Biðleikur í bráðum vanda

Jæja, það hafðist að ná einhverskonar niðurstöðu í deilu hjúkrunarfólks og yfirstjórnenda LSH, a.m.k. um tíma. Þar með var afstýrt yfirvofandi neyðarástandi sem annars hefði skollið á kl 12 á miðnætti.

En þetta er biðleikur í stöðunni, og þess vegna of snemmt að fagna "sigri", eins og mér virðist þó sumir vera farnir að gera. Vitanlega verða báðir málsaðilar að nota ráðrúmið sem gefst næsta árið til þess að vinna sig að niðurstöðu um sjálft deiluefnið. Það er auðvitað óleyst enn.

Það er stjórnendum LSH til sóma að hafa rifað seglin frekar en að stranda skútunni. Hér gildir ekki að knýja fram einhverskonar sigur til að geta barið sér á brjóst. Það getur enginn sigrað í svona stöðu. Og það verða hjúkrunarfræðingar líka að skilja - málið varðar aðra og mikilsverðari hluti en það hver geti lýst sig sigurvegara. 

Heilbrigðisráðherra fær (h)rós í hnappagat frá mér fyrir að leggja sitt af mörkum - já, og mæta sjálfur til fundar þegar mikið lá við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er ég fegin að það virðist ætla að takast að leysa þetta mál. Ég var að vinna fram á nótt í gær, og það var búið að manna þá nótt á skurðstofunni, en lítið meira. Annars stóðu ljósmæðurnar á deildinni frammmi fyrir því að þurfa að vera skurðhjúkka nr. 2 í öllum bráðaaðgerðum á sínum konum, og það held ég að engan hafi langað.

Annars finnst mér svolítið fyndið að það skuli vera rætt  um það í fjölmiðlum að bráðnauðsynlegt sé að vinnutími skurð og svæfingarhjúkrunarfræðinga falli að vinnutímatilskipun Evrópusambandsins. Það væri nú gott ef allt vaktavinnufólk á spítalanum fengi því framgengt að farið yrði í heildarskoðun á því innan spítalans, enda vinna flestir á undanþágu frá þessum reglum, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Hins vegar eru skurð og svæfingarhjúkrunarfræðingar ein af fáum stéttum sem hafa haft launalegan ávinning af því að vinna ekki samkvæmt þessum reglum, og þá varð að sjálfsögðu að byrja á því að breyta því.

En ég óska öllum til hamingju með að þetta mál skuli vera að leysast. Ég veit að minnsta kosti að ein vinkona mín gengur nú glöð til starfa, enda búin að vera miður sín yfir því að sjá sér ekki fært að vinna við það sem hún hefur menntað sig til og vill helst af öllu gera í lífinu.

Óska öllum góðrar heilsu  Erla Rún.

Erla Rún (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 10:47

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Henry.

Hver er sigurinn í þessu máli? Þá meina ég ávinningurinn? Er það núverandi vaktafyrirkomulag þar sem fólk er ráðið í hlutastörf til þess að hægt sé að útvega því meiri yfirvinnu? Er það heilbrigt og gagnsætt launakerfi - eitthvað sem launþegum  landsins ber að stefna að? Eða þá vinnuveitendum?

Ég efast um það - og minni auk þess á að málinu er ekki lokið.

Í heilbrigðiskerfinu - þar sem veitt er ein sú mikilvægasta og viðkvæmasta þjónusta sem hugsast getur - þurfa stjórnendur og starfsmenn að vera samtaka og hafa sameiginlega sýn á hlutverk stofnunarinnar og mikilvægi þess starfs sem unnið. Þannig, og aðeins þannig er hægt að byggja upp öflugt og gott heilbrigðiskerfi. Skærur og kergja eru engum til góðs - síst í þessum þjónustugeira.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.5.2008 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband