Fyrsti þingflokksfundurinn

althingi2 Sól skein í heiði og það var bjart yfir miðbænum þegar ég arkaði yfir Austurvöllinn að Alþingishúsinu á minn fyrsta þingflokksfund. Í anddyri nýju viðbyggingarinnar mættu mér brosandi starfsmenn sem buðu nýja þingmanninn velkominn. Fyrir innan biðu fjölmiðlarnir og enn innar þingflokksherbergið.

Þetta var góður fundur og yfir honum svolítill hátíðarbragur. Allir 20 þingmenn flokksins voru mættir ásamt áheyrnarfulltrúum og starfsliði . Nýir þingmenn tæplega helmingur, eða níu talsins. Kossar, faðmlög og hlýjar kveðjur í upphafi fundar. Svo var sest á rökstóla um aðalmálefni dagsins: Stjórnarmyndunarviðræðurnar og málefnastöðuna.

Já. nú eru sannkölluð kaflaskipti í mínu lífi. Svosem ekki í fyrsta sinn.

En á þessum tímamótum finn ég til þakklætis í garð þeirra fjölmörgu sem stutt hafa flokkinn og okkur frambjóðendur Samfylkingarinnar á öllum vígstöðvum fyrir þessar kosningar. Fjölmarga hef ég hitt á ferðum mínum um kjördæmið sem hafa miðlað mér af reynslu og sinni og lífsafstöðu. Það hefur verið lærdómsríkt og gefandi að hitta kjósendur að máli, hlusta eftir röddum þeirra og skiptast á skoðunum.


Ég er jafnframt þakklát mótframbjóðendum mínum úr öðrum flokkum fyrir skemmtilega framboðsfundi og umræður um það sem betur má fara og hæst ber á hverjum stað. Yfirleitt hafa þessi skoðanaskipti verið málefnaleg og upplýsandi fyrir alla aðila.


Nú tekur við nýtt tímabil - erfitt tímabil. Óhjákvæmilega finnur nýkjörinn þingmaður frá Vestfjörðum til ríkrar ábyrgðar og um leið umhyggju gagvart heimaslóðum þar sem mjög ríður á úrbótum í samgöngu- og raforkumálum. Hvort tveggja getur ráðið úrslitum um atvinnuuppbyggingu Vestfjarða og almenn búsetuskilyrði. Sjálf vil ég auk þess gera það sem í mínu valdi stendur til þess að fjölga menntunarkostum heima í héraði, ekki síst á háskólastigi.

Forsenda þess að eitthvað miðið í úrbótum fyrir einstaka landshluta er þó að ná tökum á efnahagslífi þjóðarinnar og verja jafnframt velferðina eftir fremsta megni. Það er forgangsverkefni og um leið frumskilyrði þess að nauðsynleg atvinnu uppbygging geti átt sér stað. Sókn um inngöngu í ESB er mikilvægur þáttur í að þetta takist. Síðast en ekki síst þarf að endurreisa ábyrgð og traust í samfélaginu, ekki síst á stjórnmálasviðinu og innan stjórnsýslunnar sjálfrar.

Jebb ... þetta verður ekki auðvelt fyrir nýja ríkisstjórn, en við sjáum hvað setur. Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Guðnason

Til hamingju Ólína mín,og velkomin í höfuðborgina og inn á alþingi,það er mjög gaman að fá þig inn á þing,ég veit að vestfirðingar eiga þarna super-þingmann,en nú liggur á að þið nái saman sem fyrst varðandi ESB,en ég held að fólkið bíði eftir því að þið taki á efnahagsmálum og redda heimilunum og koma fyrirtækjum í gang,sparka svolítið í rassinn á bönkunum,svo þeir fara nú að dæla peningum í fyrirtækin og fólkið sem er atvinnulaust sjái fram á betri framtíð,ESB má að mínu mati bíða aðeins,það liggur meira að koma hinu í gang,þetta verður mjög erfitt,en þið getið þetta það er ég viss um,Ólína mín,gangi þér allt í haginn og vertu hin sterka þingkona,ég hef mikla trú á þér,áfram nú.HA HA HA HE HE HE, Einn mjög bjartsýn og von góður,nú verður mjög bjart framundan,Gleðilegt sumar.

Jóhannes Guðnason, 27.4.2009 kl. 21:26

2 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Ég óska þér til hamingju með þingsætið Ólína.

Hilmar Gunnlaugsson, 27.4.2009 kl. 21:29

3 Smámynd: Kristján Pétursson

Velkomin á alþingi,óska þér til hamingju.Ég reyndar spáði þér sigur.Það er gott fyrir okkur Samfylkingafólk að hafa þig á þingi,þú stendur vörð um háar hugsjónir og bræðralag okkar jafnaðarmanna jafnframt að rýmka lýðræðið og efla frelsið.

Gangi þér og þínum allt í haginn .

Kristján Pétursson, 27.4.2009 kl. 22:08

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sendi þér hamingjuóskir Ólína og er býsna sáttur við þig þarna inni á Alþingi þó ég sé ekki sammála þér í öllum pólitískum efnum. En ég treysti þér til að leggja góðum málum lið.

Og svo veitir ekki af að fá þarna inn einhverja sem kunna góð skil á "stuðlanna þrískiptu grein!"

Árni Gunnarsson, 28.4.2009 kl. 10:05

5 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Til hamingju Ólína með þingsætið, megi gæfan hafa á þér hönd á  nýjum starfsvettvangi.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 29.4.2009 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband