Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Var það þá drengurinn sem var pyntaður - ekki hundurinn?

Athyglisvert þykir mér ef hundurinn Lúkas er svo á lífi eftir allt saman. Þá sýnist mér miskunnarleysið hafa tekið á sig sorglega mynd, þ.e. gagnvart ungum manni sem var ofsóttur hér í bloggheimum.

Auðvitað er hugsanlegt að hundurinn hafi lifað hinn margumtalaða fótboltaleik af og sloppið frá kvölurum sínum. Væntanlega verður dýralæknir látinn ganga úr skugga um það hvort hann ber einhver merki misþyrminga (náist hundurinn á annað borð). Maður veit samt vart hvað réttast er að vona í þessu máli - því niðurstaðan er í báðum tilfellum sú að hér hafi skelfilegum pyntingum verið beitt: Annaðhvort gegn hundi, eða ungum manni, sem varð fyrir miskunnarlausu einelti, sakaður um skelfilegan glæp gagnvart dýri.

Sé hann saklaus eftir allt saman er ljóst að sakargiftirnar hljóta að hafa valdið honum sáru hugarangri og vanvirðu - að ég tali svo ekki um hótanirnar og illskuna sem hann varð fyrir í kjölfarið. Það má segja að sálarlífi hans hafi í þeim atgangi verið sparkað milli manna, líkt og varnarlausum smáhundi sem er innilokaður í tösku.

Rangar sakargiftir varða við lög. Mér finnst ekki til mikils ætlast að nú beinist rannsóknin að því hvort rangar sakargiftir hafi verið bornar á menn, og þeir sem það gerðu - sé það tilfellið - verði látnir standa fyrir máli sínu. Menn verða að læra að axla ábyrgð orða sinna - orð geta verið vopn sem bíta.


mbl.is Hundurinn Lúkas á lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitað upp fyrir Hornstrandir: 2. kafli.

Já, þessa dagana er að myndast svolítil hrúga á gólfinu í sjónvarpsherberginu - hún hækkar dag frá degi: Þetta eru bakpokar, ullarföt, flugnanet og svona hitt og þetta sem hafa þarf til taks fyrir Hornstrandagönguna um næstu helgi. Bóndinn er farinn að breiða úr kortum, athuga göngustafina og svona .... við erum í rólegheitum að setja okkur í gírinn. Hluti af því er að tölta hérna um nágrennið á nýju gönguskónum; skreppa upp í Naustahvilft í kvöldlogninu, ganga með góðum vinum inn í Álftafjarðabotn og svona ...

Og þar sem greiðviknir bloggvinir hafa gefið mér greinargóðar leiðbeiningar um það hvernig eigi að setja inn myndir úr einkaalbúminu - þá koma hér nokkrar frá ferðum okkar síðustu daga.  

Alftafjordur3 (Medium) (Medium)Alftafjordur7 (Medium)Alftafjordur6 (Medium)

Þessar þrjár myndir voru teknar inni í Álftafjarðarbotni í gær: 1) Við Siggi með Blíðu í Valagili 2) Guðrún og Gummi kasta mæðinni 3) Svanbjörn, Siggi, ég og Gummi að skoða nýju göngubrúna

 

Svo höfum við farið tvær ferðir upp í Naustahvilftina fyrir ofan flugvöllinn. Þessar myndir voru teknar eitt kvöldið þegar við skruppum með Hjörvari syni okkar og Vésteini frænda hans. Við það tækifæri stóðust þeir ekki mátið og fengu sér vatnssopa beint úr uppsprettunni.

Naustahvilft6 (Medium)Naustahvilft2 (Medium)Naustahvilft9 (Medium)

Svo er bara að krossleggja fingur og vona að blíðan haldist fram yfir næstu helgi Woundering


Hitað upp fyrir Hornstrandir

Hornbjarg Horn

Síðustu dagar hafa verið helgaðir útivist og göngutúrum hér á Costa del Ísafjörður. Ekki seinna vænna að liðka sig aðeins og mýkja upp gönguskóna fyrir Hornstrandaferðina sem framundan erum næstu helgi Grin Það er hinn vaski gönguhópur "Höldum hæð" sem leggur þá í sína fjórðu ferð um Hornstrandafriðlandið.

Heiti hópsins tekur breytingum frá einu ári til annars eftir því hvað hæst ber í ferðum hverju sinni.  Þannig hefur þessi hópur borði heitin "Skítugur skafl" (2004),  "Ropandi örn" (2005) og nú síðast "Höldum hæð" (2006) - og verður forvitnilegt að vita hvaða nafngift ævintýri næstu helgar munu færa okkur. 

Eitt er víst að þessar ferðir eru tilhlökkunarefni - enda ferðafélagarnir frábærir í alla staði.

Til stóð að setja inn nokkrar myndir af upphituninni undanfarna daga þar sem veður og náttúrufegurð hafa verið með miklum eindæmum. Af einhverjum ástæðum gengur það brösuglega að koma myndunum inn, svo það verður að bíða betri tíma.

PS: Ég er að velta fyrir mér hvort myndirnar geti verið of stórar úr vélinni hjá mér - því myndir af netinu smella inn á síðuna án fyrirhafnar, hmmm.........  Woundering Þarf að finna út úr þessu.

 

 


Yfirtaka á íslenskum álverum óheimil?

Á síðasta ári fullyrti ráðuneytisstjóri iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins,  Kristján Skarphéðinsson, að yfirtaka á álverum hérlendis væri óheimil "nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum og með samþykki stjórnvalda og raforkufyrirtækjanna".  Sagði hann það vera fólgið "í samningum rekstraraðilanna við íslensk stjórnvöld og raforkuframleiðendur".

Ummæli ráðuneytisstjórans féllu þegar verið var að ræða hugsanlega yfirtöku rússneska álfyrirtækisins RUSAL á álfyrirtækinu Alcan (sem er móðurfyrirtæki Straumsvíkurálversins en ekki Fjarðaráls, eins og ég missti ranglega út úr mér í fyrri færslu).

Varla breytir það miklu hvort það er RUSAL eða Rio Tinto sem yfirtekur Alcan - þessi flötur á málinu hlýtur að vera til staðar eftir sem áður. Vonandi.


Í klóm álrisans Rio Tinto

 

RioTinto2 RioTinto Yfirtaka Rio Tintos á Alcan fyllir mig óhug. Ég kíkti inn á Wikipedia til  þessa að forvitnast um fyrirtækið, og satt að segja fellur mér nú allur ketill í eld.

 Rio Tinto er eitt stærsta fyrirtæki heims í námavinnslu og orkuiðnaði. Það framleiðir og höndlar með ál, kopar, járn og demanta og er gríðarlega umsvifamikið á heimsvísu. Þetta fyrirtæki hefur sætt ámæli og harðri gagnrýni fyrir að misvirða stéttbundin réttindi fólks auk þess sem það hefur valdið gríðarlegum náttúruspjöllum t.d. í Nýju Gíneu. Þar var fyrirtækið raunar sakað um að eiga þátt í borgarastyrjöld sem braust út í landinu.

Með yfirtöku á Alcan mun Rio Tinto fjórfalda álframleiðslu sína - það mun verða eitt alstærsta (ef ekki bara stærsta) fyrirtæki heims á sviði álframleiðslu.

Gera menn sér grein fyrir því hvaða áhrif það getur haft á íslenskt efnahagslíf að fá slíkan aðila inn í íslenskar aðstæður? Þessi risi verður eftir yfirtökuna allsráðandi - óviðráðanlegur - gagnvart íslenskum ál - og orkuiðnaði. Hann getur hæglega eignast allar fjárfestingar í íslenskum áliðnaði og gengið inn í þá samninga íslenskra orkufyrirtækja sem nú standa yfir.

Hreyfingar og yfirtökutilboð milli álfyrirtækja að undanförnu sýna okkur að nú stendur óvægin og harkaleg samkeppni yfir milli stærstu álfyrirtækja heims: RUSAL, BHP Billington, Alcoa, Alcan, Chalco, og NorskHydro. Þær sviptingar sýna svo ekki verður um villst að viðskipti þessara aðila snúast fyrst ogfremst um hagsmuni fjarmagnseigenda og fyrirtækja en ekki samfélagsleg gildi, bætt mannlíf eða náttúruvernd. Litla Ísland má sín lítils í klóm slíkra aðila - þegar þeir kasta landinu á milli sín í viðskiptum um fjármagn og gróða - eins og þegar tröllin leika sér að fjöreggjum. 

Ég tek undir með Össuri Skarphéðinssyni að þessi tíðindi auki ekki vonir manna um að sátt náist um umhverfismál og nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi.

Skelfilegri er þó tilhugsunin um íslenskan þjóðarbúskap í heljargreipum þessa erlenda álrisa. Stjórnvöld ættu að leita allra hugsanlegra leiða til þess að hafa áhrif á það sem nú er að gerast, sé þess nokkur kostur.

Ég óttast hinsvegar að úrræðin séu ekki mörg í stöðunni eins og hún er. Því miður.


Af byssuógn og barsmíðum

Ég tek undir með þeim sem hafa bent á misvægið í fjöllun fjölmiðla um ofbeldi gegn konum.

Í þessu Hnífsdalsmáli greip ölóður maður byssu og hleypti af í átt að konu sinni. Skelfilegt atvik, vissulega, enda mætti sérsveit lögreglunnar óðara á staðinn og umsátursástand ríkti um húsið þar til maðurinn hafði verið handsamaður.

Á öðrum heimilum eru konur barðar og beittar margvíslegu ofbeldi án þess að sérsveitin sé kölluð til. Sumar hverjar eiga það meira að segja ekki víst að lögreglan mæti á svæðið svona yfirleitt - hvað þá heldur að nokkur maður skerist í leikinn.

Byssur eru augljóslega dramatískara ofbeldistæki en barefli - þó afleiðingar ofbeldisins getir verið þær sömu.


mbl.is „Ég sá blossa nálægt vanganum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúpína og kerfill eru allt að kæfa!

spanarkerfill Þetta nær engri átt. Lúpína og kerfill bókstaflega vaða yfir allt. Heilu landspildurnar hafa breyst í bláar breiður - og óræktarlönd með gróðurþekju eru að verða hvít af kerfli.

Fyrir fáum árum "átti" ég svolitla blómabrekku í hlíðinni hér fyrir ofan bæinn. Þangað brá ég mér til þess að tína blóm í vasa á góðviðrisdögum. Þar uxu ýmsar tegundir, blágresi, freyjubrá, hrafnaklukkur, brennisóleyjar, jafnvel munkahettur (sennilega afsprengi úr görðum í nágrenninu) og ýmislegt fleira. Þar voru líka lúpína og kerfill byrjuð að stinga sér niður. Á tveimur árum tóku þessar tvær tegundir yfir í blómabrekkunni, og nú eru allar aðrar blómategundir horfnar þaðan.

Sé litið upp í hlíðina ofan við Ísafjörð blasir ekki betra við. Kerfillinn veður bókstaflega yfir allt - í kappi við lúpínuna. Hann heldur sig við graslendið og kæfir allt þar, hún æðir hinsvegar yfir lyngmóana ofar í fjallinu. Þar sem áður voru grænar lyngbrekkur blasa nú við bláar breiður sem fara veldisvaxandi ár frá ári.

lupinubreida Höfuðborgarbúar hafa á síðustu árum séð viðlíka þróun í nágrenni borgarinnar, t.d.  við Rauðavatn og upp með Norðlingaholti og Sandskeiði, þar sem íslenskur lággróður er bókstaflega að hverfa undir lúpínubreiðurnar.

 Einhvern tíma var því haldið fram að lúpínan væri dásamleg jurt - hún yxi þar sem annar gróður ætti sér ekki von, hún byndi jarðveginn og myndi svo hopa fyrir öðrum gróðri. Jæja, ég hef hvergi séð þetta gerast, því miður, nema "annar gróður" hafi átt að þýða "trjágróður eingöngu".  Þvert á móti sé ég ekki betur en lúpínan nái allstaðar yfirhöndinni þar sem hún kemur sér fyrir. Heiðmörkin er t.d. að breytast í lúpínubreiðu milli trjáa. Þar sést varla nokkur íslensk jurt lengur, hvað þá berjalyng.

lupinaVíst er lúpínan falleg jurt - svona í hófi. Vandinn er bara sá að hún sést ekki lengur í hófi. Ég er hrædd um að menn hafi farið offari í því að setja þessar tegundir niður, nánast hvar sem er. Ágengar og harðgerar jurtir geta átt rétt á sér þar sem gróðursnautt er - en að setja þetta niður þar sem gróður er fyrir - íslenska lággróðurinn sem má ekki við miklu - er ekki snjallt .

Væri nú ekki ráð fyrir landgræðsluna og/eða umhverfisstofnun að leita leiða til þess að stemma stigu við þessum ósköpum?

 

kerfill


Glóey varpar gullnu trafi

VebjarnarnupurVestfirðir  Og sumardýrðin heldur áfram - á svona degi er ekki hægt að blogga, bara yrkja: Hér kemur ein "afhenda" í tilefni veðurblíðunnar. Hún fjallar að vísu um vorið, þó komið sé fram í júlí, en gerir sama gagn:

 

Vorið klæðir vog og sund með vindum þýðum

bliknuð vakna blóm í hlíðum.

 

Ungar kvika, iðar líf í ársal blóma

laust úr vetrar leiðum dróma.

 

Glóey varpar gullnu trafi glitra vogar

allt í sólareldi logar.


Blaut Hróarskelduhátíð

Roskilde07 Myndirnar frá Hróarskelduhátíðinni minna mig óþyrmilega á ömurlega unglingahátíð í Þjórsárdal, margt fyrir löngu. Mér er óskiljanlegt hvernig fólk getur skemmt sér við svona aðstæður.  Það hlýtur að vera mikill tónlistaráhugi sem rekur fólk til út í vosbúð og vatnselg af þessu tagi - djúp aðdáun á þeim sem troða upp - og svo eitthvað sem slævir skynjunina, hvort sem það er nú í fljótandi formi eða þurru.

Það fer um mig að horfa á fólk vaða foraðið og telja sjálfu sér trú um að þetta sé gaman. Úff!


Sumardýrð og lóðarí

Sól skín á sundin - léttist nú hver lundin.

Ótrúlega fallegur dagur í dag. Ætla að drífa mig í góðan göngutúr inn í Álftafjörð með hundana.

Noi07 Jamm, ég er með aukagest á heimilinu - hann Nóa blessaðan. Fallegan, rauðbrúnan "Vísel" eins og sagt er. Nói er hreyfihamlaður, varð fyrir bíl sex mánaða gamall og er því með visinn annan afturfót. Ótúrlega duglegur að hoppa um þá þremur þessi elska - en ég þarf samt að hjálpa honum upp stigann í húsinu, hann er ekki alveg búinn að læra á þrepastærðina þar.

 NoiogBlida07  En það er ástand á heimilinu. Dalmatíutíkin mín hún Blíða er nefnilega að lóða - alveg á hátindi þeirrar sveiflu. Nói getur lítið gert fyrir hana, því hann er búinn að missa kúlurnar blessaður, auk þess sem hann hefur bara einn nothæfan afturfót. Hinsvegar reynir hann að gera sitt besta - og það er hálf átakanlegt að fylgjast með aðförunum. Hún hjálpar honum eftir fremsta megni - en það ber lítinn árangur. Hún skilur ekkert í þessu. 

Úff! Ég þyrfti eiginlega banna aðgang að heimilinu innan sextán, meðan þetta stendur sem hæst.

Hvað um það - ætla í göngutúr með þau núna á eftir. Læt fljóta hér vísu sem rifjaðist upp fyrir mér þegar ég leit sólardýrðina (og hundana í garðinum)  í morgun. Það hefur verið hamingjusamur maður sem orti þetta:

  • Engu kvíðir léttfær lund
  • ljúft er stríði að gleyma.
  • Blesa ríð ég greitt um grund,
  • Guðný bíður heima.

 Hafið það gott í dag - njótið sumarblíðunnar Smile

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband