Ég finn veðurbrigði í nánd ...

fýll-hive.is (Small) Jæja, þá eru haustlægðirnar farnar að gera vart við sig, og nú mun vera von á einni frekar krappri eins og fram kemur á bloggsíðu Einars Sveinbjörnssonar. Ekki er laust við að maður finni þetta á sér, enda komið hausthljóð í vindinn fyrir nokkru.

Ég er ein af þeim sem finn fyrir veðurbrigðum þegar þau nálgast. Margir halda að þetta sé einhverskonar hjátrú eða bábilja. Svo er þó ekki. Ég beinlínis finn fyrir því í mjöðmum og baki þegar loftþrýstingur lækkar. Gömlu konurnar hafa löngum haldið þessu fram - og ég held að margt yngra fólk finni fyrir þessu þó það átti sig ekki alltaf á ástæðunni. Sömuleiðis verð ég svefnþung og þreytt þegar lægð er yfir landinu - þannig er það bara.

Ég minnist þess þegar ég kenndi í Gagnfræðaskóla Húsavíkur fyrir mörgum árum, að ef krakkarnir urðu óvenju órólegir - þá á ég við hópinn allan - þá sagði Sigurjón Jóhannesson skólastjóri ævinlega: Nú er lægð á leiðinni. Og það brást ekki.

Maður getur líka séð ýmis veðurmerki á dýrum, sérstaklega fuglum, þegar loftþrýstingur er að breytast.

Og sumsé - nú er lægð á leiðinni. Ég var svefnþung í morgun og svei mér ef það lagðist ekki svolítill seiðingur í spjaldhrygginn í gærkvöldi.  Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vísindin eiga  eiga örugglega eftir að sanna þessar kenningar. Gigtin hjá  gömlu fólki  hegðaði sér í samræmi  við  lægðirnar  og  gerir vísast enn.

En   tölum  við  ekki um veðrabrigði, en ekki veðurbrigði ?

Samkvæmt minni málkennd er það svo. En hún er auðvitað ekki óbrigðul.

ESG (IP-tala skráð) 25.8.2008 kl. 10:51

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Langamma mín sagðist vera veðurfræðingur með vísindin í mjöðmunum.  Hún klikkað amk. ekki sú mæta kona.

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.8.2008 kl. 10:52

3 Smámynd: Ragnheiður

Ég kannast við þetta, skrokkurinn kvartar og þá veit ég það

Ragnheiður , 25.8.2008 kl. 11:00

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já, ég held að konur séu einhverra hluta vegna viðkæmari fyrir þessu en karlar - en það er kannski mín ímyndun. Kannski tala þeir ekki um það.

Varðandi veðurbrigði og veðrabrigði - þá held ég að hvort tveggja sé rétt, en líklegra er þó algengara að fólk tali um veðrabrigði.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 25.8.2008 kl. 11:02

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

"Viðkvæmari" átti þetta nú að vera. það er afleitt að geta ekki leiðrétt stafsetningarvillur í athugasemdum án þess að gera nýja athugasemd í hvert sinn sem maður sér einhver pennaglöp hjá sér.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 25.8.2008 kl. 11:04

6 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Sama hér, veðrið og lægðir segja til sín. í spjaldhrygg og mjóbaki, mjöðmum.......

Rut Sumarliðadóttir, 25.8.2008 kl. 11:10

7 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Þetta hafa margir sagt og móðir mín vann til dæmis lengi í verslun á Laugarveginum og oft mátti ráða af viðmóti fólks sem kom að versla að lægð var í nánd. Stundum sagði hún að ergelsið og pirringurinn í fólki væri eins og það hefði fengið útivistarleyfi af einhverri stofnun (kannski ekki fallega sagt en slíkt var viðmótið). Það brást ekki að myndarleg lægð kom í kjölfarið. Einnig þekkir mitt fólk vel þetta með syfjuna og orkuleysið þegar djúp lægð er að koma. Ég vona bara innilega að það rigni ekki sleitulaust héðan í frá og fram í janúar næstkomandi eins og var í fyrra. Það var skelfilegt. Ég saknaði mikið froststillana í október og björtu haustdagana. Kveðja úr Þorlákshöfn.

Sigurlaug B. Gröndal, 25.8.2008 kl. 11:22

8 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Nei þetta eru ekki neinar kerlingabækur, ég finn þetta í skrokknum þá sérstaklega þegar fer að kólna með haustinu.  Hélt e.t.v. í dag að einhver lægð væri í aðsigi en er búin að komast að því að það er bara eintóm leti og mánudagur.

Kveðja inn í góða viku

Ía Jóhannsdóttir, 25.8.2008 kl. 13:43

9 Smámynd: Sævar Helgason

Auðvitað hafa hæðir og lægðir í lofthjúpnum mikil áhrif á allt lífríkið. T.d  eru þetta þekkt viðbrögð  í sjávarlífinu . Þar er fjörið mest við svona 1010 mb. og hærri loftþrýsting en allt dauflegt þegar lægðirnar koma með fallandi loftþrýsting--- erum við ekki nokkuð svipuð ???-

Sævar Helgason, 25.8.2008 kl. 20:47

10 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Alveg er ég hjartanlega sammála þér. Greini það gjarnan á minni eigin gigt þegar lægðir nálgast en þetta með svefndrungann var ég ekki búin að átta mig á fyrr en þú nefnir það.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 25.8.2008 kl. 21:39

11 identicon

Eru tad bara vid kellingarnar sem finnum fyrir tessu, ja hérna.  En kannski er tad bara tannig.  Ég kannast amk vel vid tetta ... en miklu minna eftir ad ég flutti til Danmerkur.  Enda vedrasviptingar öllu minni hér.

Elfa (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband