Íslenska fyrir Íslendinga

Eiga Íslendingar rétt á því að töluð sé íslenska í verslunum og þjónustustofnunum á Íslandi? Um þetta ræddu þau Mörður Árnason og Sigríður Andersen í Kastljósinu í gær.

Var helst á Sigríði að skilja að auðvitað ættu menn engan rétt á neinu svona almennt og yfirleitt. Að minnsta kosti væri ekki sjálfsagt að þeir sem hingað flytja erlendis frá fengju íslenskukennslu á kostnað samfélagsins, enda væri það ekki til siðs í nágrannalöndum okkar.

Þetta er ekki allskostar rétt hjá Sigríði.

Nú veit ég ekki hvernig ástandið er í öllum nágrannalöndum okkar - en ég veit a.m.k. hvernig var fyrir mig og fjölskylduna að flytja til Danmerkur árið 1996. Þar gafst börnunum mínum kostur á sérkennslu í dönsku um leið og skóli hófst um haustið. Þau voru höfð í sérkennslu 6 klst á dag, eða þar til þau voru fær um að setjast í almennan bekk, nokkrum vikum síðar, þá flugmælt á dönsku öllsömul.

Sjálf var ég í doktorsnámi við Kaupmannahafnarháskóla. Um leið og ég skráðist inn í skólann var mér gefinn kostur á þriggja vikna dönskunámskeiði - 8 klst á dag, takk fyrir! Þetta þáði ég - borgaði aldrei krónu - en kom altalandi á götuna eftir þessa meðhöndlun.

Þessar móttökur voru til fyrirmyndar - og af þeim mættu Íslendingar læra, því það er af og frá að hér á landi sé nægilega vel staðið að íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Það þekki ég vel, hafandi verið skólameistari úti á landi og sett þar upp sérstaka nýbúanámsbraut til þess að bæta úr brýnum skorti á menntunarúrræðum fyrir nýja Íslendinga á landsbyggðinni.

 Auðvitað eiga Íslendingar rétt á því að töluð sé íslenska í verslunum og þjónustustofnunum. Að sjálfsögðu. Og það á að vera okkur metnaðarmál að búa þannig um hnútana að aðlögun innflytjenda gangi fljótt og vel. Það er engin goðgá að samfélagið sjái um þá hlið málsins - það er jú í samfélagslega þágu að brúa bilið milli innflytjandans og viðtökulandsins sem fyrst.

Atvinnurekendur með metnað eiga síðan að bæta um betur gagnvart því starfsfólki sem kemur erlendis frá - hvort sem um er að ræða störf í byggingarvöruverslun, pípulagningafyrirtæki, ræstingaþjónustu eða á sjúkrahúsi.

Umræðan um tvítyngda stjórnsýslu er angi af þessu. Auðvitað á stjórnsýslan að vera í stakk búin til þess að veita upplýsingar á ensku, þýða eyðublöð og þessháttar. En í öllum bænum, förum ekki að missa okkur í það að íslenska stjórnkerfinu beri skylda til þess að tala önnur tungumál en þjóðtunguna. Á sama hátt er ég lítt hrifin af þeim tiltektum háskólanna að kenna viðskipta- og stjórnunarfræði sín á ensku, eins og nú hefur tíðkast í nokkur ár.

Fyrir tíu árum sat ég tíma í stjórnunarfræðum í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, þar sem kennt var eftir þessari stefnu - þ.e. á ensku. Ekki veit ég hverjum var verið að þjóna. Að minnsta kosti rann mér til rifja að hlusta á misvel mælta kennara reyna að koma námsefninu til skila á öðru tungumáli en sínu eigin - í áheyrn tveggja útlendinga og um 40 Íslendinga sem sátu þessa tíma. Þetta var bara vandræðalegt - hreint út sagt. 

Ísland er lítið málsvæði - okkur ber að vernda tungumál okkar og viðhalda því, svo fagurt og sérstætt sem það er. Eitt er að kenna önnur tungumál svo fólk geti lesið erlendar námsbækur og tjáð sig við annarra þjóða fólk. Annað að innleiða framandi tungumál til þjónkunar við aðra en okkur sjálf. Það er eins og að lána Fríkirkjuna sem leikmynd fyrir guðlausa hjónavígslu, líkt og gerðist nýlega.

Stundum verðum við að draga mörk, bæði fyrir sjálf okkur sem aðra. Óttinn við þjóðrembu - eða trúarkreddustimpilinn má ekki verða svo mikill að við týnum sjálfum okkur. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Takk fyrir þetta, ég er allgerlega sammála þér í þessu . kv.

Georg Eiður Arnarson, 28.9.2007 kl. 10:58

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta er auðvitað frábær færsla hjá þér Ólína, eins og alltaf þegar þú tjáir þig.

Ég er sammála þér í stórum dráttum, þó ég hafi skrifað öfgakennda færslu um kröfur Íslendinga til útlendingana í láglaunastörfunum, sem halda þjóðfélaginu gangandi. 

Ég bjó og lærði í Svíþjóð og hlaut sömu þjónustu og þú í Danmörku.  Auðvitað er ekki hægt að gera kröfur til nýbúa á Íslandi um að þeir verði sér úti um íslenskukunnáttu, nánast á eigin vegum, í litlum frítíma sínum á eigin kostnað að mestu leyti.

Þessum málum verður að kippa í liðinn og þangað til verðum við að vera umburðarlynd.  Ábyrgðin er samfélagsins að búa almennilega í haginn fyrir nýja þegna sína.

Takk aftur fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.9.2007 kl. 11:14

3 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég sá ekki þennan þátt en myndi halda að tungumálakennslan væri lykilatriðið í aðlögun útlendinga sem ætla sér að setjast hérna að. 

Ef foreldrarnir eru fljótir að tileinka sér tungumálið njóta börnin þeirra líka góðs af. Ég veit um mörg tilvik þar sem börnin lenda í því að vera túlkar fyrir foreldra sína. Þau læra málið en foreldrarnir ekki. Það er mikil byrði fyrir barn sem sjálft er að aðlagast nýju landi, siðum og menningu að þurfa að túlka fyrir foreldra sína, fara með þeim milli stofnanna, til lækna osfrv. til að útskýra hvað það er sem foreldrið þarfnast og vill.

Það er aðeins ein leið til að tryggja að þeir sem flytja erlendis frá læri íslenskuna og það er að gera um það kröfu og greiða jafnframt fyrir kennsluna.

Kolbrún Baldursdóttir, 28.9.2007 kl. 11:14

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það er ekki hægt að halda upp kennsku fyrir alla útlendinga. Við erum að tala um mörg tungumál. Hvað danir gerðu er ekki sama og hvað þeir vilja gera í dag og eða gera. Við erum á góðri leið með að taka inn hundriðir þúsunda að innflytjendum svo reynum að passa okkur. Þeir tvö eða þrefaldast á hverju ári 15 Þ, 30/45 Þ 60/135 þ ég spyr hefir þjóðin ekki rétt á að vera íslensk þjóð. Heldur þú að stjórnmálamenn nýti sér ekki innflytjendur í næstu kostningum.

Valdimar Samúelsson, 28.9.2007 kl. 11:27

5 Smámynd: Matthildur B. Stefánsdóttir

Ég er sammála þér Ólína.  Við íslendingar þurfum að gæta þess að tína ekki íslenskunni eins og nágrannar okkar skotar týndu gelískunni.  Ég myndi líta á það sem sjálfsagðan hlut ef ég færi í nám til útlanda að læra mál landsins og varðandi fjármálastofnanir sem eru á alþjóðlegum markaði, þær fara að sjálfsögðu fram á það að starfsmenn þeirra séu enskumælandi, en að íslenska verði opinbert mál í íslenskum fyrirtækjum og jafnvel háskólum finnst mér fulllangt gengið.  Það hefur stundum verið gert grín að því að Akureyringar hafi talað dönsku til spari hér á árum áður, er þetta ekki bara sambærilegt?

Matthildur B. Stefánsdóttir, 28.9.2007 kl. 11:56

6 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Takk fyrir þetta Ólína,ég horfði á þennan þátt og það sem vakti mest furðu mína voru þessi ummæli Sigríðar að menn ættu engan rétt,ég tel samt að ég eigi rétt á að fá þjónustu á íslensku hvað sem lögfræðingnum finnst um það.Og við verðum að horfast í augu við það þar sem við erum að flytja inn erlent vinnuafl að útlendingar verða að hafa aðgang að góðri íslenskukennslu þeim mun meiri líkur eru á því að þeir samlagist þjóðfélaginu og verði nothæf atkvæði stórnmálamanna í framtíðinni.Ég ítreka mótmæli mín gagnvart því að ég eigi engan rétt í eigin landi

Ari Guðmar Hallgrímsson, 28.9.2007 kl. 12:01

7 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Já ég er alveg sammála Ólina og þetta þurfum við að læra........vel á minnst djöf. var ég ánægður með þig um árið í sambandi við böllin hjá MÍ.......Var nefnilega í Foreldrafélagi ME og vitnaði stundum í það sem þú varst að gera.

Einar Bragi Bragason., 28.9.2007 kl. 12:03

8 identicon

Sæl og bless, Ólína. Á reyndar eftir að horfa á þáttinn en ég þakka þér fyrir þessa færslu. Löngu tímabært að fara að tala um þessa hluti af einhverju viti og viðurkenna það fyrir okkur sjálfum að við viljum halda í okkar fallega tungumál.

Bryndís Þráinsdóttir (IP-tala skráð) 28.9.2007 kl. 15:47

9 identicon

Mér sýnast þessi dæmi af dönskukennslunni vera frekar óalmenn. Þ.e. hér er um að ræða dönskukennslu í skólakerfinu fyrir börn sem eru í því, og síðan dönskukennsla á vegum háskóla.

Ekki fá allir sem koma til Danmerkur sem innflytjendur ókeypis dönskukennslu, eða hvað?

Slík kennsla hlýtur að vera dýr og ekki er ég viss um að hún skili sér þegar nemendurnir sjái ekki í hendi sér verðmæti hennar. Hinsvegar þætti mér sniðugt ef upp væru tekin samræmd íslenskupróf með stigakerfi fyrir útlendinga. Þá gætu menn auðveldlega mælt íslenskukunnáttu innflytjenda og t.d. sett kröfur um þekkingu fyrir tiltekin störf.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 28.9.2007 kl. 16:46

10 Smámynd: Ásta Björk Solis

Hey heyr

Ásta Björk Solis, 28.9.2007 kl. 17:00

11 identicon

Sælar Olina

Eg vil benda å einfalda lausn å thessu vandamåli - fylgja fordæmi frænda vorra Nordmanna.  Thegar vid komum hingad til Noregs, alveg mållaus, tøludu allir bara norsku vid okkur ( og adra utlendinga ), thannig ad ef vid ætludum ad komast af, thå URDUM VID AD LÆRA MÅLID !  Thad var mjøg erfitt fyrsta  1 1/2 årid, en svo for thetta ad allt ad koma.  Nordmenn bjoda upp å okeypis norskukursa, en thetta er langbesta adferdin til ad læra nytt mål - thu ert thvingadur til ad læra målid ! :)  Islendingar eru alltof fljotir ad gripa til enskunnar, hættid thvi og talid bara islensku.  Utlendingarnir eiga eftir ad thakka okkur fyrir.

Þórarinn Jóhann Jónsson (IP-tala skráð) 28.9.2007 kl. 18:48

12 Smámynd: Linda

Takk fyrir þessa frábæru færslu, ég er þér alveg sammála.  Varðandi Dani og kennslu á dönsku fyrir nýbúa, bróðurdóttir mín flutti út með sína fjölskildu fyrir ári síðan, þau fóru öll í skildu dönsku kennslu, stelpurnar fór í skóla fyrir útlendinga og lærðu dönsku og eru komnar í almennan danskan skóla, móðir þeirra fékk líka hörku kennslu og talar núna dönsku betur enn nokkru sinni fyrr.  Íslenska fyrir útlendinga, takk fyrir. 

Linda, 28.9.2007 kl. 19:32

13 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Heyr heyr

Marta B Helgadóttir, 29.9.2007 kl. 01:44

14 Smámynd: Haukur Viðar

Mér finnst ég verða koma inn á einn punkt, sem er sá að það er nú frekar langt frá því að vera sambærilegt, Íslendingar sem læra dönsku annars vegar, og hins vegar margir þeirra útlendinga sem hingað koma. Margir þeirra eru frá Asíu, Póllandi, Portúgal o.s.frv. og munurinn á þeirra máli og okkar er mun meiri en munurinn á íslensku og t.d. dönsku eða norsku.

Ég get fallist á það að aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi og menningu sé bráðnauðsynlegur, en ekki síður er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að aðlagast. Að aðlagast því fjölþjóðlega samfélagi sem er hér að myndast, og að ekki skilja allir íslensku. 

Það er einfaldlega ekki hægt að ætlast til þess að hingað flytji úlendingar í þeim mæli sem þeir gera, en að samfélagið haldist óbreytt. Ég fagna því að þurfa stundum að grípa til enskunnar og/eða að þurfa að gera mig skiljanlegan með öðru en íslenskum orðum, eða orðum yfir höfuð. Svo ég leyfi mér að sletta, þá lít ég á það sem ákveðið "challenge" og áminningu um að það eru til fleiri leiðir til snúðakaupa en "Ég ætla að fá einn snúð!".

Haukur Viðar, 29.9.2007 kl. 02:38

15 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Þakka þér fyrir þessa umræðu Ólína,hún er þörf.Hvað varðar útlendinga hér á landi þá verðum við að fara að horfa raunsæjum augum á staðreyndir málsins.Hingað til lands koma 2 hópar af útlendingum,þeir sem koma til að vinna og ætla sér ekki að vera hér þar af leiðandi læra þeir ekki málið og hafa ekki hug á því þeir eru bara að safna peningum til að senda heim til síns heimalands,síðan er hinn hópurinn sem ætla sér að vera hér til frambúðar,þetta er sá hópur sem við þurfum að hlúa að og hjálpa því þeir sýna það í verki að þeir vilja læra málið  og okkar menningu,þetta er sá hópur sem verða Íslendingar í framtíðinni.En hvað varðar íslensku í verslunum,þá hef ég tekið eftir að þeir sem fylla vörur upp í hillur eru íslendingar,væri ekki hægt að láta útlendingana gera þessi ver á meðan þeir eru að aðlagast.

María Anna P Kristjánsdóttir, 29.9.2007 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband