Nýtt lýðveldi er ekki stjórnmálaframboð

althingi2 Við sem stöndum að undirskriftasöfnuninni um Nýtt lýðveldi á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is erum ekki stjórnmálaframboð. Best að þetta sé alveg á hreinu - því það er einhver misskilningur í gangi núna. Í kvöld fékk ég símtal frá blaðamanni Morgunblaðsins sem vildi ræða við mig um framboðsmál af því hann taldi að Nýtt lýðveldi og Lýðveldisbyltingin sem rekur vefsíðuna www.lydveldisbyltingin.is væri sami hópur. Svo er ekki. Báðir hópar styðja þó sama málstað að því er virðist og það er ágætt.

Þetta er meðal þess sem bar á góma í þættinum "Í býtið" í  morgun, en þangað mætti ég í spjall við Kollu og Heimi (hlusta hér).

Allmargir hafa spurt mig hvort ekki sé ástæða til að sameina þessa tvo hópa og sameina þar með kraftana. Um það vil ég segja þetta:

Ein krafa - ólíkir hópar: 

Krafan um utanþingsstjórn (eða einhverskonar þjóðstjórn), stjórnlagaþing og nýtt lýðveldi á hljómgrunn í öllum stjórnmálaflokkunum og meðal fjölda fólks sem stendur utan við alla pólitík. Það er margt sem skilur þetta fólk að, en eitt sem sameinar það: Nefnilega krafan um nýtt lýðveldi.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að stofnun nýs stjórnmálaafls sé ekki besta leiðin til að ná þessu markmiði. Það segi ég með fullri virðingu fyrir því stjórnmálaafli sem nú er verið að stofna utan um þessa kröfu. Það stjórnmálaafl mun etja kapps við hina flokkana fyrir næstu kosningar, eftir gömlu leikreglunum, og kannski fá atkvæðamagn sem einhverju nemur. En í kosningum er spurt um stjórnmálaskoðanir fólks og afstöðu til ótal margra mála sem varða landshagi. Að fara fram meið eitt mál í kosningar, og láta allt annað liggja á milli hluta - það getur orðið erfitt þegar til kastanna kemur, því vitanlega verða alþingismenn að hafa stefnu í flestum málaflokkum. Kjósendur eiga rétt á að vita fyrir hvað framboðin standa í veigamiklum atriðum. Hver er stefnan í umhverfismálum, sjávarútvegsmálum, Evrópumálum, utanríkismálum, virkjunarmálum o.s. frv.

Horfum á það sem sameinar, ekki það sem sundrar 

Við sem stöndum að vefsíðunni Nýtt lýðveldi, tókum afdráttarlausa afstöðu til þess að við værum óháð öllum stjórnmálaframboðum. Við teljum það fljótvirkari og árangursríkari leið að sameina Íslendinga, hvar í flokki sem þeir standa, um þessa einu kröfu. 

Við fögnum því ef stjórnmálaflokkarnir taka undir með okkur, hvort sem þeir eru nýir eða gamlir. En ef undirskriftasöfnunin tekst vel - segjum að það safnist tugþúsundir undirskrifta - þá gæti hún orðið nokkurskonar þjóðarátak á fáum vikum. Krafa sem stjórnvöld hefðu ekki stöðu til að horfa framhjá við núverandi aðstæður.

Að því sögðu skal upplýst að nú rétt fyrir kl 23:00 höfðu 4.868 skrifað undir kröfuna um utanþingsstjórn, stjórnlagaþing og nýtt lýðveldi. Ekki amalegt á aðeins þremur dögum. Smile

logo 

 Nýtt lýðveldi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig Ingólfsdóttir

Ólína er þér alveg sammála þetta flokksræði  er alveg óþolandi breytta stjórnarskrá og breytt Alþingi og lifi nýtt Ísland.

Kveðja

Sólveig

Sólveig Ingólfsdóttir, 25.1.2009 kl. 23:23

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Okei þá er þetta að skýrast aðeins. Er þá hitt aflið, stjórnmálaflokkur sem ætlar að bjóða sig fram með aðeins eitt mál og það er það sama og þið eruð með? Ég þarf varla að taka það fram að ég er búinn að skrá mig á nyttlydveldi.is

Arinbjörn Kúld, 25.1.2009 kl. 23:48

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég vil utanþingsstjórn til að koma á nýju lýðveldi.  Á meðan sú stjórn starfar fá flokkarnir tíma til að taka til hjá sér og verða kannski betur undir það búnir að mæta kröfum þjóðarinnar og nýrri stjórnarskrá.

Sigrún Jónsdóttir, 26.1.2009 kl. 00:35

4 Smámynd: Benedikt Bjarnason

Ólína: Mér líst ágætlega á þessa hugmynd. Hún er dálítið byltingarkennd og vissulega þarf að vanda vel til verka.

Mig langar að fá nánari upplýsingar varðandi framkvæmdina og lagalegu hliðina. Fyrst er það spurningin um stjórnlagaþing. Hvernig er það í framkvæmd, og hver er lagagrunnurinn í kringum slíkt og hvernig yrði starfsemi þess? Yrði ekki slíkt að koma til samþykkt Alþingis, og lagabreytinga í kjölfarið?

Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á því hvernig þetta er í framkvæmd eða hvernig svona viðamikil breyting gæti átt sér stað. Þarna er ég fyrst og fremst að tala um þau atriði sem snúa að lögum.

Mjög góð hugmynd, en mér finnst nokkrum spurningum ósvarað.

Benedikt Bjarnason, 26.1.2009 kl. 11:45

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það er rétt Benedikt að núverandi Alþingi þarf að samþykkja að efnt verði til stjórnlagaþings, og stjórnarskrárvaldið fært þangað.  Þess vegna hljóðar áskorunin þannig að forseti og alþingi hlutist til um myndun utanþingsstjórnar og boðun stjórnlagaþings, því samkvæmt núgildandi stjórnarskrá getur þetta ferli ekki hafist nema með samþykki alþingis.

 Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, hefur sett upp lagalega uppskrift að því hvernig þessu verði komið í framkvæmd (sjá hér) í tólf skrefum (nokkurskonar tólfsporakerfi)  Þú skalt endilega kynna þér það sem hann skrifar.

Við leggjum til að á stjórnlagaþingi sitji hvorki alþingismenn né ráðherrar - þingið starfar tímabundið við hliðina á alþingi og óháð því.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 26.1.2009 kl. 12:05

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

100% sammála þér, Ólína. Ég stórefast um að nýtt framboð sé svarið, því það verður sennilega afgreitt sem einhver 101-hópur af virðulega silkibindaliðinu. Þau munu aldrei ná nógu mörgum atkvæðum til að skipta virkilega máli og munu sundrast þegar "venjulegu" málin verða rædd, svo sem ESB, stóriðja, fjármálin og allt það.

Það væri mikið betra að fólk sem hefur áhuga á breytingum gefi kost á sér í prófkjörum þess flokks sem því finnst skástur. '68 sannaði að það breytist ekkert fyrr en fólk með hugmyndir kemur sér inn og breytir kerfinu innan frá.

Villi Asgeirsson, 26.1.2009 kl. 13:22

7 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ég verð nú að fá að segja eins og er ..... Það að þú, Ólína, sért með puttana í þessu hrekur mig frá.

Eins ágæt og þú ert eflaust ert þá stendur þú engu að síður fyrir það sem þeir sem ég hef verið að umgangast erum að mótmæla. Gömul gildi og flokkapólitík.

Heiða B. Heiðars, 26.1.2009 kl. 14:52

8 Smámynd: Halla Rut

Ólína segðu þig úr Samfylkingunni ef þú vilt verða trúverðug.

Ég hef sagt þér það áður að ég trúi á þig og treysti en ekki á meðan þú ert skráð í SF. 

Halla Rut , 26.1.2009 kl. 17:19

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Heiða má ég ekki hafa mínar skoðanir og setja þær á blað? Hvað ertu að segja manneskja, að ég sé óhelg? Af hverju? Er ég ekki bara kjósandi í þessu landi eins og þú?

Annað hvort ertu sammála þessari áskorun eða ekki. En að þú skulir setja persónu mína fyrir þig, það eru ekki málefnaleg rök. Ég get auðvitað ekki stjórnað því hvað þér finnst um mig - en ég hélt að skyni borið fólk léti málefnið ráða afstöðu sinni en ekki hvort því líkaði við einstaklinga sem það þekkir ekki neitt. Ég ætlast ekki til þess heldur af sjálfri mér að mér líki við alla þá 5.500 sem hafa skrifað undir áskorunina og standa þar með að henni. Ég finn til samstöðu með því fólki í þessu eina máli, og það er allt og sumt.

Halla Rut - ef skrif mín og bloggfærslur hafa ekki sagt þér enn hver ég er og hvernig ég hugsa, þá þykir mé það leitt. En ég styð ennþá stefnu Samfylkingarinnar um jöfnuð og réttlæti í samfélaginu. Ef allir yfirgæfu þá stefnu af því þeim líkar ekki það sem gerst hefur að undanförnu, hvernig færi þá? Ég held einmitt að Samfylkingin þurfi á mér og mínum líkum að halda nú um þessar mundir.

Þið verðið báðar að athuga að þúsundir manna eru flokksbundnir - það er fólk sem hefur tekið afstöðu með ákveðnum málstað, og gerði það löngu fyrir bankahrunið. Ég er ein af þeim. Ég segi ekki skilið við grunnstefnu Samfylkingarinnar - jafnaðarstefnuna - til þess að þóknast öðrum eða afla mér vinsælda. Mér var full alvara þegar ég gekk til liðs við flokkinn á sínum tíma. Mér er full alvara þegar ég bið um jöfnuð og ábyrgð í samfélaginu og ég vil hafa áhrif í þá átt. Það geri ég annarsvegar með því að koma að umræðunni á opinberum vettvangi, hinsvegar með því að beita mér innan Samfylkingarinnar. Hvort tveggja eru fullkomlega heilbrigðar og ásættanlegar leiðir að mínu mati. Ég bið ykkur að virða það val.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 26.1.2009 kl. 17:58

10 Smámynd: Halla Rut

Það er nú einmitt það sem ég er að segja, skrif þín hafa einmitt sagt mér það, fyrir utan eina færslu kannski :) Ég held að hnotskurn þá er stefna Samfylkingarinnar stefna Íslendinga. Það hafa hins vegar valdasjúkir einstaklingar í forustu flokksins eyðilagt orðspor hennar og trúverðugleika.

Nú segist Ingibjörg vilja stíga til hliðar. Og af hverju nú? Jú, því hún er að fara í kosningabaráttu og vill reyna hreinsa sig af ósómanum. Græðgin var ekki og er ekki aðeins hjá auðmönnunum. Hún er víðar.

Halla Rut , 26.1.2009 kl. 19:02

11 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Halla Rut - Ingibjörg Sólrún er að stíga til hliðar vegna þess að hún er lífshættulega veik. Hefurðu ekki séð hana í sjónvarpinu? Hún er sárþjáð manneskjan. Það leynist engum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 26.1.2009 kl. 22:21

12 Smámynd: Halla Rut

Mér fannst hún nú bara einmitt líta svo vel miðað við allt sem á undan er gengið.

Fréttir eru segja nú ekki allar það sama um hennar veikindi en ég trúi þér og mun taka það til greina í framtíðinni.

Trúi kannski of mikið á þig. Hefði viljað sjá þig í nýjum hreinum flokk eins og ég er alltaf að segja þér. En kannski getur þú komið þér framalega þarna og klippt á þau spillingarbönd sem þarna eru til. 

Kostir við þig sem eru eftirtektarverðir eru að a) þú gerir ekki greinarmun á fólki og þú svarar öllum með kurteisi og með alvöru svörum. b) þú setur þig ekki á háan hest við fólkið í landinu og gefur þér tíma til að heimsækja hinar ýmsu heimasíður og "commentar", nokkuð sem fæstir í þinni stöðu gera (þar á meðal mína og er ég ákaflega montin)

Halla Rut , 26.1.2009 kl. 22:46

13 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Mér líkar hreint ekkert illa við þá konu sem ég hef séð hérna í gegnum bloggið. En mér hefur samt þótt þú tala það varlega að þú viljir halda öllum möguleikum opnum.

Soldið svona eins og þú viljir vera viss um að eiga heima í sigurliðinu

En ef þú ert einhversskonar talsmaður Nýs Lýðveldis þá set ég það fyrir mig... alveg eins og ég myndi setja það fyrir mig ef það væri einhver annar flokksbundin talsamaður þess

Heiða B. Heiðars, 27.1.2009 kl. 00:17

14 Smámynd: Halla Rut

Þetta er kannski svona gamla pólitíkin Heiða. Halda öllum góðum.

Nú vill fólkið sterkt og ákveðið fólk sem segir sína meiningu alla en loðnast ekki með hlutina vegna hræðslu við að einhverjum líki það ekki.

Halla Rut , 27.1.2009 kl. 00:25

15 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Nákvæmlega Halla. Það er nóg komið af meðalmennsku og hugsjónaleysi.

Okkur vantar fólk sem vinnur fyrir þjóðina fyrst í stað flokksins síns

Heiða B. Heiðars, 27.1.2009 kl. 00:28

16 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Kæru Halla og Heiða.

Af hverju haldið þið að flokksbundið fólk geti ekki fylgt hugsjónum sínum? Það að vera flokksbundinn er ekki það sama og vera atvinnustjórnmálamaður. Þeir sem halda með KR eða Val eru ekki endilega sjálfir í íþróttum, heldur stuðningsmenn. Ekki geta þeir borið ábyrgð á því ef einhver brýtur af sér inni á vellinum.

Tugþúsundir Íslendinga eru flokksbundnir í einhverjum stjórnmálaflokki. Þar á meðal er fjöldi heiðarlegs hugsjónafólks sem vill styðja sína frambjóðendur til góðra verka. Ég hef kynnst slíku fólki í öllum stjórnmálaflokkum - fólki sem ég ber virðingu fyrir og myndi vel treyst til að stjórna landinu.

En þið megið hafa ykkar skoðun að sjálfsögðu.  Góða nótt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 27.1.2009 kl. 00:52

17 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Af hverju held ég að flokksbundið fólk geti ekki fylgt hugsjónum sínum...? Sjáðu stöðuna sem við erum í?

Er einhver hugsjón í gangi?

Heiða B. Heiðars, 27.1.2009 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband