Óstarfhæf borgarstjórn

Ég myndi halda að Borgarstjórn Reykjavíkur væri óstarfhæf við núverandi aðstæður. Tiltrú stjórnmálamanna hefur beðið alvarlega hnekki: Nýstofnað meirihlutasamstarf veltur á einum manni, sem hleypur úr einum meirihluta í annan eins og jójó, án tilefnis. Hann hefur ekki einu sinni flokk á bak við sig. Talar ekki við sinn nánasta samverkamann.

Sex sinnum sama daginn sver hann af sér svikráðin og fer með hrein ósannindi. Á þessum manni veltur hinn nýi meirihluti! Þetta ástand er ekki borgarbúum bjóðandi.

Þessi "nýi meirihluti" er hagsmunabandalag sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera við einn mann: Ólaf F. Magnússon. Díllinn gengur út á valdastóla, ekki málefni. Því þó svo að Ólafur hafi veifað einhverju sem hann kallaði málefnasamning á blaðamannafundinum þá var auðheyrt að þar var ekkert sem rekja má til málefnaágreinings við hans fyrrverandi félaga. 

Enginn af fyrrverandi félögum Ólafs kannast heldur við ágreining. Hið eina sem knýr þessa atburðarás áfram er persónuleg valdagræðgi sem þessi maður deilir með fyrrum fjandvini sínum, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og fólkinu sem var fyrir ekki svo löngu síðan "til í allt án Villa." Það eru hlekkirnir í valdakeðjunni.

Velferð borgarbúa er í höndum þessa fólks!

Ólafur F. Magnússon kom öllum að óvörum úr veikindaleyfi eftir að myndaður hafði verið nýr meirihluti í Reykjavík s.l. haust. Þá reis hann upp af sjúkrasæng - kominn til áhrifa. Margrét Sverrisdóttir sem hafði unnið vinnuna hans mánuðum saman mátti víkja til hliðar. Hún vissi ekki um þennan nýja meirihluta fyrr hann var til orðinn síðdegis í dag.

Sex sinnum á einum degi sver Ólafur af sér svikin í samtali við Dag B. Eggertsson og leggur "heiður" sinn að veði. Já, hann lærði sitthvað af Vilhjálmi Þ. eftir meirihlutaviðræðurnar í fyrra. Og hefur nú sannað fyrir öllum að á þeim tveimur er enginn munur. Líkur sækir líkan heim.

Og valdið togar. Nú vantar ekki blíðmælgi og hamingjuóskir fulltrúa Frjálslynda flokksins - þó Ólafur hafi raunar sagt sig úr þeim flokki fyrir allnokkru. Og ekki vantaði mjúkmæli grillmeistarans Hannesar Hólmsteins sem í viðtali á Stöð-2 bauð Ólafi að koma inn í Sjálfstæðisflokkinn á ný. Svo taldi hann upp nokkra aðra undanvillinga í Frjálslynda flokknum sem ættu nú bara að koma heim aftur. Og svei mér ef Guðjón Arnar var ekki farinn að tala á svipuðum  nótum í viðtali við Jóhönnu Vigdísi. Það er makalaust að fylgjast með þessu.

Á meðan standa borgarbúar agndofa. Starfsmenn borgarinnar vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þvílíkur skrípaleikur!

En fulltrúar ríkisstjórnarinnar þegja þunnu hljóði - skyldi enginn hafa gengið á fund Geirs Haarde í dag - með eða án Villa?


mbl.is Allt upp á borð varðandi REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

Þetta er ótrulegt leikrit, þar sem leðurstóll er leikstjórinn 

Kjartan Pálmarsson, 22.1.2008 kl. 01:15

2 Smámynd: Skaz

7 Borgarstjórar á 8 árum..... Ímyndið ykkur ástandið ef að þetta væri Forsætisráðherrastóllinn.

Skaz, 22.1.2008 kl. 01:24

3 Smámynd: Jóhanna Guðný Baldvinsdóttir

Er ekki í lagi með hann Ólaf

Jóhanna Guðný Baldvinsdóttir, 22.1.2008 kl. 08:12

4 identicon

Góður pistill. Athugaðu að fyrstu fjárhagsaðgerðirnar eru að lækka fasteignaskatta á..??? atvinnuhúsnæði. Hvaðan verða þeir peningar teknir? Úr velferðarkerfinu.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 10:28

5 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Hvar get ég fundið málefnalista þess meirihluta sem nú er að fara frá.

Þú getur vafalaust bent mér á það Ólína.

Ingólfur H Þorleifsson, 22.1.2008 kl. 10:32

6 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Frábær pistill Ólína!  Maður hélt nú ekki að kaupin gerðust svona á eyrinni en svo virðist því miður vera.  Villi ,,góði" kominn aftur á stjá með ,,sjúkling" í rassvasanum.   Ég er svo fegin að búa ekki þarna uppi með ykkur einmitt núna

Ía Jóhannsdóttir, 22.1.2008 kl. 10:48

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir innlegg ykkar.

Ingólfi vil ég benda á að sá meirihluti sem nú er að fara frá var myndaður til þess að forða því að  almenningsverðmæti yrðu afhent einkaaðilum þegjandi og hljóðalaust. Það var málefnið sem mestu varðaði.

Nú er ekkert málefni. Heldur bara valdalöngun  Vilhjálms Þ. og Ólafs F. Ég minni á það hvernig  Villi var búin að stefna hagsmunum Reykvíkinga í voða þegar hann hrökklaðist frá í haust - enda ætluðu félagar hans að losa sig við hann. Af einhverju stafaði það. 

En nú er annað uppi á teningnum.  Það er skelfilegt fyrir almenning að fylgjast með þessu.

Grímulaus uppdráttarsýki og ekkert annað.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.1.2008 kl. 11:12

8 identicon

Já það er rétt, að menn hlaupa útundan sér í pólitíkinni.

En tilefnin eru misjöfn.

Í Haust var það Björn Ingi sem brást nánast af tilefnislaust og sveik félaga sína eftir faðmlög og handsöl. Meirihlutinn var búinn að átta sig á alvöru REI-málsins þegar Bingi fór á bak við samherja sína.  Meirihlutinn var meira að segja byrjaður að færa málið til betri vegar þegar BIH klikkaði. Hjá BIH  var það ekki pólitísk málefni eða stefnumörkun sem voru ástæðurnar.

Nú er annað uppi á teningnum. Ólafur F sá tækifæri til þess að ná pólitískum markmiðum framboðs síns fram með samstarfi við Sjálfstæðismenn. Málefnum sem borgarstjórn Dags B. réði ekki við. Þess vegna bar honum að gera þetta í umboði kjósenda sinna.

Það er himinn og haf milli þessarra  tveggja "útundanhlaupa" þeirra BIH og ÓFM.

Borgarstjórnarmeirihluti Dags var málefna- og stefnulaus. Sennilega vegna þess að samstaða var ekki meðal stjórnmálamannanna um nokkurn hlut. Þeir lögðu áherslu á umræður sem ekki i voru opinberar og leiddu ekki til niðurstöðu í neinum málum.

En þetta veist þú auðvitað allt saman Ólína.

Hilmar Þór (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 11:43

9 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Íslensk pólitík er mjög áhugaverð þessa dagana en því miður þurfa borgarbúar að sitja undir baráttu um völd í stað aðgerða í málefnum. Þetta veldur því auðvitað að meiri tími fer í þvaður og minni tími í aðgerðir. Það verður frólegt að fylgjast með framhaldinu því ég hef á tilfinningunni að þetta sé ekki búið. Ríkisstjórnin er náttúrlega í klemmu hvort sem þau tjá sig um það eður ei.

Laufey Ólafsdóttir, 22.1.2008 kl. 11:44

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Óli verður geðveikur borgarstjóri!  Þvílíkur farsi!  Einhverjir líkja þessu við Dario Fo en þetta toppar allt sem hann hefur skrifað. Meira að segja "Stjórnleysingi ferst af slysförum."

FF er dauður og Sjálfstæðið orðið einrátt aftur. Þrýstingurinn og undirlægið að þessu eru auðmennirnir, sem nú sárvantar veð´fyrir brjálæðislegum lántökum og fjárfestingum á erlendri grundu og nú ááð keyra eignarhaldið á orkulindunum í gegn. Dómstólarnir hafa kveðið úr um að það megi. Þetta er bara byfjunin Ólína.  Vittu til.

Jón Steinar Ragnarsson, 22.1.2008 kl. 11:44

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Og Geir er eins og kærleikurinn holdi klættur.  Umber allt, trúir öllu og breiðir yfir allt.  Engin áhrif á stjórnarsamstarfið segir hann. Ingibjörg segir þetta sorglegan vitnisburð um hve fólk er tilbúið að leggjast lágt í valdasókn sinni.  Greinileg eining innan stjórnarinnar.  Hallelúja.

Jón Steinar Ragnarsson, 22.1.2008 kl. 12:06

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

klæddur... sorry.

Jón Steinar Ragnarsson, 22.1.2008 kl. 12:07

13 Smámynd: halkatla

ég samhryggist borgarbúum og frjálslyndum af ÖLLU mínu hjarta  

halkatla, 22.1.2008 kl. 13:04

14 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Mér er nú spurn, svona í tilefni þessa pistils, hver var mótívasjónin hjá Degi? við myndun meirihlutaans?  Hundraðdagakóngurinn segirfátt um það núna.  Ekki hef ég að heldur heyrt nokkuð kvint um ,,rannsókn" á REI ma´lum öllum saman en er þó sæmilega tengdur, já svona í góðu meðallagi.  Hví er þessi æpandi þögn um það mál? Hafa menn eitthvað að fela í þeim efnum? Var eitthvað gert eða einhverju lofað, til að koma í veg fyrir að sá er klauf, klofni ekki aftur og leki komi að koppinum?

Nei mín kæra, það er evosem ekki úr háum söðli að detta í sérlegum siðferðissöðli í Samfylkingarpólitíkkinni, ne´VG hópnum að heldur.  ÞAð eru fæeirri sveitafélög sem eiga í ákveðnum siðferðilegum vandræðum með fólk úr hinum aðskiljanlegu flokkum.

Svona yfirlýsingagleði pólitíkkusa fer afar illa í hófstillt verstfirst geð guma.  ÞEtta er afar holur hljómur í þessu öllu saman, sama úr hverjum flokki er vælt, sannast sagna er, að egósentrískir aðilar, finnast í öllum flokkum, misjafnlega ofarlega en eitt eiga þau öll sameiginlegt, að betur væri, hefðu þau minni til, að muna sínar fyrri yfirlýsingar og hvernig viðbrögð þeirra var um sinnaskipti, bæði um framboð og samstarf við aðra.

Miðbæjaríhaldið

fyrrum Vestfjarðaíhald

Bjarni Kjartansson, 22.1.2008 kl. 14:12

15 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Vek athygli á þremur skoðanakönnunum á www.visir.is - tvær eru vinstra megin á forsíðunni, sú þriðja hægra megin við þær. Er ekki rétt að láta skoðun sína í ljós?

Í einni er spurt: Styður þú nýmyndaðan meirihluta í borgarstjórn?  Já eða nei.

Í annarri er spurt:  Ef gengið yrði til kosninga í Reykjavík í dag, hvaða flokk myndirðu kjósa? Lítill gluggi kemur upp þar sem merkt er við flokk og smellt á "svara" neðst í glugganum.

Í þeirri þriðju er spurt:  Berðu traust til Ólafs F. Magnússonar sem borgarstjóra? Aftur kemur upp lítill gluggi þegar smellt er á spurninguna og þar á að svara já eða nei.

Látum í ljós skoðun okkar á þessum farsa!

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.1.2008 kl. 15:13

16 identicon

Samt gaman að sjá bjánahrollinn í baklandinu á blaðamannafuninum.

Það verður spennandi að sjá nýjan borgarstjóra taka á kjaramálum þegar samningar kennara o.fl eru lausir í nóv.

Hildur (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 20:58

17 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Verð nú að viðurkenna að mér finnast flestir stjórnmálamenn hafa sýnt slæmar hliðar í þessu máli og hef ekki mikla trú á núverandi borgarstjórn, verst að ekki má kjósa.

Ásdís Sigurðardóttir, 22.1.2008 kl. 21:21

18 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ég var rétt í þessu að horfa á viðtal Sigmars í Kastljósinu við Dag.

Sigmar var annaðhvort á barmi taugaáfalls að því er virtist eða hann er kominn í kosningabaráttu sjálfur!   en Dagur var eins og eðalprins, yfirvegaður og málefnalegur. Rosalega er mikill missir af honum úr borgarstjórastólnum.

Ég segi bara verði þeim að góðu þessum hópi Vilhjálms að hökta þetta áfram á ómerkilegheitum. Þekki engann sem er ánægður með þessa borgarstjórn, sómakært fólk í sjálfstæðisflokki þar meðtalið. Fólk á ekki að hrifsa til sín völd hvað sem það kostar, það getur ekki orðið farsælt.

Marta B Helgadóttir, 22.1.2008 kl. 21:59

19 identicon

Gott að heyra í ykkur.  lesa það sem þið skrifið.

ee (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 23:04

20 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sammála.  Skrifaði einnig blogg um þennan skrípaleik Ólafs og xD.  Sjaldan hefur sjálfselskan í stjórnmálum verið jafn nakin og ósvífin. 

Svanur Sigurbjörnsson, 23.1.2008 kl. 00:35

21 identicon

"Tiltrú stjórnmálamanna hefur beðið alvarlega hnekki "

 Var eitthvað eftir af henni.

Þorgeir HJALTASON (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 10:43

22 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Ítalíusyndrome

Brjánn Guðjónsson, 23.1.2008 kl. 11:53

23 identicon

Þetta er svona sýnishorn af Umpólun jarðar ,þegar hún verður!   

 SUÐUR verður NORÐUR og allt sem því fylgir.

Mönnum er ekki sjálfrátt. Og framkoma Ólafs við Margéti  er farsakennt.  TAKIÐ EFTIR .           ÉG    ER    VALDIÐ.   (gæti Ólafur hafa sagt!).

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 03:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband