Það þarf kjark til að vera jafnaðarmaður

DyrafjordurAgustAtlason Þó að stjórnvöld standi nú frammi fyrir fleiri og brýnni úrlausnarefnum en nokkru sinni fyrr er krafa dagsins einföld. Hún rúmast í einu orði: Siðbót. Þetta hógværa orð  er í reynd lausnarorðið fyrir íslenskt samfélag eins og staðan er í dag. Ef stjórnmálamenn, forsvarsmenn atvinnuveganna, þeir sem stjórna fjármála- og viðskiptalífinu, fjölmiðlamenn og almenningur bæru gæfu til nýrrar siðvæðingar í samfélaginu, þá væri eftirleikur bankahrunsins auðveldur. En siðbót kallar á kjark.

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Þetta eru falleg orð, en þau hafa enga þýðingu nema hugur fylgi máli, og gjörðir orðum. Markmið jafnaðarstefnunnar er að hver maður fái notið grunngæða samfélagsins; að úthlutun gæðanna taki mið af þörfum hvers og eins.

Íslendingar hafa nú fengið óþyrmilega að kynnast því hvað gerist þegar þessi sjónarmið eru virt að vettugi. Þegar ábyrgðarleysið ræður ríkjum. Jöfnuður án ábyrgðar er óhugsandi. Þegar enginn tekur ábyrgð velferð annarra, þá er ekkert sem heitir jöfnuður. Þá ríkir græðgin ein.

Ójafnréttið í samfélaginu hefur birst okkur með ýmsum hætti. Það  birtist okkur sem aðstöðumunur landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Það kristallast í óréttlátu kvótakerfi þar sem braskað er með auðlindir þjóðarinnar. Það blasir við í skefjalausri sérhagsmunagæslu á kostnað almannahagsmuna. Það kemur fram í ójöfnum lífskjörum og misskiptingu gæða, launamun kynjanna og þannig mætti lengi telja. Það speglast í spillingu, hugsanaleti og ákvarðanafælni. Ábyrgðarleysi leiðir af sér ójafnrétti.

Samfylkingin á það erindi við íslenska þjóð að þessu sinni að hefja jafnaðarhugsjónina til vegs og virðingar á ný.  Að standa fyrir endurreisn íslensks samfélags og siðbót í íslenskum stjórnmálum. Til þess þarf kjark.

  • Það þarf kjark til að breyta íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að af hljótist réttlát skipting þeirra auðæfa sem hafið geymir.
  • Það þarf kjark til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga þar með inn á vettvag þjóðanna sem fullvalda, sjálfstætt ríki meðal jafningja.
  • Það þarf kjark til þess að breyta ártatuga gömlu framleiðslustjórnunarkerfi í landbúnaði, færa það til nútímahorfs og gera bændum kleift að njóta sérstöðu og sérhæfingar sem sjálfstæðir matvælaframleiðendur, svo dæmi sé tekið.
  • Það þarf kjark til þess að halda áfram uppbyggingu háskólastarfs og símenntunar; já, að veðja á menntun og mannrækt í þeim mótbyr sem framundan er.
  • Það þarf kjark til að leita sannleikans varðandi efnahagshrunið og kalla til ábyrgðar alla sem að því komu - jafnt stjórnmálamenn sem forsvarsmenn fjármálastofnana.

Síðast en ekki síst þarf kjark til að vera ábyrgur jafnaðarmaður.

 ---------------------

PS: Myndina með þessari færslu tók Ágúst G. Atlason í Önundarfirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Það hlýtur að vera erfitt að vera jafnaðarmaður í Samfylkingunni í dag. Siðbótar er þörf. Öll munum við Borgarnesræðu ISG og þegar JÁJ kallaði viðskiptaráðherra til viðtals um miðja nótt. Boðaði síðan nokkra valda Samfylkingarþingmenn á sinn fund. Auðjöfurinn pantaði ekki viðtal!

Við viljum siðbót Ólína.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.3.2009 kl. 10:55

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Heimir minn - það er erfitt að vera Íslendngur um þessar mundir. En það er gaman að vera jafnaðarmaður, þó það útheimti kjark. Já, það er gaman að vera jafnaðarmaður í flokki með skoðanasystkinum sem vilja láta gott af sér leiða, eins og Samfylkingarfólkið.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.3.2009 kl. 14:57

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Við jafnaðarmenn í Sjálfstæðisflokknum fylgjumst grannt.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.3.2009 kl. 15:19

4 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

En hvað þarf til að framfylgja loforðum um jafnrétti kynjanna?

Sóley Björk Stefánsdóttir, 18.3.2009 kl. 16:03

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Heimir, ég vissi ekki að það væru jafnaðarmenn í Sjálfstæðisflokknum, mér þykir þú segja fréttir góði.

Það er frábært að vera jafnaðarmaður í Samfylkingunni í dag og ég er hreykin af minni veru þar. En það sem þú segir Ólína með kjarkinn er líka alveg rétt.

Kjarkur er mikill kostur en það þarf líka mikla skynsemi til að nota hann til góðra verka. Samfylkingarfólk er sanngjarnt, víðsýnt og skynsamt fólk sem við tryggja sem allra mest lýðræði, sem mestan jöfnuð og réttlæti.

Jafnrétti kynjanna er eitt af þeim réttlætismálum sem vinna verður að af meiri atorku, en verið hefur. Verkefnin eru mikil og knýjandi hvert sem litið er.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.3.2009 kl. 16:29

6 Smámynd: Óðinn Þórisson

Nú er landsfundur vg um helgina. Kom það aldrei til greina að færa ykkar landsfund á sama tíma&stað og nota tækifærið að sameina þessa vinstriflokka.

Ykkur vantar leiðtogaefni, þar er SJS og margir hafa sagt að það sé bara tímaspursmál hvenær þessir flokkar sameinast og er ég einn þeirra sem vona að svo verði.

Stefnumálin eru þau sömu í lykilmálum eins og ESB-aðild og Helguvík.

Óðinn Þórisson, 18.3.2009 kl. 18:55

7 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

* Það þarf kjark til að viðurkenna mistök fortíðar. Ekki bara gagnvart Breiðavíkurdrengjum heldur líka gagnvart okkur hinum.

* Það þarf kjark til að koma með tillögur til lausnar vandanum varanlega í staðinn fyrir að gagnrýna aðra eingöngu.

* Það þarf kjark til að svara spurningum fréttamanna með öðru en ESB.

Guðmundur St Ragnarsson, 18.3.2009 kl. 21:41

8 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Guðmundur. Hvar hefur þú verið undanfarið? Hefur þú ekki tekið eftir þeim lausnum, sem Samfylkingin hefur komið fram með og er með í undurbúningi? Hér koma nokkrar þeirra.

Greiðslujörnunarvísitala. Þeir, sem nota hana greiða um 14% lægri greiðslur af verðtryggðum lánum sínum en annars væri.

Lenginar á lánum. Lækkar greiðslubyrðina.

Frystingar á lánum. Hjálpar þeim, sem hafa misst vinnuna eða hafa orðið fyrir áföllum, sem gerir þeim erfitt að standa í skilum með lán sín.

Heimild til úttektar á viðbótasparnaði. Hjálpar fólki í greiðsluvandræðum en með eign í viðbótasparnaði.

Hækkun vaxtabóta. Hjálpar tekjulágu fólki með háa vaxtabyrgði.

Greisluaðlögun. Hjálpar fólki að komast hjá gjaldþroti.

Það er orðin ansi þreytt umræða þegar menn ásama þá, sem eru ekki tilbúnir til að láta einhverja aðra greiða hluta af skuldum lántaka, eru sakaðir um að gera ekkert fyrir þá þó staðreyndin sé sú að verið er að gera allt, sem hægt er annað en að flytja vanda þeirra yfir á aðra.

Sigurður M Grétarsson, 18.3.2009 kl. 22:05

9 Smámynd: Guðmundur Óli Scheving

Sæl Ólína.

Já það hýtur alltaf að vera erfitt fyrir tækifæirsinna, að telja sig jafnaðarmenn.

Þetta finnst mér.

Guðmundur Óli Scheving, 18.3.2009 kl. 23:46

10 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Enga öfund strákar mínir og það þarf ekki mikinn kjark til að sletta glósum.

Það þarf hins vegar mikinn kjark til að vera kona sem býður Íhaldinu byrginn, fyrst í Reykjavíkurborg og síðan á landsvísu. En nú er best að snúa sér að framtíðinni.

Samfélagið okkar er laskað eftir áralanga valdatíð stjórnmálaflokka sem hugsuðu oft meir um hag flokka sinna og vina, en þjóðarinnar. Því þarf að byggja upp nýtt samfélag.

Þá verður að byrja á grunninum. Efna til stjórnlagaþings og semja nýja stjórnarskrá, frumvarp um málið liggur fyrir Alþingi, ekki kjarleysi þar.

Allnokkur frumvörp liggja fyrir þinginu um mál sem lúta að málefnum heimila og fyrirtækja í landinu. Það er þörf mikillar aðstoðar og til þess þarf kjark.

Krónan okkar er ónýt og best að viðurkenna það án undanbragða. Til að koma gjaldmiðilsmálum í höfn er mikilvægt að sækja um aðild að ESB og kanna til þrautar með hvaða skilmálum við munum ganga þar inn. Það er líka kjarkmikil ákvörðun sem verður að taka, þrátt fyrir háværar úrtölur.

Fiskveiðikerfið okkar er mjög umdeilt og stenst ekki ákvæði um mannréttindi. Það er hár garður sem þarf að ráðast á og klífa og hugrekki brýn nauðsyn.

Svona er hægt að rekja málin áfram og til þess að byggja upp réttlátt samfélag þar sem hugað er að hag allra þegnanna, þarf mikla og ríka jafnaðarhugsun og hún útheimtir mikinn kjark

Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.3.2009 kl. 00:50

11 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Það speglast í spillingu, hugsanaleti og ákvarðanafælni. Ábyrgðarleysi leiðir af sér ójafnrétti.

Ólína, hér hittir þú naglann á höfuðið.  Siðbótin verður að byrja í grunnskólum landsins.  það þarf að endrumennta alla kennara landsins og breyta áherslum í menntakerfi landsins.  Aðeins þar er hægt að taka á hugsanaleti.

Andri Geir Arinbjarnarson, 19.3.2009 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband