Hraðafíkn er staðreynd!

Heimkomin af hundanámskeiðinu í Vaglaskógi - með nefið þrútið af ofnæmi, sólbrennd og sælleg - er ég sest við tölvuna og farin að kíkja á bloggið.

aksturSé ég þá á bloggsíðum Ragnheiðar Davíðsdóttur  og Helgu Sigrúnar Harðardóttur nokkuð sem vekur athygli mína. Þær stöllur hafa orðið fyrir aðkasti og hálfgerðum hótunum af hálfu bifhjóla- og akstursíþróttamanna vegna skrifa sinna gegn ofsaakstri. Er helst að skilja að þær hafi talað um ofsaakstur á vegum úti sem hraðafíkn - og viðbrögðin ekki látið á sér standa.

Í bloggfærslu sem Ragnheiður nefnir "Nóg komið" segir hún:

"Nafnlaust níð á hinum ýmsu bloggsíðum, nafnlausar símhringingar með fúkyrðum og undarlegur, hægfara akstur ókunnra, vélknúinna ökutækja utan við heimili mitt, segja mér að nú sé nóg komið. Til verndar fjölskyldu minni, einkalífi og mínum góðu vinnuveitendum, mun ég ekki skrifa fleiri færslur um ofsaakstur og meint tilræði við saklausa vegfarendur hér á síðunni."


 Það er illa komið fyrir umræðunni þegar fólk treystir sér ekki til þess að viðra skoðanir sínar vegna aðkasts, nafnlausra svívirðinga og jafnvel hótana þeirra sem telja að sér vegið.

bilslys  Hraðafíkn er gott orð og lýsandi fyrir ítrekaðan ofsaakstur. Hraðafíkn er nefnilega staðreynd. Eða hvað annað ætti maður að segja um þá sem geta ekki sætt sig við gildandi umferðarlög og brjóta ítrekað af sér jafnvel þó það stefni lífi þeirra sjálfra og annarra í stórhættu?

Lítum á skilgreiningu fíknar: Hún tekur völdin af þeim sem við hana stríðir. Hún hefur áhrif á lífsháttu manns og kemur í veg fyrir að viðkomandi geti haldið sig við viðurkenndar skorður, jafnvel ekki heldur þær sem hann setur sér sjálfur. Fíkn ógnar lífi. Sé það sem svalar fíkninni tekið í burtu án samþykkis fíkilsins bregst hann við með árásargirni og getur teygt sig ansi langt í því að réttlæta hegðun sína.

Lítum svo á fyrirbærið ofsaakstur: Þrátt fyrir sektir og dóma eru sömu ökumenn að brjóta af sér aftur og aftur - eins og þeir ráði ekki sjálfir við hegðun sína þrátt fyrir hugsanlega góðan ásetning. Athæfið ógnar lífi. Það stríðir gegn almennri skynsemi og fer út fyrir ásættanlegar skorður.

Og hvað á maður svo að halda um lítt dulbúnar hótanir og nafnlausar árásir á þá sem vilja stemma stigu við hraðakstri? Hvað sýna slík viðbrögð annað en árásargirni og sjálfsréttlætingu þess sem vill fá "kikkið" sitt?

"Hraðafíkn" er gott orð - hraðafíkn er staðreynd - hvort sem  áhangendum hennar líkar orðnotkunin betur eða verr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Sæl Ólína. Hvað hefur þú fyrir þér þegar þú segir að akstursíþróttamenn hafi hótað þeim? Ert þú þeirrar skoðunnar að akstursíþróttamenn séu fíklar? Er það kannski þannig með alla íþróttamenn? Ég er akstursíþróttamaður, er ég þá fíkill? Ég er líka knattspyrnumaður þó aldraður sé, er það líka fíkn?

Birgir Þór Bragason, 27.6.2007 kl. 08:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband