Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Himnaríki og helvíti, Kórvilla á Vestfjörðum og fleira gott

windownb9 Í sumar hef ég gefið mér tíma til að lesa nokkrar bækur sem ekki vannst tími til að lesa um jólin. Rétt í þessu var ég að leggja frá mér Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson. Þetta er afar vel skrifuð bók og sterk á köflum - sérstaklega fyrri hlutinn sem er í raun sjálfstæð frásagnarheild. Þarna er lýst lífsbaráttu og lifnaðarháttum verbúðarfólks fyrir hundrað árum eða svo. Líf og dauði, mannúð og grimmd, ást og örvænting kallast þar á og halda lesandanum í heljargreipum. Seinni hluti bókarinn hélt mér ekki eins vel - eins og söguþráðurinn renni svolítið út í sandinn. En Jón Kalman er stílsnillingur - orðfæri hans er svo fallegt á köflum að maður les aftur og aftur. Þetta er afar góð bók og vel þess virði að lesa.

Ég hef líka legið í sakamálasögum. Aska eftir Yrsu Sigurðardóttur olli mér svolitlum vonbrigðum. Fyrsta bókin hennar, Þriðja táknið, fannst mér grípandi og skemmtileg. Þessi er of langdregin - og ég verð að viðurkenna að ég missti hreinlega áhugann þegar komið var fram á seinni hluta sögunnar. Það er nú ekki beint það sem á að gerast í sakamálasögu.

Arnaldur hinsvegar klikkar ekki. Harðskafann las ég mér til mikillar ánægju. Stílbrögð Arnaldar styrkjast með hverri bók - og þegar saman fara skemmtilegt plott og styrk stíltök - þá er blandan pottþétt.

Ég hef líka verið að rifja upp að gamni mínu smásögur Halldórs Laxness. Dóttir mín gaf mér lítið kver sem Vaka-Helgafell hefur gefið út undir heitinu Kórvilla á Vestfjörðum. Þarna eru nokkrar smásögur eftir Nóbelsskáldið. Ég hafði raunar lesið þær allar nema eina - en las þær nú aftur mér til ánægju. Komst þá að því að Dúfnaveislan er ekki það stórvirki sem stundum hefur verið talað um og mig minnti að mér hefði sjálfri fundist þegar ég las hana fyrir löngu. Ég hef augljóslega breyst - kannski þroskast - sem lesandi. Wink

Maður gefur sér yfirleitt allt of skamman tíma til lestrar - þá á ég við yndislestur. Fátt er meira gefandi en lestur góðrar bókar í kyrrð og næði.

  • Þegar andann þjakar slen
  • og þyngist hugar mók,
  • fátt er lundu ljúfar en
  • að lesa góða bók.        Smile

Hjáveituleið Björns Bjarnasonar

Evra-AlvaranCom Af hverju telur forsætisráðherrann að íslenska krónan henti best sem gjaldmiðill? Gengi krónunnar er með lægsta móti. Ofan á geigvænlegar eldsneytishækkanir sem eiga upptök úti í heimi, er krónan að falla frá degi til dags með keðjuverkandi afleiðingum á verðlag. Af hverju hentar hún okkur sem gjaldmiðill? Af hverju?

Menn komast allt of oft upp með það að svara með almennum orðum - án þess að færa rök fyrir máli sínu. En það er ekkert - nákvæmlega ekkert - nú um stundir sem bendir til þess að íslenska krónan sé hentugasti gjaldmiðillinn. Þið leiðréttið mig þá, ef ég fleipra. En ég hef bara ekki séð nein haldbær rök fyrir því að halda í krónuna. Ég hef hins vegar bölvað því í hljóði að Sjálfstæðismenn skuli vera svo flæktir í andstöðu sína við ESB-aðild að umræðan um að taka hér upp Evru hefur strandað á því atriði. Á meðan líður efnahagskerfið fyrir vanmátt íslensku krónunnar.

Leiðin sem Björn Bjarnason hefur vakið máls á á heimasíðu sinni (sjá hér) er hinsvegar athyglisverð. Björn segir: 

 ,,Íslendingar hafa valið þann kost, að tengjast ESB eftir tveimur meginleiðum: með EES-samningnum og Schengen-samkomulaginu. Hvernig væri að láta reyna á það á markvissan hátt, hvort unnt sé að setja þriðju stoðina undir þetta samstarf, það er um evruna? Engin lagarök eru gegn því, að það verði gert. Mun meiri pólitísk sátt yrði um þá leið en aðildarleiðina. Evruleiðin kann auk þess að hafa meiri hljómgrunn í Brussel en aðildarleiðin.''

Snjallt - eitursnjallt. Og þó svo að Björn segi á heimasíðu sinni í gær, að fjölmiðlar hafi snúið út úr orðum hans - þá vona ég að meginhugsunin í tillögu hans hafi skilist rétt. Því þá gætum við verið hér að tala um nokkurskonar hjáveituleið, sem ég leyfi mér að kalla svo.  Hún felur það í sér að hugsanlega verði hægt að taka upp nothæfan gjaldmiðil án þess að láta það standa og falla með rótgrónu ágreiningsmáli sem litlar líkur eru á að leysist í bráð; að hægt verði að fara framhjá ágreiningnum í átt að viðunandi lausn á aðsteðjandi og vaxandi vandamáli - sem er veik staða íslensku krónunnar.

Menn ættu að skoða þetta vel.

 GetLost

PS: Rétt í þessu var ég að lesa viðbrögð Percy Westerlund, sendiherra og yfirmanns fastanefndar Evrópusambandsins við þessari hugmynd (sjá hér). Verst hvað kallinn er neikvæður.


mbl.is Evruhugmynd ekki ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaði gögnum eða fjarlægði þau um miðjan dag í gær? Svo er það bíllinn.

 Eitthvað er nú bogið við þessa tilvísanasetningu. Fjarlægði Guðmundur gögnin af skrifstofu OR um miðjan dag í gær? Var það ekki þá sem hann skilaði þeim?

 Svona klaufaleg notkun tilvísanatenginga stingur stundum upp kollinum í blaðafréttum, og er oft býsna kátleg. Einhverju sinni las ég myndatexta sem var eitthvað á þessa leið: Módelið er með sumarlegan varagloss frá Dior sem herrann leiðir nú um salinn.

Annars er ágætt að þetta dæmalausa gagnamál er afstaðið. Þá tekur sjálfsagt bílamálið við.

toyota_land_cruiser_2_bw Nú skal ég ekki að ætla Guðmundi Þóroddssyni það að hafa tekið bílinn ófrjálsri hendi - hann hlýtur að hafa eitthvað fyrir sér í því að bíllinn sé hluti af starfskjörum hans, meðan starfslokasamningur er í gildi. Hinsvegar tek ég heilshugar undir með þeim sem telja svona bílasamninga óviðfelldna óráðsíu og flottræfilshátt.

 Laxá Talandi um flottræfilshátt. Í fréttablaðinu í gær las ég lýsingar Ingva Hrafns Jónssonar á því hvernig flottheitin gerast á bökkum laxveiðiáa landsins, þar sem svarthvítir þjónar ganga um með silfurbakka, sérráðnir matreiðslumeistarar ýta matráðskonum veiðihúsanna út fyrir dyr og sérstakur "riverguide" fylgir hverjum veiðimanni.

Ég veit ekki hvað menn sem haga sér svona í íslenskri náttúru halda sig vera - þeir geta varla litið á sig sem hluta af íslensku samfélagi. Sama má kannski segja um þá sem aka um á tugmilljónkróna farartækjum og líta á það sem eðlilegan hluta af starfskjörum. Guðmundur Þóroddsson er ekki einn um það - því miður.


mbl.is Guðmundur skilaði gögnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pakkað fyrir Hornstrandaferð

IMG_0282 (Medium) Ég er farin að pakka fyrir hina árlegu Hornstrandaferð sem við í gönguhópnum "Höldum hópinn" ætlum að fara um næstu helgi. Þriðja helgin í júlí - það er fastur liður. Að þessu sinni verður siglt með okkur í Veiðileysufjörð á föstudagsmorgni, og við göngum yfir í Hlöðuvík. Þar setjum við upp bækistöðvar, en farangurinn verður sendur þangað á undan okkur, með báti. Það mun vera brimasamt í Hlöðuvik og því stundum erfitt með lendingu. Fyrir vikið verður farangurinn sendur með þriggja daga fyrirvara, svo nægur tími gefist, ef lending tekst ekki í fyrstu tilraun.

Úr Hlöðuvík ætlum við að ganga um nágrennið á laugardag og sunnudag, dagleið í hvort skipti. Á mánudag verður síðan gengið yfir til Hesteyrar þaðan sem við tökum bátinn heim.

Gönguhópurinn fer stækkandi ár frá ári, enda eru börnin okkar farin að koma líka. Hópurinn skiptir um nafngift eftir hverja ferð, því ævinlega bíða okkar ný ævintýri sem kalla á nýtt heiti. Við höfum heitið Skítugur skafl, Ropandi örn, Höldum hæð og Höldum hópinn - allt eftir tilefnum.

Árið sem við nefndumst Ropandi örn, gengum við í niðaþoku á Straumnesfjall. Í þokunni birtist okkur gríðarstór fugl á steini. Hrifin og uppnæm virtum við fyrir okkur þessa sjón - bæði með  berum augum og kíki. Gott ef ekki blasti líka við myndarlegur laupur og fjöldi arnarunga. Þegar nær dró, minnkaði skepnan - og loks - þegar við vorum alveg komin að fuglinum flaug hann ropandi á braut. Errm Þetta var þá rjúpa.

Um þetta var ort:

  • Á Straumnesfjallið stikar greitt,
  • stafir blika og skína,
  • gönguhópur, brosir breitt
  • með bakpokana sína. 
  • Í gegnum þoku grilltum þar,
  • gáttuð eins og börn,
  • hvar á stórum steini var
  • stæðilegur ÖRN. 
  • Enginn þó að öðrum laug
  • eða bar við skopi
  • fyrr en óvænt fuglinn flaug
  • með fjaðrabliki og ROPI.

c_documents_and_settings_lina_my_documents_my_pictures_hornstr-07_burfell2_medium_265031 c_documents_and_settings_lina_my_documents_my_pictures_hornstr-07_hesteyri2_small Vestfirðir


Af hverju á Guðmundur að skila gögnum?

OR Hvaða fár er þetta eiginlega út af "gögnum" sem Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri OR, á að hafa undir höndum? Vita menn ekki að það er hægt að ljósrita allan skrattann? Og hvað er Guðmundur að þumbast við með lögfræðingum og alles? Af hverju ljósritar hann ekki bara þau gögn sem hann telur sig þurfa og skilar þeim svo? Varla hverfur vitneskja hans um fyrirtækið þó hann láti einhverja pappíra af hendi.

Á visir.is kemur fram að Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hafi leitað til Kjartans Magnússonar, stjórnarformanns Orkuveitunnar, eftir að hafa ítrekað beðið Guðmund Þóroddsson, fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, um að skila gögnum af stjórnarfundum. Haft er eftir Ástu Þorleifsdóttur, varaformanni stjórnar OR það sé „mikill munur á að vera stjórnarmaður annars vegar og starfsmaður hins vegar þegar kemur að því að skila gögnum." Errm 

Ásta segi ennfremur að „þegar forstjóri hefur ítrekað farið þess á leit við starfsmann að hann skili þessum gögnum" að þá sé bara „sjálfsagt og eðlilegt að stíga næstu skref"sem séu að láta skrifa bréf „eins og hefði verið gert í tilfelli hvaða starfsmanns sem er."

Hmmm .... og myndu menn senda fjölmiðlum afrit af slíku bréfi "í tilfelli hvaða starfsmanns sem er?"

Nei - þið fyrirgefið, en þetta mál er komið út í einhverja vitleysu og það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við umfjöllun þess á opinberum vettvangi.

Það segir sig auðvitað sjálft að þegar stjórnandi í fyrirtæki gengur þaðan út, þá hefur hann meðferðis vitneskju og upplýsingar um starfsemi og innviði fyrirtækisins. Það breytir engu þó hann skili einhverjum pappírum sem fjöldi manns hefur hvort eð er undir höndum. Nema menn óttist að maðurinn geymi eitthvað sem kemur sér illa fyrir þá sjálfa og þær ákvarðanir sem þeir hafa tekið. Nú, eða ætlunin sé að ófrægja manninn - gera hann tortryggilegan og hindra þar með að hann komist í sambærilega áhrifastöðu annarsstaðar, þar sem upplýsingarnar sem hann hefur undir höndum geta komið sér illa fyrir OR.

Sé það tilfellið - þá er leiðinlegt að verða vitni að þessum tilburðum. Guðmundur Þóroddsson er ekki eini stjórnandinn sem yfirgefur starfsvettvang með vitneskju í farteskinu. Þetta er alltaf að gerast - og menn verða bara að bíta í það súra. Þessi læti eru engum til framdráttar. 


mbl.is Upplýsingar stangast á um eðli gagna um OR í vörslu Guðmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hangið í lagakrókum - hálfrifin sjálfsréttlæting

471885A Eftir fund sem allsnerjarnefnd Alþingis hélt í gær með ýmsum aðilum vegna brottvísunar Paul  Ramses Odour úr landi kom fram að menn teldu "að málsmeðferðarreglur hefðu ekki verið brotnar" í máli mannsins (sjá frétt mbl).

 Ég furða mig á þessu - sérstaklega í ljósi þess að samkvæmt stjórnsýslulögum ber að úrskurða og upplýsa fólk um ákvarðanir stjórnvalda svo fljótt sem mögulegt er. Það getur a.m.k. ekki verið eðlilegt að birta ekki úrskurð fyrir manni fyrr en búið er að handtaka hann níu vikum síðar. Það gefur auga leið að Paul Ramses Odour átti velferð sína (jafnvel líf sitt) undir því að geta leitað annarra úrræða félli úrskurður honum í óhag. Þessi málsmeðferð getur því ekki talist eðlileg.

Vera má að meðferð Útlendingastofnunar á Paul Ramses standist lög - en lög og siðferði eru ekki endilega sami hlutur, eins og Vilmundur heitinn Gylfason benti eftirminnilega á.

Ég vona heitt og innilega að menn beri gæfu til þess að bæta úr í þessu máli - sé það mögulegt. Það er stórmannlegra að horfast í augu við það sem hefur farið úrskeiðis og bæta fyrir það, heldur en að hanga í lagakrókum á sjálfsréttlætingunni hálfrifinni.

 


mbl.is Kært til ráðherra í dag vegna máls Paul Ramses
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er mennskan?

Nú virðist sem þjóðarsálin og "kerfið" hafi orðið viðskila - að minnsta kosti vona ég að framkoma stjórnkerfisins við Paul Ramses Odour og fjölskyldu hans sé ekki til vitnis um hugarþel þjóðar minnar. 

Gestrisni og samhjálp hefur löngum verið einn mælikvarði á menningarstig þjóða. Við Íslendingar höfum í gegnum tíðina haft gestrisni í hávegum, og álitið níðingsskap að synja þeim sem þurfandi eru. Það er inngróið í þjóðarsál okkar. Það hvernig tekið er á móti nýjum samfélagsþegnum, fæddum og innfluttum, er því ekki aðeins til  vitnis um menningu okkar, heldur mennsku.

Hvernig samfélag er það þá sem rekur úr landi ungan fjölskylduföður í lífshættu? Getur slíkt samfélag kennt sig við velferð og mennsku?

Við státum okkur af því á tyllidögum að taka vel á móti flóttafólki. Það vantar ekki að stjórnmálamenn láti mynda sig og nefna á nafn þegar verið er að taka á móti hópum fólks af einhverjum ástæðum hafa flúið heimaland sitt. Þá er fjálglega talað um það að halda saman fjölskyldum, taka vel á móti og skapa skilyrði fyrir fólk til að hefja nýtt líf.

En ... nú kom maður sem leitaði á náðir okkar. Hann var ekki sérvalinn af sérstakri sendinefnd. Hann mætti ekki við ljósaleiftur fjölmiðla á Keflavíkurflugvöll í gefinni lopapeysu eins og flóttamannahóparnir sem stjórnvöld hafa státað sig af á undanförnum árum. Nei - hann kom á eigin vegum - í raunverulegri þörf fyrir aðstoð handa sér og sinni ungu fjölskyldu - eiginkonu og nýfæddum syni. Hann bað um hæli, maður í hættu staddur.

Viðbrögðin? Mannréttindi hans hafa verið fótum troðin. Hann var svikinn um þá málsmeðferð sem hann átti rétt á. Svikinn um svör, blekktur ... og sendur úr landi. Rifinn frá nýfæddum syni og ungri konu. Fjölskyldunni sundrað.

Yfir móður og mánaðargömlu barni vofir að verða vísað úr landi á næstu dögum.

Við Íslendingar höfum viljað kalla okkur menningarþjóð - en hver er mennska okkar?

 


mbl.is Óvissuástand hjá Paul Ramses
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullt hús af fólki, hundum og ... ég í bloggfríi

Ég er enn í bloggfríi - þessi færsla er eiginlega bara svona ósjálfrátt viðbragð af því að ég fékk fiðring í fingurna þegar ég fór að kíkja á moggabloggið. En satt að segja hefur verið svo mikið að gera hjá mér undanfarna daga - fullt hús af fólki og hundum - og enginn tími til að skrifa bloggfærslur.

InyrriPeysu (Medium) Daði Hrafn ömmustrákur er í heimsókn með pabba sínum (honum Dodda mínum), mömmu sinni (Erlu Rún tengdadóttur minni) og heimilishundinum þeirra (henni Vöku).

Saga dóttir mín er hér líka.

Skutull0608 (Medium) Og svo má ekki gleyma nýjasti fjölskyldumeðlimnum, en það er hvolpurinn Skutull. Tíu vikna border-collie hvolpur (svona að mestu), algjört krútt. Hann á litla systur sem er algjör dúlla líka - og hana vantar sárlega heimili. Áhugasamir gefi sig fram hið fyrsta.

 En sumsé. Hér eru sem stendur sjö manns í heimili og þrír hundar. Jebb ... líf og fjör! Og ekki við því að búast að húsmóðirin sitji mikið við skriftir eins og ástatt er.

Hér sjáið þið nokkrar myndir af heimilishaldinu undanfarna daga.

P1000295 P1000465 (Medium) hundaburid (Medium) mátun (Medium) skutull08 (Medium)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband