Afkomutenging lána fremur en almennar afskriftir

Þórólfur Matthíasson Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor setur fram athyglisverða hugmynd í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í dag. Þar leggur hann til að afborganir húsnæðislána verði tengdar afkomu lántakans.

Þórólfur telur að þessi leið sé í reynd hagstæðari en lánalengingar enda sé ógerningur að fjármagna skuldaniðurfellingar sem einhverju máli skipta.

Mér líst vel á þessa hugmynd og hef stundum rætt þennan möguleika við óformleg tækifæri. A.m.k. tel ég það fyrirhafnarinnar virði að skoða þetta í fullri alvöru.

Bæði lántaki og lánveitandi geta haf ávinning af þessu fyrirkomulagi. Lánþeginn verður fyrir minni skerðingu ráðstöfunartekna ef tekjur hans lækka - lánveitandinn græðir á minni afföllum vegna greiðsluþrots lántakans. Verulega gæti dregið úr greiðslubyrði mjög skuldsettra heimila sem aftur gæti leyst bráðan vanda margra þeirra. Þannig myndi áhætta lántakans minnka án þess að áhætta lánveitanda sé aukin að nokkur marki, eins og Þórólfur bendir á.

Fyrir afkomutengingu lána eru ýmis fordæmi erlendis frá, en líka hérlendis. Til dæmis eru afborganir námslána bundnar við tekjur. Annað fordæmi höfum við í ríkisábyrgð Icesave samninganna sem á að binda við tekjuþróun.

Ég hef auk þess lengi haft þá skoðun að það skorti gagnkvæmni í íslenska lánasamninga. Þá á ég við það að áhættan er - og hefur alltaf verið - öll skuldarans megin. Lánasamningar eru þó ekkert frábrugðnir öðrum viðskiptum, og því ekki nema eðlilegt að lánveitendur taki á sig einhverja áhættu og/eða skuldbindingar til þess að virða breyttar forsendur. 

Sigurður G. Guðjónsson hrl, kom inn á þetta í spjalli við þá Guðmund Ólafsson hagfræðing og Sigurjón M Egilsson á Sprengisandi Bylgjunnar í morgun, sem fróðlegt var að hlusta á (hér).  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Einfaldast væri að taka samningana aftur í gildi þ.e. þá samninga sem lántakendur töldu sig gera þegar þeir tóku lánin. Það hét að vísu áætlun en fæstir ef þá nokkrir gerðu ráð fyrir verulegum frávikum.

Þóra Guðmundsdóttir, 23.8.2009 kl. 14:44

2 Smámynd: ThoR-E

Leiðrétting á verðtryggðum húsnæðislánum (sem og gengistryggðum lánum) er það eina sem kemur til greina.

Ef lánið mitt breytist úr 11 milljónum í 15 milljónir án þess að ég fái krónu út á lánið í viðbót. Engir peningar skipta um hendur, lánið er bara hækkað í tölvu.

Hvernig getur það þá kostað svona mikið að leiðrétta það aftur? Hvar liggur kostnaðurinn??

Það er verið að ræna þjóðina og ríkisstjórnin "skjaldborg um heimilin", hefur lýst yfir því að ekkert verði leiðrétt eða gert fyrir skuldara, nema að lengja í lánunum.

Er þetta bara í lagi? er þetta bara eðlilegt að ævisparnaður fólks sem það átti í húseignum sínum sé bara hirtur af bönkunum og íbúðarlánasjóði??

Hver fjandi#$%#$ er í gangi á þessu landi okkar?

ThoR-E, 23.8.2009 kl. 18:42

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Nei, AceR, það er ekkert í lagi og alls ekkert eðlilegt við það að gengið sé með þessum hætti á ævisparnað fólks sem það átti í húseignum sínum.

Við verðum hinsvegar að finna einhverjar eðlilegar aðferðir við það að leiðrétta skekkjuna og komast hjá því að fólk verði gjaldþrota.

Nú er verið að aðstoða fólk í greiðsluvanda - m.a. að afskrifa skuldir hjá þeim sem geta ekki greitt, lengja í lánum, afnema uppgreiðslugjald vegna greiðslna inn á höfuðstól o.s.frv. Ef þessar leiðir nægja ekki verðum við að finna nýjar. Ein slík leið gæti verið afkomutengin lána, sem mér finnst vel koma til greina.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.8.2009 kl. 19:00

4 Smámynd: ThoR-E

Skil þig Ólína og auðvitað á að nota allar leiðir til að hjálpa fólki í vanda. Ef þessi afkomutenging getur aðstoðað þá sem eru í vandræðum, að þá er það bara hið besta mál.

Kveðja.

ThoR-E, 23.8.2009 kl. 19:53

5 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Það er alls ekki eðlilegt að á lánamarkaði sé lánveitandinn tryggður að fullu og öll áhætta sé lántakandans. Þannig er fyrirkomulagið með vísitölutryggðu lánin, sem alla tíð hafa verið svívirða. Ábyrgð verður líka að lenda á lánveitandanum. Hann verður að hafna lánveitingu til þeirra sem hann fyrirfram telur að geti ekki staðið við afborganir og vaxtagreiðslur. Ég legg til að verðbótum verði skipt á milli lántakanda og greiðanda þannig að lántaki greiði aldrei meira en helming reiknaðra verðbóta. Auk þess verði verðbætur lána til fasteignakaupa ekki tengdar við framfærsluvísitölu, heldur við vísitölu fasteignaverðs eða þá launavísitölu. Það er ekkert erfitt við svona aðgerðir annað en það að taka bara ákvörðunina og hrinda henni í framkvæmd. Slíkt kostar bara viljann.

Magnús Óskar Ingvarsson, 23.8.2009 kl. 20:09

6 Smámynd: Sævar Helgason

Varðandi verðtrygginguna- þá er lífeyir eftirlaunaþega verðtryggður. En í hruninu hefur víða orðið um 20-25% skerðing eftrilauna vegna afskrifaðra lána í bankakerfinu.. Ekki er útséð með að lífeyrir skerðist ekki miklu meira- þegar uppjöri lýkur við útrásarliðið... Hverfi verðtrygging af lífeyrirssjóðunum - þá hverfa þeir fljótt sem dögg fyrir sólu.  Og á hverjum lendir þá sá baggi að halda einhverju lífi í lífeyrirþegum... skattborgurum ?   Það er að að ýmsu að hyggja þegar hrópað er á afnám vertrygginga....

Sævar Helgason, 23.8.2009 kl. 20:47

7 Smámynd: Pálmi Hamilton Lord

Sævar  - það er einfalt að tryggja þetta,  með ellilífeyrislögum sem "tryggir" að þessi smánaðarlífeyri verði tryggður ef til verðbólgu kemur enn ekki setja verðtryggu á alla - en ég neita að samþyggja að lánið mitt hækkar vegna þess að það var einhver sem tengi það við verð á tóbaki og áfengi  BULL og VITLEYSA. Og annað eins heimskt , hugsaður þér að þegar verslanir í kringlunni eru með útsölur þá degur úr verðbólgu . ég bara spyr var þessi ágæti aðili ekki búin að heimsækja ÁTVR einum og oft áður enn hann/Hún samdi þetta fyrir okkar ágætu ráðerra að samþykkja með lögum.

það hlítur að vera eitthvað annað sem hægt er að tengja við   

Þegar þetta allt dundi yfir okkur þá átti að stoppa vísulölurnar og annað sem veldur þess að við erum að fá allt að 100% meira matarverð enn við þekkjum.

AceR "Ef lánið mitt breytist úr 11 milljónum í 15 milljónir án þess að ég fái krónu út á lánið í viðbót. Engir peningar skipta um hendur, lánið er bara hækkað í tölvu."

þetta er eimmit þannig - fólk var að sjá sín lán hækka um 5 millj á 6 mánuðum. Ég vill fá mitt lán lækkað niður og það strax  

Pálmi Hamilton Lord, 23.8.2009 kl. 21:16

8 Smámynd: Sævar Helgason

Pámi !

Lántakendur áttu  og eiga alla möguleika á lántöku án verðtryggingar- en langflestir völdu verðtryggð lán. Og af hverju ? - Jú - á þau óverðtryggðu komu fullir vextir strax- en á þau verðtryggðu var (er ) greiðslunni jafnað á lánstímann.- því lægri greiðslur í upphafi.  Verðbólgan eyðileggur síðan allt systemið.... en þar eru stjórnvöld ábyrg með hagstjórn.  En allt er þetta hrunið og engin leið að fá vit í vitleysuna sem nú ríður öðruhverju húsi  í glötun....á því eiga ýmsir stóra sök.

Sævar Helgason, 23.8.2009 kl. 21:31

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ólína, það skiptir ekki máli hvaða orð þú nota um aðgerðina, leið Þórólfs er niðurfærsla/leiðrétting/afskrift.  Að búa það í einhvern fínan orðaleikjabúning er bara kjánaleg blekking.

Talsmaður neytenda setti fram fljótlega eftir kosningar tillögu um gerðardóm sem ætti að taka á lánamálum heimilanna.  Þið hjá Samfylkingunni voruð líklegast of önnum kafin við stjórnarmyndun til að taka eftir tillögunni eða hún var ekki tæk vegna þess að Gísli Tryggvason er flokkbundinn Framsóknarmaður.  Hvernig væri nú að þið skoðuðuð þessa tillögu betur, útfærðuð nánar og hrintu henni svo í framkvæmd?  Með gerðardómi er hægt að fá skýrari mynd á stöðu mála og finna bestu lausnina fyrir hvern hóp/flokk lántakenda.

Marinó G. Njálsson, 24.8.2009 kl. 00:20

10 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Afskriftir á að takmarka við húsnæðislán. Leiðrétta þarf verðtryggingu og greiða gengisbætur (svipað og vaxtabætur) til þeirra sem tóku myntkörfulán. Miðað er við húsnæði af "eðlilegri" stærð miðað við fjölskyldu.

Ég hef ekki verið samstíga Árna Páli í þessu máli. Finnst það jafnvel æskilegt að það séu til mismunandi skoðanir í stóru húsi. Nú opnaði hann í einhverju viðtali helgarblaðs á möguleika afskrifta. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 24.8.2009 kl. 00:49

11 Smámynd: Árelíus Örn Þórðarson

Sæl Ólína.

Allar forsendur eru brostnar hjá fólki.  Laun lækka, lán hafa hækkað gríðalega, ekkert er hægt að selja, matvæla verð er hrikalegt og svo frv.

Vandinn er gríðalegur.

Fólk sem hefur staðið í skilum í dag með sín ofurhækkandi skuldbindingar gerir það ekki eftir nokkra mánuði þegar ævi sparnaðurinn  er búinn.

En þá er ég að tala um venjulegt fólk sem ekki tók þátt í græðgisvæðingunni sem sér ekki sólina framundan.

Hvaða forsendur á að nota við að afkomutengja laun þar sem forsendur fólks á þessum tímum breytast jafnvel á milli mánaða.

Í mínum huga verður að fara í almennar aðgerðir, annars verður allt vitlaust í þjóðfélaginu þar sem enginn venjulegur íslendingur sættir sig við það að hafa verið rændur um hábjartan dag meðan núverandi stjórnvöld og fyrverandi stjórnvöld síðustu áratuga stóðu sofandi á vaktinni.

Stjórnvöld verða að forðast það að  koma landsmönnum í eitthvað sem kalla mætti greiðsluleti eða uppgjöf en með algjöru úrræðaleysi stjórnvalda að slá skjaldborg um heimilin að þá er farið að sjást í vonleysið hjá mörgum áður en margir mánuðir líða.

Stjórnvöld eiga að búa til skilyrði búsetu og gera allt til leysa úr þessum náttúruhamföum sem hinn venjulegi launaþræll hefur orðið fyrir.

Baráttu kveðja.

Árelíus Örn Þórðarson, 24.8.2009 kl. 01:34

12 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Hmm, skv. því er ekkert þak á því hve lengi fólk getur verið að borga. Þannig séð, gætu lán gengið frá kynslóð til kynslóðar. Vandi í því, er sá að þá verða þau lán, áfram og til langframa, akkeri á hag almennings, en einnig akkeri á mögulegann framtíðarhagvöxt. Því augljóslega, ef farið verður eftir þessari tillögu, þá verða borgarar landsins, um langan aldur með minna fjármagn á milli handanna, til allra hluta. Það hefur áhrif á framtíðarhagvöxt, þ.s. það mun leiða til minni innlendrar eftirspurnar, og einnig minni innlendrar fjárfestinga, til langframa. 

Einfaldlega, slíkar hugmyndir, munu lækka svokallaðan "potential growth" okkar hagkerfis til langframa. Ef þetta er haft í huga, þá held ég að enginn vafi sé á, að afskriftir skulda sé ódýrari, þegar til lengri tíma er litið.

-----------------------------------------------

Ég skil, hvað er verið að fara með því, að afskrifa ekki lán. Staðreyndin er einfaldlega sú, að 12% eiginfjárhlutfall Glitnis og Íslansbanka, er allt of lágt í ljósi þess hallarekstrar sem nú er í gangi, vegna þess að bankarnir halda í gangi rekstri fjölmargra zombí fyrirtækja, sem vonast er eftir að hafi rekstrargrundvöll seinna. Einnig, í ljósi þeirra gríðarlegu afskrifta, bæði lána einstaklinga og lána fyrirtækja, sem bankarnir standa frammi fyrir. Ég spái því, að nýtt fjármagn muni þurfa í þessa 2. banka, þegar um mitt næsta ár.

Þess vegna, legg ég til, að hætt verði við endurreisn Landsbanka, og hann tekinn til formlegrar gjaldþrotameðferðar, og það fjármagn sem ráðstafað hefur verið í hans endurreisn, þess í stað deilt á milli hinna 2. bankanna, svo einhver von verði um að eiginfjárstaða þeirra geti dugað. Ef hægt verður að koma henni, upp í cirka 18 - 20%, t.d.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 24.8.2009 kl. 11:18

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er stór misskilningur að halda að það kosti einhvern eitthvað að afskrifa óeðlilegar hækkanir lána. Þegar lánin hækkuðu þá kostaði það bankana ekki krónu, þeir voru þá ekki að leggja út neina peninga heldur hækkuðu bara tölurnar í tölvukerfum þeirra. Það að leiðrétta hækkunina þýðir þar með ekki að um tapað fé sé að ræða, þar sem féð var aldrei lagt út til að byrja með. Fyrst engir peningar færðust á milli vasa við hækkun, þá gera þeir það ekki við lækkun heldur. Það eina sem breytist er hveru mikið lántakandinn þarf að greiða í framtíðinni, og þ.a.l. hveru mikið lánveitandinn fær í sinn hlut, líka í framtíðinni. En það kostar hinsvegar lánveitandann ekkert í nútíðinni þar sem hann þarf ekki að leggja neitt út af eigin fé vegna leiðréttingarinnar.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.8.2009 kl. 12:38

14 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Orð eru til alls fyrst og nú er búið að ræða um þessi mál í nokkra mánuði. Það tekur auðvitað tíma að átta sig á eins stóru máli og heilu þjóðfélagi þar sem fjármálkerfið fer úr böndunum.

Hvað við köllum aðgerðirnar finnst mér ekki skipta öllu máli, heldur að hver og einn fái úrlausn við sitt hæfi. Það skiptir til dæmis máli hvar á landinu þú býrð. Fasteignaverð hefur ekki breyst eins mikið á öllu landinu, laun ekki heldur og svo framvegis.

Mér finnst einsýnt að fjölskyldur á Suðvestur - horninu hafi fengið hlutfallaslega meiri skell, en fjölskyldur úti um land. Þetta fer eftir þenslustiginu á hverju svæði fyrir sig. Svo skiptir máli hvernig skuldapakkinn lítur út. Flöt niðurfelling kemur mis vel út alveg eins og flatur niðurskurður svo ég hallast frekar að sértækum aðgerðum.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.8.2009 kl. 14:06

15 Smámynd: Garún

Algjörlega...hvar kýs ég? 

Garún, 24.8.2009 kl. 16:54

16 Smámynd: ThoR-E

Nákvæmlega Guðmundur. Þú orðar þetta betur.

Allt tal um að það kosti skattgreiðendur svo mikið að leiðrétta verðtryggðu húsnæðislánin ... að ég set spurningamerki við það.

Engir peningar skiptu um hendur í þessum hækkunum, þar af leiðandi kostar það ekkert að breyta þessu aftur (leiðrétta húsnæðislánin).

Þetta á að fara í strax! áður en fleiri fjölskyldur lenda á götunni!! 

ThoR-E, 24.8.2009 kl. 17:55

17 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Mér hefur lengi þótt mark takandi á það sem Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor segir. Hann virðist vel jarðtengdur.

Kolbrún Baldursdóttir, 24.8.2009 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband