Glimrandi tónleikar; handleggsbrotinn stjórnandi; börn í yfirliði ... semsagt: Viðburðaríkt kvöld

valkyrjurdes06Tónleikarnir okkar Valkyrjanna og stúlknakórsins tókust glimrandi vel í gærkvöldi. Ég fann röddina aftur. Því fór nú ekki eins og Leirverjinn Björn Ingólfsson hafði spáð mér þegar ég kveinkaði mér undan raddþreytu fyrr um daginn:

Frekar illa er frúin stödd,
frá því okkur segjandi
að hún hafi enga rödd
og ætli að syngja þegjandi. Whistling

 

Tónleikarnir tókust bara vel, held ég. Að minnsta kosti var ekki annað að sjá og heyra á tónleikagestum. Að vísu leið yfir eina stúlkuna í blálokin á tónleikunum, en það náðist að grípa hana áður en hún skall í gólfið. Daginn áður hneig önnur stúlka í yfirlið á æfingu, þannig að þið sjáið að það getur gengið á ýmsu þegar mikið stendur til.

 Eftir tónleikana komum við saman til þess að halda upp á vel heppnað kvöld. Þá vildi ekki betur til en svo að stjórnandinn okkar rann í hálkunni framan við húsið og handleggsbrotnaði. Frown

Þetta skyggði verulega á gleðina - enda varð uppi fótur og fit með tilheyrandi pilsaþyt og rassaköstum eins og gengur í kvennahópi. Það var hringt á sjúkrahúsið og útvegaður bíll. Aumingja Ingibjörgu var troðið í aftursætið með blessunarorðum og fyrirbænum okkar hinna.  Svo var brunað með hana sárkvalda á slysavarðstofuna þar sem búið var um brotið.

Við hinar þurftum að sjálfsögðu að fá okkur hjartastyrkjandi á meðan við biðum þess að fá fréttir af afdrifum Ingibjargar. Já, við þurftum líka að syngja svolítið til þess að róa okkur. Það tók svolitla stund. Svo þegar ljóst var að kórstjórnandinn var beinbrotin, var ekki annað tekið í mál en að ekið yrði með hana framhjá húsinu, svo við gætum komið að bílnum, kysst hana og knúsað í kveðjuskyni.

Já, það er ekki þrautalaust að halda tónleika. Þetta var svo sannarlega viðburðaríkt kvöld og verður lengi í minnum haft.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------- 
PS: Myndin hér fyrir ofan er tekin 2006, stuttu eftir að kórinn var stofnaður.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband