"Sýsl" og "basl" í skáldskap

Margra barna mæður eiga ekki að "sýsla" og "basla" við ljóðagerð. Þetta er skoðun Skafta Þ. Halldórssonar bókmenntagagnrýnanda Morgunblaðsins sem birtir ritdóm í blaðinu í dag um ljóðabók mína Vestanvind. Að vísu sviptir Skafti mig einu barni - segir mig vera fjögurra barna móður. Er hann þar að vísa - að því er virðist - í einn af prósum bókarinnar, sem hann augljóslega tekur sem mína persónulegu dagbók, en ekki þá kómísku mannlífsmynd og hugvekju sem tilvitnaðri sögu var ætlað að vera.

Jæja, best ég leiðrétti nú þetta: Ég er FIMM barna móðir eins og fram kemur á bókarkápu. Ég er líka orðin amma. 

Og hvað er nú svona kona að gera upp á dekk í skáldskap? Það á gagnrýnandinn erfitt með að skilja. Að vísu telur hann "margt vel gert" - og eyðir síðan furðu löngu máli í að sýna fram á það með dæmum. En honum finnst samt að ég eigi bara að halda mig við vísnagerð - þar sé ég á heimavelli.  

Og svo tekur hann mig á kné sér til að kenna mér hvernig maður eigi að orða hugsanir í ljóðum. Myndlíkingar á borð við "hafdjúp hugans", "logndýpi drauma" og "grunnsævi vökunnar" kallar hann  "samsetningar" og frasakennda myndsköpun. Þarna hafi ljóðmálið tekið völdin af hugsuninni. Svo rökræðir hann við mig um það hvernig ég hefði átt - eða öllu heldur ekki átt - að yrkja eitt ljóðanna. Það er ljóðið Mæði:

Ástin / er berfætt ganga / um grýttan veg. 

Söknuðurinn / sárfætt hvíld / í skugga gleðinnar.

 "Ég get alveg skilið að ástin geti verið berfætt ganga um grýttan veg og söknuðurinn þá sárfætt hvíld. En að gleðin varpi skugga á söknuðinn finnst mér vera merkingarleysa", segir Skafti.

Hmmm ... það er einmitt það. Gott er nú fyrir ljóðskáld að fá svona kennslustund. Verst að mér skyldi aldrei hafa hugkvæmst þetta þegar ég skrifaði bókmenntagagnrýni fyrir moggann í den, að kenna ljóðskáldunum að yrkja. Reyndar held ég að Skafti hefði mátt hugleiða betur merkingu þessarar líkingar um gleðina og skuggann  - en ef hann meðtekur ekki hvað ég er að fara þarna, þá verður bara að hafa það.

Þessi ritdómur minnir mig óþægilega á þrjátíu ára gamla umræðu sem spratt upp um hinar svokölluðu kerlingabækurá sjöunda áratugnum. En það orð var notað í fúlustu alvöru um verk þeirra skáldkvenna sem þá höfðu kvatt sér hljóðs. Það voru karlrithöfundar - á svipuðu reki og Skafti er núna - sem fundu þessa ágætu einkunn yfir skáldskap kvenna. 

Þetta er trúlega hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem gagnrýnendur láta kynhlutverk og þjóðfélagsstöðu kvenna hafa áhrif á dóma sína. En svona til að lesendur geti áttað sig aðeins betur á þessu dæmi sem Skafti nefnir  "samsetning" ætla ég að birta það tiltekna ljóð hér fyrir neðan. Það heitir Út vil ek (og auðvitað á maður ekkert að vera að  bjóða upp á svona "frasakennda myndsköpun" eða leggja það á gagnrýnendur að botna í svona ljóðum). En ljóðið er svona:

Í hafdjúpum hugans

leitar vitundin landa

um útsæ og innhöf

ferðast hún um þangskóg

í sjávardölum

 

úr logndýpi drauma

sækir hún í strauminn

streitist á móti

brýst um

og byltist

í þungu róti

 

Á grunnsævi vökunnar

spriklar hún að kveldi

- þar lagði dagurinn netin

að morgni

 

þéttriðin net

troðfull að kveldi ...

 

 

PS: Og svo skil ég nú ekki hversvegna mogginn birtir af mér 18 ára gamla mynd - nema ég sé orðin svona herfilega ljót af öllum mínum barneignum, sýsli og basli að það sé ekki mönnum bjóðandi að sýna mig eins og ég er Shocking


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur H Einarsson

Ég hef aldrei skilið þetta fólk sem situr við að skrifa um ljóð.  Hið einna sanna ljóð, hina einu sönnu myndlíkingu, hina einu sönnu ljóðabók.......   Þetta fólk lifir á því að skrifa texta sem er mældur í dálkmetrum.  Mitt eina mat á ljóðum er það þegar orðin fara að fljúga, það heyrist þegar ljóðið er lesið hvort heldur er í hljóði eða upphátt.

Orðin hafa vængi.  Ég er ekki í vafa um það hjá þér og til hamingju með bókina

Ólafur H Einarsson, 28.11.2007 kl. 16:35

2 Smámynd: Ibba Sig.

Ég get nú ekki annað en glott þegar ég heyri af svona körlum eins og Skapta. En ég hef heldur ekkert "vit" á ljóðum, veit bara hvað hreyfir við mér og hvað býr til áhrifamestu myndirnar í huga mér. Ég er mjög hrifin af þessu ljóði sem þú birtir hér. En ég er enginn Skapti.

Ibba Sig., 28.11.2007 kl. 17:25

3 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

'Eg held að það sé frekar klisja hjá gagnr. að reyna setja ljóðin í einhver box......

Einar Bragi Bragason., 28.11.2007 kl. 17:33

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir huggunarrík orð félagar.  Ekki eru allir dómar upp kveðnir enn. 

Marktækustu dómarnir eru auðvitað þeir sem lesendur fella sjálfir, hver í sínu einrúmi. Ég hef tröllatrú á lesendum ljóða. 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.11.2007 kl. 18:04

5 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Nú verð ég að lesa ritdóminn! En ég er ekki frá því að þetta sé gott ljóð! Kv. frá einum sem líka hefur staðið í uppeldi og vogar sér (því) ekki að yrkja. B

Baldur Kristjánsson, 28.11.2007 kl. 18:13

6 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Frá einu skáldi til annars...

Vá hvað þetta kemur mér á óvart. Ég hélt að þessi tegund af karlmönnum væri dáin út. Maður fær óþægilegan aulahroll. Ég man að þegar ég var að byrja að senda frá mér ljóð á unglingsárum að einhver framkvæmdarstjóri að nafni Guðmundur tók ljóðin mín sem dæmi um hve hörmuleg staða íslenskrar ljóðlistar væri meðal nútíma skálda. Ég sendi honum fyrstu ljóðabókina af eintómum prakkaraskap sem hann eiginlega átti þátt í að ég fengi útgefna hjá AB vegna þess hve mikla athygli ég fékk út á þetta.

Kannski verður þessi fáránlegi dómur á þína bók til þess að kveikja forvitni annarra til að lesa hana. Hún hefði sennilega farið fram hjá mér ef Skapti hefði ekki gengið svona langt í hrokanum gagnvart þér og þínum orðum.

Ljóðið þitt er haglega ort en fyrst og fremst orð sem hreyfa við manni og skilja eitthvað gott eftir sig í sálarkitru. Takk fyrir það og til hamingju með sköpunarverkið og haltu áfram að skrifa.

Hjó einmitt eftir því hjá Agli Helga áðan að það væru bara miklu fleiri karlmenn að skrifa bækur! Rithöfundastéttin er mjög karllæg stétt og ég held að miklu mun fleiri konur skrifi en skorti hugrekki til að koma sínum verkum á framfæri vegna fordóma sem brjótast út í körlum sem Skapti og Guðmundur eru táknmyndir fyrir.

Birgitta Jónsdóttir, 28.11.2007 kl. 20:07

7 identicon

Ekkert veit ég um Skafta þennan, en ég las "dóminn". Fyrsta sem mér datt í hug var setning sem ég man nú ekki alveg nákvæmlega hvernig var, en innihaldið var það að gagnrýnandi væri einstaklingur, sem setti út á það sem aðrir væru að gera og hann gæti ekki sjálfur.  Fyrir alla muni, Ólína, taktu ekki mark á svona bulli. Eins og þú sjálf segir, eini ritdómurinn sem mark er á takandi er hvort bókin verður lesin af þjóðinni þinni. Um það efast ég ekki, enda ert þú gildur limur á Leir!

Ellismellur (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 20:10

8 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Þetta með myndina af þér, þá skaltu engu kvíða. Ég var einmitt að velta því fyrir mér þegar ég horfði á þig í þættinum þarna um daginn þar sem þú stóðst þig svo vel; - mikið er hún Ólína falleg.

Þorkell Sigurjónsson, 28.11.2007 kl. 20:52

9 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Einmitt það já...eins gott að ég steinhætti öllum skrifum og skáldskap enda alltaf að sýsla eitthvað og hugsa um mín fjögur börn. Bara vissi ekki fyrr en ég las þessa gagnrýni Skapta sem er greinilega skeptískur karl að þetta mætti bara ekki gera.

Ólína ég les margt úr þessu ljóði þínu og finn hughrif sem ég skil með sjálfri mér. Þá er tilganginum náð.

Þú ert bara skörugleg og flott skáldkona.

Til hamingu!! 

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 28.11.2007 kl. 21:24

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.11.2007 kl. 23:09

11 Smámynd: Egill

að einhver gagnrýnandi skilji ekki eitthvað sem ég, verandi alveg þurr af nokkru ljóðrænu sé strax ákveðna mynd, segir mér meira um hann en "gæði" ljóðabókar þinnar.

ps. nú segist þú vera orðin amma, nú er ég ekki alveg 100 % en átt þú son sem heitir Þorvarður sem var í melaskóla hja Jónu Sveinsdóttur ?

ef svo er, þá var ég með honum í bekk.

Egill, 28.11.2007 kl. 23:12

12 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Hann er bara hundleiður og útbrunninn hann Skapti.

Líklega er hann bara búinn að missa einn fallegasta eiginleika sem fyrirfinnst í fólki - eiginleikann að geta hrifist.

Marta B Helgadóttir, 29.11.2007 kl. 01:30

13 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ólína, rock on, þú tekur þetta, ekki spurning. og að öðru leyti er ég sammála henni Mörtu um hann hm... Skapta.

Jenný Anna Baldursdóttir, 29.11.2007 kl. 01:41

14 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það er ótrúlega gott að eiga svona bloggvini sem hressa mann við þegar á þarf að halda

Annars er ég ekkert sérlega miður mín í raun og veru - því mér fannst þessi ritdómur eiginlega bara svolítið fyndinn. Aðallega vegna þess að þarna voru ekki færð fram nein dæmi sem sýndu fram á aðfinnslurnar - nema þetta sem ég setti inn hér fyrir ofan. Og það verður hver að dæma fyrir sig. En það er gott að finna fyrir svolítilli samstöðu samt.

En Egill - jú, ég er mamma hans Þorvarðar (Dodda) og hann á núna tveggja ára strák sem heitir Daði Hrafn

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.11.2007 kl. 10:21

15 Smámynd: Egill

til hamingju með það, kveðja og hamingju óskir til hans og hennar og þess nýfædda frá 6.A í melaskóla

Egill, 29.11.2007 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband