Færsluflokkur: Bloggar

Leiðari Moggans í dag - ójöfnuður umræðunnar.

Vestfirdir Ég las leiðara Moggans í morgun, og fyrir eyrum mér ómaði rifhljóðið sem kemur í kvikmyndunum þegar alvarleg vonbrigði ríða yfir einhvern. Eftir gleðina sem fyllti mig þegar ég sá ítarlegar og góðar fréttir á forsíðu og í miðopnu blaðsins í gær um opinn baráttufund á Ísarfirði um framtíð byggðar á Vestfjörðum, var leiðarinn í morgun eins og blaut tuska í andlitið. 

Þar segir: 

Af frásögnum af fundinum að dæma var stjórnvöldum að flestu leyti kennt um og flestar þær hugmyndir og kröfur, sem viðraðar voru á fundinum, gengu út á aukin ríkisútgjöld eða ríkisafskipti af einu eða öðru tagi til að rétta hlut Vestfjarða.

Svo segir:

Nú stendur fyrir dyrum mikið átak í samgöngumálum á Vestfjörðum, sem mun stuðla að því að jafna stöðu þeirra miðað við aðra landshluta að þessu leyti, þótt því verki sé að sjálfsögðu fjarri því lokið. 

Loks þetta:

Hitt er svo annað mál, að opinber störf munu aldrei verða undirstaða byggðar eða atvinnulífs í neinu landi eða landshluta. Lífvænleg byggðarlög byggjast á þróttmiklu atvinnulífi, sem einkaframtakið stendur undir.

 

Jæja, nú er tímabært að leggja orð í belg.

Í fyrsta lagi var fundurinn á Ísafirði ekki ákall um ríkisforsjá - hann var krafa um leiðréttingu.

Auðlindir Vestfirðinga voru frá þeim teknar með einu pennastriki þegar núverandi kvótakerfi var komið á. Það var gert með stjórnvaldsákvörðun. Það þarf stjórnvaldsákvörðun til þess að leiðrétta það misrétti sem þessi landshluti hefur mátt búa við síðan.

Hverjir setja samfélagi okkar leikreglur - eru það ekki stjórnvöld? Eða eiga Vestfirðingar kannski að vera undanþegnir stjórnvaldsákvörðunum að mati leiðarahöfundar? Hverjir skapa skilyrðin fyrir atvinnuvegina og einkareksturinn? Eru þau skilyrði ekki sköpuð með lagasetningum og ákvörðunum stjórnvalda? Um hvað er leiðarahöfundur Morgunblaðsins eiginlega að tala?

Þegar því er haldið fram að nú standi fyrir dyrum"mikið átak í samgöngumálum á Vestfjörðum" vil ég benda á að það "mikla átak" hefur staðið fyrir dyrum í 44 ár - það var fyrst sett fram í byggðaáætlun árið 1963!

 Í frábærri grein sem Kristinn H. Gunnarsson skrifar á bb.is í dag - og ég hvet alla til að lesa - eru raktar nokkrar staðreyndir um stærðargráður í þessu sambandi.

Kristinn bendir á að á sama tíma og stjórnvöld gera ráð fyrir 10 milljónum á ári í þrjú og hálft ár til Vestfirðinga setti Landsvirkjun milljarða króna í rannsóknir og undirbúning að virkjun við Kárahnjúka og að framkvæmdin ásamt álveri losar 200 milljarða króna. "Í Þingeyjarsýslum er verið að setja mikla peninga til þess að koma á fót álveri við Húsavík" segir Kristinn og bendir á að m.v. núverandi áætlanir vaxtasamnings Vestfjarða um fjárframlög ríkisins til atvinnumála á svæðinu tæki það ríkið eina öld að verja 1 milljarði króna til atvinnumála á Vestfjörðum, "það er að segja ef einhver trúir því að vaxtarsamningurinn verði framlengdur um 97 ár."

Ekki nóg með þetta. Kristinn - sem er stærðfræðingur - hefur reiknað það út að vaxtar-samningur í eina öld er samt ekki nema 0,5% af Austfjarðaátaki ríkisstjórnarinnar. Það myndi því taka 200 aldir með sama áframhaldi að ná "Kárahnjúkaumfangi" á Vestfjörðum.

Þetta er málið í hnotskurn - og verðugt íhugunarefni fyrir leiðarahöfund Morgunblaðsins sem og Íslendinga alla.

 


Frábær stemning á fundinum - en stjórnarþingmanna var saknað

LifiVestfirdirJá, það var synd að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins skyldi sjá sér fært að mæta til þessa frábæra borgarafundar sem við héldum á Ísafirði í gær. Að þeir skyldu ekki senda einhvern fulltrúa þingliðsins til fundarins, t.d. varaþingmann, til þess að bera fundinum kveðju og sýna á einhvern hátt að þeir vildu deila með okkur áhyggjum af stöðu mála. Ó, nei.

Þeir vöktu hrópandi athygli með fjarveru sinni - jafnvel reiði - og satt að segja held ég það sé verst fyrir þá sjálfa að hafa ekki sýnt þessu meiri umhyggju.

En það var ánægjulegt að sjá mætingu annarra þingmanna og rétt að geta þeirra sem komu (í stafrófsröð):

Anna Kristín Gunnarsdóttir, Guðjón Arnar Kristinsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhann Ársælsson, Jón Bjarnason og Kristinn H. Gunnarsson.

 Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra var löglega forfallaður eins og þjóð veit, og bað fyrir kveðju á fundinn. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lét vita af því að hann yrði staddur erlendis en hann myndi kynna sér umræður fundarins og ályktun. Sigurjón Þórðarson lét einnig vita af eðlilegum forföllum. Vestfirðingarnir Einar K. Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson svöruðu ekki fundarboði.

 Jæja, en Vestfirðingar létu sig ekki vanta - húsið var troðfullt upp í rjáfur. Og hafi einhver verið í vafa um hug íbúanna og vilja þeirra í málefnum svæðisins, þarf ekki að velkjast í vafanum lengur. Þvílík rífandi stemning!

 Margt var rætt og lagt til mála. Upp úr stóð að mínu viti þetta: Háskóli á Ísafjörð, tafarlausar samgöngubætur með jarðgöngum suður um, úrbætur í fjarskiptum og lækkun flutningskostnaðar. Þetta eru þau úrræði sem ganga þarf í strax! Það er jafn ljóst að nú láta íbúar sér ekki lengur lynda loðmulluloforð um eitthvað sem sé handan við hornið eða "á áætlun", kannski árið 2018. Neibb - nú vilja menn ekki fleiri orð, heldur efndir!

 Á fundinum var samþykkt ályktun sem ég læt fylgja hér fyrir neðan. En fundurinn skoraði líka á nærstadda þingmenn að hittast strax og móta sameiginlegar tillögur um úrbætur í málefnum Vestfjarða. Var því vel tekið, og afráðið þarna á staðnum að boða þingmenn svæðisins til fundar kl. 13:00 í dag.

 

Guð láti gott á vita - það verður fylgst með því hvað út úr þessu kemur.

 

En hér kemur sumsé ályktun fundarins:

Opinn borgarafundur, haldinn í Hömrum á Ísafirði sunnudaginn 11. mars 2007, skorar á fulltrúa Vestfirðinga á alþingi og í sveitarstjórnum, hvar í flokki sem þeir standa, að taka höndum saman, leggja flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinast um þau brýnu úrlausnarefni sem við blasa í atvinnu- og byggðamálum hér á Vestfjörðum.  Fundurinn krefst þess að stjórnvöld standi við marg- ítrekuð loforð og stefnumótun um uppbyggingu Ísafjarðar sem eins af þremur byggðakjörnum utan höfuðborgarsvæðisins. Ennfremur að þessu svæði verði settar sanngjarnar leikreglur með ákvörðunum um nauðsynlegar framkvæmdir í samgöngumálum, tilfærslu opinberra starfa og eðlilegt aðgengi að fjármagni.  Mikið vantar á að þetta landsvæði njóti jafnræðis á við aðra landshluta varðandi samgöngur, fjarskipti, flutningskostnað, menntunarkosti og almenn skilyrði í atvinnulífi.  Beinir fundurinn því til frambjóðenda stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi að mæta til kosningabaráttunnar nú í vor með haldbærar tillögur um framtíð byggðar á Vestfjörðum.   Við köllum eftir samstöðu þings og þjóðar gagnvart þeim vanda sem Vestfirðingar standa nú frammi fyrir.    

 


mbl.is Stjórnvöld standi við margítrekuð loforð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttufundur í Hömrum kl. 14:00

Það verður baráttufundur í Hömrum á Ísafirði í dag (sunnudag) kl. 14:00.

Vestfirskir borgarar munu þar eiga orðastað við sína fulltrúa á þingi og í sveitarstjórnum um stöðu mála hér fyrir vestan, búsetu- og atvinnuhorfur. Ég hef verið að tjá mig um þessi mál hér á bloggsíðunni og í blöðunu að undanförnu - og það sýður á mér enn. Sérstaklega þegar ég hugsa um öll loforðin sem gefin hafa verið þessum landshluta í aðdraganda kosninga, allan fagurgalann í byggðaáætlunum og vaxtasamningum - úff!

 Ég segi bara eins og fleiri, það er tímabært að þjóðin og ráðamenn hennar geri það upp við sig hvort eigi að vera byggð í landinu eða ekki. Og ef það á að vera byggð - að gera þá það sem þarf til að hún fái þrifist.

Vona að það verði góð mæting - en veðurspáin er slæm þannig að það horfir ekkert sérlega vel með flug. Við sjáum hvað setur.

 

Lifi Vestfirðir!


Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

fermingarstulkaÉg kenni í brjóst um vesalings stúlkuna sem í sakleysi sínu stillti sér upp fyrir myndavélina með bros á vör og beygði sig eftir bangsanum - að fá svo yfir sig aðrar eins lýsingar og þær sem Guðbjörg Kolbeins hefur sett fram. Túlkun Guðbjargar á þessari tilteknu mynd - öllu heldur framsetning hennar á túlkun sinni - er allt of skefjalaus að mínu mati.

Hitt er svo staðreynd að það er rík tilhneiging til þess að hlutgera konur í auglýsingum, og sú tilhneiging er farin að teygja sig ansi langt niður eftir aldursskalanum. Við megum heldur ekki gleyma því. Ég get að vissu leyti tekið undir með þeim sem telja að stúlkan sé of fullorðinslega klædd fyrir þetta bangsaumhverfi - þá horfi ég kannski fyrst og fremst á netsokkabuxurnar og háu hælana, sem trúlega vekja ákveðin hugrenningatengsl hjá fólki.

En það er ekki sama hvernig hlutir eru sagðir. Hér á í hlut 14 eða 15 ára stúlka sem lét taka af sér mynd. Þeirri myndatöku var áreiðanlega stjórnað af fullorðnu fólki sem hún treystir væntanlega. Við skulum ekki gleyma því að ungar stúlkur vilja vera fullorðinslegar þegar þær eru komnar á fermingaraldur, og fermingin er ákveðin innganga í heim fullorðinna. Það var a.m.k. sagt hér áður fyrr að við fermingu kæmist maður "í fullorðinna manna tölu". 

Það þarf ekki að vera neitt óeðliliegt þó myndin sýni einmitt fullorðinslega stúlku sem er samt barn: Skörun tveggja heima, barns og fullorðins. 

 


Vestfirðir lifi

Jæja, nú er allt að gerast. Til er orðinn þverpólitískur hópur almennra borgara á Ísafirði sem kalla sig “lifi Vestfirðir”. Við höfum unnið hörðum höndum undanfarna daga að undirbúningi opins baráttu- og hvatningarfundar sem verður haldinn í Hömrum á Ísafirði nú á sunnudag (11. mars) kl. 14:00. Nú er hugur í mönnum og auðfundið að allir sem leitað er til vilja leggja þessu framtaki lið. Mugison ætlar að koma og spila, kvennakórinn Valkyrjurnar ætla að syngja, og fjöldi manns mun taka til máls. Það er einhver afar sérstök stemning í loftinu.

Tilefni fundarins eru þær blikur sem nú eru á lofti í atvinnumálum Vestfjarða í kjölfar gjaldþrots byggingafyrirtækisins Ágústs og Flosa, lokunar Marels á Ísafirði, uppsagna hjá Símanum og rannsóknaþjónustu Agars  auk fregna af samdrætti og uppsögnum víðar að úr fjórðungnum á undanförnum mánuðum.

Nú er bara nóg komið – það verður eitthvað að gera til að snúa þróuninni við. Þó ekki væri annað en að vekja ráðamenn til umhugsunar og íbúa svæðisins til sjálfsbjargar.

Sveitastjórnar- og þingmenn Vestfjarða eru sérstaklega hvattir til þess að  mæta til fundarins og hlusta á raddir íbúanna og áhyggjur. Fundurinn er ákall til stjórnvalda og  kjörinna fulltrúa Vestfjarða, hvar í flokki sem þeir standa, að taka höndum saman, leggja flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinast um þau brýnu úrlausnarefni sem við blasa í atvinnu- og byggðamálum hér á Vestfjörðum.  

Það er löngu tímabært að Vestfirðir fái að sitja við sama borð og aðrir landshlutar varðandi almenn skilyrði í atvinnulífi, samgöngur (þ.m.t. flutningskostnað), fjarskipti, menntunarkosti, þekkingar- og þróunarmöguleika og fleira. Þetta landssvæði hefur lagt ríkulegan skerf til þjóðarbúsins og ætti að sjálfsögðu að standa jafnfætis öðrum landshlutum varðandi almenn búsetuskilyrði. Því fer þó fjarri og nú erum við að súpa seyðið af óhagstæðum samkeppnisskilyrðum.

Við erum ekki að kalla eftir ríkisforsjá eða einhverskonar ölmusu. Þvert á móti erum við einfaldlega að kalla eftir sanngjörnum leikreglum – hugarfarsbreytingu – jafnræði!

Jöfnuður felst ekki endilega í því að allir fái það sama, heldur að hver fái það sem honum ber og hann þarfnast! Því finnst mér vel koma til greina að veita nú Vestfjörðum tímabundinn forgang við ákvarðanatöku um framkvæmdir og fjárstreymi, þar til þessi landshluti stendur jafnfætis öðrum.

Að lokum þetta:

Um samgöngumálin er spjallað og spurt
sú speki nær fáa að laða,
greiðustu leiðirnar liggja í burt
og lakfært er milli staða.

Því er orðin þörf á dyggð
gegn þessu sem nefnt er að framan,
og víst er það að vestfirsk byggð
verður að standa saman!

Hvers vegna?

ÍsafjörðurÉg er af og til spurð hvers vegna ég vilji búa “þarna fyrir vestan”, eins og það er jafnan orðað. Spurningunni fylgir sami svipurinn og kemur á fólk þegar það talar um “fjárstreymið til  landsbyggðarinnar” eins og nauðsynleg byggðaúrræði nefnast stundum einu  nafni.

En sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir ýmsa erfiðleika sem dunið hafa yfir þetta landssvæði, þá er gott að búa hér. Og við sem hér viljum búa eigum ekki að þurfa að réttlæta þá ákvörðun okkar fyrir neinum. Við eigum einfaldlega að sitja við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að almennum búsetuskilyrðum. Við greiðum okkar skatta og skyldur, og landshlutinn í heild sinni er drjúg uppistaða þjóðartekna.

Það er því löngu tímabært að Vestfirðir fái að búa við samskonar samgöngur, fjarskipti, flutningskostnað, menntunarkosti og almenn skilyrði í atvinnulífi – að hann sé samkeppnisfær. Til þess þarf ákvarðanir um framkvæmdir í samgöngumálum, tilfærslu verkefna á vegum hins opinbera, aðgengi að fjármagni og síðast en ekki síst sanngjarnar leikreglur!

Meira um það síðar.


Með bronsið um hálsinn!

blak Er komin heim af Bresa-mótinu í blaki sem fram fór á Akranesi um helgina - með brons um hálsinn! Jebb, hvorki meira né minna.  

Þetta var aldeilis hreint frábær helgi. Við Skellurnar frá Ísafirði ókum suður á föstudaginn og skiptum okkur á tvo bíla. Það var leiðinda skafrenningur og þæfingur á Steingrímsfjarðarheiði, og minnstu munaði að þær í hinum bílnum lentu í óhappi efst á heiðinni. Þær óku fram á stóran flutningabíl sem var að hífa upp jeppa sem hafði farið út af (raunar þekki ég ökumann þess bíls, en hann hafði lent út af með a.m.k. eitt barn í bílnum - mildi að enginn slasaðist). Flutningabíllinn var ekki með hazardljósin á, og þar sem þarna var skafrenningur, kóf og lélegt skyggni, mátti engu skakka að þær færu bara beint á flutningabílinn. Þar skall hurð nærri hælum, og mátti ekki á milli sjá hvorum var meira brugðið, þeim eða flutningabílstjóranum. Þetta fór sem betur fór vel, en verður aldrei of oft brýnt fyrir þeim sem vinna á vegum úti að hafa merkingar og forvarnir í lagi - sömuleiðis fyrir ökumönnum að haga akstri eftir aðstæðum. 

Jæja, við komumst heilar á húfi í sumarbústaðinn sem við fengum á Birfröst. Á laugardeginum var svo mætt til leiks á Akranesi þar sem konur á öllum aldri (og nokkur karlalið reyndar líka) kepptu af miklum móð. Þarna voru m.a. konur komnar á sjötugsaldur sem stóðu sig eins og hetjur, hreint út sagt. Þær sýndu og sönnuðu að það er ekki allt fengið með líkamlegri snerpu og ungdómi - þetta voru sannakallaðir reynsluboltar með staðsetningar og taktíkina alveg á hreinu. Flottar konur og frábærar fyrirmyndir. Ég hafði búið mig undir að vera mest á varamannabekknum - af því ég er byrjandinn í liðinu. En atvikin höguðu því þannig að ég lék tvo fyrstu leikina (við unnum annan en hinn var jafntefli) og hluta af þeim þriðja (sá leikur tapaðist). Loks  kepptum við (ég á varamannabekknum að vísu) um bronsið í deildinni - og unnum.  Ligga ligga lá!!  

Það var frábært að leggjast svo í heita pottinn um kvöldið og horfa á tunglmyrkvann beint fyrir ofan okkur þar sem við létum fara vel um okkur með verðlaunapeninga um háls og ljúfar veigar við hönd.  Enda var glatt á halla fram eftir þessari fallegu nóttu! Vonandi fæ ég einhverjar myndir frá ævintýrum helgarinnar til þess að setja á síðuna einhverntíma á næstu dögum.

Yngsti sonur minn, hann Hjörvar sem er 13 ára, fór líka á keppnismót um helgina - fótboltamót á Akureyri. Hann kom heim með tognaðan lærvöðva blessaður - en samt ánægður. Liðið hans lék fimm leiki, vann tvo leiki og gerði eitt jafntefli. Þegar við mæðgin tókum á okkur náðir í gærkvöldi lagðist hann í bólið sitt blessaður með klakapoka við lærið - vitandi betur en fyrr, að enginn verður óbarinn biskup.


Boltum léttum blaka rjóð ...

solheimajokull07Í vetur hef ég verið að upplifa alveg nýja hluti í lífi mínu – atburði, félagstengsl og athafnir sem mig hefði aldrei órað fyrir að ég ætti eftir að verða þátttakandi í. Ég er orðin meðlimur í björgunarsveit Vestfjarða, farin að spila blak með Skellunum á Ísafirði, hef verið að syngja í tveimur kórum, Sunnukórnum og nýstofnuðum kvennakór sem nefnist Valkyrjurnar.

Dæmigerð vikan hjá mér gæti sumsé byrjað með fræðslufundi á mánudagskvöldi, þá er blakæfing og kór á þriðjudegi, síðan kóræfing og leitaræfing á miðvikudegi, blak á fimmtudegi og svo leitaræfing á sunnudegi. Þessu verður eiginlega best lýst svona: 

  • Boltum léttum blaka rjóð, 
  • brölti milli fundanna. 
  • Í kórum frem ég fögur hljóð
  •  og fer svo beint "í hundana"!

 snjoleit

Fyrst langar mig að segja ykkur frá Björgunarhundasveitinni á Ísafirði.

Í haust fór ég að æfa tíkina mína hana Blíðu með björgunarhundasveitinni. Blíða er 18 mánaða dalmatíu-hundur, orkumikill og sterkur. Alla sunnudaga höfum við æft með sveitinni ásamt sex öðrum unghundum og eigendum þeirra, allt að fjóra klukkutíma á dag. Það kom mér á óvart hve öflug þessi leitarsveit er hér á Ísafirði – en þarna fer fram öflugt starf af miklum dugnaði og áhuga, eins og sjá má á heimasíðu sveitarinnar http://www.simnet.is/bjorgunarhundar, en þar er að finna bæði frásagnir og myndir af starfinu. Við höfum til dæmis haft æfingar á Mýrdalsjökli í janúar og Snæfellsjökli í febrúar. Um miðjan mars verður svo farið í fimm daga æfingabúðir upp á öræfi, og haldið til við Kröflu. Þetta stjákl í snjó og kulda reynir talsvert á okkur vinkonurnar, en við erum býsna stæltar orðnar báðar tvær.

Fundabröltið 

Nokkru áður en ég gekk til liðs við leitarsveitina tók ég að mér formennsku í Vestfjarða-akademíunni, en það er félagsskapur fræðimanna á Vestfjörðum sem ég átti þátt í að stofna fyrir rúmu ári. Félagið beitir sér fyrir umræðu og fyrirlestrum í samstarfi við ýmsa aðila, einkum Háskólasetur Vestfjarða. Það er gaman að taka þátt í þessu starfi. Nú erum við komin með vísi að heimasíðu sem Háskólasetur Vestfjarða hefur verið svo elskulegt að vista fyrir okkur http://www.hsvest.is/vak .  

Blakið 

Jæja, svo skellti ég mér til liðs við blak-liðið Skellurnar, en það er hópur kjarnakvenna sem æfa tvisvar í viku. Ég hef svosem aldrei verið mikil íþróttakona (nema þá helst í hestamennskunni) svo ég var eiginlega algjör byrjandi. Þær hafa hinsvegar sýnt mér mikla þolinmæði á meðan ég hef verið að komast upp á lag með blak-listina, smöss og fingurslög með meiru. Um næstu helgi er stefnan tekin á  Akranes til þess að taka þátt í blakmóti á laugardeginum. Þetta verður mitt fyrsta keppnismót í þessari íþrótt. Ég reikna með að verða mest á varamannabekknum, enda “yngst” í liðinu (þó ég sé líklega elst í árum) – en ég mun ekki draga af mér á bekknum við að hvetja.

Svo er það kórastarfið

Já, því fylgir nú ýmislegt. Hver hefði t.d. trúað því fyrir fáum mánuðum að Ólína Þorvarðardóttir stæði upp fyrir haus að baka ofan í togaráhafnir í fjáröflunarskyni fyrir kvennakór. En það er svo mikill hugur í Valkyrjunum að nú eru allar klær hafðar úti við að afla aura til að fjármagna þátttöku í kóramótum og fleiru. Í fyrradag komum við saman sex konur heima hjá mér og bökuðum einhver ósköp fyrir áhöfnina á Júlíusi Geirmundssyni. Næst á dagskrá er svo “hatta-ballið”, en það verður árshátíð kórsins sem jafnframt verður fjáröflunardansleikur þann 24. mars. Það verður fjör! 

Jamm, enginn veit sína ævina ... og dag skal að kveldi lofa!


Hinar hljóðu hamfarir

Ísafjordur-vetur  Náttúruhamfarirnar sem gengu yfir norðanverða Vestfirði árið 1995 voru þungt högg fyrir byggðarlagið. Þær dundu yfir á einni nóttu og afleiðingarnar voru öllum ljósar. Enda vafðist ekki fyrir landsmönnum, stjórnvöldum og öllum sem vettlingi gátu valdið að rétta fram hjálparhönd. Samtakamáttur og samhugur þjóðarinnar allrar varð þess valdandi að heimamönnum tókst að endurreisa tvö byggðarlög, nánast úr rústum.  Það sem hefur verið að gerast í atvinnumálum hér á svæðinu undanfarna áratugi eru annarskonar hamfarir. Það eru hinar þöglu hamfarir sem ekki blasa við í fljótu bragði þar sem þær hafa átt sér stað á löngum tíma. Þess vegna hefur heldur ekki verið risið upp að heitið geti, hvorki í vörn né sókn.   

Linsoðinn froskur í vatni. 

Hlutskipti vestfirskra byggða hefur eiginlega verið hið sama og frosksins sem soðinn er rólega í vatninu. Hann áttar sig ekki á því hvað er gerast vegna þess að hann sjálfur hitnar með vatninu, verður máttfarinn og soðnar svo til bana.  Lítum á hver þróunin hefur verið: 

1)       Íbúum hefur fækkað um 25% á 25 árum.

2)       Útgerð og fiskvinnsla eru ekki svipur hjá sjón eftir að margumrædd “hagræðing í sjávarútvegi” náði fram að ganga á landsvísu í kjölfar óréttláts kvótakerfis. Af níu togurum sem gerðir voru út frá norðanverðum Vestfjörðum á áttunda áratugnum eru 2 eftir (mætti með góðum vilja segja 3).

3)       Hagvöxtur á svæðinu hefur verið neikvæður á sama tíma og hann hefur verið jákvæður í öðrum landshlutum (nema Norðurlandi vestra). Til dæmis var hagvöxtur Vestfirðinga -6% en +29% á höfuðborgarsvæðinu á árunum 1998-2004.

4)       Flest sveitarfélögin á Vestfjörðum berjast í bökkum og hafa neikvæða rekstrarstöðu.

5)       Vegakerfi landshlutans er enn ófrágengið og sum svæði enn ekki komin í vegasamband að heitið geti. Samkvæmt nýrri samgönguáætlun er enn 2-3 ára bið eftir bundnu slitlagi frá Ísafirði til Reykjavíkur, og enn lengri bið fyrir suðurhluta svæðisins.

6)       Flutningskostnaður er  hærri á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum, lætur nærri að hann sé um 30-40% hærri en á Akureyri, svo dæmi sé tekið.

7)       Menntunarstig er lágt miðað við aðra landshluta.   

Samstöðuskortur  

Þrátt fyrir þetta hefur ekki tekist að mjaka ráðamönnum svæðsins, hvorki á þingi né í sveitarstjórnum, til þess að sameinast um þau baráttumál sem mestu skipta fyrir byggðarlagið. Því miður hafa varðhundar stjórnmálaflokkanna í heimabyggð einatt komist upp með að hlaupa í skotgrafirnar og vefja mál í flokkspólitískar þrætur, þegar veigamikil mál ber á góma. Það er tími til kominn að velunnarar þessa svæðis taki saman höndum, teygi sig hver í átt að öðrum yfir skotgrafirnar, og beiti sér í sameiningu fyrir björgun þessa byggðarlags.Annar vandi er stefnuleysið, til dæmis eins og það hefur birst í samgöngumálum. Ég leyfi mér að nefna ákvörðun og nýafstaðin fagnaðarlæti yfir Óshlíðargöngum sem skyndilega eru komin framfyrir Arnarfjarðargöng – bráðnauðsynlega samgöngubót sem beðið hefur verið eftir árum saman - á samgönguáætlun.  

 Gleðisöngskrafan 

Og svo er það gleðisöngskrafan. Þá sjaldan eitthvað næst fram er fjöldanum skipað að fagna – hátt og lengi, í nafni jákvæðrar umræðu. Annars eru menn sakaðir um “niðurrif”, hvorki meira né minna. Menn skulu kvaka og þakka hvað lítið sem gerist. Þessi gleðisöngskrafa er orðin að svipu sem svífur yfir höfðum íbúa á Vestfjörðum, því ekki má ræða það sem miður fer eða “skaða ímynd svæðisins” með því að tala um vandamálin eins og þau eru. Jæja, ég er búin að fá nóg af því að þegja – ég tek ekki þátt í þessari vitleysu lengur. Gleðisöngsveitin verður að horfast í augu við þá staðreynd að ímynd Vestfjarða hefur beðið hnekki! Hvenær sem samgöngur ber á góma, hvenær sem starfsemi er lögð niður eða hagvaxtartölurnar eru rifjaðar upp, þá er ímyndarvandi á ferðum fyrir Vestfirði. Það er líka ímyndarvandi á ferðum þegar ótíðindin eiga sér stað beint í kjölfar fagnaðarláta af litlu tilefni, beint ofan í lofsyrði um “uppsveiflu” og “framfarir” sem lítil eða engin innistæða reynist svo fyrir. Þetta er grafalvarlegt mál.   

Stökkvum upp úr! 

Þegar þessi orð eru skrifuð skín sól á snæviþakin fjöllin umhverfis Ísafjörð. Djúpið blasir við mér út um gluggann fagurblátt og glitrandi í sólskininu. Ég vil búa hér – hér líður fjölskyldu minni vel, hér er gott fólk og fallegt umhverfi. Það er til nokkurs að vinna að berjast fyrir framtíðinni á þessum fallega stað.  En, ég vil ekki vera linsoðinn froskur í potti fullum af hálfvelgjuloforðum og skammtímalausnum. Þetta landssvæði hefur skapað þjóðarbúinu verðmæti, verið undirstaða sjávarútvegs og þar með þjóðartekna. Nú er röðin komin að okkur að fá almennilega vegi sem eru samanburðarhæfir við það sem gerist í öðrum landshlutum; strandsiglingar og jarðgöng undir Dynjandis- og Hrafnseyrarheiði til þess að lækka flutningskostnað og tengja saman byggðarlög. Síðast en ekki síst þurfum við Háskóla á Ísafjörð! 


Þjóðin þarf mömmu

Trúnó á laugardaginn. 

 

Á laugardaginn sótti ég ársfund kvennarhreyfingar Samfylkingarinnar sem haldinn var á hótel Loftleiðum. Margar konur mættar til leiks, góð stemning og fjörlegar umræður. Um kvöldið gerðum við okkur glaðan dag yfir kvöldverði – ég í hlutverki veislustjóra að þessu sinni - enn meira fjör og enn fjörlegri umræður.

 

Það er endurnærandi að hitta gáfaðar og skemmtilegar konur víðsvegar að og eiga með þeim stund í glaðværum hópi. Ræða stjórnmál, kvenréttindi, velferðarmál, þjóðfélagsþróun – gera saklaust grín að sjálfum sér og öðrum, skiptast á skoðunum og reynslusögum, hlæja. Svona “trúnó” stemning án þess þó að mærðin eða værðin fari úr hófi. Eftir situr góð tilfinning – ýmsu ólokið og mörg vígi að vinna, vissulega – en aukið baráttuþrek og skýrari sýn á verkefnin framundan. Þannig er það bara.

 

Þarf þjóðin landsfeður?

 

Ég fór að hugsa um það eftir þessa ánægjulegu samveru með samfylkingarkonunum á laugardagskvöldið hvers þjóðin þyrfti við um þessar mundir. Hugurinn reikaði ósjálfrátt aftur í stjórnmálasöguna, til allra landsfeðranna sem við sjáum á svarthvítum myndum í Íslandssögubókum.

Af lestri þeirra bóka má ýmislegt læra um þróun samfélagsins undanfarnar aldir. Þó  rúma þær engan veginn allar breytingarnar sem orðið hafa á íslenskum þjóðfélagsháttum, svo ör sem þróunin hefur verið. Ekki er saman að jafna lífskjörum og tækifærum fólks í dag eða við upphaf síðustu aldar. Hinsvegar hafa þjóðfélagsbreytingarnar líka tekið sinn toll. Tæknidýrkun, neysluhyggja, skeytingarleysi markaðsafla fyrir samfélagslegum gildum, náttúruauðlindum og mannauði, eru bara örfá dæmi um þær vár verjast þarf.  

Nú eru horfnir af sjónarsviðinu brautryðjendurnir sem höfðu hugsjón og barátturþek

til þess að vinna “Íslandi allt” eins og það var stundum orðað í ungmennafélagsræðum. Eldhugarnir eru komnir til starfa í stórfyrirækjum og farnir í “úrásir” erlendis – og þeim fækkar stöðugt sem horfa umhyggjuaugum á landið sitt.

Ég held satt að segja að tími landsfeðranna sé liðinn – þjóðin þarf ekki áhættufúsa ofurhuga til þess að gefa sér langt nef, raka saman arði til þess að fara með hann úr landi, eða knésetja lítil byggðarlög. Æska landsins þarf ekki meiri neysluhroka eða skeytingarleysi um mannleg gildi, en orðið er. Gamla fólki þarf ekki meiri æskudýrkun eða afskiptaleysi inn í íslenskt þjóðfélag. Arðsemiskrafa og útrásir eru ekki það sem íslenskt samfélag þarf að setja í forgang að þessu sinni, svo þjóðin fái þrifist. Markaðurinn sér um sig – en hver ætlar að sjá um fólkið?

 

 Þjóðin þarf “mömmu”. 

Það er tími til kominn að leiða umhyggjuna til öndvegis í íslenskum stjórnmálum. Þjóðin þarf ekki fleiri landsfeður. “Þjóðin þarf mömmu”, svo ég vitni til orða flokksbróður míns, Guðmundar Steingrímssonar sem hann lét falla á fundi hér fyrir vestan nýlega. Mæli hann manna heilastur. Það sem íslensk þjóð þarf sárlega á að halda um þessar mundir er einmitt umhyggja.

Þau vita það sem eiga um sárt að binda vegna sjúkdóma, áfalla, vanrækslu, ellihrörnunar, fátæktar eða atvinnuleysis – svo dæmi séu tekin. Þau vita það sem standa frammi fyrir kerfinu og bíða úrlausnar mánuðum, jafnvel árum saman. Við vitum það sem fylgjumst með fréttum af málefnum öryrkja, lesum um hagræðingarkröfu í heilbrigðisþjónustu, verðum vitni að ráðaleysi í skólakerfinu,   misréttinu á vinnumarkaðnum eða arðsemisákvörðunum stórfyrirtækja – svo einungis fátt eitt sé upp talið af öllu því sem aflaga hefur farið í samfélagi okkar.

 

Nú er verk að vinna

 

 

Í fyrsta skipti frá upphafi lýðveldis stöndum við frammi fyrir því sögulega tækifæri að geta leitt konu til valda sem forsætisráðherra. Sú kona hefur sýnt og sannað við ótal tækifæri að hún hefur bæði hugrekki og heiðarleika til þess að vinna þau verk sem vinna þarf. Hún talar hreint út, hún stendur við orð sín og hún hikar ekki við að skoða hluti í nýju ljósi ef aðstæður breytast. Hvers vegna? Vegna þess að Ingibjörg Sólrún ber umhyggju fyrir landi sínu og þjóð – hún er nefnilega kona sem gegnt hefur bæði móðurhlutverki á heimili og forystuhlutverki í opinberu lífi. Hún býr yfir þeim samþætta streng sem góður stjórnmálaleiðtogi þarf að hafa.

 Við megum ekki láta þetta tækifæri úr greipum renna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband