Það á ekki að leyfa flugeldasölu til almennings >:(

flugeldar Frá því ég fékk rakettuprikið í hausinn á Klambratúninu fyrir 35 árum, er mér illa við að vera úti þegar sprengingarnar byrja á gamlárskvöld. Líkamlega líður mér illa í þessum hávaða - ég verð eins og hundurinn, vil helst skríða í skjól. Og það sem ég ætla að segja núna er sjálfsagt ekki til vinsælda fallið. En ég segi það samt og mér er fúlasta alvara: Það á ekki að leyfa flugeldasölu til almennings. Og hananú. 

Whistling

 Ég minnist þess alla ævi þegar kínverjinn sprakk við eyrað á stúlku sem stóð við hliðina á mér á gamlársdag fyrir mörgum árum. Ég var ellefu ára hún kannski fimmtán. Hún var að bera ölkassa inn í sjoppu, þegar kínverjanum var kastað að henni. Sársauki hennar og skelfing meðan verið var að koma henni undir læknishendur líður mér seint úr minni. Þessi stúlka missti heyrnina um aldur og ævi. Hún stóð við hliðina á mér þegar þetta gerðist - og það var hrein hending að hún varð fyrir þessu en ekki ég.

Síðan hef ég oft furðað mig á þeirri skefjalausu meðferð skotelda sem viðhöfð er hér á landi um hver einustu áramót. Að þetta skuli bara vera leyft. Til hvers er eiginlega verið að taka þessa áhættu? Til að skemmta auganu eina kvöldstund. Það er ekki áhættunnar virði, finnst mér. Til þess eru fórnirnar of miklar sem færðar hafa verið á undanförnum árum með skelfilegum slysum þar sem fólk hefur hlotið alvarleg örkuml, blindu og brunasár. 

Eiginlega er þetta bara villimennska - og hún magnast ár frá ári. Fjölskyldufeður á nælonskyrtum, í misgóðu ástandi, börn og yfirspenntir unglingar, sameinast og sundrast inni í húsagörðum og á götum úti við að bera opinn eld að sprengiefni - án eftirlits, í hvaða veðri sem er. Og samfélagið virðist bara sammála um að þetta sé í lagi.

Svo fer eitthvað úrskeiðis (og það á hverju gamlárskvöldi), og einhver missir auga eða heyrn. "Æi, það var nú leiðinlegt. En þetta var auðvitað bara óhapp". Angry

Mér finnst illt að björgunarsveitirnar skuli yfirleitt vera ofurseldar því að afla sér fjár með þessum hætti. Þær eiga bara að vera á íslensku fjárlögunum með veglega styrki. Síðan mættu þær gangast fyrir myndarlegum flugeldasýningum á gamlárskvöld - þar sem flugeldum er skotið upp undir ströngu eftirliti af kunnáttufólki almenningi til skemmtunar.

En að landið breytist í vígvöll þar sem hvínandi rakettur þjóta milli húsa og mannfólks sem er í misgóðu ástandi til þess að skjóta þeim upp (hvað þá forðast þá) - það á bara ekki að líðast.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mér finnst alltaf ósköp gott þegar þetta tímabil er yfirstaðið. Þegar ég bjó í Hafnarfirði var þetta algjör plága, byrjað var að smá sprengja út um allan bæ strax eftir jól og fram á þrettándann. Óþolandi ástand.  Hér á Selfossi er allt miklu rólegra. 

                             Fireworks Fireworks

Ásdís Sigurðardóttir, 29.12.2007 kl. 15:04

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta er andstyggilegt!

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.12.2007 kl. 15:16

3 identicon

Mér skilst að það fari meira fjármagn í loftið á gamlárskvöld en í þróunaraðstoð. Skrýtin þjóð...mín þjóð. Áramótakveðjur...

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 15:52

4 Smámynd: Turetta Stefanía Tuborg

Ég er sammála þessum skrifum þínum.

Mér finnst alveg skelfilegt að það skuli hreinlega vera talið í lagi að hver sem er fái að fýra þessu dóti upp í loftið,eftirlitslaust.Svo er fólk að réttlæta kaupin með því að segjast styrkja gott málefni.Með hverju árinu sem líður verða sprengingarnar öflugri og  stundum finnst mér nú að meira sé lagt upp úr hávaðanum heldur en ljósunum.Er ekki hægt að koma þessu einhvernvegin þannig fyrir að við sem viljum styrkja björgunarsveitirnar með þessum hætti kaupum af þeim skotelda sem þeir síðan sjá um að skjóta upp en við hin látum okkur nægja eitthvað minna...

Það getur verið þetta þyki kjánaleg hugmynd en er það forsvaranlegt að fólk jafnvel drukkið sé að meðhöndla stórhættulega skotelda.

Meðan ég skrifa þessa færslu liggur hundurinn við fætur  mína skjálfandi af hræðslu.Einhverjir hafa tekið forskot á sæluna....

Áramótakveðjur. 

Turetta Stefanía Tuborg, 29.12.2007 kl. 16:18

5 identicon

Innilega sammála. Hef líka fengið prik í hausin svo blæddi vél úr á gamárskvöld fyrir 3 árum. Sömuleiðis hefur ca 10 ára gutti miðað á mig og reynt að hitta með sk sólskotum. Einn á svölunum meðan foreldrarnir voru með hávaðaparty inni.

Einning finnst mér mikil tvöfeldni að HJÁLPARSVEITIR skuli selja þetta. Skömm.

kristján (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 16:25

6 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Ég er svo sammála þér... Það sama má segja um kisuna mína hana Birtu... Birta er afar sérstök, hún vakti athygli mína á að eitthvar vari óögruggt úti því hún fór ekkert út eftir Jólin en lét mig opna fyrir sig en fór ekkert...Núna kemur hún ekki í matinn ... Sprengingar eru frá því í eftirmiðdaginn eftir að rökkva tekur til morguns, án nokkura hléa...Að við þurfum að þola þetta!

Guðrún Magnea Helgadóttir, 29.12.2007 kl. 16:39

7 identicon

Dóttir mín er sjúklega hrædd síðan hún fekk flugeld inn undir úlpuna sína og brenndist. Ég hef gaman af flugeldum(þó ekki hávaðanum) Það var alltaf fyrirkvíðanlegt um áramót á barnadeild að fá inn augnslysin en þeim snarfækkaði við notkun hlífðargleraugna. Samt vil ég leyfa flugeldasölu áfram en það mætti brýna betur fyrir fólki reglur um notkun þeirra. Eitt gamlárskvöldið kom slökkvilið x3 í götuna mín vegna þess að flugeldar höfðu farið inn um glugga.

Hólmdís Hjartardótttir (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 17:08

8 Smámynd: Eiríkur Hreinn Helgason

Aldeilis laukrétt hjá þér Ólína - óhófið skín í gegn hjá okkur á þessu sviði sem öðrum. Hins vegar er ljós í myrkrinu - Norðmenn ætla, skv. frétt í RUV í dag, að setja skorður við flugeldaskoti almennings og það þýðir auðvitað bannið mun hríslast hingað með tíð og tíma.  

Það að flugeldasala sé aðal fjáröflunarleið hjálparsveitanna er álíka gáfulegt og það að SÁÁ skuli fá ágóðahluta af rekstri spilakassa en það er nú einmitt svoleiðis.....

Eiríkur Hreinn Helgason, 29.12.2007 kl. 17:10

9 identicon

Ég er algerlega sammála þér Ólína, þessi vitleysisgangur getur ekki gengið lengur. Vonandi verður þetta brjálæði bannað í Noregi á næsta ári og sem fyrst hjá okkur.

Árni pálsson (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 18:36

10 identicon

     Ég gæti ekki verið meira sammála þér Jón.  Það lítur þannig út að sumir vilji helst að allir sitji inni hjá sér vafðir inn í bómull.  Lífið er bara þannig,  fólk slasast og jafnvel deyr löngu áður en eðlilegt er.  Sumir eru ekki með dómgreindina í lagi þegar skjóta á upp flugeldum og er ömurlegt að aðrir þurfi að líða fyrir það.  Björgunarsveitirnar hafa þessa fjáöflunarleið og er ég viss um að bæði Árni og Ólína myndu fegin þiggja þeirra aðstoð hvort sem það væri uppi á hálendi eða bara heima hjá sér, þegar þannig stæði á.  Ég ætla svo að vona að þau ánafni björgunarsveitunum álitlegri upphæð þetta árið.   

Gleðilegt nýtt ár. 

Carl D. Tulinius (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 21:03

11 Smámynd: Elías Theódórsson

Hvernig yrði þjóðfélagið ef allt yrði bannað sem stungið er upp á að sé bannað? Svona forræðishyggja er skelfileg. Þeir sem njóta flugelda geri svo með aðgát. Hinir sem eru á móti þeim haldi sig innan dyra! Það er svo margt hættulegt í lífinu, eigum við að banna það? Reykingar, neysla áfengis, fituríkra matvæla, sykur og svo mætti lengi telja.

Elías Theódórsson, 29.12.2007 kl. 21:39

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl öll - gaman að sjá þessi líflegu viðbrögð við hugleiðingum mínum (og meiningum) um sölu flugelda.

Auðvitað eru boð og bönn oft leiðinleg - en í mannlegu samfélagi þarf einatt að setja einhverskonar skorður og spurningin er bara þessi, hvað á að banna og hvenær. Sjálfri er mér illa við það skeytingarleysi sem hér viðgengst í umgengni um skotelda, af því ég veit að sprengiefni er hættulegt. Byssur eru líka hættulegar - enda eru settar skorður við byssueign á Íslandi.

En svona til fróðleiks fyrir Carl Tulinius - þá er ég sjálf meðlimur í björgunarsveit og ver drjúgum tíma í viku hverri við störf í þjálfun þeirrar sveitar. Hann þarf því ekki að brýna fyrir mér mikilvægi þess starfs sem björgunarsveitirnar vinna í landinu.

Farið svo varlega með eldinn um áramótin

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.12.2007 kl. 22:09

13 Smámynd: Vendetta

Auðvitað á ekki að banna sölu á flugeldum, sem eru löglegir og öruggir. Þetta er bara einu sinni á ári. Að banna sölu á flugeldum um áramót er forræðishyggja af verstu tegund. Ég á tvær dætur á grunnskólaaldri og þær hafa aldrei meiðzt við að skjóta upp rakettum, enda förum við varlega. Ef það á að banna allt sem aðeins getur verið hættulegt ef um vangá eða ábyrgðarleysi er að ræða, þá ætti sömuleiðis að banna öll farartæki, allar byggingar sem eru hærri en tvær hæðir, öll kerti og þar fram eftir götum. Það væri alveg eins vitlaust!

Hins vegar mætti banna sumt sem er leyfilegt í dag, en sem er skaðlegt, jafnvel lífshættulegt litlum börnum. En flugeldar eru ekki eitt af því.

Vendetta, 29.12.2007 kl. 22:46

14 Smámynd: Brynjólfur Bragason

Hvernig væri að banna bíla, brennivín, bjór, byssur, banana og blóm. Frétti af konu sem datt á bananahíði og braut bein, fór inn á spítala og fékk blóm sem hún hafði bráðaofnæmi fyrir og dó.

Brynjólfur Bragason, 30.12.2007 kl. 00:36

15 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.12.2007 kl. 00:47

16 identicon

Sæl Ólína

Ég telst víst ekki til þeirra sem vilja banna flesta hluti. En ég er að mörgu leiti sammála þínum pælingum í þessu tilfelli. Ég sé lítið jákvætt við flugelda.  Ég bý í sveit og ég man vel eftir mínu síðasta flugeldaskytteríi. Þegar allt var um garð gengið og drunurnar í fjallinu höfðu dáið út heyrði ég mikla skruðninga úr hesthúsinu. Ég flýtti mér að kanna hvað væri á seiði. Hrossin voru algerlega tryllt og vitstola og ég var lengi að róa þau niður. Ég veit mörg dæmi þess að hross hafi hlaupið til fjalla og jafnvel stórslasað sig á girðingum og þess háttar á flóttanum.

Ég tel vel koma til greina að setja einhverjar hömlur á flugeldasölu. Þetta er orðið eitthvað svo gengdarlaust, eins og fólk kunni sér ekki lengur hóf.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 01:11

17 identicon

Ég er nú allgjör krakki þegar kemur að flugeldum og þá sérstaklega rakettum.  Því verður þó aldrei stungið undir stól að þetta eru náttúrulega stórhættulegir gripir og þá sérstaklega í höndunum á krökkum og ölvuðu fólki (bíddu þar fór gamlárskvöldið flatt).  Ég bý í Noregi og ætla þannig séð ekki að lofa þá eða lasta umfram Ísland og Íslendinga en hér í sveit er akkúrat sama uppi á teningnum og heima, forræðishyggjan þó verulega mikið meiri.  Það sem er aðeins öðruvísi er að hér eru heilu bæjarhlutarnir úr tré.  200 ára gömul hús sem standa svo þétt að akslirnar standa útí beggja vegna stundum.  Það brennur stundum glatt þegar líður á nóttu verð ég því miður að segja eins og er.  Annað er að augu og eyru hérlenda eru ekki hertari en Íslensk og í fyrra var ÖLLUM flugeldasölum gert skilt að leggja öryggisgleraugu viðurgjaldslaust í alla pakka með sprengihleðslum.  Ég á nú þegar par sem passar á mig og eitt fyrir dóttir mina sem stendur alltaf  vel til hliðar og heldur fyrir eyrun.  Þrátt fyrir gleraugu og annað slasast hvert ár á annað hundruð Norðmenn annaðhvort fyrir eigin klaufaskap, eða af aulaskap annarra.  Afleiðingin er að frá 1. janúar 2008 eru rakettur með öllu bannaðar í Noregi.  Hér eftir verður eingöngu leyfilegt að skjóta upp tertum og viðlíka.  ég ætla ekki að leggja neinn dóm á réttmæti slíkrar lagasetningar enda lítill aðdáandi þess að hið opinbera sé að stýra mér of mikið en það verður athyglisvert að lesa samanburð á slysum í lok janúar 2009.  Sjálfur ætla ég að kaupa stóran pakka með rakettum og skemmta mér jafnvel og alltaf.

U (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 01:40

18 Smámynd: Vendetta

Kári, það á eðlilega ekki að skjóta upp rakettum eða sprengja uppi í sveit nálægt hestum og öðrum búfénaði eða nálægt húsum með stráþökum (sem eru algeng sums staðar í útlöndum, en þekkjast ekki hér). Og tréhús með bárujárnsþaki brennur ekki af nokkrum rakettum nema þær fari inn um glugga.

En fínt með flugelda á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert af því sem ég he lesið hér eru nægilega sterk rök fyrir að banna frjálsa sölu á löglegum rakettum. Og að sjálfsögðu á að fara varlega og nota hanzka og hlífðargleraugu og hafa eftirlit með börnunum, að sjalfsögðu. Flugeldarnir á gamlaárskvöld er eitt af þeim örfáu hefðum á Íslandi, sem eitthvað er varið í.

Vendetta, 30.12.2007 kl. 01:50

19 Smámynd: Daníel Sigurður Eðvaldsson

Flugeldar eru stór hættuleg vara. Enda er hægt að flokka þetta sem sprengiefni. Slys af völdum flugelda er hægt að rekja til gallaðar vöru og ranga notkun á þeim. Skotgleði Íslendinga hefur verið mikil síðustu ár. Sett var á aldurstakmark við kaup á flugeldum til þess að fyrirbyggja slys á yngri kynslóðinni, en í dag þarf maður að vera 16 ára til þess að versla sér flugelda. Minnir að aldurinn hækki eitthvað fyrir stóru bomburnar, en ég hef ekki verið virkur í sölunni í ár. Öryggisgleraugu eru fyrir alla sama hvaða aldri viðkomandi er. Þessi gleraugu eru seld fyrir mjög lítið gjald en hef ég oftast látið þetta fylgja með, enda er þetta mikilvægur öryggisbúnaður.

Ég er sammála flestu því sem skrifað er hér í þessari bloggfærslu. Samt tel ég það ekki vera nægileg rök fyrir að banna sölu á flugeldum. Landsbjörg stendur fyrir mikilli forvarnafræðslu um meðhöndlun flugelda á hverju ári og vill ég hvetja flesta til þess að kynna sér öryggisreglur, kanna ástand pakkans og lesa leiðbeiningar utan á flugeldum.

Ég fékk einu sinni kókdós í hausinn í Jólalest Coca Cola fyrir mörgum árum. Jólasveinn kastaði dósinni af lestinni í almenningin. Ég var skelkaður en hef ekki hætt að drekka kók fyrir það. Hef þó gert það núna, einfaldlega vegna þess að mér finnst það ekki gott.

Farið varlega með flugelda og látið einhvern sjá um sprengjurnar sem hefur vitið og er í rétta ástandi til þess að sjá um þetta. Mjög mikilvægt.

Daníel Sigurður Eðvaldsson, 30.12.2007 kl. 05:06

20 identicon

    Sæl, ÓlÍna,mér finnst þetta réttmæt u,fjöllun.

Fingur fuku,eyra skaddaðist,sjón skertist,allt hjá sama einstaklingnum vestur á Isafirði þegar ég var Púki.

Mér er alltaf meinilla við þessa athöfn.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 06:56

21 identicon

Jæja best að hella sig blindfullann og sprengja allt í loft upp á áramótunum.. Jú því að ég fæ ekki að gera það nema einu sinni á ári og það er á áramótunum ég ætla að njóta mín og hugsa um ykkur þunglynda og neikvæða fólkið sem er á móti flugeldum og samhryggjast ykkur vegna gráts og rotnunar ykkar meðan áramótin standa yfir !Jæja mig hlakkar til að fara að sötra og bomba allt í loft upp með einhverjum svakalegum tertum  !!

Djammhaus (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 09:06

22 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Finnst þetta vera ömurlegt og bara ein enn tilraunin til að drepa niður allt það sem gerir okkur að einhverju öðru en framtakslausum ÁHORFENDUM.

Það er því miður til fólk sem vill sjá Ísland sem dautt samfélag og landsmenn alla sem horaðan almúga og áhorfendur að glæsisýningum aðalsins.

Þessi sjálfskipaða "aðalstétt" virðist vera samsett af fólki úr stétt ríkisstarfsmanna, stjórnmálaflokka og einstaka auðsmanna. Þetta "aðalsfólk" vill vera með skipulagðar flugeldasýningar og listviðburði, sjá um áramótabrennur og þrettándann, og almennt skipuleggja allar samkomur og hátíðarhöld.

Horaður almúginn á svo að standa í hæfilegri fjarlægð og klappa eftir ábendingum hirðstjóra, allt frumkvæði sé bannað og öll viðleitni eins og að afla sér matar úr sjó, stunda landbúnað, koma sér þaki yfir höfuðið eða á annan hátt að reina að sjá sér og sínum farborða á að stöðva með reglugerðum og tilskipunum, þannig að öðrum en sérmenntuðum mönnum og kvótaeigendum sé gert fært að bjarga sér.

Alveg rétt Ólína, þetta er draumur hina Íslensku vinstri hreyfingar Samfylkingarinnar og Hægri Sjálfstæðismanna.

Þið sem teljið ykkur geta haft vit fyrir okkur hinum og hinsvegar horaður almúginn.

Aðallinn og landslýðurinn.

Evrópusambandið og sjálfstæðið.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 30.12.2007 kl. 10:03

23 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Boð og bönn eru eitur í beinum margra en eftir því sem borgarsamfélagið verður fjölmennara verður það flóknara. Ég hef lifað mörg áramót pg þau verða ofboðslegri með hverju árinu. Og eftir því sem landinn verður ríkari verða flugskeytin fleiri og dýrari. Erum við ekki að komast á þann stað að láta þetta í hendurnar á kunnáttufólki eins og gerist í öðrum borgum- ég yrði því fegnust að fá þetta "under control".

Halldóra Halldórsdóttir, 30.12.2007 kl. 11:02

24 identicon

Það er nú ekki hægt að líkja því saman að banna flugelda og bíla, bílar eru nauðsynlegir en ekki flugeldar!!! 

Helga Óskarsdóttir (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 12:22

25 identicon

Get engan vegin verið sammála þessari skoðun þinni. Eigum við þá ekki líka að banna fólki að keyra bíla, eingöngu atvinnubílstjórar fá leyfi til þess, banna fólki að fara út að ganga og hvað annað. Hlutfallslega er líklega mun minna um slys af flugeldum en flestu því öðru sem við gerum. Meira að segja hættulegt að liggja kyrr uppi í rúmi

bjarnveig (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 12:48

26 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þetta er þess virði

Brjánn Guðjónsson, 30.12.2007 kl. 13:15

27 identicon

Þessi umræða angar af forræðishyggju.

Eigum við ekki að banna áfengi þá er engin lengur ölvaður að skjóta upp flugeldum.  Enginn að berja líftóruna úr öðrum niður í bæ.

Furðulegt þegar minnst er á flugeldasölu þá bara minnst á björgunarsveitir ábyrga fyrir sölunni þegar það er fullt af einkaaðilum seljandi flugelda með misgóðum árangri.  Á hverju ári sér maður viðtal við björgunarsveitarmenn í viðtali um flugelda og meðferð þeirra og þeir hafa verið leiðandi í því að auka öryggi varðandi meðferð þeirra.  Það er aldrei viðtal við einkaaðila sem stunda sölu á þessu í með eigin gróðrar hyggju.

Ólina ég man ekki eftir því að þú hafir lagt það til að björgunarsveitir færu á fjárlög.

Bestu kveðjur um von um örugg og gleðilega áramót.

Sveinn Þór Björgunarsveitarmaður.

Sveinn Þór Þorsteinsson. (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 14:22

28 Smámynd: Linda

Mér blöskraði svo þessi þráður að ég varð að skrá mig inn og fá að segja mitt álit.  Ég er skít hrædd við flugelda, jám, alveg satt, en mér mundi aldrei detta í hug að biðja um bann vegna þess að ég er hrædd við þessi læti og það sem dettur ofan frá , ég held mig bara inni eins mikið og ég get og horfi á ljósadýrðina og held utan um yndið mitt (voff voff).  Hlífðar gleraugu vernda augun, kaupið þau.  Hanskar fyrir hendur, hár vel bundið undir húfu og hvernig væri að koma með vel skreytta hjálma fyrir alla sem úti eru, kaupum hjálma gerum þá töff og allir öruggari.  Þetta er mitt álit.  Gleðilega hátíð!!

Linda, 30.12.2007 kl. 19:00

29 identicon

Flugeldar eru bannaðir innan borgarmarka í Kína, þótti það frekar merkilegt þau þrjú áramót sem ég eyddi þar. Það er hægt að kaupa svartan ruslapoka fullan af tívólíbombum á einhvern tvöþúsundkall en ef þú reynir að kveikja í ýlu innan byggðar ertu í vondum málum :)

Gunnar Hrafn Jónsson (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 19:00

30 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Þetta er líflegt og skemmtilegt - og aðeins eitt sem kemur mér raunverulega á óvart.

Það er hversu margir eru sammála mér. Því bjóst ég eiginlega ekki við.

Kannski er bara meirihluti landsmanna á móti þessu innst inni - en kann ekki við að segja neitt, er bara svona meðvirkur eða eitthvað. Kannski lætur fólk þetta yfir sig ganga, nauðugt viljugt, af því að ágóðinn rennur að stórum hluta í gott málefni.

Hmm .... Spáið í það. Ef björgunarsveitrnar þyrftu ekki að fjármagna sig með sölu flugelda .... ???

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.12.2007 kl. 22:05

31 identicon

Takk fyrir framúrskarandi álitsgjöf í silfrinu.

Tómas Ponzi (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 23:36

32 Smámynd: Gunnar Reyr Sigurðsson

En Ólína, ég spyr í einfeldni minni, af hverju þurfa björgunarsveitirnar að fjármagna sig mig flugeldasölu? Er þetta ekki þjónusta í þágu almennings?

Gunnar Reyr Sigurðsson, 31.12.2007 kl. 00:05

33 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Gleðilegt ár kæra Ólína !

Guðsteinn Haukur Barkarson, 31.12.2007 kl. 01:05

34 Smámynd: Katrín

Þetta eru bráðskemmtilegar umræður  Mér er ekkert vel við flugelda og held mig því inni við á meðan synirnir skjóta eins og þeir ættu lífið að leysa. 

Ráðlegg þeim sem er illa við sprengjuóða Íslendinga (svona líkt og ég) að halda sig innan dyra en ef það dugir ekki þá er víst rólegt á Grænlandi á þessum tíma þ.e. í flugeldamálum....  Gleðilegt gamlárskvöld

Katrín, 31.12.2007 kl. 02:33

35 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Hjartanlega sammála þér í þessu Ólína.

Vil sömuleiðis taka undir með Tómasi Ponzi hérna, góð álitsgjöf þín í Silfrinu.  

Marta B Helgadóttir, 31.12.2007 kl. 14:42

36 identicon

Rétt, þetta er stórhættulegur fjandi. Ung stúlka fær flugeldaprik í höfuðið, og verður sósíalisti. Öll höfuðhögg eru óæskileg.

Sammála (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 19:28

37 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Góður þessi

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.1.2008 kl. 02:22

38 Smámynd: Agný

 Takk fyrir pistilinn Ólína... 

Ég er víst ein af þessum flugelda /rakettu hræddu manneskjum..en mér ekki síður illa við stjörnuljós sem sumir leyfa að sé notað innandyra,  neistarnir eru jú ekki svo heitir en stinga og geta brætt fatnað, en það er  málmurinn sem er ekkert smá heitur þegar neistaflugið er búið...Held að flugelda hræðsla mín hafi bjargað því að mitt hús brann ekki fyrir ca  16 árum síðan.. Það hafði einhver lagt málminn á sófaborðið sem á var taudúkur.  Ég  sat við borðið og allt í einu gaus upp ótrúlegasta bál  sem mér tókst sem betur er að slökkva en ég var ein inni með tæplega 1 árs syni mínum ...

Hvernig hefði farið, hefði ég verið úti að sprengja og horfa á, eins og allir hinir þegar að eldurinn gaus upp og minn yngsti sofandi... ... Minn x karl var/er  flugeldafrík og hans fjölskylda og því miður ekki alltaf nógu gætilega farið með þetta dót að mínu mati,  kanski ég hafi orðið svona anti þegar að hinir eru aðeins of mikið..ótrúlegustu stefnur sem þetta dót getur tekið ...eða haldið algjöru stefnuleysi... (það hæfir nú kanski okkur íslendingum best.)

Svo eru það dýrin okkar..  Hversu oft fælast ekki hross og lenda í ógöngum og þarf svo jafnvel að fá björgunarsveitarmenn til að bjarga þeim úr sjálfeldu þegar þau hafa fælst ...  Svolítið mikil kaldhæðni í því.. Svo á menningarnóttinni 2005.. þá voru það tveir pólverjar sem  létust í bílslysi og þriðji slasðist þegar hross æddi fyrir bíl þeirra á Kjalarnesi...Hrossið lést líka...  Þetta skeði svona hálftíma til 1 tíma eftir að síðustu bombunni var fírað uppp... Hross æða ekki stjórnlaust af stað seint að kvöldi nema eitthvað valdi þeim ótta ( er úr sveit..) og það miklum að þau æði blint áfram...  Girðingar halda engum ærðum hrossum...þau kunna jú líka að stökkva....  En ábyrgðina er svo alltaf sem enginn vill bera í svona tilfellum.....Ég var heppin að hafa ekki verið aðeins fyrr á leiðinni heim úr bænum en mér seinkaði aðeins en annars tel ég að ég hefði getað verið í sporum pólverjanna...miðað við tímann sem slysið varð á ...

Svona smá hugmynd.... Hvernig væri að öll íþróttafélög og allar sveitir sem nota flugeldasölu sem fjáröflun  myndu hafa það þannig að þeir sem vilja styrkja þá leggja inn x upphæð  hjá "sínu" félagi.  Svo myndu félögin og hálpar/björgunarsveitir skjóta öll upp því sem hefir verið lagti  inn fyrir flugeldum rakettum og tertum og kökum, allir á miðnætti..

Það yrði ekkert smá litasjóv á sama tíma um allt land á meðan öllu er fírað upp kl 12 á miðnætti... Það yrði kanski mislengi sem félögin myndu vera að skjóta upp allt eftir innkomu hvers félags...  En það yrði kanski heldur minna um slys ef þessi háttur yrði hafður á ...Þessa hugmynd á ég svo sem ekki heldur vinur minn heitinn sem var virkur björgunarsveitarmaður til hinstu stundu...  Það væri kanski séns á að væri heldur minna um slys ef allir væu allsgáðir við að skjóta þessu dóti upp, en því miður er það sjaldnast þannig...

Afhverju virðist fólki finnast allt í lagi að fara með eldfim efni og sprengjuefni eftir nokkra öllarra en ekki að keyra bíl...bæði er nákvæmnisverk og ekki finnst fólki í lagi að börn séu að keyra bíl..hvernig getur sama fólki fundist það í lagi að börn séu að leika séi að þessu...... það má svo sem allstaðar finna tvískinnunginn...það má t.d. selja sígarettur/tóbak...þú mátt bara hvergi orðið nota það.... Væri þá ekki bara hreinlegast að banna sölu þess...en nei...krabbameinsfélögin fá sko fjárframlög frá tóbaksframleiðendum.... alltaf sama bullshittið....  En gleðilegt nýtt ár..og vonandi verða engin slys á þrettándanum...því þá er víst líka skotið upp því sem eftir var að skjóta upp á gamlárskvöld hvort heldur vegna drykkjuskapar eða veðurs ætla ég að láta liggja milli hluta...

Agný, 3.1.2008 kl. 02:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband