Batnandi mönnum er best að lifa

beahÞað er undarlegt til þess að hugsa, að ungi, fallegi maðurinn sem ég var að hlusta á í hádeginu í dag skuli hafa svo mörg mannslíf á samviskunni að hann hefur ekki sjálfur á þeim tölu.  Að Ishmael Beah, þessi geðþekki, skynsami og ritfæri, ungi maður, skuli hafa líflátið fólk með æðarnar fullar af eiturlyfjum, andlega aðframkominn og gjörsneyddur mannlegum tilfinningum - eins og hann lýsir því sjálfur. Herdrengurinn, einn af mörgþúsund börnum sem lent hafa í sömu sporum, þ.e. að vera tekin, heilaþvegin og þjálfuð með aðstoð eiturlyfja til ómennsku og athafna sem kennd eru við hermennsku.

Það var í senn átakanlegt og gleðiefni að hafa þennan dreng fyrir augunum. Hlusta á hann tala af yfirvegun og skynsemi um þessa ótrúlegu reynslu.

Ishmael er sjálfur lifandi dæmi þess að öllum er viðbjargandi. Jafnvel barn sem virðist hafa verið gjörsneytt sakleysi sínu og mennsku í brjálæði stríðsathafna á sér viðreisnar von - því einhvers staðar undir niðri leynist löngun til mannlegs lífs, mannlegrar reisnar, samviska - kærleikur. Og það var svo sannarlega kærleikur sem bjargaði þessu barni - öðruvísi hefði það glatast heiminum fyrir fullt og allt.

 

Ishmael Beah er einn af þeim fjölmörgu börnum sem á Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna líf að launa. Samtökin UNICEF hafa unnið ómetanlegt starf fyrir heimsbyggðina, eins og sannast ekki síst á þessum dreng sem gegn vilja sínum var tekinn úr herbúðunum og komið í fóstur og kostaður til mennta - hreinsaður af eiturlyfjum og studdur til nýs lífs. Leiddur til lífsins, í orðsins fyllstu merkingu.

Hann er gleðilegur vitnisburður um það að "batnandi mönnum er best að lifa".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að sjá að þessi bók er komin út á íslensku. Hefði gjarnan viljað fá tækifæri til að hlusta á Ishmael. Las þessa bók á ensku í haust og fannst þetta mjög mögnuð saga (skrifaði þá þessa færslu).

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 19:26

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Ætli honum myndi nokkuð muna um einn til viðbótar ef svo bæri undir ? Saddam Hussein var líka fríður maður og föngulegur og gerði margt gott fyrir þjóð sína líka. Var Hitler ekki líka myndarmaður ? Hefðum við Íslendingar kannske getað endurhæft þessa menn  ?

Halldór Jónsson, 27.9.2007 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband