Olíuhreinsunarstöð - framtíð fyrir hvern?

arnarfjordur Olía er eldfimt efni - olíuhreinsunarstöð er álíka eldfimt umræðuefni. Það sannast á athugasemdakerfinu hjá mér eftir daginn í dag.

Ég er hrædd um að menn sjáist ekki fyrir í þessu máli - að hinn meinti ágóði fyrir samfélagið í heild verði einhvern veginn mun takmarkaðri og "öðruvísi" en menn töldu í upphafi. Og áður en menn ná almennilegum áttum verður komið reykspúandi ferlíki ofan í einn fegursta fjörð Vestfjarðakjálkans  - af því menn treystu sér ekki, í erfiðu árferði, til þess að taka af skarið og segja NEI TAKK!

Einn bloggarinn orðaði það þannig í athugasemd hjá mér fyrr í dag:  "Gerðu mann nógu svangan og hann mun eta það sem þú réttir honum!" Ég er hrædd um að einmitt sú staða sé uppi núna. Menn eru tilbúnir að taka hverju sem er - taka við tálsýninni í von um að hún leysi einhvern vanda. Um leið er framtíðarhagsmunum fórnað fyrir skammtímahagsmuni.

Arnarfjordur2 Fyrr í sumar varpaði ég fram sjö spurningum sem ég vil biðja Vestfirðinga - þá sem hér búa NÚNA - að spyrja sjálfa sig, og helst að svara:

1) Er þetta framtíðartækifæri fyrir mig eða börnin mín?
2) Mun þetta freista unga fólksins sem nú er að fara utan til náms til að koma aftur að því loknu?
3) Mun olíuhreinsunarstöð bæta mannlíf á Vestfjörðum?
4) Mun hún laða atgervi inn á svæðið?
5) Mun hún fegra umhverfið? 
6) Mun hún auka möguleika okkar á öðrum sviðum og styðja við aðrar atvinnugreinar á svæðinu?
7) Munu Vestfirðingar njóta arðsins af starfsemi stöðvarinnar?

Sjálf get ég ekki svarað neinni þessara spurninga játandi - þvert á móti óttast ég að fórnirnar sem færa þarf verði umtalsvert meiri en hinn ætlaði ávinningur:

1) Ég þekki engan sem sér tækifæri eða framtíðarmöguleika fyrir sjálfan sig eða börn sín þessari olíuhreinsunarstöð.
2) Enginn sem ég hef rætt við telur að starf í olíuhreinsunarstöð muni freista ungs fólks að námi loknu, að koma heim aftur.
3) Olíuhreinsunarstöð myndi væntanlega þurfa á innfluttu vinnuafli að halda, líkt og Kárahnjúkavirkjun. En það er líka viðbúið að hún muni soga til sín mörg störf úr stoðkerfinu hér vestra. Stöðin mun því ekki koma sem blómstrandi viðbót heldur sem n.k. æxli sem sogar til sín mannafla sem samfélagið má síst við að missa úr öðrum störfum.
4) Olíuhreinsunarstöð mun því ekki laða atgervi inn á svæðið.
5) Stöð sem þessi þarf að koma frá sér mengun og úrgangi sem enn er ekki útséð með hvert muni lenda, en þar er einungis um þrennt að ræða: Hafið (uppsprettu fiskveiða okkar og fiskeldis), loftið (hina blátæru ímynd norðursins) eða jarðveginn (uppsprettu vatns og landsgæða).
6) Mengun sú sem fylgir olíuhreinsunarstöð mun ógna stöðu okkar og ímynd á ýmsum sviðum. Augljósasta ógnin snýr að fiskveiðum og ferðamennsku - en á báðum þeim sviðum hefur landið verið markaðssett sem náttúruperla. Hætt er við að menn geti gleymt möguleikum á vatnsútflutningi frá Vestfjörðum ef þetta verður að veruleika. 
7) Stöðin verður ekki í eigu Vestfirðinga, þannig að varla kemur arðurinn af henni inn í vestfirskt samfélag. Hún mun vissulega greiða aðstöðugjöld, en um leið mun hún líka krefjast mikillar aðstöðu, frálagna og aðfangaleiða af stærðargráðu sem líklega hefur aldrei sést hér áður.

Dynjandi Ég vildi óska að menn hættu að hugsa um þetta og sneru sér að einhverju sem hefur raunverulega uppbyggingu í för með sér: Háskóla, framsókn í ferðaþjónustu, menningarstarf, frumkvöðlastarf, vatnsframleiðslu, matvælaiðnað - m.ö.o. framþróun og tækifæri fyrir okkur sem hér búum og börnin okkar. Eitthvað sem við getum glatt okkur við að hlúa að til framtíðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

1. Hugsanlega, ef barnið þitt verður verkfr., tæknifr., rafvirki, píoulagningamaður, smiður, skrifstofumaður, o.s.fr.v.

2. Að sjálfsögðu, ef það hefur á annað borð áhuga á að eiga heima á svæðinu.

3. Ekki endilega en oft því fleiri, því betra og fjölbreyttara. Stundum fylgja félagsleg vandamál fólksfjölgun en þá er fjölmennara samfélag líka betur í stakk búið til þess að taka á slíkum vandamálum, þ.e. betri félagsleg þjónusta.

4. Já, samanber ofangreint

5. ??? halló

6. Að sjálfsögðu, uppbygging á einu sviði styður gjarnan annað. Markaður, þjónusta og fjölbreytni á erfitt með að þrífast í fámenni, segir sig sjálft

7. ??? bjánalega spurt

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.8.2007 kl. 01:33

2 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Ólína. Notar þú ekki bensín á bílinn þinn? Er enginn í þínu umhverfi sem notar
bensín eða olíu, eða vöru unna úr olíu?

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 18.8.2007 kl. 01:42

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

3) Olíuhreinsunarstöð myndi væntanlega þurfa á innfluttu vinnuafli að halda, líkt og Kárahnjúkavirkjun. En það er líka viðbúið að hún muni soga til sín mörg störf úr stoðkerfinu hér vestra. Stöðin mun því ekki koma sem blómstrandi viðbót heldur sem n.k. æxli sem sogar til sín mannafla sem samfélagið má síst við að missa úr öðrum störfum.

Þarna ertu að rugla saman tímabundnu risaverkefni á austurlandi, sem ekki reyndist unnt að manna með íslensku vinnuafli og traustu og öruggu langtímalifibrauði sem rekstur olíuhreinsunarstöðvarinnar mun verða. Á Reyðarfirði er um 400 bein störf við álverið að ræða sem ekki hefur verið vandamál að fá Íslendinga í, auk 4-500 afleiddra starfa, en bygging áversins hefur að mestu verið framkvæmd af innfluttu vinnuafli. Öll þau umsvif hafa hins vegar skilað miklu í ríkissjóð.

 Fyrirtæki á austurlandi eru vissulega í harðri samkeppni um vinnuafl við álverið, en er það slæmt? Austurland hefur hingað til verið láglaunasvæði en nú er það að breytast, þökk sé álverinu. Atgerfi hefur laðast að svæðinu í stórum stíl og ekki síst í óbeinu störfunum, s.s. í bættri heilbrigðisþjónustu, fleiri menntuðum kennurum´o.fl.

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.8.2007 kl. 01:53

4 identicon

Svör við spurningum:

1: Er barnlaus (að ég best veit), hvað sjálfan mig varðar; já, hugsanlega.

2: Já, örugglega einhverra.  Annarra ekki.

3: Já, en þó öllu frekar fólkið sem myndi vinna þar.

4: Já.

5: Nei, varla.

6: Já og nei. Gæti vel styrkt ýmsar atvinnugreinar á svæðinu, en takmarkað starfsemi annara í næsta nágrenni sínu, t.d. matvælavinnslu.  En ekki á öllum Vestfjörðum eins og þú segir, Ólína, um vatnsútflutninginn.  Ég sé ekki að hugsanl. staðsetning olíuhreinsistöðvar í Hvestudal Arnarfirði útiloki vatnsúflutning frá Ísafirði.  Eða olíuhreinsistöð í Sandalandi í Dýrafirði útiloki vatnsútflutning frá Patreksfirði, Hólmavík eða Reykhólum.  Vestfjarðakjálkinn er nokkuð stór.

7: Já. Vitanlega ekki alls arðsins, en einhvers.  Landeigandi/ur munu selja/leigja land, væntanlegt starfsfólk greiða útsvar til síns sveitarfélags, gef mér það að meirihluti starfsfólks muni búa á Vestfjörðum.  Öll afleiddu störfin.....auðvitað munu Vestfirðingar njóta einhvers arðs af þessu, ef af verður.  "Hún mun vissulega greiða aðstöðugjöld, en um leið mun hún líka krefjast mikillar aðstöðu, frálagna og aðfangaleiða af stærðargráðu sem líklega hefur aldrei sést hér áður."  Hér vitna ég í þitt eigið svar við 7. spurningu.  Þegar þú segir aðfangaleiðir, gef ég mér að þú sért að tala um samgöngur; vegi, flug, jafnvel sjó. Bættar samgöngur koma öllum til góða, góður arður það.

Góðar stundir.

Eggert Stefánsson (IP-tala skráð) 18.8.2007 kl. 10:47

5 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Varðandi vangaveltur um olíuhreinsistöð í Arnarfirði: 

Stærðargráðan á apparatinu gæti einmitt verulega valdið því að eitthvað mótægi skapaðist við fólksflóttann frá Fjörðunum.  Þetta býður upp á að annað atvinnulíf fái að blómstra; þjónustugeirinn eins og hann leggur sig. 

Þar sem ég er brottfluttur mun ég ekki svara þessum spurningum sem þú leggur fram; eiga þó fyllilega rétt á sér.  Það er með öðrum orðum erfitt að fá eitthvað án þess að koma því í verk sjálfur.  Á Patreksfirði urðu menn að leggja út fyrir megninu af sendi sjálfir til að fá að greiða fyrir afnotagjöld og geta horft á Enskan fótbolta.  Svo lítill er áhugi almennt á að koma upp tengineti við byggðina.

Matvaraer virkilega dýr, það aka margir norður í þína heimabyggð til að versla af suðurfjörðunum þegar fært er landleiðina.  Segir ýmislegt að leggja á sig 3 tíma krók til að versla í gæðaversluninni Bónus. 

Þarf að skoðast af yfirvegun en ekki bara með fagurfræðina að leiðarljósi.

Olíuhreinsistöð kallar á samgöngubót

Samgöngur einmitt hafa verulega skert möguleika Vestfirðinga á að laða til sín ferðafólk.  Hefur þó batnað í seinnitíð.  En ekki bara hægt að bjóða upp á aðstöðu fyrir ferðafólk, það hafa ekki einasta allir burði til þess að skapa sér slík atvinnutæki.

Á minnstu stöðunum hafa olíufélög ekki einasta sýnt sóma sinn í að þjónusta svæðin nógu vel.  Það þarf sem sé að hugsa verulega um stöðuna á bensíntanknum áður en ekið er vestur.  Símasamband (annað en með snúru) hefur ekki verið neinum til sóma, áhugaleysi þvílíkt að hálfa væri nóg til að skammast.  Balti þarf að filma eina mynd svo eitthvað gerist, mannslíf sem tapast hafa ekkert að segja með að koma á síma.  Erfitt að hengja einhvern eftir að síminn varð í eigu annarra en ríkis. 

Útvarp næst með dyntum, þó ekki nema afskaplega einsleitt og valsnautt, enda útheimtir það einhvern sendi sem þarf að þjónusta og fylgjast með, gæti kostað pening umfram hagnað af svæðinu. 

Sem fyrrum íbúi með fólk mitt á svæðinu kemur fyrir að ég aki vestur (að sunnan).  Get ekki sé ástæðu nema í neyð til að skröltast þetta með ferjunni, þó endurnýjuð hafi verið.  Þrátt fyrir að hafa getað boðið sjálfum mér upp á að starfa sem sjómaður einhver ár hef ég ekki í mér að bjóða familíunni upp á sjóveiki til að komast milli staða, ef hægt að komast hjá því.

Verði ekkert alvarlegt að gert deyr þetta litla samfélag á Suðurfjörðunum drottni sínum, engum til góðs.

Þá geta menn keypt restina til skemmtunar og sumardvalar í nánast óskertri náttúru, fyrir nánast ekki neitt.  Hinir sem byggðu svæðið verða brottfluttir og geta notið þess að eiga myndir af náttúrunni og ornað sér við að hafa einu sinni búið það og sagt með sanni að hafa ekki tekið þátt í að breyta neinu áafturkræft.

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 18.8.2007 kl. 13:56

6 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Sæl Ólína. Má ég biðja þig að senda mér netfangið þitt vegna leshringsins. martahelga@gmail.com  Takk. Kveðja, Marta.

Marta B Helgadóttir, 18.8.2007 kl. 14:04

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl öllsömul og takk fyrir innlegg ykkar.

 Í raun hef ég litlu að bæta við það sem ég hef sagt nú þegar - enda búin að tappa af mesta móðnum. Mig langar bara rétt sísvona að svara þeim sem spyrja hvort ég noti ekki bensín á bílinn meinn eða vöru unnar úr olíu. Spurningin er ósanngjörn, því með henni er gefið í skyn að ef ég sé ekki beinlínis á móti nútíma lifnaðaraháttum þá sé ég ekkert of góð til að sætta mig við mengun og annað sem því fylgir - jafnvel taka hluta hennar á mig t.d. með því að sætta mig við olíuhreinsunarstöð í héraði.

Nú spyr ég Guðmund Jónas á móti: Hefur þú eitthvað á móti sorpvinnslu? Þarft þú ekki á henni að halda dags daglega? Og ef þú svarar játandi, hefur þú þá nokkuð á móti því þó sorpeyðingarstöð sé sett upp í götunni þinni?

Það er ekki hægt að stilla málum upp með þessum hætti.

Að lokum vil ég taka fram að ég virði sjónarmið þeirra sem vilja fá þessa olíuhreinsunarstöð - ég sé enga ástæðu til þess að gera lítið úr þeim eða ástæðum þeirra, og efast ekki um að þeir vilja vel. Ég er bara ekki sammála þeim - og þar við situr.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.8.2007 kl. 17:02

8 identicon

Gott hjá þér Ólína.  Alveg sammála þér.

álkjóinn (IP-tala skráð) 18.8.2007 kl. 18:08

9 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Þú ert orðin dálítið rómantísk í þessu öllu saman Ólína - svona eins og ljóðskáldin forðum. Það er spurning hvort að þú ættir ekki að skreppa til Moskvu og flytja Pútín drápuna góðu - hann stendur líklegast á bak við þetta allt saman - var jú í flugi yfir íslandi

Þorleifur Ágústsson, 18.8.2007 kl. 21:40

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er sérkennilegt að bera saman olíuhreinsistöð, einhverja kílómetra frá byggð og sorphreinsistöð í íbúagötu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.8.2007 kl. 21:44

11 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég veit að ég verð skammaður aftur fyrir endurunna rómantíkerinn í mér fyrir nýfarna ferð mína um æskustöðvakjálkann á bensíngleypandi Ford mínum, en ég hef meiri trú á því að fólkið þarna finni sér einhverja aðra iðju en að dúdda við einhverja olíuhreinsistöð.  Örugglega fullt af öðrum svæðum sem að henta betur fyrir slíka starfsemi en Hvesta.

En, það er bara mín skoðun.

S.

Steingrímur Helgason, 19.8.2007 kl. 03:00

12 identicon

Það þarf greinilega að setja "gagnrýna hugsun" á kennsluskrá.

Þangað til eru tilraunir til að snúa við skammsýni fávísra til lítils.

Kv. R

Ragnar T. Jónasson (IP-tala skráð) 19.8.2007 kl. 22:04

13 identicon

Eru Vestfirðingar alveg hættir að hugsa um fisk og allt sem hann gaf og getur gefið ?

Og eru Vestfirðingar alveg sáttir við fiskveiðistjórnurakerfið.

Er bara nóg að  settur sé fram svona " hókus pókus " og töframaðurinn dragi úr hatti sínum eitt stk olíuhreinsunarstöð til að draga athyglina frá hinum raunverulega vanda.

Það virðist sem fólkið hafi hlaupið á þann öngulinn  ...eða hvað ?

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 00:34

14 identicon

"Olíuhreinsunarstöð kallar á samgöngubót."

Ég vona að þetta sé ekki almennur hugsunarháttur Vestfirðinga, eða meta þeir sjálfa sig ekki meira en það? Eiga þeir ekki - hafandi greitt skatta og skyldur og það ríkulega - rétt til þess að hafa almennilegar samgöngur eins og annað siðað fólk í þessu landi, án þess til komi ólíuhreinsunarstöð? Þetta viðhorf er sami aumkunarverði hugsunarhátturinn og ég var alin upp við í hermanginu - fólk var farið að trúa því, enda hafði íhaldið prédikað það ítrekað - að flug til og frá landinu leggðist af ef ekki væri ameríski herinn.

Guðmundur (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 01:30

15 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég þakka þeim sem nú hafa komið inn með athugasemdir.

Sérstaklega vil ég taka undir með Sævari, Sigurði og Guðmundi. Eins og Guðmundur bendir á er svolítið raunalegt þegar menn tala eins og olíuhreinsunarstöð muni færa okkur Vestfirðingum allt sem vantar, þ.á.m. samgöngur og aðra þjónustubót.

Þessar samgöngur og sú þjónustubót sem um ræðir áttu að vera komnar hingað FYRIR LÖNGU,  óháð olíuhreinsunarstöðvum. Hér eru atvinnuvegir og mannlíf sem verðskulda aðstöðu, samgöngur og þjónustu sem er sambærileg við það sem gerist í öðrum landshlutum.

Það er lítilþægni að tengja þetta tvennt saman í umræðunni - eins og við Vestfirðingar eigum ekki að geta krafist þess að sitja við sama borð og aðrir landsmenn. Hvurslags er þetta eiginlega?

Við eigum ekki að þurfa olíuhreinsunarstöð til þess að fá hingað sjálfsagða hluti. Við greiðum okkar skatta hér fyrir vestan eins og annarsstaðar - og atvinnuvegirnir hér (ekki síst sjávarútvegurinn) leggja drjúgan skerf inn í þjóðarbúið, hvað sem öðru líður. Vestfirðingar eru ekkert ölmusufólk - og það er kominn tími til að menn átti sig á því!

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 21.8.2007 kl. 12:24

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er athyglisvert að sjá hver staða Vestfjarða er í hagvesti landsins. Á meðan hagvöxtur á Austurlandi 1999-2005 er 22%, er hann mínus 7% á Vestfjörðum.

Að sjálfsögðu eiga Vestfirðingar rétt á samgöngubótum eins og aðrir landsmenn en það er ekki eins og ekkert hafi verið gert. Á Vestfjörðum eru t.d. lengstu veggöng landsins en gera þarf enn betur. Með því að styðja við stórframkvæmdir á svæðinu ætti það um leið að greiða fyrir hraðari uppbyggingu á fleiri sviðum. En miðað við andstöðu manna á athugasemdasíðunn hér, og ef meirihluti Vestfirðinga er á móti þessu, þá verður það bara þannig. Þá er bara að finna eitthvað annað.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.8.2007 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband