"Jarmur fogla" og fénaðar - vel heppnuð útkallsæfing

normal_IMG_0067Bærilega tókst útkallsæfingin með björgunarhundunum í nótt - en ég verð að játa að ég er svolítið syfjuð eftir þetta allt saman, enda var ekki nokkur svefnfriður í sjálfri sumarnóttinni fyrir jarmi "fogla" og fénaðar. Hafði ég þó hugsað mér gott til glóðarinnar að sofa undir beru lofti í "næturkyrrðinni".

Ævintýrið hófst eiginlega strax í gærkvöld, þegar við komum að Hæl í Flókadal og fengum þar höfðinglegar móttökur hjá heimilisfólkinu sem bar í okkur góðan mat og heitt kaffi.

Sex úr hópnum höfðu það hlutverk að vera "týnd". Við vorum vakin klukkan þrjú í nótt og ekið með okkur  sem leið lá niður í Stafholtstungur þar sem við áttum að fela okkur á mismunandi stöðum. Leitarteymin fimm voru svo kölluð út um klukkutíma síðar.

Ég fann mér góðan felustað í klettaskorningi, skreið ofan í svefnpokann, breiddi yfir mig feluábreiðuna og hugðist, eins og fyrr segir, sofa til  morguns í lognblíðri sumarnóttinni. En ... það var bara ekki nokkur svefnfriður fyrir blessaðri náttúrunni. Woundering 

Ekkert sker meir í eyrun og hjartað en móðurlaust lamb sem grætur út í næturkyrrðina. Og ef einhver heldur að fuglar himinsins sofi um sumarnætur, þá er það misskilningur. Þeir eru nefnilega á stanslausri vakt yfir ungum sínum. Þeim er meinilla við útiliggjandi björgunarsveitarmenn, og láta það óspart í ljósi með miklum viðvörunarhljóðum og hvellu gjalli við minnstu hreyfingu. 

En ég lét nú samt fara vel um mig, og hlustaði á þessa nætursymfóníu.  Heyrði hundgá í fjarska og fjarlæg fjarskipti - enda hljóðbært í logninu. Virti fyrir mér tvo svartbaka elta smáfugl út undir sjóndeildarhring. Ekki sá ég hvernig sá eltingarleikur endaði - en víst er að hann hefur endað illa fyrir einhvern og vel fyrir einhvern annan. Þannig er blessuð náttúran í allri sinni tign.

Ég var sú fyrsta sem fannst af þeim sem týndir voru. Það voru þeir félagarnir Krummi og Gunnar Gray sem fundu mig klukkan sjö í morgun. 

Æfingin stóð í sex tíma. Á eftir var haldin höfðingleg grillveisla á Hæl, og að henni lokinni voru unghundarnir æfðir. 

Skutull minn stóð sig vel, og nú vonast ég til að geta tekið C-prófið á hann í víðavangsleit í ágúst  - að því gefnu að allt gangi að óskum hér eftir sem hingað til. 

lfljtsvatnma2009002-vi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hlýtur að vera góð tilbreyting frá þingstörfum.

Ásdís Sigurðardóttir, 26.7.2009 kl. 19:15

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Já sinfónía náttúrunnar er stórkostleg og í texta sem ég gerði einu sinni og man ekki nema að hluta, er þessi lína.  ..sem flutt er beint án æfingar og óþarfi' að hafa blað....

Góðar stundir

Hólmfríður Bjarnadóttir, 26.7.2009 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband