Allt að koma: Fuglar í jólahreiðrinu - hundarnir skínandi hreinir - skötuveisla á morgun ...

P1000658 (Medium)Jæja, þá eru komnir tveir litlir fuglar ofan í hreiðrið sem fylgdi jólatrénu mínu inn í stofu. Eins og þið sjáið er búið að koma þeim makindalega fyrir þarna inn á milli skreyttra greina. Ég þorði þó ekki annað en að spreyja rausnarlega yfir allt heila klabbið, minnug viðvarana um starrafló og hvaðeina sem getur fylgt svona fuglshreiðrum.

Annars er þetta nú ekkert venjulegt jólatré skal ég segja ykkur. Það kom í ljós þegar átti að fara að skreyta það að þetta er sannkallað villitré. Það stingur nefnilega frá sér svo um munar - augljóslega öðru vant en að standa sem stásstré inni í stofu. En það tekur sig sannarlega vel út þegar búið er að skreyta það - þó það hafi kostað sár og skrámur, því við berum þess menjar heimilisfólkið að hafa komið því í skartbúninginn. Já, sannkallaður ,,villingur í sparifötunum" eins og Saga dóttir mín orðaði það. Tré með karakter.

Það hefur verið siður á okkar heimili að skreyta jólatréð daginn fyrirP1000659 (Medium) Þorláksmessu frekar en bíða með það fram á Þorláksmessukvöld. Það er oft svo mikið að gera á sjálfa Þorláksmessu að okkur finnst þetta þægilegra. Þá er hægt að ryksuga og skúra allt út úr dyrum á sjálfa Þorláksmessu, og njóta svo ljósanna af trénu þegar maður slakar aðeins á þá um kvöldið eftir allt atið.

 Hér fyrir vestan er siður að halda (eða mæta í) skötuveislu á Þorlák. Við erum boðin einu sinni sem oftar til frændfólks í Bolungarvík. Það er ævinlega tilhlökkunarefni að fara í skötuna til Dísu og Boga, hún bregst aldrei. Það er líka gott að geta svo komið heim og skellt í eina þvottavél eða svo (fötunum eftir skötuveisluna). Wink

Síðan á ég eftir að baka Rice-crispies tertuna sem er orðin ómissandi hluti af eftirréttamatseðli fjölskyldunnar á jólum, ásamt ísnum og ensku jólakökunni (þegar ég man eftir að byrja á henni í tæka tíð, klikkaði á því núna).

P1000657 (Medium)Þá er þetta að mestu komið held ég bara. Ég er búin að baða hundana - þeir tipla hér á tánum svo skínandi hreinir og ilmandi að þeir þekkja varla sjálfa sig.

Á morgun verður skipt á rúmum. Annars erum við mest í því að vera bara hvert innan um annað að þessu sinni, enda langt síðan við höfum verið öll undir einu þaki.

Jebb ... þetta er bara allt að koma held ég, svona að mestu. Smile

 

 

P1000662 (Medium)             P1000648 (Medium)

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Yndislegar myndir, mínir hvuttar eiga jólabaðið í vændum á morgun (það verður vísast ekki vinsæl hugmynd)

Gleðileg jól mín kæra og þakka þér fyrir notalega bloggvináttu á árinu sem er að líða

Ragnheiður , 23.12.2008 kl. 01:38

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ægilega allt er þetta sætt,
ennþá betra væri það ætt,
aldrei verður upp það bætt,
úldin skatan margan hrætt.

Þorsteinn Briem, 23.12.2008 kl. 06:27

3 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Gleðileg jól!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 23.12.2008 kl. 09:17

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Gleðileg jól til þín og þinna kæra Ólína.

Ásdís Sigurðardóttir, 23.12.2008 kl. 12:51

5 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Jólakveðja frá Sverige þar sem étin er kæst langa (lutfisk) í stað skötu og skolað niður með margbreytilegum ákavítis og vodkategundum með hinum ýmsustu kryddum.

Ásgeir Rúnar Helgason, 23.12.2008 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband