Dagsins lifna djásnin enn ...

Arnarfjordur3.AgustAtlasonDagsins lifna djásnin enn,
af draumi vaknar spurnin hljóð:
Verð ég til þess valin senn
að vinna fyrir land og þjóð?

Þessi vísa braust fram í höfuðið á mér rétt eftir að ég vaknaði í morgun. Í dag ráðast leikar varðandi það hverjir fá umboð til þess að vinna fyrir þjóðina að loknum kosningum.

Íslendingar eiga skýran valkost. Hann er sá að leiða jafnaðarstefnuna til öndvegis undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur formanns Samfylkingarinnar, og hafna þar með harðneskju frjálshyggjunnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir um árabil.

Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur sem öðrum flokkum fremur horfir til framtíðar og þeirra tækifæra sem vænta má í samstarfi og samfélagi við aðrar þjóðir. Hún er eini flokkurinn um þessar mundir sem býður upp á stefnu og framtíðarsýn í peningamálum.

Stefnu sinni í Evrópumálum deilir flokkurinn með stærstu samtökum atvinnulífsins, bæði launafólks og atvinnurekenda, eins fram hefur komið í umsögnum  með nýbirtri Evrópuskýrslu. 

Allt frá efnahagshruninu hefur Samfylkingin unnið að því að byggja brú fyrir heimilin í landinu til að yfirstíga erfiðleikana sem hrunið olli. Aðgerðirnar eru bæði almennar og sértækar. Megináhersla hefur verið lögð á það að leysa vanda skuldsettustu heimilanna og koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný með þrennt fyrir augum:

1) Að hraða endurreisn fjármálakerfisins og skapa skilyrði fyrir enn hraðari lækkun vaxta og endurvinna traust á íslenskt atvinnu- og efnahagslíf með skýrri framtíðarsýn í peningamálum. Fyrirtækin verða að fá upplýsingar um það hvert stefnir í gjaldeyris- og vaxtamálum því það eru lykilþættirnir í starfsumhverfi þeirra.

2) Að ráðast strax í arðbærar atvinnuskapandi aðgerðir á vegum hins opinbera til að fjölga störfum.

3) Að styðja við þau nýsköpunarfyrirtæki sem eru sprotarnir að stórfyrirtækjum framtíðarinnar.

Samfylkingin hefur svikalaust einhent sér í erfið og aðkallandi verkefni eftir efnahagshrunið. En hún lætur ekki þar við sitja. Íslenskir jafnaðarmenn bjóða líka upp á skýra framtíðarsýn.

Já, kjósendur standa frammi fyrir sögulegu tækifæri í dag. Það tækifæri mega íslenskir jafnaðarmenn ekki láta renna sér úr greipum. 

 

---------

PS: Myndina hér fyrir ofan tók sá frábæri myndasmiður Ágúst Atlason í Arnarfirði á dögunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gangi þér vel Ólína mín. Kærleikskveðjur.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 10:44

2 identicon

Kveðjur vestur. Vonandi get ég ávarpað þig sem þingkonu á morgun!

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 13:18

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ágæt morgunvísa, en stefnan ekki, nema þú standir með fullveldinu.

En þú virðist aðhyllast þá stefnu sem Samfylkingin deilir ekki með undirstöðuatvinnuvegi Vestfirðinga og þjóðarinar allrar, sjávarútveginum. Og ekkert kærir landbúnaðurinn sig um Evrópubandalagið. Skyldi það enda með því, að sveitahéruðin í NV-kjördæmi hafni þínum flokki, eins og sjá má í NA-kjördæmi, þar sem fylgi hennar var ágætt á Akureyri, en ekki nema 11% í dreifbýlinu?

Og þá er nú ekki víst, að Ólína komist á þing.

En gleðilegt sumar!

Jón Valur Jensson, 25.4.2009 kl. 17:40

4 Smámynd: Rögnvaldur Þór Óskarsson

Núna er klukkan 19:20 og það er nógu margir búnir að kjósa, svo ég get fullyrt að þú ert komin á þing. Til hamingju Ólína alþingiskona

Þegar klukkan slær tuttuguogtvö vona ég að það verði Arna sem  hreppi baráttusætið.

Rögnvaldur Þór Óskarsson, 25.4.2009 kl. 19:21

5 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Góðar kveðjur til þín vestur Ólína, vonandi fær rödd þín að óma frjáls og óháð á Alþingi Íslendinga.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 25.4.2009 kl. 19:51

6 Smámynd: Sævar Helgason

Á meðan við bíðum spennt eftir fyrstu tölum ,nú um 22 leytið ,langar mig að benda á misræmi varðandi þessa gullfallegu mynd frá Vestfjörðum.  Annarsvegar er hún merkt frá Arnarfirði en hinsvegar í texta sögð frá Dýrafirði.

Hvort er hið rétta ?

Sævar Helgason, 25.4.2009 kl. 20:42

7 Smámynd: Jóhannes Guðnason

Til hamingju Ólína mín auðvita verður þú kosin á þing,hvað annað,ef ekki þá flyt ég vestur,guð hjálpi þeim þá fyrir vestan,svo nú vita vestfirðingar það.ef þeir kjósa ekki þig á þing,þá kem ég,vertu viss Ólína mín,þeir kjósa frekar þig,heldur en að fá gamlan stórkrata vestur á Ísafjörð,þeim finnst örugglega nó að bróðir minn búi á Ísafirði,þeir vilja ekki fá bræður þangað,það er víst,þess vegna er ég öruggur um þig sem þingkonu Ólína mín,heyrumst og sjáumst þegar þú kemur í þinghúsið,HA HA HA HE HE HE    Gleðilegt sumar.

Jóhannes Guðnason, 25.4.2009 kl. 21:53

8 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Kæra vinkona, svarið við morgunlínunum laglegu virðist nokkuð svo ljóst, mínar innilegustu hamingjuóskir vestur sendi ég og segi þetta!

Fallin dómur, fagurt ómar,

fyllsti sómi er.

Þýður rómur, þinn senn hljómar,

þing svo ljóma fer!

Magnús Geir Guðmundsson, 26.4.2009 kl. 03:39

9 Smámynd: Jónína Rós Guðmundsdóttir

Til hamingju með þingsætið Ólína mín - hlakka til að vinna með þér.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, 26.4.2009 kl. 10:44

10 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Til hamingju með nýja starfið Ólína mín og ég treysti ykkur Jónínu Rós hér að ofan í þau erfiðu verkefni sem framundan eru

Sigrún Jónsdóttir, 26.4.2009 kl. 10:57

11 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir góðar kveðjur - og til hamingju Jónína Rós með þingsæti þitt. Ég hlakka líka til að vinna með þér. 

Sérstaklega vil ég þó þakka Magnúsi Geir fyrir hans fallegu hringhendu. Hún er frábær.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 26.4.2009 kl. 11:22

12 Smámynd: Brynhildur Jónsdóttir

Til hamingju með þingsætið Ólína. Það verður gaman að sjá þig aftur í eldlínunni. Kv. Brynhildur

Brynhildur Jónsdóttir, 26.4.2009 kl. 11:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband