Hvað gengur ríkisskattstjóra til?

RikisskattstjoriÉg verð að viðurkenna að framganga ríkisskattstjóra gagnvart forráðamanni IT ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustunnar ehf. vekur mér ugg í brjósti. Að ríkisskattstjóri skulu á opinberum vettvangi viðra "grunsemdir" sem hann hefur um "upplýsingastuld" gagnvart nafngreindum einstaklingi, er umhugsunarefni. Sérstaklega í ljósi þess að tengslanetið sem Jón Jósef Bjarnason er að vinna hefur að geyma upplýsingar sem tvímælalaust hljóta að koma almenningi við og vera til mikils gagns fyrir þá sem rannsaka hagsmuna- og krosseignatengslin á íslenskum fjármálamarkaði.

Ekki hefur neitt komið fram í fjölmiðlum sem bendir til þess að þarna sé verið að miðla upplýsingum sem eigi að fara leynt að lögum. Þvert á móti.

Hvaða tilgangi þjónar það þá þegar ríkisskattstjóri í sérstakri fréttatilkynningu vekur athygli á óskyldum atriðum sem einungis eru til þess fallin að rýra traust á þeim sem um er rætt? Ég er ekki undrandi þó að nefndur Jóns Jósef telji vegið að mannorði sínu, eins og fram kom í hádegisfréttum. Ég fæ ekki séð hvað það kemur málinu við þó að  IT ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustan hafi ekki skilað ársreikningi til embættis ríkisskattstjóra. 

Vill ekki ríkisskattstjóri upplýsa okkur Íslendinga um alla þá sem ekki hafa skilað embættinu ársreikningi undanfarin þrjú ár?

Fram hefur  komið að Jón Jósef greiddi fyrir aðgang að þeim upplýsingum sem hann notast við. Hann gerði skýra grein fyrir því hvað hann hygðist fyrir og í hvaða tilgangi. Þær upplýsingar sem út úr gagnavinnslunni koma eiga ríkt erindi við jafnt almenning sem stjórnmálamenn - að ég tali nú ekki um þá sem rannsaka eiga hrunið. Hafi Persónuvernd eitthvað við þessa gagnavinnslu að athuga hlýtur hún að gera sínar athugasemdir. Hefur hún gert það? Það er ekki eins og þetta mál hafi farið leynt.

Nei, þessar tiltektir ríkisskattstjóra skjóta skökku við - og vekja áleitnar spurningar. Hvaða hagsmuna er verið að gæta með þessu?

 ------------------------

PS: Ég efast ekki um að ríkisskattstjóri fer að lögum í embættisverkum sínum - en það hefði hann líka gert þó umræddar "grunsemdir" hefðu ekki verið viðraðar opinberlega.


mbl.is Grunaður um upplýsingastuld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst nú athyglisverðast hvort opinber embættismaður komist upp með þetta athæfi sitt fyrir allra augum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.9.2009 kl. 13:45

2 Smámynd: Halldór Halldórsson

Mikið þakka ég forsjóninni fyrir að búa ekki í þjóðfélagi sem á að haga sér eins og ÞÚ vilt og telur best.  En það er alveg eins og búast mátti við úr ÞINNI átt.  Lög og reglur eiga sumsé ekkert að tefja ÞINN vilja og hvernig ÞÉR finnst að hlutirnir eigi að vera!

Forstöðumaður fyrirtækisins átti að hafa leyfi Persónuverndar til að raða saman upplýsingum á annan hátt en opinberlega var gert.  Það er ekki einu sinni leyfilegt að taka símaskrána og raða henni upp á nýtt og tengja saman eftir sínu höfðu, án þess að leyfi Persónuverndar liggi fyrir.  Ef Persónuvernd er að fylgja of ströngum lögum og reglum á löggjafarsamkunda þjóðarinnar að breyta þessum lögum og reglum. Það ættu að vera hæg heimatökin hjá þingmanni stjórnarmeirihlutans að breyta þessu, ekki satt!!??

Halldór Halldórsson, 17.9.2009 kl. 14:07

3 identicon

Síðan hvenar varð fyrirtækja skrá svona mikið leyndarmál ? Ennfremur, þá hefur umræddur maður ekki verið kærður fyrir neitt, og virðist ekki vera í neinni rannsókn (eftir því sem ég kemst næst).

Aðgerðir ríkisskattstjóra eru því afskaplega undarlegar að mínu mati.

Jón Frímann (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 14:09

4 identicon

ég held að Halldór Halldórsson þurfi að skipta um gleraugu. Ólína skrifaði ekkert um málið sjálft eða Persónuvernd. Hún skrifar um aðkomu ríkisskattstjóra og orðalag. Við erum svipuð í blogginu, Ólína þessa dagana!

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 14:35

5 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Mér varð líka bylt við þegar ég heyrði þessa fréttatilkynningu ríkisskattstjóra. Makalaust.

Guðl. Gauti Jónsson, 17.9.2009 kl. 15:05

6 Smámynd: Halldór Halldórsson

Það er hreinlega spurning, Gísli, hvort þú SÉRT eiginlega bara Ólína, ef þú telur Ólínu Þorvarðardóttur ekki fjalla um málið sjálft eða Perónuvernd.  Það er bara ekki hægt að lesa úr máli hennar annað en henni finnst framganga forráðamanns fyrirtækisins í fína lagi varðandi meðferð þessara upplýsinga og að Persónuvernd eigi bara að gera athugasemdir eftirá, ef henn býður svo við að horfa.  Það getur verið þú og Ólína VILJIÐ að hlutirnir gangi þannig fyrir sig; en það er bara ekki svo.  Ég vil t.d. að Ólína borgi hærri prósentu en ég í skatt, en ég fjandakornið ekki krafist þess af ríkisskattsstjóra að hann hlutist til um það!

Halldór Halldórsson, 17.9.2009 kl. 15:24

7 Smámynd: Elfur Logadóttir

"Ekki hefur neitt komið fram í fjölmiðlum sem bendir til þess að þarna sé verið að miðla upplýsingum sem eigi að fara leynt að lögum. Þvert á móti."

Þetta er ekki alls kostar rétt hjá þér Ólína (án þess þó að vera beinlínis rangt). Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga hafa það markmið að takmarka vinnslu persónuupplýsinga og þar á meðal samkeyrslu upplýsinga og opinbera birtingu þeirra.

Meginreglurnar eru settar fram í 7. gr. laganna (lög 77/2000) og almenna heimildin til vinnslu persónuupplýsinga er sett fram í 8. gr. (leturbr. mínar):

7. gr. [Meginreglur um gæði gagna og vinnslu.]1)
Við meðferð persónuupplýsinga skal allra eftirfarandi þátta gætt:
   1. að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga;
   2. að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, en frekari vinnsla í sagnfræðilegum, tölfræðilegum eða vísindalegum tilgangi telst ekki ósamrýmanleg að því tilskildu að viðeigandi öryggis sé gætt;
   3. að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar;
   4. að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, persónuupplýsingar sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skal afmá eða leiðrétta;
   5. að þær séu varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða aðila lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu.
[Ábyrgðaraðili ber ábyrgð á því að vinnsla persónuupplýsinga uppfylli ávallt ákvæði 1. mgr.]1)

8. gr. [Almennar reglur um heimildir fyrir vinnslu persónuupplýsinga.]1)
Vinnsla persónuupplýsinga er því aðeins heimil að einhverjir eftirfarandi þátta séu fyrir hendi:
   1. [hinn skráði hafi ótvírætt samþykkt vinnsluna eða veitt samþykki skv. 7. tölul. 2. gr.]1)
   2. vinnslan sé nauðsynleg til að efna samning sem hinn skráði er aðili að eða til að gera ráðstafanir að beiðni hins skráða áður en samningur er gerður;
   3. vinnslan sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila;
   4. vinnslan sé nauðsynleg til að vernda brýna hagsmuni hins skráða;
   5. vinnslan sé nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna;
   6. vinnslan sé nauðsynleg við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili, eða þriðji maður sem upplýsingum er miðlað til, fer með;
   7. vinnslan sé nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber samkvæmt lögum vegi þyngra.
…2)
[Persónuvernd getur heimilað vinnslu persónuupplýsinga í öðrum tilvikum en greinir í 1. og 2. mgr. ef sýnt þykir að brýnir almannahagsmunir eða hagsmunir einstaklinga, þar með taldir hagsmunir hins skráða, krefjist þess. Skal þá ótvírætt að þörfin fyrir vinnsluna vegi þyngra en tillitið til þess að hún fari ekki fram. Getur Persónuvernd bundið slík leyfi þeim skilyrðum sem hún metur nauðsynleg hverju sinni til að tryggja hagsmuni hins skráða.]1)

Í III. og IV. kafla laganna eru síðan mýmörg ákvæði sem komið gætu til álita við túlkun á heimild til vinnslu þeirra gagna sem um ræðir í þessu máli. Meðal annars þarf að taka tillit til upphaflegs tilgangs þess að persónuupplýsingum var safnað, hvort verið er að hagnýta gögnin í öðrum og þá mögulega ósamrýmanlegum tilgangi, upplýsingaskyldu gagnvart "hinum skráða" og heimild hans til þess að krefjast þess að upplýsingarnar verði afmáðar. Huga þarf einnig að því hversu lengi má varðveita upplýsingarnar og hverjum má birta þær.

Öll þesi ákvæði persónuverndarlaga gera það ljóst að stíga þarf varlega til jarðar þegar söfnun persónuupplýsinga fer fram og því viðkvæmari eða umdeildari sem gögnin geta verið, þeim mun mikilvægara er að vera í góðum og fullnægjandi samskiptum við Persónuvernd.

Með þessu er ég ekki að segja að Jón Jósep hafi ekki átt (eða mátt) vinna með þær upplýsingar sem hann safnaði og ég get örugglega fært rök fyrir því að þessi vinnsla brjóti ekki í bága við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, að því gefnu að rétt hafi verið að vinnslunni staðið. Hins vegar er það ekki kýrskýrt í mínum huga að honum hafi verið heimilt að safna upplýsingunum með þeim hætti sem hann gerði, og í þeim tilgangi sem hann gerði, með þeirri miðlun sem hann hafði áhuga á að koma á, meðal annars vegna þess í hvaða tilgangi persónuupplýsingunum var safnað í upphafi.

Þetta er flókið mál og við viljum hafa sterka persónuvernd. Þó við viljum vissulega hengja útrásarvíkingana úti á snúru, þá er ekki þar með sagt að við eigum að vera reiðubúin til þess að fórna persónuverndinni okkar til þess. Afsláttur af persónuverndinni sums staðar þýðir almennur afsláttur í raun, nema rétt sé að afslættinum staðið.

... en ég er sammála þér í því að ríkisskattstjóri fór ekki skynsamlega að ráði sínu í þessu máli.

Elfur Logadóttir, 17.9.2009 kl. 16:21

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl Elfur og takk fyrir greinargóða athugasemd. 

Ég er sammála þér um markmið (og nauðsyn) laganna um persónuvernd. Ég tel hins vegar að ekki hafi verið sýnt fram á að upplýsingavinnsla mannsins stangist á við lög um persónuvernd.

 Hafi hann ekki nálgast upplýsingarnar með réttum hætti, ber að leiðbeina honum varðandi það. Auðvitað á hann að standa rétt að sjálfri upplýsingasöfnuninni. En ég tel að þetta verkefni eigi fullan rétt á sér og auk þess fullt erindi til almennings.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.9.2009 kl. 17:07

9 Smámynd: Elfur Logadóttir

Við höfum ekki nægilegar upplýsingar til þess að geta tekið afstöðu til þess hvort vinnsla hans á persónuupplýsingum fari í bága við lögin - að minnsta kosti hefur slíkt ekki komið fram í opinberri umræðu. Vísbendingar sem ríkisskattstjóri setur fram í viðhengdri frétt gefa það hins vegar í skyn að umhverfi vinnslunnar hafi verið ábótavant í því tilliti.

Efnislega er ég hins vegar hjartanlega sammála þér, þ.e. samkeyrsla á skráningu fyrirtækja og þeirra einstaklinga sem á bakvið þau standa er mikilvæg í því ástandi sem hér ríkir og almenningur á rétt á að fá um það upplýsingar - en við verðum að fara að lögum. Annars getum við ekki krafist þess að öðrum sé refsað fyrir að gera það ekki.

Elfur Logadóttir, 17.9.2009 kl. 17:44

10 identicon

Sæl Ólína, fín færsla.

Sæl Elfur, ég er engin sérfræðingur í hvað má birtast og hvað ekki en við vorum rænd, og það skiptir öllu máli, við eigum fullan rétt á að vita hverjir það gerðu. Mér finnst sumir eilíflega vara að verja þessa andsk... sem rændu okkur og vitna í hin og þessi lög um persónuvernd þeim til varnar en allar reglur og lög voru brotin á okkur venjulegum borgurum árum saman án mikilla athugasemda frá ykkur sérfræðingunum, eða það finnst mér í öllu falli.              

Logi Þ Jónsson (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 17:49

11 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ég ítreka að ég tel að með réttri aðferð og með réttum undirbúningi væri hægt að færa fyrir því rök að vinnsla persónuupplýsinga af því tagi sem maðurinn var að vinna að í umræddu máli, geti vel samrýmst lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Ekki misskilja málflutning minn í þeim efnum.

Hins vegar verðum við að viðhafa gott siðferði ásamt því að fylgja lögum, því við getum ekki gert siðbót í þjóðfélaginu ef við virðum ekki gildandi lög og vinnum ekki í samræmi við það umhverfi sem Alþingi hefur sett.

Við eigum að krefjast þess að Alþingi breyti því sem ekki hefur verið nægilega vel gert, en ekki réttlæta eigin brot á lögunum með því að þau séu ekki nógu góð. Því eins og ég sagði hér ofar: "Annars getum við ekki krafist þess að öðrum sé refsað fyrir að [fara ekki að lögum]."

Elfur Logadóttir, 17.9.2009 kl. 18:01

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Elfur - ég held að við séum öll sammála um þetta.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.9.2009 kl. 18:52

13 Smámynd: Kolbeinn Pálsson

Kortlagning Gagna verður ekki stöðvuð.

Hinn almenni borgari sá loksins smá von um að ná böndum á frumskóg vafasamra viðskipta og að hægt verði að kortleggja hver gerði hvað og hvernig.

Ef þetta verður stoppað af yrði ég ekki hissa á almennri uppreisn gegn stjórnvöldum og þeir sem hentu fleinum í hjól réttlætisins gætu átt von á að þjóðin sendi þeim glaðning við hæfi.

Kolbeinn Pálsson, 17.9.2009 kl. 21:32

14 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta er virkilega krípý birtingamynd hins spillta Íslands og tengsla æðstu embættismanna við þöggunina og aðförina að þeim sem draga huluna frá. Ef menn rekja sig til þess hver kippir hér í þræði þá finna þeir kjarnann í hinu gegnspillta Íslandi og hverjir eru þar skósveinar.

Nákvæmlega sama gilti um aðför FME að blaðamönnum ekki síst að Kristni Hrafnssyni og rót þess að FME gerði hana að sínu fyrsta forgangsmáli til beggja sérstöku saksóknaranna og að lögfræðingur FME vildi sérstaklega kosta kapps að láta reyna á það mál til hins ýtrasta, með allt hrunið enn órannsakað og óuppgert á sínum borðum.

Víst má telja að hér toga sömu öfl í þræðina og sá sem getur rakið sig eftir þeim til upprunans finnur fyrir kjarnann í hruninu og hinu gegnspillta Íslandi

Helgi Jóhann Hauksson, 18.9.2009 kl. 01:19

15 identicon

Alræðistilþrif.

Einar Hansson (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 07:36

16 Smámynd: Bernharð Hjaltalín

Sæl Ólína og þið öll, nú er liðið ár frá hruninu og var verið að taka okkur af úrvalsvísitölu-

listum hjá f,t,s,e, og m,s,c,i mikil bið eftir varahlutum í bíla, forseti a,s,í, á tortulla í skúffufyrirtækjabransanum,ríkisskattstjóri kominn í vond mál,síðan ætlar frú Ragna að

innrétta ný fangelsi í iðnaðarhúsnæðum, ég spyr hverjir eiga að sitja þar inni.

Bernharð Hjaltalín, 18.9.2009 kl. 09:35

17 Smámynd: Bjarni Stefánsson

Eg hef verid busettur erlendis sidustu 25 arin og hef engra personulegra hagsmuna ad gæta a Islandi.

Frett Morgunbladsins var hrollvekjandi. Tonn og ordalag var eins og tidkast i blodum bananalydvelda og einherjarikja. Her er hatssettur embætttismadur ad nota sterk ord eins og Stuld og adrar upplysingar sem kemur sjalfu malinu ekkert vid (skitakast). Form frettarinnar, ef ma kalla thad, er thannig ad madur fær a tilfinningunni ad her se eithvad annad a bakvid. Svo sem:

1.   Frettamadur setti saman frettina ur vidtali vid rikisskattstjora a thann vegu ad thad sem riskiskattstori vildi koma a framfæri kom ur skordum. Form frettarinnar virkar tho meira eins og hun se plontud.

2. kunnatta rikisskattstjora i ad tala vid folmidla er takmorkud. Virkar nokkud srytid i thvi andrumslofti sem nu rikir. Og sertakslega thegar hrædileg dæmi eins og vidtol David Oddsonar sem sedlanbankastjori hofdu a fjarmalamarkadi eru til.

3. Er rikiskattsjori ad fara erindi annara? thad er ad segja ad marmid frettarinnar var ad stoppa thessa vinnu strax og sja til thess ad engin hugsi ad gera eithvad likt. Thad er ad sjalfsogdu hægt ad spekulera i thi endalaust. Voru thad sertakir einkaadilar eda voru thad logfrædingar endurskodendafyritækjana

Ad minu mati hefdi thetta litid betur ut ef rikisskattstori hefdi sagt hreinlega ad their hefdu ekki verid klarir yfir thvi hvernig upplisyngum sem their hefdu veitt tilgang ad væru notadar og ad adgangi ad gognum væri stoppadur thangad til ad that væri skyrt hvort thetta er i samræmi vid thad leyfi sem var gefid. I framhaldi ad thessu muni thad vera litid a adgangsleyfi veitt til annara adila.

Eins og thetta nu stendur er allt komid a haa Cid og i las. En kanski var thad spunalæknisplanid?

Her litur ut fyrir ad vera mikid og gott efni fyrir abyrgan fjolmidil ad grafast i og komast ad nidurstodu. Og tha sertakslega eftir that form sem frettin moggans hafdi.

Bjarni Stefánsson, 18.9.2009 kl. 11:22

18 Smámynd: Árni Gunnarsson

Undarleg er hún þessi tilhneiging embættismannakerfis okkar að stöðva alla þá sem vinna við að upplýsa almenning um viðskiptatengsl einstaklinga og fyrirtækja.

Árni Gunnarsson, 18.9.2009 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband