Þrenn Grímuverðlaun fékk dóttirin: Þeir fiska sem róa!

Humanimal09Það gladdi mitt meyra móðurhjarta að sjá þrenn Grímu-verðlaun renna til sýningarinnar Húmanimal í kvöld - ég tala nú ekki um þegar Saga dóttir mín tók við einni styttunni sem danshöfundur. Heart Hún tók við þeim verðlaunum í fullri hógværð ásamt Möggu vinkonu sinni, sem líka fékk verðlaun sem dansari ársins. Báðar tóku skýrt fram (og það með réttu) að hópurinn allur ætti þessar styttur sem þær héldu á.

Já, þær voru sannarlega bæði þakklátar og örlátar á þessari sigurstundu - vildu ekki eiga neitt einar - hugsuðu til félaga sinna - deildu gleðinni og heiðrinum með fleirum. Fallegar og rétt þenkjandi ungar konur. Sannkallaðir listamenn.

Annars var ég að verða úrkula vonar um að ég kæmist á afhendingarathöfnina í tæka tíð. Strandveiðifrumvarpið sem ég hef haft framsögu um sem starfandi formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar kom svo seint inn til þriðju umræðu í þinginu að sjálft við lá að ég missti af Grímu-athöfninni. Loks þegar málið var komið á dagskrá og menn voru stignir í pontu til að þenja sig yfir því, var klukkan að verða sjö. 

Í brjósti mér toguðust á ólíkar tilfinningar: Löngunin til að fara eina ferðina enn í umræðurnar og reka nokkrar rangfærslur ofan í mótherjana - hinsagasvegar löngun móðurinnar til að samgleðjast dóttur sinni sem var að fá fjölda tilnefninga fyrir listrænt framlag, og var hugsanlega að fara að taka við verðlaunum (sem kom á daginn).

Eins og oft áður varð móðurhvötin pólitíkinni sterkari. Ég ákvað því að blanda mér ekki frekar í umræðuna - taldi mig hafa sagt í gær allt sem segja þurfti um málið - lét taka mig út af mælendaskrá og ... stakk af! Blush Og viti menn: Þingheimur komst af án mín þessar mínútur sem eftir lifðu fundarins. Það hefði dóttir mín svosem gert líka á þessari gleðistundu, en ég hefði ekki viljað missa af því að vera viðstödd. 

Það er af Strandveiðifrumvarpinu að segja að umræðunni lauk í kvöld, en frumvarpið með áorðnum breytingum kemur til atkvæðagreiðslu á fimmtudagsmorgun. Því er ljóst að strandveiðarnar munu ekki hefjast á þjóðhátíðardaginn, úr því sem komið er.

Mottó dagsins er enn sem fyrr: Þeir fiska sem róa!


mbl.is Utan gátta fékk flest verðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Hjartanlega til hamingju með Grímuverðlaun dótturinnar og vina hennar í Húmanimal, sannarlega verðskulduð verðlaun.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 17.6.2009 kl. 00:53

2 Smámynd: Dexter Morgan

GRÍMU hvað,,,, maður fylgist nú ekki betur með en það að maður veit ekki einu sinni hvaða menningarsnobb-verðlaun er verið að veita, enda kemur manni það ekkert við, nema bara að því leiti; að VIÐ borgum brúsann.

Dexter Morgan, 17.6.2009 kl. 01:03

3 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Innilega til hamingju með þessa flottu stelpu!  Gleðilega hátíð!

Ía Jóhannsdóttir, 17.6.2009 kl. 09:26

4 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Til hamingju með dótturina Ólína.Það er rétt að þeir fiska sem róa.Og ég veit að þú ferð ekki að taka veiðiréttinn af dótturinni og færa hann til ríkisins, því trúi ég ekki fyrr en á reynir.Og aftur til hamingju.

Sigurgeir Jónsson, 17.6.2009 kl. 09:36

5 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Gott hjá þér að gleyma ekki hinum sönnu gleðistundum lífsins sem margar tengjast jú börnunum. Það er bara þannig. Til hamngju með þessa stund.

Guðl. Gauti Jónsson, 17.6.2009 kl. 21:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband