Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Á fullu tungli

ulfar Tungl er fullt í kvöld. Á fullu tungli er lífið löðrandi af magni og orku. Hundar verða órólegir, úlfar senda sín langdregnu væl út í nóttina - töfrasteinarnir og snjókristallar glitra í náttmyrkrinu. Fjöllin verða björt og hafið slegið silfurdregli.

Á fullu tungli fæðast börnin flest, elskendur finna lífsorku og ástríður ólmast í brjóstinu. Fullt tungl er tími fullkomnunar - samruna - fyllingar. Samningar eru undirritaðir, áföngum fagnað. Séu erfiðleikar í lífi fólks munu þeir trúlega ná hámarki á fullu tungli - sé lausn vandamáls í sjónmáli eða undirbúningi mun hún ná fram að ganga á fullu tungli.  fullt tungl

 

Í þrjá daga njótum við þessarar fyllingar - svo tekur tungl að myrkvast á ný. Þá dregur smámsaman úr framkvæmdagleði og atorku, kúfurinn minnkar og magn þess sem á undan er gengið sömuleiðis.

Nú er tími til að hreinsa skrifborðið, þvo þvottinn, taka til í herberginu, rífast og sættast, elskast.

Það er dásamlegt að vera til á fullu tungli. Njótum þess að horfa upp í himininn og anda að okkur birtu þessarar náttsólar - leyfa silfurgeislum hennar að streyma um æðarnar og fylla brjóstið. Þó ekki sé nema eitt augnablik. Það er þess virði.


Tímamótasamningar - jafnaðarhugsun

samningar08 Rétt í þessu var ég að hlusta á Steingrím Joð í Kastljósinu. Blekið vart þornað af undirritun nýrra kjarasamninga milli ASÍ og atvinnurekenda, samninga sem menn segja að marki tímamót. Ríkisstjórnin kom rausnarlega að málum og liðkað fyrir svo um munaði, og menn brosmildir og kátir - ný búnir að undirritað og svona. En Steingrímur er ekki alveg kátur. Hann langar augljóslega að "skemmileggja" aðeins stemninguna.

Já, þetta kom aðeins of vel út fyrir ríkisstjórnina fannst honum - og best að bíða ekki of lengi með aðfinnslurnar. Tímamótasamningar? Ja - prinsippið er auðvitað gott, sagði hann. Auðvitað alveg rétt að láglaunafólk fær meira en tíðkast hefur með þessu móti. Joóó, jooóó, útaf fyrir sig - en ríkisstjórnin átti að gera ennþá meira. Ennþá meira. Menn munu sjá það seinna, sko. Seinna, þó þeir sjái það ekki núna.

Sjálf hefði ég ekki trúað því þegar ég heyrði í formanni Rafiðnaðarsambandsins fyrir helgi að ríkisstjórnin væri á sömu stundu að leggja lokahönd á sitt rausnarlega útspil. Ég verð bara að viðurkenna það - enda held ég að Guðmundur rafiðnaðarformaður hafi ekki trúað sínum eigin augum þegar "sú gamla" loks hlammaði sínum skerfi á borðið:  Hækkun persónuafsláttar, rýmra tekjusvigrúm vegna barnabóta,  lækkun tekjuskatts fyrirtækja, hærri húsaleigubætur, hærri eignaskerðingamörk vaxtabóta, niðurfelling stimpilgjalda, fyrirheit um lækkun tolla og vörugjalda og hækkun atvinnuleysisbóta. Hana, hafið þetta -  þið hljótið að geta samið núna! Eins og feitlagin, ljúf frænka, sem reddar barnaafmæli.

Þetta eru óvenjulegir samningar - andinn sem svífur yfir þessum samningum minnir svolítið á gömlu þjóðarsáttarsamningana. Verkalýðshreyfingin hefur tekið þann pól í hæðina að líta til almennra kjara og aðstæðna í efnahagslífinu í stað þess að kalla einungis eftir launahækkunum. Í þessum samningum er verið að horfa á samhengi hlutanna og knýja aðila til samábyrgðar. Í því er fólgin ákveðin - tja, hvað á maður að kalla það - frelsun er sennilega rétta orðið. Frelsun undan gamalli og úr sér genginni kröfugerðarpólitík - sem sum stéttarfélög eru enn allt of upptekin af, því miður.

Atvinnurekendur hafa gengið að samningaborði með sama hugarfari. Sameiginlega hafa aðilar vinnumarkaðarins slegið nýjan tón sem vonandi mun hafa áhrif til framtíðar, með auknum jöfnuði og um leið jafnvægi í efnahagslífinu og þar með almennum kjarabótum launafólks.

Já, ég gæti bara trúað að þegar fram í sækir verði þessi samningsgerð álitin hornsteinn að nýrri hugsun í íslenskri stéttabaráttu. Og það er vel.


Er íslenskan úrelt mál?

hi  Verður íslenska brátt ónothæf í vísindasamfélaginu á Íslandi? Ýmsir eru uggandi um framtíð íslenskunnar, telja jafnvel að hún sé að verða undir sem nothæft tungumál í vísindum og fræðum. Ýmsar blikur eru á lofti:
  • Kennsla í íslenskum háskólum fer sumstaðar fram á ensku.

  • Fræðaskrif á íslensku eru minna metin í vinnumatskerfi Háskóla Íslands en skrif á öðrum tungumálum, einkum ensku.

  • Margar deildir Háskóla Íslands gera kröfu um að doktorsritgerðum sé skilað á ensku.

  • Þess vegna er innan við þriðjungur doktorsritgerða sem lagðar hafa verið fram fram við HÍ á árunum 2000-2007 á íslensku.

  • Háskóli Íslands stefnir að því að komast í hóp 100 bestu háskóla heims á næstu árum og fleiri háskólar setja markið einnig hátt. Ráðstefnuhaldarar spyrja - sem vonlegt er - hvort það að tala og skrifa íslensku samrýmist þá ekki þessum markmiðum?

Tja - svari nú hver fyrir sig.

  • En  Íslensk málnefnd og Vísindanefnd Íslendinga gangast fyrir ráðstefnu á morgun um stöðu og framtíð íslenskrar tungu í vísindum og fræðum þar sem þetta verður tekið til umfjöllunar kl. 14-17 í hringstofunni á Háskólatorginu.

  • Ég ætla að reyna að mæta af því ég verð í borginni ... svo fremi það verði flogið seinna í dag. Er að fara upp á Snæfellsjökul um helgina - og mun því lítið blogga næstu daga Smile

Gúrkublogg um Villa

VilliÞ Ég er orðin uppgefin á þessu máli hans Villa Vill, þannig hafa þeysisprettirnir í þeirri umræðu verið að undanförnu. Á meðan lúra nokkrir meðábyrgir aðilar í þagnarskjóli, því athyglin hefur öll beinst á einn veg.

Ég horfði á Ólaf F í Kastljósi um daginn - tók eftir því að hann notaði orðið "meirihluti" í hvert sinn sem fréttamaðurinn spurði um Vilhjálm Þ. Hvort hann bæri traust til Vihjálms  - ja, hann bar fullt traust til meirihlutans. Þetta væri traustur meirihluti ....

Nýjustu fréttir eru þær að Deiglan hafi snúið baki við fyrrum leiðtoga sínum. Þá er mikið sagt.

 

Blida07 Jæja, en ég brá mér á björgunarhundaæfingu í gærkvöld. Það var fallegt veður og tunglbirta. Langt síðan maður hefur séð himininn. Við erum að undirbúa okkur fyrir landsæfingu sem haldin verður á Snæfellsjökli um næstu helgi. Svo verður viku námskeið hér fyrir vestan í mars. Alltaf nóg að gera Smile

Blíða2


Óstarfhæf borgarstjórn.

VilliÞ Það er stjórnarkreppa í Reykjavíkurborg. Sjálfstæðisflokkurinn ekki stjórntækur. Oddviti hans, rúinn trausti, streitist við að sitja sem fastast, þrjóskur eins og skólastrákur, eftir að hafa orðið uppvís að ósannindum og blekkingum, ítrekað - að ekki sé nú minnst á umboðsleysi hans við stórar ákvarðanir.

Borgarfulltrúar hins svonefnda Tjarnarkvartetts hafa svarist í fóstbræðralag, og lýst því yfir að þeir muni ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum eftir allt sem á undan er gengið. Núverandi meirihlutasamstarfi veltur á einum einasta borgarfulltrúi sem hefur ekki einu sinni næstu menn á lista til stuðnings við sig, og má ekki fá kvef, þá er kominn nýr meirihluti! Sá fjórði á þessu kjörtímabili.

Það er aðeins eitt orð yfir ástandið: Stjórnarkreppa. Borgarstjórn Reykjavíkur er ekki starfhæf eins og á stendur.

Alþingi Íslendinga ætti að sjá sóma sinn í því að höggva á þennan hnút og setja bráðabirgðalög sem heimila nýjar kosningar í Reykjavík. Fyrir því er fordæmi frá árinu 1934 þegar bæjarstjórn Ísafjarðar var óstarfhæf.

Þeir borgarfulltrúar sem sitja í núverandi meirihluta verða einfaldlega að endurnýja umboð sitt. Það er ekkert annað í stöðunni. Það hlýtur hver heilvita maður að sjá.


Hvað var nú þetta?

VilliÞ Þetta er nú orðinn meiri farsinn: Vilhjálmur einsamall á blaðamannafundi, meira en klukkutíma of seinn, með enn eina yfirlýsinguna: Hann ætlar ekki að hætta. Honum finnst hann hafa axlað sína ábyrgð - af því hann missti meirihlutann í október - meirihlutann sem hann náði svo aftur með bolabrögðum í janúar. Honum finnst að hinir eigi líka að axla ábyrgð. Af hverju axla þeir ekki ábyrgð? spyr hann eins og skólastrákur sem vill draga fleiri með sér í fallinu. Af hverju bara ég??

Nei, þetta er bara orðin algjör vitleysa. Ég held ég taki undir með manninum sem  sagðist dást að getu Vilhjálms á einu sviði því, eins og hann sagði: "Alltaf þegar ég held að hann komist ekki neðar þá birtir hann nýja yfirlýsingu ... og grefur sig enn dýpra!"


mbl.is Vilhjálmur: Hef axlað ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háskóli er bara hugtak!

hi Ný framhaldsskólalög eru nú í deiglunni. Umsagnaraðilar eru óðum að kunngjöra athugasemdir sínar við frumvarpið og nokkuð ljóst að sínum augum lítur hver á silfrið. Ekki ætla ég mér þá dul að fjalla í stuttu málið um lagafrumvarpið í heild sinni, enda hafa til þess bærir aðilar skilað inn ítarlegum greinargerðum þar að lútandi.

Mér rennur hinsvegar blóðið til skyldunnar að fjalla um eitt ákvæði þess sem ég tel að feli í sér athyglisverða nýjung í skólastarfi. Mér er málið skylt  enda hef ég tjáð mig á svipuðum nótum áður. Ég er að tala um 20. grein frumvarpsins. Samkvæmt henni er framhaldsskólum heimilt  að bjóða nám í framhaldi af skilgreindum námslokum á framhaldsskólastigi. Þetta nám getur veitt sérstök eða aukin réttindi, það skal metið í einingum “og þegar við á í námseiningum háskóla” segir þar. Ráðherra skal staðfesta námsbrautarlýsingar fyrir slíkt nám og heiti viðkomandi prófgráða. 

Frumgreina- og háskólakennsla við framhaldsskóla

Að því er best verður séð mun þetta ákvæði opna framhaldsskólunum þá leið að taka upp undirbúnings- eða frumgreinanám fyrir háskóla, jafnvel nám á grunnháskólastigi. Sé þetta réttur skilningur er um að ræða merkilega nýjung sem gefur möguleika á nýjum tengingum milli framhaldsskólanna og háskólastigsins í landinu.

Ég hef lengi verið talsmaður þess að menntamálaráðuneytið heimilaði íslenskum framhaldsskólum að bæta við námsframboð sitt eftir stúdentspróf og taka upp kennslu á grunnháskólastigi. Á málþingi um uppbyggingu háskólanáms á Vestfjörðum vorið 2004 færði ég fyrir þessu rök. Sömuleiðis í Morgunblaðsgrein stuttu síðar. Á þeim tíma mætti hugmyndin hóflegri tortryggni – sem vonlegt er – því allar breytingar í skólastarfi þurfa að sjálfsögðu yfirvegun og umhugsun. Það gleður mig því sannarlega að sjá þennan möguleika settan fram í því lagafrumvarpi um  framhaldsskólana sem nú liggur fyrir þinginu.

Hlutverk framhaldsskóla landsins er í stöðugri þróun og endurskoðun. Á undanförnum árum hafa skilin milli grunnskóla og framhaldsskóla orðið óljósari með tilkomu almennra námsbrauta við framhaldsskólana sem segja má að séu nokkurskonar brú milli skólastiga. Það er því vissulega tímabært að huga að tengingunum hinumegin líka, þ.e. á milli framhaldsskólans og háskólastigsins. 

Hvað er háskóli?

Lögum samkvæmt er háskóli stofnun sem “jafnframt sinnir rannsóknum ef svo er kveðið á í reglum um starfsemi hvers skóla”. Háskóla er ætlað að “veita nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum, nýsköpun og listum og til þess að gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu þar sem æðri menntunar er krafist. Háskólum er ætlað að miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar” (lög nr. 136/1997, 2. gr.).

Allir háskólar gera ákveðnar kröfur til þess að nemendur tileinki sér ákveðin vinnubrögð í rannsóknar og námsaðferðum, sem og að þeir búi yfir ákveðinni undirstöðuþekkingu sem alla jafna er kennd á fyrstu stigum háskólanáms. Þeir sem lokið hafa meistara- eða kandídatsprófi úr háskóla eru þannig færir um að kenna á háskólastigi. Það eru því fyrst og fremst þekkingarkröfur sem gerðar eru til háskólakennara. En eins og við vitum er það ekkert skilyrði að sjálf háskólakennslan fari fram innan veggja stofnunar sem nefnist háskóli – háskóli er auðvitað bara hugtak.

Fram hefur komið að Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum átt fullt í fangi með að sinna sívaxandi nemendafjölda, þar sem mestur þunginn hvílir á svokölluðu grunnnámi háskólastigsins. Í raun og veru er ekkert því til fyrirstöðu að þessar undirstöðugreinar séu kenndar annarsstaðar, t.d. í framhaldsskólunum, og þá sem eðlilegt framhald stúdentsprófs. Er enginn vafi á því að það myndi efla mjög menntastarf á landsbyggðinni að koma upp grunnháskóladeildum við framhaldsskólana,  einkum á stöðum þar sem formlegar háskólastofnanir eru ekki til fyrir og íbúar ennfremur of fáir til þess að standa undir slíkum stofnunum.

Með því að festa ofangreint ákvæði í lög um framhaldsskóla má segja að opnast hafi nýjar dyr milli skólastiga og einnig nýjar leiðir í menntunarmöguleikum á landsbyggðinni. Það er fagnaðarefni.

(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu s.l. fimmtudag)


Heba er týnd!

Heba Eftir mikla og góða æfingu með björgunarhundasveitinni í hryssingsveðri i gær, fékk ég hundaútkall. Já, alvöru "hundaútkall". Örvæntingarfullur hundeigandi leitaði til björgunarhundasveitarinnar á Ísafirði um aðstoð við að finna tíkina sína, hana Hebu. Hún hvarf að heiman, frá Fremri-Breiðadal í Önundarfirði, á laugardagsmorgun.

Heba hefur því verið týnd í tvo sólarhringa.

Þar sem ég man eftir eiganda hennar, Björk Ingadóttur, frá því hún var lítil, ljóshærð telpa að snuddast í hesthúsinu með honum pabba mínum heitnum, og vék þar góðu að hrossunum okkar, get ég ekki annað en veitt henni lið, nú þegar hún hefur týnt fallega hundinum sínum.  Ég lýsi þess vegna eftir Hebu hér á bloggsíðunni minni.

Heba er falleg ársgömul tík af íslensku fjárhundakyni, þrílit. Heba sækir mikið í það að elta hrafn og mink og gæti því hafa farið upp á fjöll eða niður í fjöru. Henni var hleypt út ásamt hinum heimilishundinum í Fremri Breiðadal á laugardagsmorgun. Hundarnir voru dágóða stund fjarri en svo kom aðeins annar þeirra til baka um fimmleytið. Veður varð slæmt í gær, og er ekki óhugsandi að tíkin hafi hrakist upp á fjöll, jafnvel yfir í aðra firði.

Þeir sem hugsanlega geta gefið upplýsingar um Hebu eru beðnir að láta vita í síma: 456-4559 eða 863-4559. Hennar er sárt saknað.

Og nú er ég komin í hundabjörgunarsveit - vona bara að þessi eftirgrennslan beri árangur.


Samstöðustjórnmál?

RadhusRvikur Mér er þungt um hjartarætur eftir að hafa horft á viðtölin við Svandísi Svavarsdóttur og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson í Kastljósi í gær. Mér líður eins og ég sé í herkví - er ég þó ekki íbúi í Reykjavík heldur bara kjósandi vestur á fjörðum og venjulegur samfélagsþegn.

 Það lítur út fyrir að skýrsla stýrihópsins svokallaða eigi að verða endahnúturinn á þessu skelfilega OR og REI máli. Svandís talaði um að það hefði ekki verið í verkahring nefndarinnar að sakfella menn. Nú yrðu menn bara að læra af reynslunni og ná samstöðu um betri vinnubrögð  í framtíðinni. Hún talaði um samstöðustjórnmál.

Þeim sem brjótast inn á bensínstöðvar er ekki gefinn kostur á slíku. Hvers vegna ættu þá menn sem reyna að komast yfir milljarðaverðmæti í eigu almennings að fá aðra meðhöndlun? Þegar fyrrverandi borgarstjóri - sem  vel að merkja var bæði ráðinn og kjörinn til trúnaðarstarfa fyrir almenning í borginni - bregst því trausti að gæta verðmætanna og verður vís að ósannindum - hvað þá?

Sjálfum finnst honum rétt að stjórnir OR og REI muni nú "fara yfir málið". Halló! Er ekki búið að fara yfir málið? Voru það ekki kjörnir fulltrúar sem fóru yfir málið? Trúa menn því að stjórnir þessara fyrirtækja muni aðhafast eitthvað gegn fyrrverandi stjórnarmönnum og starfsmönnum?

Og ekki hafa stjórnir OR og REI yfir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni að segja. Hann er utan þeirrar seilingar. Hver mun sjá til þess að hann axli ábyrgð?

Það eiga kjósendur að gera - segja menn borginmannlega á bloggsíðum.  Vandinn er bara sá að kjósendur eiga ekkert val. Það er engin lagastoð fyrir því að rjúfa borgastjórn og efna til nýrra kosninga - þó vissulega væri þess full þörf nú. Löggjöfin gerir bara ekki ráð fyrir að annað eins og þetta geti gerst í einni sveitarstjórn. Og enn er langt til kosninga. Vilhjálmur ætlar að verða borgarstjóri eftir ár. Lagalega er ekkert sem getur komið í veg fyrir það.

Og hvað er þá til ráða? Kjósendur eiga jú sína fulltrúa í borgarstjórn. Það eru auðvitað þeir sem eiga að tala máli almennings og sjá til þess að einhver axli ábyrgð. Það hlýtur að vera þeirra hlutverk öðrum þræði. Annars hefur ekki verið velt við hverjum steini.

Samstöðustjórnmál? Ég þekki líka annað orð: Það er orðið samtrygging sem löngum hefur loðað við valda- og viðskiptaöflin í þessu litla landi. 


Útkall F-1: Rauður. Snjóflóð á Súðavíkurhlíð.

Í morgun fékk ég útkall - fyrsta útkallið mitt: Snjóflóð á Súðavíkurhlíð, einn bíll í flóðinu. "Útkall F-1: Rauður" voru skilaboðin sem blikuðu á farsímanum mínum á ellefta tímanum í morgun.

Ég var ekki viðbúin - enda hundurinn minn varla orðinn útkallshæfur, bara með C-próf í vetrarleit (að vísu á góðri leið í B en samt ekki kominn með það). En lífið spyr oft ekki um prófgráður. Þegar mikið liggur við eru allir kallaðir út - og svo ræður forgangsröðun.

Ég stóð eins og þvara með farsímann í höndunum og það fór um mig undarlegur straumur. Tíkin sem lá fram á lappir sínar skammt frá mér skynjaði geðshræringuna. Hún spratt á fætur og stillti sér upp fyrir framan mig. Hún skalf eins og strá í vindi - spennt - hugsanlega kvíðin eins og eigandinn. Skömmu síðar fékk ég fregnir af því að ökumaðurinn væri kominn heill út úr flóðinu og ekki væri þörf á hundum. Um svipað leyti voru björgunarsveitarmenn sem lagðir voru af stað varaðir við mikilli snjóflóðahættu á svæðinu - enda fór svo að lögreglubíll komst í hann krappann áður en yfir lauk.

Já, allt fór þetta vel: Engu að síður var þetta merkileg reynsla. Að standa frammi fyrir alvörunni eitt augnablik. Öll þjálfun undanfarinna missera hefur jú gengið út á að vera viðbúinn útkalli einn daginn. En mikið var ég þó fegin að þurfa ekki að fara í þetta sinn. Fá svolítið lengri tíma til þess að búa mig (og hundinn) undir alvöruna.

Og þetta varð til þess að ég fór að hugsa um röð atburða og eigin viðbrögð við útkalli. Ég fór að útbúa bakpokann minn, tína ofan í hann eitt og annað sem þarf að hafa með þegar alvaran brestur á: Auka ullarföt, talstöðvar, ennisljós, kex og sitthvað fleira. Gerði lista yfir það sem gera þarf þegar þannig ber við. Nú bíður útkallspokinn tilbúinn á sínum stað - og ég er aðeins betur meðvituð um eigin viðbrögð.  Hvort ég verð búin að ná B-prófi á hundinn áður en kemur að fyrsta útkallinu okkar - hvort ég verð raunverulega tilbúin þegar á reynir - það veit Guð einn. En útkallspokinn er á sínum stað.

vetrarmynd07krafla-velsledi

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband