Óréttlætið gagnvart landsbyggðinni

KubburOddurJonsson Ég finn sárt til þess - þar sem ég hef búið á landsbyggðinni undanfarin átta ár - hversu mjög hefur hallað á hlut norðvestursvæðisins þar sem hagvöxtur hefur verið neikvæður og þungt fyrir fæti í svo mörgum skilningi.

Eins og öðrum íbúum svæðisins rennur mér til rifja sá aðstöðumunur sem er á milli þeirra sem búa á suðvesturhorninu og hinna sem búa úti á landi.

Ráðherraræðið í okkar litla landi hefur ekki aðeins grafið undan sjálfstæði Alþingis. Völd og miðstýring ráðuneyta hafa líka grafið undan sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. Það er því ekki nóg með að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar - gjáin er líka djúp milli höfuðborgar og landsbyggðar.

Meðal þess sem hefur hamlað vexti og viðgangi byggðanna á Vestfjörðum eru samgöngurnar. Þar þarf að gera stórátak. Þá er ég ekki bara að tala um vegina, sem eru fjarri því að vera viðunandi. Ég er líka að tala um flugvelli og hafnaraðstöðu sem atvinnulífið þarf svo mjög á að halda vegna aðfanga og vöruflutninga.

Háhraðatengingar og önnur fjarskipti þarf líka að stórbæta svo íbúar svæðisins geti vandræðalaust nýtt sér tækni og fjölbreytta menntunarkosti. Að ég tali nú ekki um raforkuflutninga sem vitanlega eru grunnforsenda allrar þjónustu.

Þetta sem nú er nefnt eru sjálfsagðir hlutir í nánast öllum byggðum landsins - nokkuð sem ekkert samfélag getur verið án.

Fari svo að Samfylkingin verði leiðandi afl í næstu ríkisstjórn mun það verða hlutskipti flokksins  að koma að endurreisn samfélagsins á grundvelli jafnaðarstefnunnar. Gleymum því ekki að jafnrétti snýst ekki bara um aðstöðumun einstaklinga heldur líka landshluta og svæða. Eins og málum er háttað njóta íbúar Vestfjarða ekki jafnréttis á við íbúa annarra landshluta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Héðinn Björnsson

Það hefur staðið landshlutunum fyrir þrifum hversu lítið þeir hafa haft um það að segja hvað sé gert í uppbyggingu þeirra. Í staðin fyrir að setja göng eða annað slíkt á fjárlög væri nær að setja peningana inn í kjördæmin og leyfa þeim síðan að ráðstafa þeim eins og henntar best á hverjum stað. Eins og staðan er í dag nota fáeinir kjördæmapotarar óheyrilegar upphæðir í fáein stór verk af því valið er á milli þeirra og ekki neins.

Héðinn Björnsson, 5.3.2009 kl. 15:31

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Sú var tíð að sjávarþorpin á vestfjörðum voru eins og blóm í eggi. Iðandi mannlíf, menning og sagan út um allt.

Eins og segir í sögu Hrafna flóka. "smjör draup af hverju strái" eilíft vor í lofti og bjartsýnin réð ríkjum hjá hverri sálu.

Fólkið sem bjó í þorpunum byggði sér bæi, skóla, bryggjur, flugvelli og vegir voru lagðir. Útvegsbændur byggðu sér öflug skip og fiskhús af flottustu hönnun þess tíma.

Fræknustu sjómenn og fengsælustu skipstjórar við N Atlandshaf mönnuðu flota vestfirðinga sem var sá öflugasti og best búni í víðri veröld. Valinn maður í hverju rúmi.

Harðduglegir íbúar þorpana höfðu nóg að bíta og brenna og atvinnan var meiri en næg fyrir alla.

Erlendir sem íslenzkir farandverkamenn komu í þorpin til að aðstoða heimamenn við að gera verðmæti úr öllum þeim afla sem barst að landi.

Frystihús, salthús, skreiðarhús, fiskimjölsverksmiðjur og lýsisbræðslur voru í hverju þorpi sem möluðu samfélaginu og eigendum sínum gull allt árið.

Peningarnir flóðu frá útlöndum líkt og í lækjum og hagsældin í þorpunum var mikil.

Árið var 1983: Fiskifræðingar og stjórnmálamenn fundu það út að þorskstofninn við Ísland væri ofveiddur.

Þetta sama ár var komið á kvótakeffi við stjórn fiskveiða. Vestfirðingar vöruðu við slíkum bölsýnis spám og töldu að um náttúrlega niðursveiflu væri að ræða.

Vestfirðingar vöruðu við markaðsdrifnu kvótakerfi í fiskveiðum og að sjávarþorpin við Ísland gætu nánast þurkast út þar sem fiskveiðiheimildirnar færðust á hendur örfárra braskara sem gerðu sér sjómennina að þrælum og leiguliðum.

Árið er 2009.

Sjávarþorpin á Vestfjörðum og víðast hvar á landinu eru eins og eyðibýli. Skipin upp höggvin, brend, sökt, eða þeim hreinlega verið stolið eins og mörg dæmin sanna.

Tilvitnun í Íslandsljóð Einars Benediktsonnar.

Þú folk með eymd í arf !

Snautt og þyrst við gnóttir lífsins linda,

litla þjóð, sem geldur stórra synda.

Tilvitnun lýkur.

Örfá sjávarútvegsfyrirtæki eru eftir á Vestfjörðum, nánast allur flotinn er farinn.

Stór hluti af íbúunum er flúin eða við það að flýja.

Þeir sem fara og eru farnir eru flest allir meira og minna gjaldþrota og eignarlausir.

Þeir sem eftir hokra verða að sætta sig við sjálfskipuð yfirvöld þorpanna sem haga sér flest líkt og Jóhann Bogesen stórversír á Óseyri við Axafjörð forðum daga í söguni Sölku Völku.

Það er komið meira en nóg af ofbeldi sem íslenzk stjórnvöld hafa farið fram með gegn íbúunum í sjávarþorpum vestfjarða.

Það verður aldrei sátt né friður á meðan ekki verður snúið til réttlætis og fiskveiði auðlindinni aftur skilað.

Níels A. Ársælsson., 5.3.2009 kl. 17:13

3 identicon

ertu ekki að meina Norðurland eystra því þar hefur þessi hagvöxtur verið lægstur skv.  þessari skýrslu Byggðastofnunar.  http://www.byggdastofnun.is/static/files/Skyrslur/Hagvoxtur_landshluta_2006.pdf  Ég hef reyndar aldrei alveg skilið þessa hagvaxtar pælingu og enn síður hvernig skrifstofumenn hjá Byggðastofnun geta síðan flokkað hann niður á milli landssvæða með ótrúlegri nákvæmni að því er virðist. 

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 23:43

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Góð færsla og athugasemd Níelsar ekki síðri.

Ég var einn af þeim sem fór og síðan eru meira en 17 ár. Eftir stanslausan uppgang, sérstaklega 1971-84 kom stopp. Síðan hnignun. Það er ótrúlegt hvað hún gekk hratt fyrir sig. Ég hef engu við lýsingu Níelsar að bæta. En vonandi finnst leið til að snúa aftur til réttlætis.

Völdin haldast í hendur við peningana. Peningarnir lágu í kvótanum. Þegar þeir fara fjarlægjast völd yfir eigin örlögum um leið. Þá tekur hnignunin við. Sama gildir um völd almennt, ef þau eru færð í burt frá fólkinu. Bara að menn fari ekki að flytja völdin úr landi og breyta Íslandi öllu í Vestfirði Evrópu. Það myndi ekki gerast strax og ekki jafn hratt, heldur læðast aftan að okkur á fáeinum áratugum.

Haraldur Hansson, 5.3.2009 kl. 23:47

5 Smámynd: Jón Magnússon

Ágæta Ólína ég skil það vel að þú finnir fyrir því að það er annað að búa á Vestfjörðum en í 101 Reykjavík.  Þeir sem kjósa að búa á Ísafirði frekar en í Reykjavík sjá ákveðna kosti fólgna í því með sama hætti og við sem viljum frekar búa í Reykjavík sjáum ákveðna kosti fólgna í því.

Mér finnst að við fólkið á Suðvesturhorninu vera sett hjá þar sem við höfum helmingi minna atkvæðavægi en þið í Norðvesturkjördæmi. Mér finnst það eðlileg lýðræðisleg krafa að ég hafi sama vægi sem kjósandi og þú.

Ég get síðan verið sammála þér um nauðsyn þess að komið verði á viðunandi samgöngum og háhraðatengingum sem allra fyrst hvort heldur það er á Vestfjörðum eða öðrum þeim hlutum landsins þar sem skóinn kreppir hvað mest í þeim efnum.

Hitt er annað Ólína, að þegar þú verður kominn á þing, og ég segi það e.t.v. af svolítilli óskhyggju, af því að ég þekki þig og tel þig eiga fullt erindi og verða góðan fulltrúa flokks þíns á þingi, að þá verður það þitt hlutskipti að deila takmörkuðum ríkissjóði í þau verkefni sem mestu skiptir og þar verður félagslega öryggisnetið að hafa algjöran forgang að mínu mati.

Jón Magnússon, 5.3.2009 kl. 23:51

6 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Mér finnst eins og Kristni oft vera of mikil miðstýring á landinu og ekki nægjanleg áheyrsla sé lög á landsbyggðina þar sem betur má vinna úr atvinnumálum oft á tíðum sem og vegauppbyggingu og einkum þarf að styrkja flugvellina og hafnaraðstöðuna svo betur megi annast viðskipti bæjanna og bæta aðföngin.

Hilmar Gunnlaugsson, 6.3.2009 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband