Hvað má og hvenær?

ronar Einu sinni var það útbreidd skoðun að ögrandi klæðaburður konu gæti verið réttlæting fyrir kynferðislegri misbeitingu gegn henni. Það eru ekkert mörg ár síðan fórnarlömb nauðgana  fundu fyrir slíku viðhorfi á lögreglustöðvum og víðar í samfélaginu. Konur voru spurðar hvað þær hefðu verið að þvælast einar, af hverju þær hefðu verið í svona aðskornu og stuttu pilsi. Hvers vegna þær hefðu farið heim með karlmanni.

Þetta viðhorf þykir ekki viðeigandi lengur. Af hverju? Jú, m.a. vegna þess að karlmenn vilja ekki láta líta á sig sem skynlausar skepnur sem megi hvergi sjá beran blett án þess að missa stjórn á sér. Samfélagið fellst ekki á það að menn geti ekki haft stjórn á sér.

Nú er hinsvegar annað skylt viðhorf uppi, sem mér finnst jafn niðurlægjandi fyrir þá sem halda því fram. Það er að þekktir einstaklingar - fólk sem nýtur frægðar, t.d. vegna stjórnmálaþátttöku - megi búast við "hverju sem er", eins og það sé eitthvert sjálfsagt náttúrulögmál að það megi allt ef einhver á annað borð hættir sér inn í frægðina.

Ekki alls fyrir löngu lenti Björk í því að missa stjórn á sér gagnvart ljósmyndara sem gerðist nærgöngull við hana. Þá var þetta sama viðkvæði uppi. Þeir sem hneyksluðust á viðbrögðum Bjarkar sögðu bara: "Hún vildi frægðina - fólk sem þráir athygli verður bara að taka því þegar það fær hana óskipta." Það er einhver tónn í þessu sem mér líkar ekki.

Þegar fólk gefur kost á sér í stjórnmálum vill það láta gott af sér leiða, leggja samfélagi sínu lið, skyldi maður ætla. En það er ekki sjálfsagt mál að fólk ofurselji mannréttindi sín og persónulega friðhelgi í skiptum fyrir frægð og frama. Ef manneskja vill koma list sinni á framfæri - þá þarf hún vitanlega á opinberri athygli að halda, hvort sem hún þráir þá athygli eða ekki. En hvað með það?

Varla getur það verið ásættanleg réttlæting fyrir því að "hinir" - álitsgjafarnir, grínistarnir, bloggararnir, blaðamennirnir, ljósmyndararnir - megi bara gera hvað sem er? Það er ekki í lagi að áreita söngvara með myndatökum hvar og hvenær sem er án þess að sinna bón eða tilmælum um frið. Það er ekki í lagi að hafa veikindi fólks í flimtingum; hnýsast í einkalíf þess; grípa á lofti allt sem gömlum vinum eða kunningjum kann að hafa mislíkað við viðkomandi á lífsleiðinni - af því viðkomandi hætti sér út á hinn opinbera vettvang. Það er ekkert náttúrulögmál að menn verði að sæta höggum, bara vegna þess að þeir hættu sér út á opið svæði.

Við, hinn svokallaði almenningur, erum ekki skynlausar skepnur. Mannlegt samfélag er ekki mannýg nautahjörð sem hlýtur að leggja til atlögu ef hún sér rauða dulu. Það má aldrei verða þannig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Frábær pistill og ég gæti ekki verið meira sammála.

Takk fyrir

Jenný Anna Baldursdóttir, 29.1.2008 kl. 15:04

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er alveg hárrétt hjá þér, Ólína. Einhvers staðar verða mörkin að vera.

Hins vegar skil ég mjög vel afstöðu fólks sem hefur átt við þunglyndi að stríða og finnst að Ólafur hefði mátt ræða af einlægni um reynslu sína til að leggja lið baráttunni gegn fordómum. Ein besta umfjöllun um það er blogg Hörpu Hreinsdóttur sem sjá má hér.

Við megum heldur ekki gleyma okkur svo í sjúkdóms- og grínumræðunni að við látum hana beina athygli okkar frá því sem mestu máli skiptir - valdaráninu í Reykjavík, ástæðum þess og mögulegum afleiðingum. Af hverju var Sjálfstæðisflokknum svo mikið í mun að komast til valda aftur að þeir fórnuðu stefnumálum og borgarstjórastól til að öðlast þau?

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.1.2008 kl. 15:07

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sælar konur - takk fyrir viðbrögðin.

Lára Hanna, ég er sammála þér um það að við megum ekki leyfa þessu tali um sjúkdóma, grínista, læti á áhorfendapöllum, eða hvað annað, drepa umræðunni á dreif.

  Við megum auðvitað ekki gleyma því sem gerðist - þeir eru ýmsir sem vilja einmitt draga athygli manna að þessum smjörklípum og strámönnum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.1.2008 kl. 15:32

4 Smámynd: Kári Tryggvason

Ég tek undir með þér, það verða að vera mörk. Tek einnig undir með Láru Hönnu varðandi pistilinn hennar Hörpu, mjög gott innlegg í umræðuna.

Kári Tryggvason, 29.1.2008 kl. 15:58

5 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Reyndar sýnist mér að stór hluti samfélagsins geri ráð fyrir að fólk missi stjórn á sér.

Eru það ekki einmitt rökin fyrir áfengiseinkasölu ríkisins, svo dæmi sé tekið?  Að fólk hafi ekki vit fyrir sjálfu sér?  Mörg boð og bönn eru bundin í lög með viðlögðum sektum og fangelsi með einmitt þessum rökum.

Um viðhorf til nauðgana, þá held ég að maður þurfi að ganga í lögregluna og vinna þar í tvö þrjú ár til að skilja hvað er í gangi.  Ég held ekki að kaldhæðni gagnvart fórnarlömbum sé til komin af sjálfu sér.  Því eins og þú bentir sjálf á, þá er oft spurningin: "Hvers vegna þær hefðu farið heim með karlmanni."

***

Lengi vel hélt ég að Óli Borgó væri með kvef...   

Ásgrímur Hartmannsson, 29.1.2008 kl. 15:59

6 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

Og út úr þessu kemur svo siðprútt samfélag sem ekki minnist á að forsætisráðherrann heldur framhjá konunni sinni með drengnum á kaffistofunni, á milli þess sem hann boðar siðprýði, háttvísi og trúrækni.

Höfum við ekki séð svoleiðis tvöfeldni áður? þarf ekki að fara sérstaklega langt... bretland? USA?

þar hefur siðprýðin ráðið ríkjum í orði hjá háttvísa fína fólkinu, meðan allt annar veruleiki á sér stað í raunveruleikanum.

Ef ekki mátt ýta við línunni, sérstaklega þegar stjórnmálamenn hegða sér eins og fífl - opinberlega (þeir eru ekki allir alveg svona háttvísir og göfuglyndir eins og Ólína vísar til hér að ofan) - þá fyrst verður illa komið fyrir landanum.

Má ég þá frekar biðja um grínista sem spegli þjóðina eins og Spaugstofan reynir. Minnir að Halldór Laxness hafi fengið svipaða útreið hjá fína fólkinu fyrir einni kynslóð eða svo.

Í guðsbænum, verið ekki svona ógurlega tepruleg. Hér heldur moldviðrið yfir gríninu hlífðarhendi yfir vitleysunni sem engum grínistum gæti dottið í hug, og þrífst nú í Reykvískum stjórnmálum.

Vona bara að Spaugstofumenn og aðrir speglarar láti þetta ekki slá sig út af laginu, það voru ekki allir svona teprulegir, en hafa bara ekki alveg jafnhátt sýnist mér.

Baldvin Kristjánsson, 29.1.2008 kl. 17:06

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk fyrir góðan pistil.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 29.1.2008 kl. 17:25

8 Smámynd: Tiger

Þó ég sé sammála því að við megum ekki fara yfir línuna siðferðislega eða löglega, hætta að fjalla um hlutverkið en einbeitum okkur að "leikaranum" sjálfum - er ég þess sinni að ef maður tekur að sér að vera "opinber" þá verður sú persóna að vera tilbúin andlega og líkamlega að það verði gerður að henni aðsúgur. Sú persóna verður að vera búast við því að einhverjir séu tilbúnir að leggjast svo lágt að fara útfyrir allt velsæmi og siðareglur með því að fjalla um persónulega hluti hins opinbera leikara frekar en að fjalla bara um hlutverk/frammistöðu leikarans.

Þó all flestir þjóðfélagsþegnar séu sannarlega ósáttir við að farið sé yfir hina hárbeittu siðferðislínu varðandi umfjöllun um þekkta einstaklinga - þá eru og verða alltaf einhverjir innan um sem munu samt gera það. Það eru alltaf einhverjir sem telja sig mega koma með siðlausar athugasemdir sem falla utan ramma þess að sýna lágmarks virðingu og lágmarks aðgætni í nærveru sálar. Það verða alltaf einhverjir sem telja sig "græða" eitthvað á því er upp kemst kvistur um eitthvað misjaft eða "falið" hjá þeim sem þeir telja vera "mótherja" eða bara einhver sem ekki fellur að skapi þess sem lætur ljótar sögur fljúga.

Eins og einhver sagði hérna einhvers staðar á blogginu: Sýnum aðgát í nærveru sálar. Allir sem við mætum hafa sinn djöful að draga og við erum öll að reyna allt sem í okkar valdi stendur til að hafa það sem best, ná sem lengst og gera sem flest í þessu lífi sem okkur var gefið. Ef eitthvað fer úrskeiðis hjá okkur þá reynum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að laga það. Síðan komum við sterkari, í flestum tilfellum aftur á kreik. Við verðum að virða það og spyrjum að leikslokum en ekki gera allt sem hægt er til að tryggja að veikar hliðar annarra séu hafðar að vopni. Slíkt væri engum til framdráttar og engum til sóma - heldur frekar lýsa innri manni þeirra sem fara yfir strikið.

P.s. góður pistill Ólína og mjög þarfar pælingar.

Tiger, 29.1.2008 kl. 18:54

9 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Hjartanlega sammála! Siðlaust!  Síðan til að létta umræðuna, æi er hann ekki krúsilegur vinur minn þarna á bekknum. Ég er að meina Randver. Er að fara að knúsa hann fyrir norðan í næstu viku, vonandi.

Ía Jóhannsdóttir, 29.1.2008 kl. 19:17

10 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Góður pistill Ólína

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 29.1.2008 kl. 20:14

11 Smámynd: Dagmar

Sammála þér Ólína !

Dagmar, 29.1.2008 kl. 21:02

12 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Þetta var ekkert siðlaust og ef þetta fór yfir einhver strik þá fer bara maðurinn í mál við Rúv eða Spaugstofuna. Menn verða bara að þola þetta. Hvað er Halldór Ásgrímsson búinn að þurfa að þola á undanförnum árum, já eða Steingrímur og Davíð. Þeir hafa allir átt við ákveðna fötlun að stríða sem gert var grín að rétt eins og hjá Ólafi.

Ps og ekki má gleyma gamla góða Villa. 

Gísli Sigurðsson, 29.1.2008 kl. 21:08

13 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég mæli einmitt með því að fólk lesi færslu Sigurðar Þórs Guðjónssonar, þar skrifar maður sem veit hvað hann er að tala um.

Gísli Sigurðsson, 29.1.2008 kl. 22:47

14 Smámynd: Halla Rut

Ég er alveg sammála þér.  Ég vil ekki að þetta verði á Ísland eins og þetta er t.d. í Bretlandi og USA, að fólk sé hundelt á öllum tímum og fái engan persónulegan frið.  Það erum við almenningur sem stjórnum þessu því það er klárlega eftirspurnin sem hvetur menn áfram í því að leggja fræga fólkið í einelti og tala um og birta upplýsingar sem eiga ekki að vera opinberar.

Mér sýnist nú frekar en hitt, að þjóðin vilji ekkert af þessu vita og vilji að allir fái að njóta síns einkalífs. 

Halla Rut , 29.1.2008 kl. 23:29

15 identicon

Þakka þér fyrir góðan pistil, er sem talaður úr mínu hjarta. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 23:39

16 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Takk fyrir góðan pistil.

Halldór Egill Guðnason, 29.1.2008 kl. 23:50

17 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Takk

Edda Agnarsdóttir, 30.1.2008 kl. 00:15

18 identicon

Það hafa komið fram dómar í Evrópu þegar fjölmiðlar með blaðamenn og ljósmyndara í farabroddi hafa gengið yfir mörk siðferðis, hvað varðar grundleggjandi friðhelgi einstaklings.  Hvernig er með fréttir um svona mál í fjölmiðlum landsins? Eða er þeim vísvitandi haldið frá landanum svo að fjölmiðlar landsins geti haldið sinni einokun á hátterni sínu?

ee (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 09:49

19 Smámynd: Katrín

Góður pistill Ólína.  Mér hefur þótt merkileg þessi krafa um að ,,kjósendur eigi rétt á" öllum sköpuðum hlutum en hverjum réttindum fylgja skyldur, m.a. að virða óskir fólks um frið um sitt einkalíf.  Tjáningafrelsið nær nefnilega einnig til frelsisins til að þegja.

Katrín, 30.1.2008 kl. 20:54

20 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vel athugað Katrín - kær kveðja til þín og þinna.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 31.1.2008 kl. 10:06

21 Smámynd: Haukur Nikulásson

Í þessum málum sem öðrum gildir hófsemin best. Á sama hátt og kjósendur geta gert kröfu um að stjórnmálamaðurinn sé í lagi andlega og líkamlega til að framkvæma starfið sem hann er kosinn má líka gera þá kröfu til kjósenda að þeir sýni stjórnmálamönnum tilhlýðilega virðingu varðandi einkalíf þeirra og setja sig í þeirra spor.

Sá sem gefur kost á sér til stjórnmálastarfa á að hafa hreint sakavottorð, og vera þar með nokkurn vegin treystandi fyrir t.d. almannafé. Það er líka eðlilegt að gera þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir þoli opinbera umfjöllun, talsverðan slatta af óréttmætri og ómálefnalegri gagnrýni og á köflum jafnvel svívirðilegt grín. Hver hefur sagt "wannabe" stjórnmálamönnum að þeir séu stikkfrí frá ósanngirni?

Hér á landi ætti ekki nokkur kjaftur að vera í vafa um það hvað afskipti af stjórnmálum geta þýtt. Ef viðkomandi þolir þetta ekki á hann ekki að gefa sig í þetta starf. Það þarf nefnilega að ráða við allan pakkann en ekki bara þann að þiggja launin og bitlingana sem starfinu fylgja.

Haukur Nikulásson, 31.1.2008 kl. 18:07

22 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Mikið hefur verið ritað um mál Ólafs F. Magnússonar og veikindi hans frá því hann myndaði meirihlutann með Sjálfstæðismönnum. Mest hafa þó lætin orðið á blogg síðum þar sem menn hneykslast ógurlega á umfjöllun Spaugstofunnar á málinu. Spaugstofan fjallaði aðeins um fréttir liðinnar viku þar sem meint veikindi Ólafs spiluðu ekki svo lítið hlutverk.  Nefnt hefur verið að ekki hafi verið gantast með veikindi Davíðs og Halldórs á sínum tíma í Spaugstofunni. Það er rangt, það var gert. Menn hafa kannski gleymt því – einmitt vegna þess hve eðlilegt það var talið.

En nú þegar veikindin eru andlegs eðlis en ekki líkamleg þá má varla tala um, hvað þá gantast með þau - þau eru tabú.   Ég man þá tíma þegar fólk hvíslaðist á þegar einhver fékk krabba. Ekki mátti nefna það upphátt, það var eins og drýgður hefði verið glæpur. Nú gera menn góðlátlegt grín að þeim sjúkdómi, sem betur fer. Það er eins og umræðan um andlega sjúkdóma sé enn á því stigi sem krabbinn var forðum. Einmitt þegar ýmiskonar samtök hafa verið stofnuð til að draga umfjöllun um þessa sjúkdóma út úr þeim skuggasundum sem þau hafa verið í.

Talað er um fordóma í þessu sambandi. Orðið fordómar er einmitt notað í tíma og ótíma þegar á að drepa einhverri umræðu á dreif. Og dugir undarlega vel því fáir vilja láta bendla sig við fordóma til að vera ekki úthrópaðir sem slíkir. Einmitt þannig er verið gera ýmiskonar óeðli, eðlilegt og sé einhver á annarri skoðun og lætur hana í ljós er hann úthrópaður.

Mér en rétt sama hvort menn kalla mig fordómafullan en þegar kemur að fólki sem á við geðræn vandamál set ég stórt ? , hvort ég geti treyst því? Hvort ég geti átt allt mitt undir því? O.s.f.v.

Þegar einhver fótbrotnar, þá fara menn ekki bara eftir læknisvottorði til að vita að viðkomandi hafi náð sér, menn sjá það. Svo er um flesta líkamlega krankleika, það sést á líkamlegu atgerði hvort þeir hafa náð sér eða séu á góðri leið með það. Því ekki þannig háttað,  með andlega sjúkleika, því miður. Það þarf ekki endilega að sjást hvort þú ert með „fulle fem“ eða ekki. Menn fá kannski læknisvottorð um að vera í lagi. En þá þarf viðkomandi kannski að taka lyf að staðaldri um lengri eða skemmri tíma, kannski það sem hann á eftir ólifað. En ef viðkomandi hættir að taka lyfin, gildir vottorðið áfram? Og svo hafa læknisvottorð því miður ekki verið laus við að vera gölluð vara.

Það gerðist í Boeing 767  flugvél Air Canada, sem var á leið frá Toronto til London í liðinni viku, að aðstoðarflugmaðurinn fór að haga sér undarlegar og undarlegar og ákallaði að lokum Guð. Flugstjórinn varð að fá aðstoð flugþjóna til að fjarlægja manninn úr flugstjórnarklefanum. Það varð að járna hann við sæti í farþegaklefanum. Vélin varð að lenda á Shannon flugvelli á Írlandi, þar tóku nýir flugmenn við og luku fluginu. Flugmaðurinn var fluttur frá borði og komið undir læknishendur og fær vonandi meðferð við hæfi.

Nú er það spurningin, hvort þeir, sem hvað harðast hafa hneykslast á umfjölluninni um Ólaf F.M. og því meintu ranglæti sem hann var beittur og spurningunni hvort hann valdi embætti borgarstjóra, séu tilbúnir til þess að fara í flug með þessum flugmanni, þegar hann hefur fengið læknisvottorð um að hann geti flogið á ný?

Þeir sem segja já ættu að snúa sér að næsta spegli og skoða í sér tunguna.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 1.2.2008 kl. 03:16

23 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Axel.

Með þessu ert þú að leggja að jöfnu fólk sem hefur lent í andlegum þrengingum (eins og Ólafur) annarsvegar og vitfirringu hinsvegar. Það er ekki sanngjarnt.

Vissulega er til í dæminu að fólk með geðræn vandamál missi veruleikatengingu og fái ranghugmyndir í veikindaköstum - en maður sem fær taugaáfall eða lendir í þunglyndi er ekki vitstola maður. 

Ég get hins vegar tekið undir það að við megum ekki verða svo tepruleg gagnvart geðsjúkdómum að það megi ekki ræða þá - og vissulega var ekkert of nærri Ólafi gengið þegar hann var spurður hvort hann hefði heilsu í borgarstjórastarfið eftir langvarandi veikindi. Hann tók þá spurningu of óstinnt upp. En grínið gekk of langt. Maðurinn er ekki vitstola - hann hefur bara ekki þá afsökun fyrir því sem hann gerði þegar hann tók þátt í valdaráninu í Reykjavík.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.2.2008 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband