Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Eigum við að fara í kröfugöngu?

faninn  Síðustu daga hafa verið líflegar umræður hér á síðunni hjá mér um sjávarútvegsmál og ágalla fiskveiðistjórnunarkerfisins, eins og lesendur geta séð í færslunum hér á undan. Ágallar þessa kerfis verða sífellt augljósari, og atburðirnir á Flateyri einna gleggsta dæmið um það hvernig farið getur á versta veg í þessu kerfi. Skýrsla Hafró er sömuleiðis til vitnis um að kerfið hefur ekki aðeins brugðist byggðunum, heldur líka þorskinum - og þá fer nú að verða áleitin spurning til hvers sé verið að halda þessu til streitu.

Í þeim líflegu umræðum sem hér hafa orðið hefur fæðst sú hugmynd að efna til samstöðu- og kröfugöngu til stuðnings þeim sem hafa orðið fyrir barðinu á þessu kerfi -- göngu þar sem krafist er úrbóta á kvótakerfinu þannig að byggðum landsins og fiskinum í sjónum stafi ekki beinlínis hætta af því.

Í Kárahnjúkamálinu kom samtakamáttur almennings í ljós - það var hinsvegar of seint.

Það er ekki of seint að bjarga byggðum landsins: Láta stjórnmálamenn finna að þjóðin stendur með sjávarbyggðunum og fiskverkafólkinu; að fólki er orðið ljóst að við svo búið má ekki standa lengur. Það þarf að grípa til vitrænna ráðstafana - og það strax!

Því skyldum við þá ekki krefjast úrbóta á kvótakerfinu - og sýna hug okkar í verki með því að ganga saman niður aðalgötur helstu þéttbýlisstaða, og þó víðar væri.

Hvað segið þið lesendur góðir - eruð þið til? 

Nýtt kvótaár hefst þann 1. september - væri það ekki góður dagur til þess að fá sér göngutúr? Spáið í það  Wink


Þjóðarsátt um fiskveiðistjórnun?

fiskveidar  Er hugsanlegt að ná þjóðarsátt um fiskveiðistjórnunarkerfið? Getur verið að menn séu loks tilbúnir að leiðrétta gallana á þessu kerfi? Þora þeir?

Sjávarútvegsráðherra hefur í hátíðarræðu á sjómannadegi talað um nauðsyn þess að ná þverpólitískri samstöðu - nokkurskonar sátt - um breytingar á kvótakerfinu. Það er athyglisverð nálgun, og vonandi góðs viti. Nú reynir hinsvegar á það hvort hlutaðeigandi aðilar - stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar - eru raunverulega tilbúnir til þess að vega og meta afleiðingar kvótakerfisins af sanngirni og bæta vankantana af heilindum og réttsýni. En það er einmitt það sem sjávarbyggðir landsins þurfa á að handa núna: Sanngirni og heilindi þeirra sem hafa fjöregg byggðanna í höndum sér.

Ef sátt á að nást um breytingar á kerfinu - sem mér virðist sjávarútvegsráðherra vera að tala fyrir -  verður að vera um raunverulegt samráð að ræða. Það dugir ekki að ganga á fund LÍÚ til að sækja leyfi fyrir því sem gera skal, kalla svo stjórnarandstöðuna til fundar og kynna henni niðurstöðuna og kalla það svo samráð. Það dugir heldur ekki að skella skollaeyrum við tillögum stjórnarandstöðunnar en halda því svo fram eftir á að við þá hafi verið haft samráð. Ef menn ætla í einhverja skollaleiki af því tagi þá verða þeir afhjúpaðir snarlega.

Ég hef grun um að það verði fylgst vel með Einari K Guðfinnssyni og hans framgöngu í þessu máli á næstunni - a.m.k. vona ég að fjölmiðlar og almenningur muni anda niður um hálsmálið á ríkisstjórninni þar til skynsamlegar tillögur liggja fyrir.

Sömuleiðis held ég að það verði fylgst vel með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar - því nú reynir á það hvort menn vilja raunverulega leggja gott til mála - eða hvort þeir missa sig í lýðskrum og áróður.

Oft var þörf á ábyrgð og yfirvegun, en nú er nauðsyn. Þetta verður stóra prófið fyrir ríkisstjórnina ... og stjórnarandstöðuflokkana.


Eru augun loks að opnast?

Ég tek heilshugar undir með Einari K. Guðfinnssyni, sjávarútvegsráðherra, að það er tímabært að kalla eftir þverpólitísku samráði um aðgerðir í sjávarútvegsmálum í ljósi svörtu skýrslunnar frá Hafró - hún er þungt áfall fyrir atvinnugreinina í heild sinni.

Raunar hefði ráðherrann mátt taka af skarið fyrr - til dæmis þegar neyðarkallið barst frá almennum borgarfundi á Ísafirði undir yfirskriftinnui "lifi Vestfirðir" nú í vor. Þá var ráðherrann fjarverandi og virtist lítt skeyta um skilaboð fundarins. Sá hinsvegar ástæðu til þess að mæta á óformlegan fund sem boðarður var með "óábyrgum hætti" fyrir á þriðja tug sjálfstæðismanna nokkru síðar - eins og það gæti með einhverjum hætti bætt fyrir eða talist jafngildi þess að hlusta á raddir hins almenna íbúa. En látum það vera liðna tíð.

Auðvitað er löngu tímabært að menn stilli saman krafta þegar vá er fyrir dyrum - hvort sem hún beinist að einum landsfjórðungi, eða heilli atvinnugrein. Pólitísk sérstaða er óviðeigandi þegar grípa þarf til alvarlegra björgunaraðgerða - og ef Einar K. Guðfinnssyni er nú farið að skiljast það, er það vel. Í hans heimabyggð hafa 200 störf horfið frá áramótum, flest í fiskvinnslu. Ef skýrsla Hafró fær staðist er ljóst að sjávarútvegurinn í heild sinni hefur orðið fyrir miklum búsifjum. Raunar er skýrslan harður áfellisdómur yfir þessu fiskveiðistjórnunarkerfi. Og sem betur fer virðist sem ýmsir séu farnir að sjá það - og þora að tala um það. 

Einn þeirra er  fyrrverandi ráðherra sjálfstæðismanna, Matthías Bjarnason, sem nú hefur tjáð sig með afgerandi hætti um hætturnar af þessu kerfi. Ekki aðeins felur það í sér misskiptingu í útgerðinni og varnarleysi byggðanna gagnvart gróðaviðleitni einkaframtaksins, heldur virðist nú ljóst að það ógni þorskstofninum. Sú aðferð að taka ekki við smáfiski og greiða einungis fullt verð fyrir stærsta fiskinn kallar á gegndarlaust brottkast. Það segir sig sjálft að menn hirða ekki smáfiskinn sem lendir í trollum og netum fiskiskipa ef þeir fá ekki greitt fyrir hann. Afleiðingin er sú að menn veiða mun meira en ella væri - henda því sem þeir fá ekki fullgreitt og koma aðeins með stærsta fiskinn að landi.

Afleitt fyrirkomulag - og þessu verður að breyta.

En þorir Einar K. Guðfinnsson að beita sér raunverulegri breytingu á þessu kerfi? Og munu aðrir stjórnmálaflokkar koma til aðstoðar? Því er ósvarað að sinni.


mbl.is Sjávarútvegsráðherra: Stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband