Samkeppnin um fólkið og fiskinn

P1000929 Þó að Ísland, Færeyjar og Grænland, liggi ekki þétt saman landfræðilega séð, eiga þau margt sameiginlegt. Þetta eru „litlar" þjóðir í alþjóðlegum samanburði. Engu að síður eru þær ríkar að auðæfum til lands og sjávar.

Landfræðileg lega þeirra og sambærileg skilyrði í atvinnulífi og menningu gera að verkum að hagsmunir þjóðanna fara á margan hátt saman. Sömuleiðis þær ógnanir og áskoranir sem þær standa frammi fyrir. Má þar nefna auknar pólsiglingar sem skapa bæði tækifæri og hættur í norðurhöfum;  vaxandi alþjóðavæðingu með miklum fólksflutningum milli landa og samkeppni um mannafla og atgervi.

Allar horfast þjóðirnar þrjár í augu við brottflutning ungs fólks sem leitar út fyrir landsteina eftir menntun, en skilar sér mis vel til baka. Allar eru þær miklar fiskveiðiþjóðir. Ekkert er því mikilvægara efnahagslífi þeirra en sjávarútvegurinn ... og mannauðurinn.

narsarsuaq.jpgVestnorræna ráðið - sem er pólitískur samstarfsvettvangur landanna þriggja -  hélt í síðustu viku ársfund sinn í Færeyjum. Fundinn sóttu fulltrúar landsdeildanna  þriggja sem skipaðar eru sex þingmönnum hver. Ég átti þess kost sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins að sitja fundinn. Ekki þarf að koma á óvart að sjávarútvegsmál og menntun voru þar í brennidepli.

Eining var um það á ársfundinum að tryggja beri aukið samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði menntamála. Var meðal annars samþykkt ða hvetja ríkisstjórnirnar til að koma á samstarfi milli menntastofnana um nemendaskipti milli mennta- og fjölbrautaskóla í löndunum þremur.

Fundurinn hvatti menntamálaráðherra landanna til að koma á tilraunaverkefni milli landanna um fjarnám. Einnig var samþykkt tillaga Íslands um að efla samstarf um bóklegt og starfstengt nám, m.a. iðn- og verkmenntir fyrir ófaglært starfsfólk í löndunum.  Lögðum við til sérstakt tilraunaverkefni tiltekinna menntastofnana í þessu skyni í þeim tilgangi að hvetja þá sem ekki hafa stundað framhaldsnám til að auka á þekkingu sína svo þeir verði betur búnir undir hugsanlegar breytingar á atvinnumarkaði. Hafa Menntaskólinn á Ísafirði og Fræðslumiðstöð Vestfjarða lýst sig reiðubúin til að taka þátt í verkefninu af Íslands hálfu.

Þessi áhersla á samstarf í menntamálum er ekki að ófyrirsynju. Aldrei fyrr hafa þjóðirnar þrjár þurft svo mjög á því að halda að standast samanburð við umheiminn - standast samkeppnina um unga fólkið og þar með framtíðarbyggð landanna.  Samkeppnin um unga fólkið veltur ekki hvað síst á möguleikum þess til menntunar og framtíðaratvinnu. Efnahagslegar stoðir undir hvort tveggja er sjávarútvegurinn í þessum löndum - en sjávarútvegsmál voru annað aðalumfjöllunarefni ársfundarins.

Þingfulltrúar ársfundarins beindu sjónum að þörfinni fyrir aukið samstarf milli landanna á sviði sjávarútvegs. Annars vegar varðandi rannsóknir á ástandi fiskistofna og sjávarspendýra á norðlægum slóðum, sem ráðið hefur ályktað um áður. Hins vegar að hagnýtingu fiskistofnanna og fiskveiðistjórnun landanna. Í ályktun fundarins var því beint til sjávarútvegsráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands að láta gera nákvæma úttekt á því samstarfi sem löndin eiga með sér um bæði rannsóknir á lifandi auðlindum hafsins og um stjórnun fiskveiða, ekki síst varðandi deilistofna. 

Jafnframt var samþykkt - að frumkvæði okkar Íslendinga - að þemarástefna ráðsins næsta ár skyldi helguð samanburði á mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfum Íslands, Grænlands og Færeyja. Umrædd þemaráðstefna er undirbúningur fyrir ársfund Vestnorræna ráðsins 2010 og verður hún haldin á Sauðárkróki í byrjun júní næsta sumar. Þar er ætlunin að kryfja fiskveiðistjórnunarkerfi landanna og meta kosti þeirra og galla. Sú umræða er tímabær á þessum vettvangi, nú þegar við Íslendingar stöndum frammi fyrir endurskipulagningu okkar eigin fiskveiðistjórnunarkerfis.  Grænlendingar hafa sömuleiðis ýmis vandamál að kljást við í sínu kerfi. Þar er  m.a. um að ræða ágreining vegna fiskveiðasamningsins við ESB  - en þannig vill til að ESB er einnig að endurskoða eigin fiskveiðistjórnunarstefnu. Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um fiskveiðistjórnun gæti því orðið innlegg í þá stefnumótun, ef vel er á málum haldið.

Það var lærdómsríkt að sitja þennan ársfund Vestnorræna ráðsins og upplifa þá vináttu og samkennd sem ríkir milli þjóðanna þriggja. Víst er að þessar þjóðir þurfa að standa saman um þá hagsmuni og gagnvart þeim  hættum sem steðja að fámennum samfélögum á norðlægum slóðum.

Fiskurinn og fólkið eru verðmætustu auðlindir okkar - og Vestnorrænu löndin eiga í samkeppni við umheiminn um hvort tveggja.

 

----------------

PS: Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þessar þrjár örþjóðir eiga gríðarmargt sameiginlegt og mörg vannýtt sóknarfæri ef þær fá að búa að auðlindum sínum utan EB.  Ef sjórinn hlýnar örlítið má búast viðað við missum loðnuna í grænlenska lögsögu og við fáum síld og makríl í staðin.

Sigurður Þórðarson, 6.9.2009 kl. 08:24

2 Smámynd: Atli Hermannsson.

"Jafnframt var samþykkt - að frumkvæði okkar Íslendinga - að þemarástefna ráðsins næsta ár skyldi helguð samanburði á mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfum Íslands, Grænlands og Færeyja."

Þetta lofar mjög góðu og vonandi verður íslenskum sérhagsmunasamtökum haldið fyrir utan þessa vinnu. En  margoft hefur verið bent á sóknardagakerfið sem Færeyingar nota með góðum árangri. En það er eins og það sé fyrir neðan virðingu okkar Íslendinga að ræða það - við séum með það besta í heimi og því verður ekki breytt. En þegar skuldastaða útgerðarinna annars vegar í Freyjum og hins vegar Íslandi er borin saman; þá skuldar Íslenska útgerðin líklega fimmföld árleg útflutningsverðmæti. Í Færeyjum var hlutfallið nálægt 125 síðast er ég vissi.    

Atli Hermannsson., 6.9.2009 kl. 11:32

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir þetta Sigurður og Atli.

Meining mín með því að stinga upp á því að fiskveiðistjórnun landanna yrði tekin fyrir á þemaráðstefnunni var einmitt að fá fræðileg og hlutlæga sýn á viðfangsefnið.  Ég átti þess kost að ræða lengi við Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyjal, um fiskviðeistjórnunarrmál. Og ég verð að viðurkenna að áhugi minni á Færeyska sóknardagakerfinu er vakinn.

Ég bind miklar vonir við þessa ráðstefnu að ári.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 6.9.2009 kl. 12:36

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það er ákaflega gott að heyra þetta.  Líklega þekkir enginn maður betur til færeyska kerfisins en Jón Kristjánsson sem nefndur hefur verið höfundur þess.   Jón er ekki síður fróður um fiskveiðimál Íra og Skota en hann hefur mikið unnið að ráðgjöf fyrir þá. Vegna gagnrýni Jóns á kvótakerfið var hann uppnefndur "vatnafiskifræðingur" af Þorsteini Pálssyni og mörgum þótti það fyndið.

 Stór hluti fæðu ýsunnar eru hrogn sandsíla. Kenningar Jóns (sem hann styður með gögnum) um orsakatengsl stórs ýsuofns - hruns sandsílastofnsins og síðar hungraðan þorsk  eru athyglisverðar. Þessar bylgjur minna mjög á mynstur t.d. fálka og rjúpnastofna. 

Bannhelgi hefur hvílt yfir allri þessari umræðu og ég hef mínar hugmyndir um ástæður þess. 

Sigurður Þórðarson, 6.9.2009 kl. 15:12

5 Smámynd: Atli Hermannsson.

Sæl Ólína. Ég heyrði það líka að nafni minn Atli Gíslason sem var með þér á ráðstefnunni nú um daginn hafi hrifist af færeyska dagakerfinu. Hann hafi t.d. áttað sig á því að brottkast fyrirfinnst ekki hjá þeim líkt og innbyggt er í okkar kerfi. Þá urðu þau merku tímamót vil ég segja að Guðjón Arnar Kristjánsson, var ráðinn af Jóni Bjarnasyni  sjávarútvegsráðherra til verkefna sem miða að breytingum á kerfinu. Þetta er í raun mjög merkilegt því það hefur ekki tíðkast að einhver hafi fengið að stýga færi inn fyrir veggi á Skúlagötunni nema tryggt hafi verið að viðkomandi sé hundtryggur kvótakerfinu. Þannig hefur það tíðkast að sama fólkið er einskonar fastafulltrúar í öllum nefndum á vegum ráðuneytisins og Hafró.    

En hvernig fara Færeyingar að?

Færeyska dagakerfi er frábrugðið okkar kerfi í því grundvallaratriðum að þeir stjórna sókn skipa á miðin. Því hafa færeyskir sjómenn beinan hag af því að koma með allan þann fisk að landi sem í veiðarfærin kemur. Við notum hins vegar aflamarskskerfi “kvótakerfi” og stjórnum því hvað koma má með að landi. Því kemur ekki allt í land sem í veiðarfærin kemur – heldur aðeins það sem “borgar sig” að koma með að landi. Því eru okkar fiskiskipafloti ekki bara tæki til veiða, heldur einnig “flokkunarvélar” sem hámarka verðmæti hvers þorskígildis sem í land kemur - áður en að landi er komið.

Útdeiling kvóta sem stjórntækis til að hámarka afrakstur á takmarkaðri auðlind er því fráleit aðferð, því “flokkunin” stjórnast einnig af hagsmunum fiskvinnslunnar – sem eru á sömu hendi. Og þar sem verðmætin í okkar aflamarkskerfi eru “ígildin” er auðvelt að sjá hvar áherslurnar liggja – því kerfið hvetur til þess að velja aðeins þann fisk sem hentar - og henda hinu.

Þess vegna hlýtur það að teljast verulega vafasamt að Hafrannsókn skuli meta stofnstærðir og ráðleggja veiðiþol stofna, byggt á upplýsingum á flokkuðum fiski. Því magn og samsetning þess fisks sem fleygt er ásamt “kvótasvindli” gerir veiðistuðulinn ómarktækan. Stofnstærðir eru nefnilega ekki fundnar með raun-talningu eins og margir kunna að halda, heldur með umdeildu togararalli, ómarktækum löndunartölum og ágiskuðum 18% náttúrulegum dánarstuðli - Því er veiðikvótum útdeilt til eins árs fram í tímann, á grundvelli rangra upplýsinga úr fortíðinni.

Sóknardagakerfi gefur mun betri mynd af stærð fiskstofna. Því auk þess að hámarka nýtingu alls þess sem í veiðarfærin kemur, þá koma stofnbreytingar strax fram sem stuðlar að markvissari og réttlátari ákvarðanatökum.

Færeyingar úthluta veiðidögum (dagakvóti) sem geta verið mismargir eftir útgerðarflokkum. En ýmsar undanþágur eru einnig að finna í lögunum. Til dæmis er stjórnvöldum heimilt að tvöfalda fjölda sóknardaga strandveiðiskipa kjósi eigendur þeirra að veiða með handfærum.

Til viðbótar var lögsögunni skipt í innra og ytra sóknardagasvæði. Einn sóknardagur veitir rétt til að stunda veiðar í einn sólarhring á innra sóknardagasvæði. Hverjum sóknardegi á innra svæði má skipta fyrir þrjá sóknardaga á ytra svæði. Þannig er mönnum umbunað með aukadögum fyrir það að sækja lengra og dýpra frá ströndinni.

Þá eru ákveðin svæði friðuð varanlega fyrir ágangi. Frystitogarar eru bannaðir innan landhelginnar, þorskanet eru bönnuð og dragnætur einnig bannaðar. Þeir leggja mesta áherslu á vistvænar veiðar þar sem því verður við komið, með strandveiðiflota sem samanstendur af öflugum flota línuskipa og krókabátum.

Því er samsetning færeyska fiskiskipaflotans verulega frábrugðin okkar flota. Þeir eru t.d. með um tvo öflug línuskip á móti hverjum togara. Því má segja að á tímum kröfunnar um “vistvænt og sjálfbært” hafi Færeyingar tvö vistvæn skip á móti einu óvistvænu. Hjá okkur er hlutfallið u.þ.b. eitt vistvænt á móti fjórum óvistvænum.

Fátt er okkur mikilvægara eins og komið er fyrir þjóðinni en að leita allra leiða til að hámarka afrakstur auðlindarinnar. Því legg  ég til að úttekt yrði gerð á öllum tegundum veiðarfæra. Metin yrðu þau skamm- og langtímaumhverfisáhrif sem þau hafa á lífríkið og þeim gefið vægi í vísitölu eftir visthæfni. Þá væri metinn allur tilkostnaður og þjóðhagslegur ávinningur úr hverjum fiskstofni fyrir sig eftir tegund veiðarfæra eða “sóknarmunstri” sem notuð eru við veiðarnar.

Þá fengi t.d. eldsneytisnotkun vægi í “vísitölunni” sem stuðlaði gæti að minni innflutningi - sem er gjaldeyrissparandi. Því má geta þess að flokkur báta undir 10 tonn að stærð eyðir að jafnaði 0.15 lítra eldsneytis fyrir hvert kíló fisks sem þeir afla, línuskip 0.10 lítra, ísfisktogarar 0.43 lítra og frystiskip 0.75 lítra.

Þegar skotið er á olíueyðslu skipa er einnig gott að stiðjast við stuðulinn 165 grömm af olíu á hvert hestafl, pr. klukkustund. Þannig eyðir t.d. skip með 10 þúsund hestöfl u.þ.b. 1.600 lítrum á togtímann.

Þá gæti verið tekið tillit til þess að úr hverri milljón í aflaverðmæti á frystitogara er hásetahlutur um 10 þúsund krónur, en á bátaflotanum “eftir fjölda í áhöfn” á bilinu 20 - 120 þúsund. Það er því hreint ekki sama hvernig að veiðum úr takmarkaðri auðlind er staðið - og hvar tilkostnaðurinn lendir.

Þá yrði landgrunnið, kantarnir og úthafið kortlagt með tilliti til hrygninga- og uppeldisstöðva og hvar ástæða þykir að vernda lífríkið fyrir áníðslu. Þannig er auðveldlega hægt að kortleggja veiðisvæði og finna þeim vægi í vísitölunni eftir mikilvægi. Þannig væri með skipulögðum hætti stuðlað að ábyrgri fiskveiðistjórn, þar sem allir útgerðarflokkar sætu við sama borð, þar sem raunveruleg hagkvæmni og hagræðing væri sett í öndvegi – en ekki forheimsk stærðardýrkun.

Að lokum. Því er stöðugt haldið að fólki að yfir 80% af aflaheimildunum hafi skipt um hendur og núverandi handhafar hafi “keypt” kvótann. Því verði að bæta þeim með einhverjum hætti skerðinguna ef t.d. fyrning kæmi til eins og sumir stjórnmálaflokkar boða. Ég vil þess vegna benda á,  að á löngu árabili eftir að framsalskerfið kom til sögunnar afskrifuðu allar stærstu útgerðirnar kvótakaupin hjá sér um 15% á ári. Síðast er ég vissi var sú tala komin niður í 6%. Því tel ég það í besta falli vafasama framsetningu að segja að útgerðin hafi í raun keypt eitthvað - hvað þá greytt eitthvað fyrir það.

Gott í bili. Kv. Atli

Atli Hermannsson., 6.9.2009 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband