Við hverja hefur samgönguráðherra talað?

KristjanMöller Kristján Möller samgönguráðherra sagði í Svæðisútvarpi Vestfjarða í gær að hann hefði orðið fyrir þrýstingi frá ýmsum "Vestfirðingum" að breyta áherslum í jarðgangagerð á Vestfjörðum. Verið væri að þrýsta á hann að fresta Arnarfjarðargöngum (hætta við?) en taka þess í stað göng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar fram fyrir.

Eitthvað er hér málum blandið varðandi  "þrýstinginn" sem ráðherrann verður fyrir. Mér vitanlega hefur hvergi nokkurs staðar verið samin ályktun eða samþykkt um að breyta forgangsröðun verkefna varðandi jarðgöng á Vestfjörðum. Þvert á móti hefur bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar áréttað fyrri samþykktir um nauðsyn á gerð Arnarfjarðarganga nú nýlega, ef mig misminnir ekki. Á síðasta ári var samþykkt í ríkisstjórn að flýta gerð jarðganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, þannig að framkvæmdum verði lokið árið 2012 í stað 2014.

Hvaðan kemur þá þessi "þrýstingur"? 

Mér finnst að ráðherra verði að skýra það betur. Og hvers vegna tekur hann mark á þessum svokallaða þrýstingi, svo mjög að hann færir málið í tal við fjölmiðla?

Í eyrum hins almenna Vestfirðings hljómar þetta allt mjög undarlega, því eins og sakir standa er ekkert sem bendir til þess að Vestfirðingar séu að hverfa frá áður markaðri stefnu í samgöngumálum, hvað svo sem líður afstöðu einhverra einstaklinga sem eiga símtöl við ráðherrann. Enda á þessi landshluti nánast allt sitt undir því að ráðist verði í þessi jarðgöng sem fyrst til þess að tengja saman norður og suðurhluta Vestfjarða og koma Kjálkanum þar með í raunverulegt vegasamband við landið.

Sá munur er á þessum tveimur framkvæmdum að göng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar myndu nýtast norðanverðum Vesfjörðum nær eingöngu. Þau myndu flýta för um Ísafjarðardjúp og auka umferðaröryggi milli tveggja bæja - líkt og göngin um Óshlíð bæta samgöngur milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar en nýtast ekki landshlutanum að öðru leyti.

Arnarfjarðargöngin hinsvegar nýtast landshlutanum í heild. Þau bæta samgöngur milli byggðarlaganna, gera Vestfirði að einu verslunarsvæði, jafnvel atvinnusvæði líka auk þess að bæta vegasamband við landið allt.

Samgönguráðherra hefur sést á ferli hér fyrir vestan síðustu daga. Mér vitanlega hefur hann þó ekki fundað með sveitarstjórnarmönnum um þessi mál, hvorki flokksmönnum sínum né öðrum. Ég leyfi mér að fullyrða að í þeim röðum er varla nokkur maður sem myndi mæla þessari stefnubreytingu bót.

Við hverja hefur ráðherrann þá verið að tala?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, það er spurning, við hverja?  Ég fullyrði að þeir (ef það eru fleiri en einn) eru hvorki frá Þingeyri, Tálknafirði né Patreksfirði.  Reyndar sagði ráðherra að hann hafi líka heyrt í sveitarstjórnarmönnum sem hvöttu til að ekki væri kvikað frá gildandi áætlun.  Bráðáríðandi að halda sig við þessa áætlun um tengingu norður og suðursvæðanna, sem kallar líka á endurnýjun vegarins yfir Dynjandisheiði eða það sem betra væri auðvitað, göng undir hana.  Hvort heldur sem væri, verður það að vinnast samtímis Dýrafjarðargöngunum.  Að því þarf að vinna af alefli.

    Eggert

Eggert Stefánsson (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 15:01

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ef eitthvað er í gangi í hausum sveitastjónarmanna ,,heima" á Vestfjörðum, væri aðaláherslan lögð á að bæta samgöngur suður úr. það hefði hvað mestu margfeldisáhrifin, bæði á N svæðinu og S svæðinu.

AÐ vísu yrði erfiðara að reka verslun á S-svæðinu en allt annað yrði betra og auðveldara að koma á samvinnu milli svæða, að ekki sé talað um menntun og skólagöngu ungmenna.

Miðbæjaríhaldið

fyrrum Vestfjaráríhald

Bjarni Kjartansson, 20.8.2008 kl. 15:35

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

flaskaði á lyklaborðinu í Vestfjarðaríhald

Afsakið rasbögurnar.

Íhaldið

Bjarni Kjartansson, 20.8.2008 kl. 15:36

4 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Já Ólína þú ert ekki sú eina sem veltir þessu fyrir þér.  Ef fallið verður frá þessari áætlun og göngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar verður enn einu sinni frestað óttast ég mjög um uppbyggingu á Vestfjörðum.  Þjónustusvæði fyrirtækja hér á Ísafirði er það lítið að ekkert má út af bera. 

Að byggja upp vesturleiðina er það eina rétta í stöðunni.  Það er í raun leiðrétting á þeirri hugmyndafræði að hægt sé að byggja upp tvö sterk atvinnu og þjónustusvæði á Vestfjörðum.  Það er löngu ljóst að tenging á milli svæða og uppbygging vega til að stytta leiðina inn á hringveginn er það eina skynsamlega í stöðunni. Vonandi verður samgönguráðherra ekki til þess að veita okkur hér náðarhöggið. 

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 20.8.2008 kl. 15:51

5 Smámynd: Katrín

ekki veit ég hvaðan þessi þrýstingur kemur ef ekki frá samflokksmönnum hans...hann hlýtur að upplýsa þetta nema þeir sem þrýsta komi fram sjalfir...

Katrín, 20.8.2008 kl. 15:57

6 Smámynd: Jón Ragnarsson

Follow the money...

Jón Ragnarsson, 20.8.2008 kl. 16:04

7 identicon

Skyldi þessi meinti þrýstingur tengjast væntanlegri olíuhreinsistöð eins og Ómar Ragnarsson er að giska á??

Kannsi vilja suðurfirðingar að starfsfólkið borgi sitt útsvar í Vesturbyggð eða Tálknafirði, en séu ekkert að þvælast norðanfrá?

sigurvin (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 16:49

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Rétt hjá Jóni Ragnars, held ég - eltið peningana (sbr. finnið Finn). En nú verður Jón að hjálpa okkur bláeygum að elta peningana. Jón...?

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.8.2008 kl. 16:49

9 identicon

Ég segi með ykkur, hvern hefur blessaður ráðherrann verið að spjalla við?  Ég hef ekki heyrt annað en að fólk sé að bíða eftir þessum göngum, auðvitað væri fínt að flýta göngum til Súðavíkur líka, en það MÁ ALLS EKKI fresta heilsárstengingu vega á vestfjörðum.

Dagný (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 19:19

10 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ætli það séu ekki einhverjir úr hans kjördæmi sem eru að reyna að ýfa upp ósætti á Vestfjörðum svo að hann geti sett göng undir einhvern hól framfyrir?

Fannar frá Rifi, 21.8.2008 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband