Einelti gegn íþróttamanni

Sorglegt var að lesa um samsæri knattspyrnukvennanna í Landsbankadeildinni sem vísvitandi sniðgengu Margréti Láru Viðarsdóttur, við kosningu á leikmanni ársins. Með fullri virðingu fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur, sem þær ákváðu að velja leikmann ársins - þá er frammistaða þessara tveggja kvenna ekki sambærileg.

Fólk á að njóta árangurs af vel unnum verkum. En því miður er það stundum svo, í okkar litla samfélagi, að fólk sem skarar fram úr þarf að gjalda fyrir það með einelti og meinbægni. Það virðist sérstaklega eiga við um konur - svo sorglegt sem það er.

Þetta mál varpar ekki aðeins skugga á íþróttahreyfinguna. Það varpar skugga á konur sem samfélagshóp.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Það er hvassast á toppnum, það er alveg víst. Margar konur virðast eiga bágt með að þola velgengni kynsystra. Ég hef talið það veika sjálfsmynd þeirra kvenna sem þannig eru þenkjandi. Sem betur fer tel ég okkur vera að stíga upp úr þessu fari, en það gengur m j ö g  hægt.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 22.10.2007 kl. 05:07

2 Smámynd: Brynjar Hólm Bjarnason

Það er sorglegt að gamla máltækið: Konur eru konum verstar, skuli enn vera við líði.

Vonandi fer þetta að breytast.

Brynjar Hólm Bjarnason, 22.10.2007 kl. 07:24

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Ef sumar væru við sumar, eins og sumar eru við sumar, þá væri aldrei friður Sem betur fer er það nú  þannig að þó að sumar konur séu sumum konum
verstar  eru sumar konur sumum konum bestar  ...

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 22.10.2007 kl. 09:27

4 identicon

Afar leitt að fylgjast með þessu máli. En að merkja svona háttsemi konum sérstaklega þykir mér undarlegt. Flestar konur eru nebblega konum langbestar. Það er allavega mín reynsla af kynsystrum mínum - á þær er að treysta þegar á reynir.

Anna Sigrún Baldursdóttir (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 09:58

5 identicon

Ég hef spurt tvær knattspyrnukonur út í þetta og þær sögðust ekki hafa kosið Margréti Láru vegna þess að hún væri svo montin og merkileg með sig, en Hólmfríður er svo auðvitað líka frábær knattspyrnukona. 

Stefán (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 10:20

6 Smámynd: Skarfurinn

Skil ekki hvað er verið að gera úlfalda úr mýflugu, mátti fólk ekki kjósa eins og því sýndist eða hvað ? persónulega fannst mér þetta hið besta mál, Margrét fékk styttu fyrir markadrottningu og Hólmfríður aðra sem  besti leikmaðurinn, báðar vel að þessu komnar,  af hverju ætti að hlaða öllum bikurum á sama íþróttamanninn ?

Skarfurinn, 22.10.2007 kl. 11:07

7 identicon

Ef þetta er rétt, þá tek ég undir þetta mepð þér Ólína að þetta mál varpar skugga á íþróttahreyfinguna í heild sinni.
Það að þetta mál varpi skugga á konur sem samfélagshóp fæ ég ekki séð að gerist nema einhverjir einstaklingar fari að flokka það þannig. Eigum við þá ekki að flokka það líka eftir aldri, áhugamálum og fl............?
Ég er ekki búinn að setja mig mikið inn í þetta mál og efast um að ég geri það. Það er samt eitt sem ég stoppaði við í skrifunum hér að ofan sem mér finnst að Ólína þurfi að útskýra betur.
Þar skrifar Ólína með fullri virðingu fyrir Hólmfríði að frammistaða hennar og Margrétar Láru sé ekki sambærileg, án þess að útskýra það nánar.
Ég hef ekki neinar upplýsingar eða vitneskju um þessa hæfileikaríku knattspyrnukonur til þess að leggja dóm á það hvor hefði átt að fá þessa viðurkenningu. Getur þú útskýrt nánar fyrir mér Ólína, með allri virðingu fyrir íþróttahreyfingunni, Hólmfríði og Margréti Láru hvað það er sem ekki er sambærilegt við frammistöðu þeirra?

Með fyrirfram þökk.

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 11:28

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Sigurður.

Samanburð á frammistöðu þessara tveggtja kvenna má sjá á fotbolti.net

Hlutlægur mælikvarði á frammistöðu íþróttamanna er mælanleg frammistaða þeirra og slegin met (lengdin sem þeir stökkva, mörkin sem þeir skora, tíminn sem þeir ná á hlaupum o.s.frv.). Hjá knattspyrnumönnum gildir markatalan. Margrét Lára skoraði 38 mörk í 16 leikjum og setti markamet í efstu deild kvenna frá upphafi, bætti m.a. eigið markamet frá fyrra ári.  

Hólmfríður skoraði 15 mörk í 13 leikjum.  Hólmfríður er fyrirtaks íþróttakona, og þessari gagnrýni er ekki beint gegn henni - heldur þeim konum sem notuðu samtakamátt sinn til þess að útiloka framúrskarandi íþróttamann frá því að hljóta verðug verklaun fyrir afrek sín.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.10.2007 kl. 12:11

9 identicon

Leikmenn skora misjafnlega mikið eftir því hvar þeir leika á vellinum, þess vegna skora t.d. markverðir sjaldan. Margrét Lára leikur sem sóknarmaður með Val, en Hólmfríðður sem kantmaður með KR.

Stefán (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 13:35

10 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Það er sorglegt að horfa uppá þetta. 

Kvennaboltinn hefur beðið mikinn álitshnekki og íþróttahreyfingin öll.  Það er leitt ekki síst þegar meðbyr kvennaboltans var kominn á mjög gott skrið.

Í framhaldi af þessari uppákomu er nauðsynlegt að breyta framkvæmdinni á þessu vali, fyrirbyggja betur en nú er gert, að svonalagað geti komið upp aftur.

Marta B Helgadóttir, 22.10.2007 kl. 13:36

11 Smámynd: Kristján Magnús Arason

"...þær sögðust ekki hafa kosið Margréti Láru vegna þess að hún væri svo montin og merkileg með sig..."

Er þetta þá í raun vinsældakosning, en ekki kjör á besta leikmanni?

Annars er hæpið að bera saman skoruð mörk hjá Margréti Láru og Hólmfríði, þar sem Hólmfríður spilar á miðjunni og því eðlilegt að hún skori mun færri mörk.  Hins vegar þá var Hólmfríður ekki einu sinni kjörin leikmaður ársins hjá KR.  Hvernig getur hún þá verið leikmaður ársins í deildinni allri? 

Vitanlega er hverjum leikmanni frjálst að kjósa á hvern þann hátt sem þeir vilja en ef það er satt að þetta séu samantekin ráð, þá er það til háborinnar skammar fyrir deildina.  Svo boðar það ekki gott fyrir íslenska kvennalandsliðið, þar sem einhverjar af þessum konum spila væntanlega þar með Margréti Láru.  Ég á erfitt með að ímynda mér að það gæti verið góður liðsandi þar. 

Kristján Magnús Arason, 22.10.2007 kl. 13:41

12 identicon

"Hlutlægur mælikvarði á frammistöðu íþróttamanna er mælanleg frammistaða þeirra og slegin met (lengdin sem þeir stökkva, mörkin sem þeir skora, tíminn sem þeir ná á hlaupum o.s.frv.). Hjá knattspyrnumönnum gildir markatalan

 Skil þessa fullyrðingu hjá þér ekki.. þar sem varnarmenn hafa verið valdir sem besti leikmaður í heimi og besti leikmaður HM s.b Fabio Canavaro og ekki skorar hann mikið.

Mörkin eru ekki allt enda er jafnerfitt að leggja þau upp og að skora þau, eða hvað ?

Rúnar (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 15:13

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Allir held ég að hafi hér nokkuð til síns máls. Allra augu beinast að þeim sem skora mörkin. Við sem höfum ekki faglega þekkingu eigum þó að vita að liðsheildinni er skipt upp í hlutverk.

Til þess að markaskorarinn fá tækifærin verður boltinn að berast til hans. Þar skiptir máli hvað vel gengur að draga vagninn. Markið er lokapunkturinn í sókninni.

Árni Gunnarsson, 22.10.2007 kl. 16:04

14 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Rifjast þá upp fyrir mér gömul saga sem ég heyrði þegar ég var barn. Þannig var að velja átti þjóðsöng Íslendinga og áttu menn að senda inn tillögur sínar undir dulnefni.   Nefndarmenn völdu þann sem við höfum í dag vegna þess að þeir voru  "alveg vissir um" að þetta væri höfundurinn sem þeim var þóknanlegur, ekki afþví að lagið væri það besta. Annað kom á daginn og hafa menn skipst á skoðunum um þjóðsönginn okkar síðan og sýnist sitt hverjum.

Ásdís Sigurðardóttir, 22.10.2007 kl. 16:35

15 Smámynd: Atli Hermannsson.

Ég ætla ekki að tjá mig um munin á þessum ágætu knattspyrnukonum. Heldur aðeins að öllum þessum mörkum sem stundum eru skoruð í leikjum í kvennaknattspyrnunni. Því ég set stórt spurningamerki við það hversu mikil háttpríði það er, eða hversu mikill íþróttaandi er því fylgjandi þegar bestu liðin eru að niðurlægja þau lökustu kannski 12 -0. Í raun finnst mér þetta svartur blettur á kvennaboltanum. Þeim bestu dettur ekki til hugar að draga aðeins af sér á móti þeim lökustu - heldur þvert á móti. Þær hamast eins og geðveikar allt til loka leiksins þó það sé 10 marka munur. Þetta sér maður bara ekki í karlaboltanum... ekki einu sinni í leikjum þeirra bestu í bikarleikjum gegn óþekktum liðum á landsbyggðinni .   

Atli Hermannsson., 22.10.2007 kl. 17:00

16 identicon

Alltaf gaman að sjá hvað fólk getur haft sterkar skoðanir :D en ég er sammála fyrsta ræðumanni um að jú það er kalt á toppnum... ef til vill hafa aðrir leikmenn verið orðnir þreyttir að sama stúlkan fái alltaf verðlaun en það hlýtur hver einasti fótboltaáhorfandi og íþróttaunnandi að sjá (með allri virðingu fyrir Hólmfríði) að Margrét Lára er augljóslega LANGbesta knattspyrnukona Íslands í ár ef ekki frá upphafi og ég vil bara persónulega taka ofan fyrir henni, því að auki að vera besta knattspyrnukonan hlýtur hún að þurfa að hafa ansi harðan skráp til að þola það að vera best því öfundin er alltaf skammt undan eins og dæmi gefa. Einnig vil ég taka ofan af fyrir Hólmfríði - örugglega ekki auðvelt að heyra það dregið í efa í fjölmiðlum að vera best þegar maður hefur fengið slíka viðurkenningu.

Hildur Sólveig (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 18:34

17 Smámynd: Kristján Magnús Arason

Atli, ekki held ég að þetta sé vegna þess að konurnar séu eitthvað óheiðarlegri en karlarnir.  Ég er nokkuð viss um að karlarnir myndu gera þetta líka ef þeir gætu.  Málið er bara að það er miklu minni breidd í kvennaboltanum en hjá körlunum.  Þær fáu sem eru nógu góðar safnast síðan í fáein lið þar sem þær vilja keppa um Íslandsmeistaratitil.  Þó á ég von á því að þetta ástand batni því það er fullt af ungum og efnilegum stúlkum á leiðinni og það mun auka fjölda þeirra liða sem verða að einhverju leyti samkeppnishæf.

Kristján Magnús Arason, 22.10.2007 kl. 18:50

18 identicon

Takk fyrir svarið, Ólína.

Miðað við innihald svarsins þá sé ég ekki betur en að við séum álíka lítið/illa upplýst í þessu máli. Það lítið/illa upplýst að hreinlega ættum við ekki að vera tjá okkur um þetta nema afla okkur meiri/betri upplýsinga.

Sjálfur er ég ekki mikill íþróttamaður en ég á börn sem eru á kafi í íþróttum, m.a. fótbolta. Þegar þau vinna til verðlauna eða viðurkenningar þá er það vegna þess að þau hafa staðið sig vel og bætt persónulegan árangur sinn með liðinu eða hópnum og skarað fram úr. Þessi verðlaun og viðurkenningar eiga að vera hvatning til að gera betur.

Íþróttamenn og konur eiga ekki að þurfa að sitja undir því að einstaklingar sem ekki hafa kunnáttu til, komi fram með köllum og hrópum um að þessi hefði ekki átt að vinna heldur hinn vegna þess að.......................!!!

Hvaðan svo sem það er sprottið varðandi meint samsæri (sem Ólína kýs því miður að kalla einelti) þá er mjög mikilvægt að þeir fjölmiðlar sem hafa fjallað um þetta hvað mest dragi nú eitthvað fram annað en kjaftagang.

Ég tek það fram að ég er algjörlega hlutlaus hvað varðar valið á þessum frábæru íþróttakonum en kýs það að leyfa Hólmfríði að njóta viðurkenningarinnar og óska henni til hamingju og vona að hún njóti.

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 21:41

19 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll aftur Sigurður.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt. Gagnrýni minni er ekki beint að Hólmfríði - hún er góð íþróttakona. Gagnrýni mín beinist að þeim konum sem bundust samtökum um að sniðganga frábæra frammistöðu Margrétar Láru Viðarsdóttur, og hindra þar með að hún hlyti verðskuldaða viðurkenningu fyrir sín afrek. Um leið er Hólmfríði lítill greiði gerður með því að taka við verðlaunum undir þessum kringumstæðum, því hún var ekki einu sinni valin besti leikmaður síns félags - eins og fram er komið.

Ég veit ekki hvað þú vilt að ég upplýsi þig um nánar varðandi frammistöðu þessara tveggja kvenna. Mér finnst þú eigir að kynna þér það sjálfur, og ég hef m.a. bent þér á eina fótboltasíðu þar sem það er hægt. Þú segist vera hlutlaus í málinu - hlutleysi er engin dyggð.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.10.2007 kl. 22:03

20 identicon

hvað er meinbægni?

GG (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 22:04

21 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Meinbægni er það að vilja ýta einhverjum til hliðar - yfirgangur - meinsemi (Orðabók menningarsjóðs).

Fólki hefur orðið tíðrætt hér um liðsheildina. Rétt er það að markatalan sjálf segir auðvitað ekki alla sögu. Vitanlega þarf að leggja mörkin upp og liðsheild skiptir máli þar sem fótbolti er ekki einstaklingsíþrótt. Ég tek undir það.

En val á leikmanni ársins er ekki vinsældakosning - það er viðurkenning á frammistöðu. Og ég held að enginn geti með góðri samvisku haldið því fram að Margrét Lára hafi ekki sýnt frábæra frammistöðu í fótboltanum undanfarið ár. Hún verðskuldaði þessa viðurkenningu - en fékk hana ekki. Vegna þess að hún var sniðgengin af kynsystrum sínum. Hún varð fyrir meinbægni, í þess orðs fyllstu merkingu.

Vei, slíkri "liðsheild" sem þar kom fram.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.10.2007 kl. 22:32

22 Smámynd: Arnfinnur Bragason

Ég eiginlega vorkenni þeim báðum Hólmfríði og Margréti Láru. Ef kosningin hefur ekki snúist um besta leikmanninn heldur eitthvað allt annað, er þetta auðvitað ljótur blettur á titlinum"Besti leikmaðurinn"

Flestir virðast á því að Margrét sé sú besta en Hólfríður sem kosin er sé ekki best heldur vinsælli en Margrét.

Ekki skemmtileg stað sem stúlkurnar eru í.

Arnfinnur Bragason, 22.10.2007 kl. 23:27

23 identicon

Frá því ég heyrði fyrst af þessu máli hefur mér sýnst þetta rakið dæmi um ákveðna tegund af einelti sem stelpur beita frekar en strákar. Þarna bindast stelpur samtökum um að setja ákveðna stelpu út í horn, senda henni þau skilaboð án orða að hún sé fyrirlitin af hópnum. Strákar nota þessa tegund af einelti mun minna. Þeir beita frekar ofbeldi eða ljótum, niðrandi orðum. Mér finnst það alveg skelfilega dapurlegt að íþróttakonur í hópíþrótt skuli verða uppvísar að svona. Mér sýnist á því sem komið hefur fram að þetta sé hreint enginn uppspuni. EN ég er algjörlega ósammála því að konur séu konum verstar. Þetta virðist ætla að verða alveg ótrúlega lífseig mýta. Konur fara kannski öðru vísi að þegar þær sýna sínar verstu hliðar en þær skaða karla ekkert minna en konur ef þær ætla sér það.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 00:19

24 Smámynd: Kristján Magnús Arason

Jóhann, það er ekki rétt hjá þér að Margrét Lára myndi (ef svo færi) verða fyrst kvenna til að vera kjörin íþróttamaður ársins.  Þrjár konur hafa verið sæmdar þeirri nafnbót hingað til:  Sigríður Sigurðardóttir (1964, handknattleikur), Ragnheiður Runólfsdóttir (1991, sund) og Vala Flosadóttir (2000, frjálsíþróttir).

Kristján Magnús Arason, 23.10.2007 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband