernig líf hans verður eftir þetta. Hann er 26 ára gamall - fyrrverandi nemandi í Menntaskólanum á Ísafirði.

Hugur okkar Ísfirðinga er hjá honum og aðstandendum hans núna. Klukkan fimm í dag verður bænastund í Ísafjarðarkirkju.


Messa er ekki tónleikar

Sudureyrarkirkja Aftur þurfti kirkjukór Suðureyrarkirkju á liðstyrk að halda fyrir Hvítasunnumessuna sem jafnframt var fermingarmessa. Og aftur hringdi Lilja vinkona mín og kórsystir til að biðja mig um að hlaupa í skarðið líkt og fyrir ári síðan. Ég gerði það með gleði og var því mætt hin reffilegasta í messu í dag til að syngja með kórnum.

Að þessu sinni  naut ég góðs af því að hafa verið með í fyrra - kunni bara nánast allt, var meira að segja nokkuð klár á messusvörunum hans Bjarna Thorsteinssonar. Við komumst í gegnum "Heilagan" nokkurnveginn skammlaust held ég, og "Guðslambið" var bara bærilegt, takk fyrir. Wink

Það vakti hins vegar athygli mína að kirkjugestir tóku ekki mikinn þátt í söngnum. Mér finnst það synd satt að segja. Sjálf syng ég alltaf með í messum - nema þess sé beinlínis óskað að kirkjugestir geri það ekki. Að vísu fæ ég stundum augnagotur, en mér er alveg sama. Mér bara finnst að fólk eigi að syngja með. Messa er jú messa, ekki tónleikar.

Fjögur falleg ungmenni unnu fermingarheitið sitt hjá séra Agnesi Sigurðardóttur, prófasti sem þjónaði í Suðureyrarkirkju í dag. Það snart mig að þarna var tekið í notkun nýtt og fallegt altarisklæði sem ein af sóknarkonunum hefur saumað með eigin höndum og gefið kirkjunni í minningu móður sinnar - sem sjálf gaf kirkjunni samskonar klæði fyrir 50 árum. Undurfagurt  klæði - sannkölluð kærleiksgjöf.

Sólin lét ekki sjá sig - en samt fallegur dagur. Smile


... og hann hélst þurr

skardskirkja  Þegar ég í gærmorgun og horfði á rigningarsletturnar á rúðunni - þá stödd austur í Fellsmúla í Landsveit og framundan ferming þeirra frænda, Hjörvars míns og Vésteins hennar Halldóru systur - bað ég himnaföðurinn í hógværu hljóði um að gefa okkur svolitla uppstyttu rétt á meðan sjálf athöfnin stæði yfir - svo kirkjugestir kæmust nú þurrum fótum til og frá kirkju.

Hann hlustaði á mig blessaður - því rétt fyrir kl. 14.00 birti yfir Heklunni með P1000402 (Medium) (2)uppstyttu í Landsveit.

Fermingin fór vel fram - eins og minnar systur var von og vísa. Skarðskirkjan vel setin og fermingardrengirnir prúðmannlegir í fasi, fóru hátt og skýrt með kærleiksboðorð, litlu biblíuna og fyrstu fjögur boðorðin. Tóku í hönd hvers manns sem heilsaði þeim og báru sig vel.

Á eftir nutum við samvista við fjölskyldu, vini og vandamenn í Laugalandsskóla og enn hélst hann þurr. Halo

Ég er mínum himnaföður þakklát fyrir uppstyttuna ... og þennan góðan dag. Þakklát systur minni fyrir fermingarathöfnina, fjölskyldu minni og vinum fyrir að vera með okkur á þessum hátíðisdegi.

 

P1000399 (Medium)P1000401 (Medium)P1000404 (Medium)P1000415 (Medium)P1000410 (Medium)

 

  

 

 

 

 


Sumum er ekkert heilagt

Aðeins einu sinni eða tvisvar hefur að mér hvarflað að loka þessari bloggsíðu og hætta hér á moggabloggi en slíkar hviður hafa yfirleitt staðið stutt og jafnað sig. Nú hvarflar þetta að mér aftur - ástæðan er athugasemd sem ég hef ákveðið að eyða.

Í gleði minni yfir væntanlegri fermingu yngsta sonarins sagði ég frá því á síðunni hér í gær hvað til stæði og að ég myndi líklega ekki blogga fyrr en eftir helgi. Ekki bjóst ég við neinum athugasemdum svo sem - en það hefði verið gaman að sjá eins og eina hamingjuósk.

Hvað um það, eina athugasemdin sem kom við þessa færslu var svo sannarlega ekki hamingjuósk - í besta falli aulafyndni, en um leið lítilsvirðing við  fermingarbarnið og fjölskylduna. Lítilsvirðing við trú okkar og þá lífspeki sem við höfum valið að lifa eftir, þ.e. að vera meðlimur í hinni íslensku þjóðkirkju sem kristið fólk. 

Sumum er ekkert heilagt. Ekki einu sinni tilfinningar saklauss fermingarbarns sem bíður með tilhlökkun síns hátíðisdags.

 


Fermingarundirbúningur

P1000216 (Small) Þessa dagana snýst allt um fermingu yngsta sonarins sem verður á sunnudag, austur í Landsveit. Nánar tiltekið í Skarðskirkju. Þar ætlar hún Halldóra systir mín að ferma þá saman systrasynina Hjörvar (minn) og Véstein (hennar), rétt eins og hún skírði þá báða í sömu kirkju fyrir tæpum fjórtán árum.

Messan í Skarðskirkju verður helguð þeim frændum því þeir verða einu fermingarbörnin í kirkjunni þann daginn. Við vonumst því til að sjá sem flest ættmenni og vini við fermingarathöfnina sjálfa.P1000209 (Small)

Veislan verður svo haldin í Laugalandi í Holtum i beinu framhaldi af messunni - svo það má segja að þetta sé allt í leiðinni fyrir þá sem á annað borð gera sér ferð austur til að vera með okkur.

 

 

 Jebb ... þannig að nú er fjölskyldan komin á Framnesveginn þar við erum svona að búa okkur undir herlegheitin. Ljósmyndataka í fyrramálið - svo verður farið austur að setja saman kransatertur, leggja á borð og gera klárt fyrir gestina á Sunnudag.

 P1000210 (Small)  Það verður því lítið bloggað fyrr en eftir helgi - ef að líkum lætur.

 


Mannabein og galdur

agishjalmur Hefðu "eigendur" hauskúpunnar sem fannst í Kjósinni verði uppi á sautjándu öld er nokkuð víst að þeir hefðu verið brenndir á báli sem sannreyndir galdramenn. Meðferð mannabeina í þá tíð var álitinn skýlaus vottur um fjölkynngi og ekkert annað.

Jafnvel dauðir menn voru brenndir ef í ljós kom að þeir höfðu eitthvað slíkt á sér. Það gerðist til dæmis árið 1650 þegar Jón Sýjuson var hálshöggvinn á alþingi fyrir blóðskömm. Þá uppgötvaðist eftir aftökuna að í skónum hans var hárug hausskel af manni. Höfðu menn nú snör handtök og brenndu líkið til ösku.

Meðferð mannabeina eða annarra líkamsleifa á borð við hár, neglur, jafnvel húð er þekkt í tengslum við galdraiðju og flokkast undir það sem kallað er necromantia. Í doktorsritgerð minni Brennuöldinni sem kom út árið 2000, gef ég þessu íslenska heitið náníð og tengi við myrkari gerðir galdurs á borð við þær að vekja upp og særa fram anda framliðinna. Um þetta eru þó skiptar skoðanir.

Það hljómar sjálfsagt undarlega í flestra eyrum, en þess eru dæmi enn í dag að iðkendur galdra notist við slík hjálpartæki. Til eru nornir og galdrafræðingar sem líta á líkamsleifar sem fullkomlega eðlileg meðul við galdraiðju og telja grafarmold til nauðsynjahluta. Bandaríska nornin Silver Raven-Wolf sem hefur skrifað nokkrar bækur um hagnýtan galdur, er í þeirra hópi. Ein þekktast norn á Norðurlöndum, danska galdrakonan Dannie Druehyld, talar að vísu ekki um mannabein í sinni fallegu bók Heksens håndbog, en hún er sannfærð um mátt grafarmoldar. Woundering 

Ekki veit ég hvað hjólhýsafólkinu sem hafði hauskúpuna hjá sér gekk til - og ekki ætla ég að bera galdur upp á neinn. En það er hugsanlegt að þessi höfuðskel hafi einhverntíma þjónað öðru hlutverki en því að vera stofustáss. Wink

 


mbl.is Hauskúpan var meðal húsmuna í hjólhýsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagurt er rökkrið við ramman vætta söng

þrettándabrenna Það er einhver dulræn helgi yfir þrettándanóttinni - rökkrið aldrei fegurra en þá, sjáist til himins á annað borð.

Næsta sólarhringinn hverfur ljós af tungli. Þá er eins og veröldin haldi niðri í sér andanum þar til tungl kviknar á ný. Þegar svo stendur á er best að fara sér hægt, bíða úrlausnar og nýrra tækifæra. Leyfa sálinni að hvílast eins og barni sem sefur um nótt. Innan tíðar kviknar nýtt tungl, með vaxandi þrótti og framkvæmdagleði. 

Margir finna mun á sér eftir tunglstöðunni.  Ég veit t.d. að ég var ekki sú eina sem átti erfitt með að vakna í morgun  Wink  þó ég hafi sofnað á skikkanlegum tíma við lestur góðrar bókar í gær. Ýmsir velta því sjálfsagt fyrir sér hversvegna þeim gengur stundum illa að vakna - og láta sér ekki detta í hug að setja það í samband við ný eða nið - nú eða loftþrýstinginn, þegar lægðir eru á leiðinni.

En nú fer sumsé dulmögnuð nótt í hönd. Vættir á kreiki, álfar og huldufólk - kýrnar tala í fjósunum. Á þrettándanum og nýjársnótt gátu menn setið úti á krossgötum og leitað fregna um framtíðina. Þegar leið á nótt komu álfarnir og buðu útisetumanninum gull og gersemar. Mikið lá þá við að segja ekkert og líta ekki á gullið - því væri það gert hvarf það allt jafnóðum. En ef menn gátu setið á sér og þagað afskiptalausir til morguns féll þeim allt í skaut sem lagt var fyrir þá um nóttina.

Því fór illa fyrir karlgarminum sem hafði staðið af sér freistingarnar allt framundir morgun. En rétt fyrir dögun dró huldukonan upp tólgarplötu og bauð karli. "Sjaldan hef ég flotinu neitað" sagði þá sá gamli - og þar með hurfu honum gersemarnar eins og dögg fyrir sólu.

 Ýmsar sögur eru til af jóla- og nýjársgleði álfa og tiltektum þeirra á þrettándanum. Héldu þeir dýrindis veislur og lögðu undir sig heilu bæina meðan fólk var við messu. Oft var einhver maður látinn gæta bæjarins á meðan annað fólk sótti kirkju, og gat þá gengið á ýmsu. Sumir urðu ærir eftir samskiptin við álfana, aðrir sýndu ráðsnilld og hugrekki og urðu gæfumenn æ síðan. Hér læt ég fylgja eina sögu sem ég fann á netinu um Jólanótt í Kasthvammi.

Góða skemmtun í kvöld - þið sem ætlið að brenna út jólin.

 


Hver var Jón lærði?

 Islandsnatturur  Ekki alls fyrir löngu fékk ég fyrirspurn frá Vísindavefnum um Jón lærða Guðmundsson, þann fróðleiksfúsa, sérstæða og drenglundaða mann sem kunni ekki að koma sér vel við höfðingja, og varð því einhverskonar útlagi í eigin föðurlandi mestalla ævi. Hann lifði á 17. öld og er meðal þeirra fyrstu sem dæmdir voru á alþíngi fyrir kukl og galdur. Hélt þó lífinu.

Söguþyrstir lesendur geta kynnt sér ságrip af sögu hans hér fyrir neðan:

Jón lærði Guðmundsson var sjálfmenntaður alþýðumaður og náttúruskoðari. Saga hans er raunaleg lífssaga manns sem var uppi á “þeirri öld sem spillti upplagi hans og hæfileikum” eins og Páll Eggert Ólason orðaði það (PEÓ 1942, 263).

Hann var fæddur í Ófeigsfirði á Ströndum árið 1574, varð snemma áhugasamur um verkan náttúrunnar, einkum grasa og jurta til lækninga. Á þeim árum var læknisfræði landsmanna ekki á háu stigi og meðferð lyfja nánast talin til varnargaldurs, a.m.k. ef óskólagengnir menn höfðu þau um hönd. Jón var einnig áhugasamur um rúnir og fornrit auk þess sem hann var sjálfur mjög hjátrúarfullur og sannfærður um tilvist álfa og anda.

Jón mun hafa verið blendinn í lund, “heiftugur í skapi, sérvitur og fullur hjátrúar og pápískur í trú” ef marka má formálsorð Guðbrands Vigfússonar að þjóðsögum Jóns Árnasonar (JÁ I, 1862, xi). Hann var hins vegar hagur maður til munns og handa, smiður góður, listaskrifari og málari, enda oft nefndur Jón málari. Margir leituðu til hans um smíðar og viðgerðir, en þess voru einnig dæmi að liðsinnis hans væri óskað til þess að fyrirkoma draugum og öðrum óhreinleika. Frægustu aðgerðir hans í því efni urðu þegar hann kvað niður reimleika á Snæfjallaströnd - Snæfjalladrauginn svonefnda – með kveðskap sem varðveist hefur í handritum (Fjandafæla, Snjáfjallavísur og Umbót eður friðarhuggun).

Til er samtímaheimild frá árinu 1627 um það hvaða augum menn litu iðju Jóns lærða. Í riti sem nefnt hefur verið Hugrás, skrifað af séra Guðmundi Einarssyni á Staðarstað, prófasti í Snæfellssýslu, er rætt um lækningaviðleitni Jóns lærða. Þar segir að Jón hafi “hendur yfir sjúka lagt, með lesningum og bænum og þvílík sín þjónustugjörð hafi í þann tíma svo þökkuð verið svo sem hjálp og aðstoð af himnaföðurnum sjálfum” (Lbs 494 8vo, bl. 92r).

Jón lærði var talinn ákvæðaskáld (sjá skýringu neðar) og sú saga fór af honum að hann kynni margt fyrir sér, m.a. að kveða niður drauga. Mestu mun þó hafa ráðið að hann lenti í útistöðum við Ara Magnússon, sýslumann í Ögri í Ísafjarðardjúpi í framhaldi af Spánverjavígunum 1615 (Jónas Kristjánsson 1950). Ari í Ögri var á þeim tíma einn helsti héraðshöfðingi landsins, ráðríkur og aðgangsharður ef því var að skipta. Ari stóð fyrir því að fjöldi Spánverja (Baska) var veginn í tveimur aðförum sem áttu sér stað í Dýrafirði og Æðey í Ísafjarðardjúpi í októbermánuði það ár. Vígin mæltust misvel fyrir, og Jón lærði var þeirrar skoðunnar að með þeim hefði verið framið ódæði gegn varnarlausum skipbrotsmönnum. Skrifaði hann um þessa atburði Sanna frásögu af spanskra manna skiptbrotum og slagi þar sem hann tók málstað Baskanna. Í framhaldi af því reis í sveitinni “rógurinn mikli / með fölskum bréfum / og forráðs lygi” eins og hann segir sjálfur í ævikvæði sínu Fjölmóði (Safn til sögu Íslands,  31-85). Með þessum skrifum kallaði Jón yfir sig óvild Ara sýslumanns, var í framhaldinu kærður fyrir galdra og flosnaði upp frá fjölskyldu og börnum um hávetur.

Það má teljast athyglisvert að Jón lærði skyldi hafa komist hjá því að verða brenndur á báli. En hann var dæmdur útlægur með dómi sem gekk á Bessastöðum sumarið 1631. Leitaði hann þá á náðir yfirdóms í Kaupmannahöfn sem vísaði málinu aftur til Alþingis, og þar var útlegðardómur hans staðfestur árið 1637. Eftir það var Jón lærði útlægur úr öllum ríkjum og löndum konungs nema konungur vildi honum “meiri náð sýna” (Alþb. V, 483).

Jón fór þó aldrei af landi brott, og segir í Skarðsárannál að engir kaupmenn hafi fengist til að taka hann á skip (Annálar I, 251). Hann var því á vonarvöl síðustu ár ævi sinnar, og hafðist að mestu við í Múlaþingi.

Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup segir í bréfi til  Óla Worms árið 1649 að Jón Guðmundsson eyði nú elliárum sínum úti í landshorni þar sem hann eldist ónýtur sjálfum sér og öðrum (Breve... III, 379). Er því vart ofmælt að ævi Jóns lærða hafi verið raunaleg lífssaga manns sem lifði erfiða tíma ogt fékk því aldrei fékk notið hæfileika sinna sem vert hefði verið.

 

Heimildir

  •  Alþingisbækur Íslands I-X. Reykjavík 1912-1967.
  • Annálar 1400-1800 I-VII. Reykjavík 1922-1998.
  • Breve fra og til Ole Worm I-III. Kaupmannahöfn 1965-68.
  • Einar G. Pétursson 1998: Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða I-II. Reykjavík.
  • Ólína Þorvarðardóttir 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölu og munnmælum. Reykjavík.
  • (PEÓ) - Páll Eggert Ólason 1942: Saga Íslendeinga V. Seyjánda öld. Reykjavík.
  • Safn til sögu Íslands V (nr. 3). Páll Eggert Ólason ritaði inngang og athugasemdir. Reykjavíkl 1916.
  • Jón Árnason (safnað hefur) 1862-1864: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri I-II. Leipzig
  • Jónas Kristjánsson 1950: Spánverjavígin 1615. Sönn frásaga eftir Jón Guðmundsson lærða og Víkingarímur. Kaupmannahöfn.

  • Handrit: Lbs 494 8vo, bl. 92r

[1] Ákvæðaskáld eða kraftaskáld nefndist það fólk sem gat með kveðskap haft áhrif á velfarnað manna og atburði. Talað var um að ummæli slíkra einstaklinga yrðu að áhrínisorðum, þ.e. að þau kæmu fram. Meðal frægra kraftaskálda má nefna sr. Hallgrím Pétursson, sr. Snorra Björnsson í Húsafelli, Þormóð í Gvendareyjum, Jón lærða o.fl.


Góð messa á fallegum degi

Sudureyri Það rættist úr helginni - svei mér ef það er ekki bara að koma vor.

Hvítasunnudagurinn í gær skein á himni "skír og fagur" eins og segir í sálminum góða. Ég mætti í fermingarmessu á Suðureyri og söng þar eins og herforingi með kirkjukórnum. Það gekk bærilega. Séra Karl V. Matthíasson hljóp í skarðið fyrir sóknarprestinn (sem var sjálfur að ferma sitt eigið barn í annarri sókn) og kom nú í sitt gamla prestakall - þangað sem hann vígðist sjálfur til prests fyrir 20 árum. Vel messaðist séra Karli og fallega fermdi hann börnin fjögur.

Það er ekki öllum prestum gefið að messa þannig að stundin lifi í sál og sinni eftir að henni er lokið. En séra Karl hefur einstaklega persónulega og hlýlega nærveru - og hann heldur nærverunni þótt kominn sé í fullan messuskrúða. Hann gerði þetta vel.

Ég hef ekki komið áður í Suðureyrarkirkju. Þetta er falleg lítil kirkja - og það var gaman að fá að vera með í þessari helgistund á sannkölluðum "drottins degi" - takk fyrir mig.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband