Tekur einhver mark á nafnlausu bréfi?

Nafnlaus bréf er ekki hægt að taka alvarlega. Ég er undrandi á því að þetta bréf sem sent var forstjóra Landspítalans vegna Jens Kjartanssonar yfirlæknis lýtalækingadeildar skuli yfirleitt vera í umræðunni. Það getur hver sem er sent nafnlaust bréf og haldið því fram að hann tali fyrir fjölda manns. Og svo getur hann "lekið" því í fjölmiðla til þess að koma innihaldinu á framfæri.

Fjölmiðlar eiga ekki að láta nota sig svona.

Fyrr á þessu ári komst annað nafnlaust bréf í hámæli - það tengdist Baugsmálinu svokallaða. Það bréf virtist um tíma tekið alvarlega vegnað þess að það leit út fyrir að vera skrifað af "lögfróðum manni". Auðvitað geta menn vakið athygli á sjónarmiðum í nafnlausum bréfum. En það liggur í hlutarins eðli að slík bréf  geta aldrei orðið raunverulegt gagn í máli. Þau mega aldrei verða það. Þau eru í eðli sínu rógur vegna þess að höfundur/höfundar slíkra bréfa geta ekki staðið fyrir máli sínu.

Læknamistök eru auðvitað alvarlegt mál - en þessi aðferð við að losna við lækni úr starfi sem gert hefur mistök er ekki boðleg. Hún er siðlaus.


mbl.is Staða læknisins óbreytt á LSP
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sammála þessu.
Ég var óhress með að lesa um þetta í gær að mig minnir í Fréttablaðinu. Svona umfjöllun gerir lítið annað en að skaða mannorð hvort sem það er læknir eða annar fagmaður. Auk þess er JK þekktur af mörgum fyrir að vera afburðaflínkur lýtalæknir. Hann er ekki hvað síst færastur í að gera að laga andlitslýti.
Hafi honum orðið á mistök er birting bréfs sem þessa sannarlega ekki farvegurinn.

Kolbrún Baldursdóttir, 24.10.2007 kl. 11:35

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Án tillits til færni eða vanfærni téðs læknis þá er þessi aðför að honum með ólíkindum og þarna er vegið úr launsátri.  Fyrir ekki svo löngu síðan, hefði nafnlaust bréf ekki talist frétt og ætti ekki að teljast það frekar nú.

Ömurlegt og ljótt.

P.s. Síðast þegar ég gáði þá voru mistök hluti af mannlegu eðli.  Hefur eitthvað breyst?

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.10.2007 kl. 11:46

3 identicon

Til upplýsingar þá gerði Jens engin mistök. Mistökin voru svæfingalæknisins en þar sem skurðlæknirinn (jens) er stjórnandi aðgerðarinnar er hann dreginn til ábyrgðar. Það er hins vegar erfitt fyrir skurðlækni að einbeita sér að öðru en sínu verki og því tók Jens ekki eftir mistökunum.

Þetta er í raun álíka gáfulegur dómur og draga flugstjóra til ábyrgðar fyrir mistök flugfreyju

björn (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 12:00

4 Smámynd: Helgi Már Barðason

Tek undir hvert orð, Ólína.

Helgi Már Barðason, 24.10.2007 kl. 13:23

5 identicon

Eru lítil brjóst lýti?

Steini Briem (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 14:26

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Efni bréfins finnst mér ekki óvitlaust. Líklega er það ekki nafnlaust að ástæðulausu. Skil ekki þessa vorkunn alltaf út ú lækna. Þeir eiga alltaf að vera bæði heilagir og ósnertanlegir jafnvel þó þeir leggi líf fólks i rústir.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.10.2007 kl. 15:54

7 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ótrúlega huglaust og smekklaust að senda frá sér nafnlaust bréf.

Ég furða mig á að fjölmiðlar birti slíkt sem frétt, fyrr má nú vera "græðgin" eða öllu heldur örvæntingin hjá fjölmiðlum að ná athygli fólks....hafast skal það, með subbuskap ef ekki öðru. Jens er reyndar náinn ættingi minn svo ég er ekki hlutlaus en mér finnst þetta siðlaust. 

Marta B Helgadóttir, 24.10.2007 kl. 18:39

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ólína, siðleysið felst í því að læknirinn skuli halda stöðu sinni eins og ekkert hafi ískorst, líka í því að stjórn spítalans skuli skáka í því skjólinu að hann hafi framið voðaverkið á eigin stofu og loks í því að félag lýtalækna skuli styðja sinn mann. Allt lýsir þetta fádæma fyrirlitningu á því lífi sem lagt var í rústir með læknisverkinu. Sú manneskja getur ekki skrifað aggresívar greinar eða barist fyrir rétti sinum. Siðleysið felst í því, eins og segir í bréfinu, að læknir sem ekki hefur óflekkað mannorð eins og krafist er í starfiðð skuli samt halda áfram í því.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.10.2007 kl. 22:39

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sigurður Þór. 

Ef maðurinn er sekur um að hafa eyðilagt líf annarrar manneskju og þar af leiðandi ófær um að vera yfirlækir - eins og þú heldur fram - hvers vegna er þá ekki hægt að færa rök fyrir því undir nafni? Ræða málið upphátt, rétt eins og þú ert að gera núna?

Hvað réttlætir nafnlausa aðför að þessum manni? Ef á annað borð rök eru fyrir því að hann geti ekki gegnt starfi yfirlæknis eftir það sem gerst hefur, hversvegna standa bréfritararnir þá ekki sjálfir með skoðun sinni (með því að rita nöfn sín undir bréfið)?

Því miður er það oft þannig að menn vilja hafa áhrif án þess að taka ábyrgð. Nafnlaus bréf eru af þeim toga. Þau eru ómarktæk - hafa ekkert vægi og mega aldrei fá neitt vægi. 

Sjálf er ég iðulega á varðbergi gagnvart samstöðu lækna þegar mistök þeirra eru til umræðu. Ég þekki hörmuleg dæmi um alvarlegar afleiðingar læknamistaka - og ætla ekki að missa mig út í þá umræðu hér. En nafnlaust bréf? Hvað á það að þýða? Er ekki hægt að færa rök í þessu máli og standa með skoðun sinni?

Þetta er ómarktæk aðgerð - og fullkomið hugleysi

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 24.10.2007 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband