Birtubrigði og borgarlíf

skammdegi  Þá er sumardaginn tekið að stytta á ný. Það er svolítið sérstök tilfinning þegar aftur fer að húma á kvöldin og götuljósin kvikna. Sjálf fæ ég alltaf einhvern fiðring þegar skyggja tekur - þá víkur náttúrubarnið innra með mér smám saman fyrir borgarbarninu.

Mér finnst haustið vera tími borgarlífs - á sama hátt og vorið og sumarið laða mann til fundar við náttúruna. Sé ég ekki stödd í borginni þegar húma tekur á kvöldin verður mér yfirleitt hugsað til hennar um það leyti. Og þó að haustið sé ekki beint á næsta leiti, þá hafa birtubrigðin kallað fram hjá mér hughrif í þessa átt. Sonnettan hér fyrir neðan er ort í þeim anda. 

 

Borg

 

Dökk ert þú borg í dvala hljóðra nátta,

dimmblár þinn himinn við spegilsvarta voga.

Á myrkum barmi ljósadjásn þín loga,

lýsandi veita sýn til margra átta.

 

Ætíð er svefn þinn ofinn þungum niði,

þó erillinn hjaðni kynlega þig dreymir.

Eirðarlaust líf um æðar þínar streymir.

Ung ertu og vökul, borg, í næturkliði.

 

Ungt rennur líka barna þinna blóð.

Brennandi óskum skuggar þínir svala.

Sorgir, þrár og söknuð kæfa gleðilæti.

 

Kynslóðir fara og koma þína slóð,

kall þeirra greindum ef þögnin mætti tala,

vonbrigði og sigra er geyma steinlögð stræti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er alltof lítið um rauðhærðar konur.

Meistari í kvennafræðum frá H.Í. (IP-tala skráð) 27.7.2007 kl. 00:21

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það er alltof lítið um hagyrtar konur..  Ég er svo mikið svínabest að ég get ekki nógsamlega lofað haustið og veturinn. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.7.2007 kl. 14:56

3 Smámynd: Bjarni Bragi Kjartansson

Þetta er fallegt Ólína, ég fagna alltaf nýrri árstíð, kannski af því ég er ekki nógu duglegur að vera í núinu :-)

Hver árstíð hefur sinn sjarma, vorið með sæta angan og fyrirheit í loftinu, sólbjartir sumardagar eða göngutúr í næturkyrðinni í hellirigningu. Haustið með litina og lyktina af nýju strokleðri og svo veturinn með myrkrið sem gerir kertaljósið svo fallegt, með góða bók og tebolla meðan hríðin lemur rúðurnar. Þetta eru nú gamlar klisjur en dásamlegar samt.

Bjarni Bragi Kjartansson, 27.7.2007 kl. 15:57

4 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Takk.

Georg Eiður Arnarson, 27.7.2007 kl. 23:18

5 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ólína góð!

Þetta er í einu orði sagt FALLEGT!

Ættir kannski bara að fá ljúflingin Kk til að semja lagstúf við "Barnið"!?

Magnús Geir Guðmundsson, 28.7.2007 kl. 01:36

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég þakka fallegar athugasemdir

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.7.2007 kl. 11:40

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Afar fallegt og seiðmagnað.  Maður komst ekki í ólíka sefjun og maður finnur við lestur kvæða Jóns Helgasonar.  Hér er leynd hlið sem þú ættir að rækta kæra Ólína.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.7.2007 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband