Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Þá er komið að því - ég tek slaginn

bardastrond Jæja, þá er komið að því ... og enginn veit sína ævina ... og allt það. Ég er á leið í prófkjör fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi og stefni á annað efstu sætanna á framboðslistanum fyrir næstu Alþingiskosningar.

Eins og blogglesendur mínir vita hef ég ítrekað verið spurð að þessu undanfarnar vikur og mánuði. Ég hef svarað af varúð en ekki hugsað mikið um þetta fyrr en núna um helgina. Þá fóru hlutirnir að gerast.

Og eftir allmörg samtöl og tölvupósta er niðurstaðan sú að ég ætla fram. Cool

Í almennum orðum get ég sagt það um sjálfa mig að ég er sjálfstæð og framsækin kona með ríka réttlætiskennd. Ég hef látið málefni landsbyggðarinnar til mín taka í ræðu og riti undanfarin ár enda er ég búsett á Ísafirði og þekki mætavel hvar eldarnir brenna heitast í dreifðum byggðum landsins.

Um þessar mundir berst ég fyrir lýðræðisumbótum á Íslandi. Ég er í góðum hópi Íslendinga sem efnt hafa til undirskriftasöfnunar á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is  fyrir því að boðað verði til stjórnlagaþings og þjóðinni gefinn kostur á að velja verðuga fulltrúa til þess að setja nýja stjórnarskrá.

Í kjölfar þess efnahags- og siðferðishruns sem dunið hefur yfir tel ég brýnt að Alþingi Íslendinga endurvinni traust meðal þjóðarinnar og rísi undir hlutverki sínu sem leiðandi löggafarsamkoma í lýðfrjálsu landi.

Brýnast um þessar mundir er þó að verja lífskjör almennings í landinu við þau erfiðu efnahagsskilyrði sem hér ríkja. Stjórnvöld verða að hafa forgangsröðunina í anda mannúðar og jafnaðarstefnu þegar kemur að niðurskurði og aðhaldsaðgerðum hjá hinu opinbera. Að byrðunum verði jafnað réttlátlega á bökin. Að þess verði gætt að erfiðar aðgerðir komi síst niður á þeim sem standa höllum fæti fyrir, t.d. sjúklingum, öryrkjum, efnalitlum heimilum eða barnafjölskyldum.

Ég vil standa vörð um mannréttindi og lýðræði, jöfnuð og sanngjarnar leikreglur. Mín skoðun er að stjórnmálamenn og stjórnsýslan öll eigi að bera ábyrgð og standa vörð um hlutverk stofnana þannig að þær fái að sinna lögbundnu hlutverki sínu án inngripa eða óeðlilegra afskipta stjórnmálamanna eða hagsmunaafla.

Þeir sem vilja kynna sér bakgrunn minn geta séð hann hér. Þeir sem vilja vita um áherslur mínar og hugðarefni geta til dæmis kynnt sér bloggfærslur mínar hér á þessari síðu.

 Í stuttu máli sagt:

Ég er kona á besta aldri - nægilega lífsreynd til þess að þora að standa í báða fætur. Svolítið sorfin af sjávargangi lífsins en bjartsýn og drífandi. Verði mér treyst til þess að taka sæti á löggjafasamkundunni mun ég leggja mig alla fram í þágu þeirra mála sem ég tel horfa til framfara.

Mér er tamt að nota brjóstvitið ekki síður en hugvitið og hlýða eigin samvisku. Ég hyggst halda því áfram.


Fátækt fólk og velferðarkerfið

glaucoma_surgery_photo Á krepputímum er fátt dýrmætara en traust velferðarkerfi sem vegið getur upp á móti afleiðingum atvinnumissis og tekjutaps.

Það er því þyngra en tárum taki að fólk sem þarf læknisþjónustu skuli ekki geta veitt sér hana. Þá er ég  til dæmis að hugsa um gamalt fólk sem þarf á liðskiptaaðgerðum að halda og hefur jafnvel beðið mánuðum saman. Svo þegar röðin kemur að því er komin kreppa og viðkomandi telur sig ekki hafa efni á því að ganga í gegnum aðgerðina og það sem henni fylgir. Sama er sjálfsagt að segja um ýmiskonar lýtaaðgerðir, kjálka- og tannréttingar og fleira.

Miðaldra kona ákveður að bíða með hjartaþræðinguna - hún hefur hvort eð er fundið fyrir hjartsláttartruflunum svo lengi. Karl á svipuðum aldri telur sér trú um að hann geti beðið til betri tíma með að láta fjarlægja fjólubláan, óreglulegan blett á bakinu. Gamall maður ákveður að ganga bara áfram með ónýtu mjöðmina - harka af sér og nota stafinn.

Fréttir um að fólk veigri sér við að nota heilbrigðisþjónustuna segja þó ekki aðeins til um kreppuna í landinu. Þær sýna okkur svart á hvítu hvernig heilbrigðiskerfi okkar er orðið - "þökk" sé Sjálfstæðisflokknum og þeirri frjálshyggju- einkavæðingarstefnu sem hann hefur staðið fyrir áratugum saman með gjaldtöku og verðlagningu velferðarþjónustunnar. Angry

Sorglegt - í einu orði sagt. Sorglegt.

 


mbl.is Afpanta rannsóknir og aðgerðir lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður stjórnlagaþing? Hvenær þá?

Eiríkur Tómasson, prófessor í stjórnskipunarrétti, hefur skrifað lærða grein um stjórnlagaþing þar sem fram kemur að vel sé gerlegt að boða til þess samhliða næstu alþingiskosningum. Ég hvet alla til þess að kynna sér þessi skrif Eiríks, sem m.a. eru birt á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is.

Ríkisstjórnin hefur gefið það fyrirheit að lög verði sett um skipan og verkefni stjórnlagaþings. Einnig verði gerðar breytingar á stjórnarskrá sem lúta að auðlindum í þjóðareign; þjóðaratkvæðagreiðslum og  aðferð við breytingar á stjórnarskrá. Í þessu skyni var nýlega skipaður sérstakur ráðgjafahópur undir forystu Bjargar Thorarensen, prófessors og forseta lagadeildar HÍ.

Nú, tæpum tveim vikum síðar, er komið fram frumvarp frá framsóknarflokknum um stjórnlagaþing. Ekki hefur það fyrr litið dagsins ljós en ríkisstjórnin boðar annað frumvarp. Hvað það boðar veit ég ekki  - en grunur vaknar um að málið verði tafið.

Það má ekki gerast.  Ný stjórnarskrá sem setur ný viðmið sem byggja á endurmati og reynslu er forsenda þess að við getum markað okkuð nýtt upphaf. Fólkið í landinu þráir nýtt upphaf og nýjar leikreglur. Við þráum flest öll endurreisn þeirra gilda sem þjóðin hefur um aldir lagt rækt við. Þar er um að ræða gildi á borð við heiðarleika, samvinnu, jöfnuð og ekki síst ábyrgð


Bloggað fyrir Vestfirði!

KubburOddurJonsson Ég sé á mínum fyrstu bloggfærslum frá því fyrir tveimur árum, að ég hef upphaflega byrjað að blogga fyrir Vestfirði. Olnbogabarnið sem mér er svo kært og ég hef  nú deilt kjörum með um allnokkra hríð.

Upphaflegur tilgangur minn með því að kveðja mér hljóðs á þessum vettvangi,  var nefnilega sá að koma Vestfjörðum inn í umræðuna og vekja máls á ýmsu sem höfuðborgarbúum er hulið varðandi aðstæður og búsetumál á landsbyggðinni. Tilefnið var alvarleg röskun sem varð í atvinnulífi Ísfirðinga um svipað leyti. Sú staða leiddi til þess að ég og fleiri efndum til borgarafundar undir slagorðinu: Vestfirðir lifi! Við kölluðum þingmenn og ráðherra til fundarins og hleyptum af stað mikilli umræðu um stöðu mála.

Það er nú einhvernvegin þannig að þegar ég er spurð hvers vegna ég vilji búa “þarna fyrir vestan” eins og það er yfirleitt orðað, þá fylgir spurningunni eitthvert fas eða svipur. Þetta er sami svipurinn og kemur á fólk þegar það talar um “fjárstreymið til  landsbyggðarinnar” eins og nauðsynleg byggðaúrræði eru stundum nefnd.

En sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir ýmsa erfiðleika sem dunið hafa yfir þetta landssvæði, er gott að búa hér fyrir vestan. Hér á Ísafirði stendur menning með miklum blóma, sérstaklega tónlistin. Hér er mikil ósnortin náttúra allt um kring og hvergi fegurra á sólbjörtum dögum en við Ísafjarðardjúp.

Við sem viljum búa hér eigum ekki að þurfa að réttlæta þá ákvörðun okkar fyrir neinum. Við eigum einfaldlega að sitja við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að almennum búsetuskilyrðum og atvinnuháttum. Við greiðum okkar skatta og skyldur. Og þrátt fyrir þá röskun sem kvótakerfið hefur valdið hér í sjávarbyggðum, er landshlutinn í heild sinni drjúg uppistaða þjóðartekna.

Nú þegar fer að hitna í kolum fyrir næstu Alþingiskosningar er ekki úr vegi að minna á að það er löngu tímabært að Vestfirðir fái að búa við samskonar samgöngur, fjarskipti, flutningskostnað, menntunarkosti og almenn skilyrði í atvinnulífi og aðrir landshlutar. Að þessi hluti landsins sé samkeppnisfær. Og þó að ýmsu hafi verið þokað áleiðis er mikið ógert enn.

Brýnastar eru framkvæmdir í samgöngumálum og fjarskiptum - en síðast en ekki síst þurfum við: Sanngjarnar leikreglur! Meira um það síðar.

-----

PS: Myndina hér fyrir ofan tók Oddur Jónsson af Kubbanum í Skutulsfirði


Kynjahlutföllin og landsbyggðin

yinogyanÞegar Samfylkingin var stofnuð árið 2000 voru kynjahlutföll jöfn í hópi þingmanna. Ég man ekki betur en að Samfylkingin hafi verið eini flokkurinn sem  þá gat státað af jöfnu kynjahlutfalli í þingliði sínu. Nú, áratug síðar, hefur sigið á verri veg. Einungis þriðjungur þingmanna flokksins nú eru konur - þær eru sex, karlarnir tólf. 

Það er þó ekki bara kynjamunurinn einn og sér sem veldur áhyggjum - heldur hitt hvernig og hvar hann kemur helst niður. Það vill nefnilega þannig til að í landsbyggðakjördæmunum þremur er engin kona í hópi þingmanna  Samfylkingarinnar.

Nú hefur stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar skorað á kjördæmisráð flokksins um land allt að tryggja jafnræði kynja í forystusætum framboðslistanna fyrir þessar alþingiskosningar. Í því sambandi er minnt á jafnréttismarkið sem ítrekað hafa verið sett á landsfundum flokksins.

Hugmyndin um fléttulista þar sem konum og körlum er raðað á víxl, jafnvel þó að atkvæðamagn segi til um annað hefur mætt ákveðinni mótspyrnu hjá þeim sem telja slíkt stríða gegn lýðræðislegu vali. Og vissulega er það skiljanlegt sjónarmið. Þeir sem tala fyrir fléttulistum benda hinsvegar á að enginn framboðslisti geti talist boðlegur nema þar sé að finna bæði karla og konur í jöfnum hlutföllum.

Sjálf hallast ég að því að finna leið sem tekur tillit til beggja sjónarmiða. Þá á ég við fléttulista þar sem sett er atkvæðalágmark. Þannig ætti kona t.d. ekki möguleika á að fara í annað sæti á eftir karlmanni nema hún hafi a.m.k. 2/3 hluta þess atkvæðamagns sem tryggði honum efra sætið. Með því móti væri jafnréttissjónarmiðum fylgt, en þó tekið tillit til atkvæðamagns. Engin(n) sem hlyti þannig sæti á fléttulista þyrfti að sitja undir því að vera þar einungis vegna kynferðis.

Þetta er nú svona til umhugsunar. 

Eitthvað þarf að gera til þess að tryggja jafnari kynjahlutföll á listum flokksins án þess að það komi niður á lýðræðislegu vali.

Gleymum því ekki að baráttan fyrir jafnrétti og kvenfrelsi er órjúfanlegur hluti jafnaðarstefnunnar.

 


Við þurfum nýja leiðarstjörnu

stjarna_ris Síðustu daga höfum við orði vitni að ómálefnalegum illdeilum og rifrildi þingmanna um fánýta hluti í sölum Alþingis þar sem meiru virðist skipta að koma höggi á pólitíska andstæðinga en bjarga landinu. Þær uppákomur eru sorglegt dæmi um það hversu lítið menn hafa lært af atburðum undangenginna mánaða, þrátt fyrir allt.

Hafi einhverntíma verið ástæða til þess að veita okkar litlu þjóð lausn frá hryllingi gærdagsins með nýrri leiðarstjörnu - þá er það nú.

Við, sem stöndum að áskoruninni um stjórnlagaþing á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is höfum af því vissar áhyggjur að bakslag sé komið í áform stjórnvalda um að verða við þessu ákalli. Í erindisbréfi því sem ráðgjafahópur ríkisstjórnarinnar fékk fyrir nokkrum dögum er lítil áhersla á stjórnlagaþing. Sömuleiðis hafa heyrst úrtöluraddir innan úr flokkunum - þar á meðal ríkisstjórnarflokkunum.

Þeir sem styðja kröfuna um stjórnlagaþing en hafa beðið átekta með að rita nafn sitt á undirskriftalistann ættu ekki að bíða lengur. 

Stefnt er að því að afhenda undirskriftirnar 6. eða 7. mars og þá skiptir máli að þær séu sannfærandi margar. Stjórnvöld verða að skilja að þjóðinni sé alvara. Krafan um boðun stjórnlagaþings er brýnni nú en nokkru sinni.

 -----------------------

  PS: Þessa fallegu mynd fann ég á síðunni www.glymur.blog.is og tók mér það bessaleyfi að birta hana hér.


Hver rekur þessa leyniþjónustu?

biggi-arm Hvernig vissi Birgir Ármannsson stjórnarandstöðuþingmaður af bréfi  Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til forsætisráðherra áður en það hafði komið fyrir augu ráðherrans?

Hann var svo handviss um tilvist bréfsins að hann þaut í ræðustól á Alþingi til þess að heimta upplýsingar um innihald þess. Ég sá ekki betur en Einar K. Guðfinnsson væri þarna líka - jafn viss og félagi hans Birgir - báðir fimbulfambandi um leynimakk og pukur.

Forsætisráðherra kom af fjöllum og hafði ekki séð neitt bréf og ég efast ekki eitt augnablik um að ráðherrann sagði það satt.

Hver rekur þessa leyniþjónustu sem nær svo djúpt inn í stjórnsýsluna, að handbendin vita meira en ráðamenn sjálfir?

Hvað er að gerast í íslenska stjórnkerfinu? Ég fæ hroll.

 


mbl.is Birgir aflétti leynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fæst orð bera minnsta ábyrgð ... en ég stend nú samt með Dorrit

dorrit Gamla máltækið að fæst orð beri minnsta ábyrgð hefur sannað gildi sitt á Bessastöðum undanfarna sólarhringa. Það er slæmt þegar forseti landsins er borinn fyrir óábyrgum ummælum á alþjóðavísu, hvort sem þau eru tekin úr samhengi eður ei. Nú held ég það sé ráð fyrir forsetaembættið að draga aðeins úr fjölmiðlasamskiptum á þessum viðkvæmu tímum, enda ljóst að fjölmiðlar, jafnt innlendir sem erlendir eru með blóðbragð á tungu yfir öllu sem sagt er þessa dagana.

Ég gat þó ekki að mér gert að skella upp úr við frásagnir af viðureign þeirra forsetahjóna frammi fyrir erlendum blaðamanni sem sagt var frá í gær. Alveg sá ég þau í anda: Ólaf ábyrgan og virðulegan að reyna að ræða alvarlega stöðu lands og þjóðar; Dorrit óþreyjufulla og trúlega hundleiða á þessum formlegheitum að reyna að komast inn í umræðurnar. Hún fór að leika við hundinn. Hann rökræddi við blaðamanninn (grunlaus um þann úlfaþyt sem á eftir fylgdi).  Pex og hjónametingur. 

 En, gott fólk? Hversu mörg miðaldra hjón geta ekki séð sjálf sig í svipuðum sporum, þó við aðrar aðstæður sé? 

Dorrit er góð fyrir það að vilja brjótast út úr formlegheitum. Ég stend með  henni í því að segja það sem henni býr í brjósti. Um leið get ég vel skilið Ólaf Ragnar að vilja halda aðeins aftur af henni. Hún er jú forsetafrú. Þau hafa bæði nokkuð til síns máls. Wink

En þessi uppákoma milli þeirra hjóna sýnir okkur umfram allt að þau eru manneskjur af holdi og blóði eins og við hin - fólk með taugar og tilfinningar. Það vill stundum gleymast.


mbl.is Viðtalið tekið úr samhengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einsdæmið með Davíð - eftirlaun hans og bréfaskriftir

bankastjornSB Ef einhver stendur fjárhagslega vel að vígi að yfirgefa starfsvettvang sinn nú á þessum krepputímum þá ætti það að vera Davíð Oddsson. 

Skjátlist mér ekki mun hann njóta a.m.k. fjórfaldra eftirlauna þegar starfstíma hans lýkur.  Þið leiðréttið mig endilega ef þetta er rangt - en svo virðist sem Davíð eigi rétt á óskertum eftirlaunum sem 1)Seðlabankastjóri, 2) forsætisráðherra, 3) alþingismaður, og 4)borgarstjóri í Reykjavík. Það held ég hljóti að vera einsdæmi að einn maður eigi svo ríkan eftirlaunarétt - að minnsta kosti hlýtur það að vera fádæmi.

Það er raunalegt að sjá Seðlabankastjórana Davíð Oddsson og Eirík Guðnason streitast við að sitja sem fastast þrátt fyrir beiðni forsætisráðherra um að þeir víki úr stóli Seðlabankastjóra og semji um starfslok. Fleiri eru augljóslega sömu skoðunar, því Lars Christensen, yfirmaður greiningardeildar Danske Bank, segir þvermóðsku Davíðs Oddssonar vera beinlínis "neyðarlega" (sjá hér).

Bréf Davíðs til Jóhönnu Sigurðardóttur er sömuleiðis sérkennileg smíði. Þar sakar hann forsætisráðherra um pólitíska valdníðslu sem eigi sér engin fordæmi um gjörvallan hinn "vestræna heim" ef ég man orðalagið rétt. Hefur Jóhanna þó ekki annað af sér brotið en að gera Seðlabankastjórunum heiðarlega grein fyrir vilja ríkisstjórnarinnar.

Og gleyminn er Davíð.

Sjálfur hefur hann áður skrifað bréf sem forsætisráðherra, eins og fram kemur í greinargóðri samantekt á bloggi Friðriks Þórs Guðmundssonar þar sem rifjuð eru upp bréfaskrif Davíðs frá fyrri tíð, þ.e.: 

  • Bréf til Sverris Hermannssonar fv. Landsbankastjóra vegna  vaxtaákvörðunar ... og ...
  • Bréf til biskups Íslands vegna smásöguskrifa sr. Arnar Bárðar Jónssonar þáverandi fræðslufulltrúa Þjóðkirkjunnar.

Í bréfinu til Sverris sem m.a. er rifjað upp í Fréttablaðinu í dag, sagði Davíð m.a. ...

... ef þið lagið ekki þvæluna, sem þið gerðuð í síðasta vaxtaóðagoti, er það endanlegt dæmi þess að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera og þá mun ég sjá til þess fyrr en nokkurn grunar að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera. Ég vil fá svar frá þér ­ annað en skæting í fjölmiðlum ­ strax ­ því ég mun ekki sitja lengur kyrr ...

Einsdæmi?? 

 


mbl.is Lýsir miklum vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkin sem vinna þarf

Það var líf og fjör í umræðunum á Sprengisandinum hjá Sigurjóni M. Egilssyni í morgun. Þar sátum við á rökstólum, ég, Helga Sigrún Harðardóttir alþingismaður og Þórlindur Kjartansson formaður SUS og ræddum landsins gagn og nauðsynjar - nánar til tekið: Stjórnmálaástandið og horfurnar sem eru mál málanna þessa dagana (hlusta hér).

Annars var ég að kynna mér verkefnaskrá nýju ríkisstjórnarinnar. Þar er margt sem vekur von um góðan ásetning um brýnar aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs, til endurreisnar bankakerfisins, á sviði endurbóta í stjórnsýslu og aðgerðum í þágu aukins lýðræðis og opins og heiðarlegs samfélags, eins og þar stendur.

Athygli mína vakti fyrirheit um nýjar siðareglur í stjórnarráðinu, afnám eftirlaunalaganna um alþingis og ráðherra, endurskoðun laga um ráðherraábyrgð og ekki síst breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og stjórnlagaþing.  

Fyrirheitið um endurreisn efnahagslífsins og endurskipulagningu stjórnsýslunnar veltur vitanlega á fleiri aðilum en ríkisstjórninni. Það veltur á þingheimi í heild sinni - og þjóðinni sjálfri.

Nú ríður á að sátt náist um að vinna hratt og vel að björgun þjóðarbúsins með þáttöku þjóðarinnar sjálfrar.

 

PS: Sjá líka viðtal mitt við Gísla Tryggvason á ÍNN


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband