Minningarbrot af stuttum kynnum

KristinnHallsson Margar ljúfar stundir höfum við Íslendingar átt með Kristni Hallssyni söngvara - svo oft hefur rödd hans ómað í eyrum okkar úr útvarpstækjum og af hljómplötum, dimm og þýð. 

Kristni Hallssyni kynntist ég lítillega fyrir 18 árum, þegar ég stjórnaði sjónvarps skemmtiþætti með honum og Guðmundi Jónssyni, söngbróður hans, á þrettánda degi jóla árið 1989. Mér eru þeir báðir sérstaklega minnisstæðir. Gamansamir og heillandi persónuleikar - lítillátir en öruggir, eins og allir sannir listamenn.

Í þessum sjónvarpsþætti ákváðu þeir félagarnir að koma mér á óvart með því að syngja til mín þekktan gamansöng með frumsömdum texta eftir þá sjálfa. Ég gleymi þeim aldrei þar sem þeir stóðu, þessir tveir glæsilegu heiðursmenn, klæddir í kjól og hvítt, og sungu mér kvæðið í beinni sjónvarpsútsendingu, eins og þeim einum var lagið. Þeir glöddu mig sannarlega - og tókst ætlunarverk sitt að koma mér í opna skjöldu.

Samband þeirra tveggja virtist vera eitthvað alveg sérstakt: Sambland af hlýju og gneistandi kímni. Annar hár og mikill á velli, hinn lávaxnari og þéttur fyrir. Þeir sögðu frá því glaðbeittir að þrátt fyrir stærðarmuninn væru þeir í raun jafn stórir, því þegar þeir tækju sæti þá snerust stærðarhlutföllin við. Kristinn væri nefnilega búklangur en Guðmundur kloflangur. Þetta sönnuðu þeir með því að standa hlið við hlið og taka sér svo sæti. Og mikið rétt!

Já, þetta voru stórir menn - í margvíslegri merkingu þess orðs.

Ég þakka Kristni Hallssyni þessi ljúfu og eftirminnilegu kynni. Þakka honum margar góðar stundir sem ég hef átt með honum við útvarpstækið bæði fyrr og síðar. Blessuð sé minning hans.


mbl.is Andlát: Kristinn Hallsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Ég man enn eftir þættinum og mér fannst góður og flottur söngurinn þegar þeir sungu áramótalögin. Þetta var skemmtilegasti sjónvarpsþáttur sem ég hef séð á afmælinu mínu. Kristinn Hallsson hefur fært okkur margar góðar stundir en nú er lífsverkinu lokið.

Heidi Strand, 31.7.2007 kl. 08:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband