Úlfur um nótt

úlfur Í nótt voru úlfar á kreiki - náttúlfar í næturkyrrðinni.

Þannig er að ég á stundum erfitt með svefn. Eftir góða daga þegar mikið hefur verið um að vera er ég oft eirðarlaus og get ekki farið að sofa. Þannig var það í nótt. Eftir gott kvöld með vinum úr  hundabjörgunarsveitinni sem borðuðu hjá okkur og sátu að spjalli fram eftir kvöldi gat ég ekki fengið mig til að fara að sofa. Næturkyrrðin lagðist yfir húsið. Ég sat við gluggann og horfði á lognværan fjörðinn. Innra með mér óx úlfurinn. Ég hef stundum orðið hans vör, lengi vel streittist ég gegn honum, en gat það auðvitað ekki.  Úlfurinn í mér er þarna, og þegar hann gerir vart við sig verð ég eirðarlaus - get ekki sofið, vil ekki sofa. Í nótt var tungl nærri fullt - ég fann fyrir því þó ég sæi það ekki.

Og hvað gera úlfar undir fullu tungli? Þeir tylla sér upp á næstu hæð og senda langdregna, tregafulla tóna út í nóttina. Áður en ég vissi af var ég sest við tölvuna og farin að vafra um netið. Skellti inn einni lítilli færslu og fór svo að kíkja á síður hjá öðrum. En viti menn, það voru fleiri náttúlfar á kreiki. Þeir komu inn á síðuna mína með athugasemdir, og heimsóknatalningin tók óvæntan kipp. Á annað hundrað manns kíktu við á síðunni þennan hálftíma sem ég sat við tölvuna - og um stund má segja að nóttin hafi ómað af úlfasöng umhverfis mig.

Þetta var óvænt og skemmtileg uppgötvun. Ég var þá ekki sú eina sem vakti. Það eru hundruð manna andvaka undir fullu tungli - og þetta fólk á sér samfélag þegar aðrir sofa: Úlfahjörð sem reikar um náttheima netsins. Vúúúúúúúú - gaman.

úlfar

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það er ekkert vitlaust að vaka um nætur á þessum árstíma, úlfur eða ekki, nógur tími til að jafna missinn út í skammdeginu.  Gleðilegar sumarnætur.

Jenný Anna Baldursdóttir, 29.6.2007 kl. 11:50

2 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Maður er alltaf jafn hissa á því hvað íslenska sumarnóttin er björt.

Ég veit fátt betra en að sitja úti í sumarnóttinni og hlusta á náttúruna

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 29.6.2007 kl. 12:28

3 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Gaman að þessu

Edda Agnarsdóttir, 29.6.2007 kl. 12:33

4 identicon

Og nú er mikilvægt að fara ekki að hrópa "úlfur úlfur " , en án gamans ,að hafa tækifæri til að horfa yfir Djúpið frá Skutulsfirði  yfir á friðlandið sem nú er nefnt samheitinu Hornstrandir..heimanað frá sér um miðnætti um hásumar...eru forréttindi...njótið þess.

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband