Nú reynir á grunngildin

Skagafjörður Fyrir hálfri annarri öld flykktust Íslendingar hópum saman til Vesturheims undan harðindum og atvinnuleysi. Bændur flosnuðu frá búi og ungu fólki reyndist erfitt að fá jarðnæði. Sú atvinna sem bauðst við sjósókn eða vinnumennsku var árstíðabundin og stopul. Fjölmargir freistuðu því gæfunnar í Vesturheimi þar sem tækifærin biðu í hillingum og og margir náðu sem betur fer að skapa sér nýja fótfestu og framtíð.

Einn þeirra sem steig á skipsfjöl og sigldi mót óráðinni framtíð var skagfirskur, piltur, Stefán Guðmundur Guðmundsson, síðar þekktur sem Stephan G. Stephansson, Klettafjallaskáldið sem síðar orti:

Þitt er menntað afl og önd
eigirðu fram að bjóða
hvassan skilning, haga hönd
og hjartað sanna og góða.

Í þessum fjórum línum birtast þau grunngildi sem kynslóðir Íslendinga hafa tekið sér til fyrirmyndar öld fram af öld, allar götur þar til útrásin hófst og hitasótt frjálshyggjunnar náði að smita og gegnsýra allt okkar litla samfélag. Þegar efnahagur þjóðarinnar hrundi og sápukúlan sprakk í október síðastliðnum rann það upp fyrir okkur að það var ekki aðeins fjárhagur þjóðarinnar sem hafði beðið skipbrot - siðferðisgildin voru líka hrunin.

Um þessar mundir er dauft yfir íslenskum byggðum og ,,hnípin þjóð í vanda" líkt og þegar skagfirskur piltur steig á skipsfjöl og stefndi í vestur fyrir 140 árum. Hann hafði sín grunngildi á hreinu. Þau gildi hafa beðið alvarlega hnekki meðal núlifandi kynslóða.

Það er því núna sem reynir á íslenska jafnaðarmenn.

 

----

Myndin hér fyrir ofan er af sólsetri í Skagafirði - ég fékk hana á heimasíðu Ungmennafélags Skagafjarðar. Höfundar er ekki getið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Bara ein lítil spurning, megum við búast við að fá að sjá ykkur hér á Snæf.nesinu aftur, fyrir kosningar?

Bestu kveðjur.

Þráinn Jökull Elísson, 2.3.2009 kl. 22:48

2 Smámynd: Indriði H. Indriðason

Ég vil vekja athygli á vefsíðu, www.profkjor.politicaldata.org, sem er nýstofnsett. Tilgangur vefsíðunnar er að skapa vettvang þar sem kjósendur geta nálgast upplýsingar um frambjóðendur og stefnumál þeirra auk annarra upplýsinga tengdum prófkjörunum/forvölunum. Vefsíðan er opin frambjóðendum allra flokka í öllum kjördæmum en það er undir frambjóðendunum sjálfum komið að færa inn upplýsingar um sig og stefnumál sín. Ef frambjóðendur kjósa eru færslur af þeirra eigin bloggum birtar sjálfkrafa á vefsíðunni. Það gefur t.d. kjósendum möguleika á að skoða bloggfærslur allra frambjóðenda flokksins í tilteknu kjördæmi – og jafnvel takmarkað við tiltekið sæti á listanum – á einum stað. Það er von okkar að vefsíðan efli pólitíska umræðu og gefi kjósendum aukið færi á að taka málefnalega afstöðu.

Frambjóðendur geta skráð sig hér: http://www.profkjor.politicaldata.org/wp-login.php?action=register

Indriði H. Indriðason, 3.3.2009 kl. 01:49

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Þráinn - það er ekki ólíklegt að frambjóðendur komi á Snæfellsnesið fyrir kosningar, en það er í höndum kosningastjórnar að skipuleggja framboðsfundina.

Indriði - takk fyrir þessar upplýsingar. Ég ætla að kynna mér þetta.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.3.2009 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband