Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Hin nýja hagspeki

Ef þið hefðuð lagt 100.000 krónur í að kaupa hlutabréf Nortel fyrir einu ári síðan væri verðmæti bréfanna í dag um 4.900 krónur.

Hefði sama fjárfesting verið lögð í Enron væri sú eign í dag um 1.650 krónur.

Hefðuð þið keypt bréf í World Com fyrir 100.000 krónur væri minna en 500 kall eftir.

Hefði peningurinn hins vegar verið notaður til að kaupa Thule-bjór fyrir einu ári síðan þá hefði verið hægt að drekka hann allan og fara síðan með dósirnar í endurvinnslu og hafa um 21.400 krónur upp úr því.

Þegar ofangreint er athugað virðist vera vænlegur kostur fyrir fjárfesta að drekka stíft og endurvinna! 

 

 

Smile

 

Þennan fékk ég frá vinkonu minni í dag - það má nú brosa út í annað.


Tekið til eftir strákana

 Það hefur löngum komið í hlut kvenna að sópa upp eftir strákana - taka til eftir partýið.  Eiginlega er ekki seinna vænna að fela konum að taka við stjórnun Glitnis og Landsbanka, en samt svolítið kaldhæðnislegt að það skuli fyrst gerast nú þegar allt er komið í kaldakol.

Hvað um það - þetta er kannski bankanna eina von eins og á stendur. Konum hefur í gegnum aldirnar haldist betur á búrlyklum er körlum.

Þeim Elínu og Birnu fylgja að minnsta kosti velfarnaðaróskir héðan úr þessum ranni.


mbl.is Birna verður væntanlega bankastjóri Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þreytumerki á forsætisráðherra

geirhaarde.jpg Þegar forsætisráðherra missir það út úr sér - þó út um annað munnvikið sé - að fréttamaður sé fífl og dóni ... tja ... þá er hann orðinn þreyttur, svo ekki sé meira sagt.

Ég ætla ekki að afsaka orð forsætisráðherra, en ég þykist sjá að álag undanfarinna daga sé farið að koma fram. Taugakerfið í Geir Haarde er auðvitað ekkert öðruvísi af Guði gert en taugakerfi annarra dauðlegra manna.  Álagið sem sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru undir núna er hins vegar ómælanlegt - það á sérstaklega við um forsætisráðherrann.

Ráðamenn okkar hafa ekki heyrt mörg hvatningarorð í yfirstandandi orrahríð. Menn hafa verið fundvísir á mistökin, en minna hefur verið um uppörvun. Það er svosem skiljanlegt líka, við erum öll í áfalli meira eða minna.

En við megum þó ekki gleyma því ráðherrarnir eru framvarðasveitin sem á að bjarga því sem bjargað verður. Þeir þurfa að halda hretið út. Kallinn í brúnni má ekki bila. Áhöfnin má ekki tapa áttum.

Reiði er eðlilegt viðbragð við áföllum - og hún leitar alltaf útrásar. Það er ekkert óeðlilegt við það. Þessa dagana beinist reiði margra að nafngreindum mönnum, að útrásarliðinu, ríkisstjórninni, Seðlabankastjóra, Bretum, fjármálaráðherra ...

Ráðamenn eru auðvitað líka reiðir, og eitthvert hlýtur þeirra reiði að beinast. Meðal annars að fjölmiðlafólki sem spyr óþægilegra spurninga og er kannski dónalegt í þokkabót. 

Reynum að hemja bræðina - reynum a.m.k. að beina henni í einhvern farsælan farveg. Hvetjum okkar framvarðasveit til dáða í erfiðum aðstæðum. Við höfum ekki öðru liði á að skipa - stöndum með okkar liði núna.

Að þessu sögðu vil ég þakka Geir Haarde og Björgvin G. Sigurðssyni fyrir þá yfirvegun og umhyggju sem þeir hafa sýnt þjóðinni síðustu daga.

Áfram svo - þetta kemur! 


Hvað ef heimsfriður væri í húfi?

Brown Þvílík hneisa - fyrir alla hlutaðeigandi.

Árni Matthiesen er auðvitað með allt niðrum sig. En það eru þeir Alistair Darling og Gordon Brown líka.

Hafi Árni Matthiesen gefið Darling raunverulegt tilefni til að skiljast það að Íslendingar myndu ekki standa við lögbundnar skyldur sínar gagnvart viðskiptamönnum Ice-Saving netbankans í Bretlandi - þá er óþægilegt til þess að hugsa að eitt símtal skuli geta orsakað milliríkjadeilu af þessu tagi. Það liggur ekki fyrir nein formleg yfirlýsing af hálfu Íslenskra stjórnvalda um þetta mál - og það er ekki til mikils ætlast að forsætisráðherra Breta taki upp símtólið og kanni stöðu málsins aðeins betur áður en hann rýkur til og stefnir Íslendingum fyrir dómstóla frammi fyrir heimspressunni. 

 "Belive it or not - they're not going to pay" sögðu þeir félagar, Brown og Darling, á blaðamannafundi yggldir á brún báðir. Svo var gripið til ákvæða hryðjuverkalöggjafar til þess að gera Íslendingum ljóst að nú væri Bretum sko alvara.

Þessi harkalegu viðbrögð breskra ráðamanna á opinberum vettvangi hafa nú haft örlagaríkar afleiðingar fyrir okkur Íslendinga.  Dvergþjóðina við nyrsta haf, sem nú berst um í ölduróti alþjóðlegrar fjármálakreppu, og liggur við drukknun. 

Bretland er málsmetandi ríki í samfélagi þjóðanna. Þetta er herveldi. Orð og gjörðir ráðamanna þar eru afdrifarík alla jafna. Það er þess vegna óþægilegt til þess að hugsa ef ekki þarf meira til þess að breskir ráðherrar bregðist við í fljótfærni. Hvað ef heimsfriður væri í húfi - en ekki "bara" afdrif smáþjóðar?

Svo mikið er víst að Bretar eru ekki vinir okkar. Það vitum við nú.

Og Árni Matthiesen verður að segja af sér sem ráðherra. Það er deginum ljósara.


mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem aldrei þekktu ráð ...

Nú er svo komið að það er einhvern veginn ekki um neitt að blogga. Maður er  eins og þurrausinn eftir það sem á undan er gengið  - búinn að tapa smáræðinu sem maður átti í Glitni. Hver veit nema meira tapist síðar. Kannski er þetta bara byrjunin, hvað veit ég?

Eins og stundum þegar syrtir í álinn, seildist ég í ljóðasöfnin mín kvöld í leit að einhverju sem gæti hýrgað andann eins og ástatt er. Nú brá svo við að ég fann ekkert sem mér líkaði.  Ekkert sem gaf mér andagift í eins og eina bloggfærslu - enda hafa ljóðskáld þjóðarinnar varla staðið í þeim sporum sem við Íslendingar stöndum í núna.

Þá rifjaðist upp fyrir mér vísan eftir Egil Jónasson á Húsavík og Friðrik Jónsson landspóst á Helgastöðum í Reykjadal (sjá PS neðar) sem þeir félagarnir ortu í sameiningu:

Upp er skorið, engu sáð
allt er í varga ginum.
Þeir sem aldrei þekktu ráð
þeir eiga'að bjarga hinum.

Þar með fann ég jarðtengingu á nýjan leik - og mér varð hugsað til fjármálaráðgjafanna sem undanfarin ár hafa í sjálfumgleði sinni sagt mér og fleirum fyrir verkum varðandi ráðstöfun þeirra takmörkuðu umframaura sem við höfum sum hver haft undir höndum, viðbótarlífeyrissparnaðinn og eitthvað fleira. Ekki hafa þeir nú allir reynst heilráðir blessaðir.

Sjálf hef ég svosem ekki verið neinn fjármálasnillingur heldur - enda búin að brenna mig svolítið. Ekki mikið sem betur fer - kemst vonandi hjá frekari brunasárum í framtíðinni.

Jamm ... allt leitar jafnvægis um síðir. Munum það bara.

 

 

---------

PS: Þegar ég setti þessa vísu fyrst hér inn sagði ég að hún væri eftir Sigmund Sigurðsson úrsmið á Akureyri - en hann er skráður fyrir vísunni á vef Skjalasafns Skagfirðinga.

Vinur minn, Baldur Jónasson (sonarsonur Egils) hafði samband við mig og benti mér á að vísan væri ranglega eignuð Sigmundi.  Vísan mun hafa birst í minningargrein um Sigmund og þar ranglega eignuð honum. 


Skammt stórra högga á milli

David60 Það er skammt stórra högga á milli í aðgerðum ríkisstjórnarinnar á fjármálamarkaðnum þessar klukkustundirnar. Maður er ekki fyrr búinn að ná andanum eftir Kastljóssviðtalið við Davíð Oddsson, en stjórn Glitnis hefur verið sett af. Eiginlega boðaði Davíð þessi tíðindi óbeinum orðum í viðtalinu þegar hann sagði óvíst að "það yrði nokkur banki til" þegar hluthafafundur Glitnis yrði á laugardag. Þar með þyrfti ríkið ekki að standa við vilyrði sitt um kaup á 75% hlut í bankanum. Hmmm ..... hljómaði svolítið eins og kærkomin ástæða til að standa ekki við þetta loforð, enda "vanþakklætið" hjá eigendum bankans mikið og óverðskuldað, ef marka mátti orð Seðlabankastjórans.

Annars var Davíð keikur í þessu viðtali - og sagði býsna margt sem ég get tekið undir, það á ekki síst við um líkinguna við eldsvoðann, slökkviliðið og brennuvargana og hvar samúðin ætti að liggja.

Ég er auðvitað eins og landsmenn aðrir orðin skekin af allir þessari hörmungarumræðu - og kannski er mér þess vegna farið að förlast eitthvað - að minnsta kosti er mér hálfpartinn um og ó yfir því hversu margt ég gat tekið undir í máli Davíðs.

Öðruvísi mér áður brá .... þegar við elduðum grátt silfur saman í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir margt löngu, og ég var aldrei sammála manninum.

Já, nú er Bleik svo sannarlega brugðið - enda "sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði" farnar að hafa áhrif á mig eins og aðra, svo vitnað sé í neyðarlögin.

Vel á minnst, neyðarlög: Eiginlega voru þarna sett "herlög". Ástæðan ærin og tilefnið illt - en valdsheimildirnar til Seðlabankans og fjármálaeftirlitsins eru svo víðtækar að það má jafna þeim við heimild til hernaðaríhlutunar í fjármálakerfinu. Segi nú svona.


mbl.is FME tekur Glitni yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ávarp forsætisráðherra - álagsprófið

 strand-jon_bald Það er ekki fyrr en gefur á bátinn sem í ljós kemur úr hverju skipstjórinn er gerður - hvort hann hefur styrk og æðruleysi til þess að hvetja áhöfnina til dáða, halda henni að verki og stýra þar með fleyinu heilu í gegnum brimgarðinn.

Undanfarna daga höfum við mátt sjá forsætisráðherrann á hrakningum undan fréttamönnum, við erfiðar aðstæður - vafalítið vansvefta og kúguppgefinn, þótt ekki hafi hann látið á því bera. Enda fara erfiðir tímar í hönd - og í mörg horn að líta hjá ráðamönnum.

Á slíkum tímum skiptir máli hvernig talað er til þjóðarinnar. Þá ríður á að skipstjórinn í brúnni haldi ró og yfirvegun - að áhöfnin treysti því að hún sé í öruggum höndum, hvernig svo sem sjólagið muni leika bátinn. 

Í dag talaði Geir Haarde til þjóðar sinnar. Þetta var álagsprófið. Augnablikið sem öllu skipti. Þetta var mikilvægasta augnablikið á stjórnmálaferli Geirs H. Haarde.

Um leið var þetta þýðingarmikið augnablik í samtímastjórnmálasögu okkar Íslendinga. Á þessum andartökum réðist það hvort landinu yrði stjórnað við núverandi aðstæður. Hvort íslenskur almenningur myndi finna það traust í fasi forsætisráðherrans að fela honum með þegjandi samþykki að leiða sig í gegnum boðaföllin. 

Þetta var trúnaðaraugnablikið.

Geir Haarde stóðst prófið - með láði.

 


mbl.is Forsætisráðherra flytur ávarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir. Þú þarft blaðafulltrúa, þó seint sé.

GeirogBlm Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að gerast PR-ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í fjarska og beina til forsætisráðherra eindregnum tilmælum: Fáið ykkur upplýsingafulltrúa. Strax.

Þjóðin á ekki að horfa upp á ráðamenn landsins misvel til hafða og þreytulega þar sem þeir ganga inn og út af fundum - eða standa útundir húsveggjum í ýmsum veðrum að verjast frétta og tjá sig í sem óræðustum orðum um stöðu mála. Það er ekki sérlega traustvekjandi þegar forsætisráðherra hrekst hálfpartinn upp að vegg undan hljóðnemaskóginum sem otað er að honum - og á ekki einu sinni fyrsta orðið, loks þegar hann kemur út af fundi til að tala við fréttamenn, eins og í gærkvöldi.

Því meira sem vinnuálagið er og þreytan, því ríkari áhersla er til að skapa vinnufrið og skipulag á upplýsingagjöf.

Upplýsingafulltrúi myndi koma fram til fréttamanna á tveggja tíma fresti - við aðstæður sem þessar - og gefa upplýsingar. Létta á spennunni með því að tala við fréttamenn. Segja frá því  við hverja sé verið að ræða, hverjir séu væntanlegir til fundar næst, hvenær búast megi við yfirlýsingu frá ráðamönnum og hvar sá blaðamannafundur verði haldinn. Forsætisráðherra á síðan að koma með yfirlýsingu þegar hann er tilbúinn - vera öruggur í fasi, skýr í máli OG eiga fyrsta og síðasta orðið. Þess á milli þarf hann að hafa vinnufrið.

Þetta gera menn á betri bæjum erlendis, til dæmis í Hvíta húsinu þangað sem ég hef verið svo fræg að koma og sitja fréttamannafundi um nokkurra daga skeið fyrir margt löngu. Þar eru haldnir reglulegir upplýsingafundir til fréttamanna - síðan koma kanónurnar sjálfar þegar mál liggja ljós fyrir.

Ágæta ríkisstjórn: Fáið einhvern til liðs við ykkur í þetta verkefni. Strax.


mbl.is Alvarlegri en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir um að ekkert sé að frétta

Það er orðið hvimleitt að hlusta á fréttir dag eftir dag um að ekkert sé að frétta. Fréttamenn hanga eins og hálfgerðir papparazzar framan við stjórnarráð og ráðherrabústað, reka hljóðnemann upp í alla sem ganga þar um dyr, spyrjandi endalaust að sömu hlutum og fá endalaust sömu svör: Að það sé ekkert um málið að segja á þessu stigi - verið sé að vinna að lausnum.

Svo er því lýst í smáatriðum hvernig menn bera sig að við að stökkva út úr bílum, upp tröppur og inn í hús - svipbrigði þeirra .... úff! Tíu sinnum hef ég heyrt nú í vikunni að þessi eða hinn sé alvarlegur á svip.

Það á ekki að leggja fréttatímana undir þetta - hvað þá heldur misvitrar kenningar um það sem kannski gerist, og hvað hugsanlega muni koma fram, þar sem slegið er í og úr. Fréttatímar eiga greina okkur frá því sem gerist - ekki því sem kannski gerist, eða menn halda að muni gerast, eða menn vona að gerist. Í öllum bænum - hlífið okkur við þessu.

Svo finnst mér að fjölmiðlar mættu alveg fara að fækka öllum þessum dósentum, aðjúnktum og lektorum sem þeir eru að ræða við dag eftir dag núna. Það er vandstjórnað þegar raddir stjórnvalda kafna stöðugt í misvísandi upphrópunum misviturra álitsgjafa sem tala þvers og kruss - og á endanum veit almenningur ekki sitt rjúkandi ráð. Ekkert frekar en fjölmiðlarnir sem eru farnir að snúast í hringi með hljóðnema sína og myndavélar, eltandi fólk eins og illa vandir hundar.

Látum vera þó að í fréttatímum sé drepið á ígrundaðar kenningar um stöðu mála - en slíka vangaveltur eiga þó best heima í umræðu- og fréttaskýringaþáttum.

Annars hlustaði ég af athygli á Þorvald Gylfason í Silfri Egils núna áðan. Drakk í mig hvert orð sem hann sagði og er sammála honum að nánast öllu leyti (þó mér finnist hann draga full mikið úr lífeyrissjóðaleiðinni - en látum það vera).

Þorvaldur er hættur frýjunarorðum sínum um að Samfylkingin slíti stjórninni - það er ágætt.

Hinsvegar segir hann að ef ríkisstjórnin hafi ekki döngun í sér til þess að skipta um áhöfn í Seðlabankanum þá sé hún ekki starfi sínu vaxin.

Ég tek undir það.


mbl.is Allir róa í sömu átt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laufið titrar - loga strá

 haustlaufAsthildurCecil Við Ísfirðingar erum í alveg sérstöku sambandi við sólina - ástæðan er sú að sólskin er meðal þeirra lífsgæða sem okkur eru takmörkuð. Sólin hverfur héðan úr Skutulsfirðinum síðari hluta Nóvembermánaðar og kemur ekki aftur fyrr en 25. Janúar. Þess vegna kunnum við að meta sólina - höldum henni sérstaka sólrisuhátíð þegar hún birtist á nýju ári - vegsömum hana.  

Síðustu daga hefur lítið sést til sólar. En í gær, braust hún skyndilega fram úr skýjum. Það var svo undarlega gott að finna fyrir geislum hennar í haustlogninu - finna nærveru hennar, og minnast þess að hún er alltaf á sínum stað, jafnvel þó maður sjái hana ekki fyrir fjöllum og skýjabólstrum.

Og þar sem ég gekk milli kjarrgreina inni í Tunguskógi í gær, og virti fyrir mér litadýrð haustsins í sólskininu, rifjaðist upp fyrir mér vísukorn sem ég einhverntíma orti við álíka aðstæður:

Laufið titrar, loga strá
lyngs á rjóðum armi.
Hneigir sólin höfga brá
að hafsins gyllta barmi.  

 

Myndina hér fyrir ofan fékk ég á bloggsíðu Ásthildar Cecil Þórðardóttur, bloggvinkonu minnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband