Ber einhver ábyrgð?

 reynisfjara Fyrir fáum árum drukknuðu tvær 9 ára gamlar stúlkur í stöðuvatni í Hollandi að fjölda manns ásjáandi. Allir biðu eftir því að einhver bjargaði þeim - en enginn gerði það. Þetta er hættan sem fylgir því þegar margir bera ábyrgð en engum einum er falin hún beinlínis.

Í þessari sorglegu frétt af slysinu í Reynisfjöru sjáum við hvernig "ábyrgir" aðilar vísa hver á annan. Öllum virðist hættan ljós, en enginn gerir neitt sjálfur, til þess að fyrirbyggja slys af þessu tagi. Þess vegna eru engin skilti í fjörunni, enginn björgunarhringur, og auðvitað engin vakt heldur.

Úr því sem komið er þjónar engum tilgangi að finna sökudólg - þeir eru sjálfsagt allir og enginn, eins og í tilviki hollensku stúlknanna. En það er leiðinlegt að enginn skuli taka það upp hjá sjálfum sér -óbeðinn - að fyrirbyggja eða vara við slysum á stöðum þar sem hættan er þó öllum ljós sem til þekkja. Bara svona af velvild og umhyggju fyrir ferðafólki. Er til svo mikils ætlast af þeim sem vilja hafa hag af umferð ferðamanna á fallegum stöðum að þeir geri sitt til þess að trygga öryggi þeirra? Við vitum að víða má ekki mikið út af bera til þess að skelfileg slys geti orðið. 

Sveitarfélög, slysavarnarfélagið, ferðamálasamtökin, eða bara lögreglan í viðkomandi umdæmi - öllum þessum aðilum er í lófa lagið að koma upp merkingum. Viðvörun um að bjargbrún sé laus í sér, aldan geti verið banvæn, göngustígurinn sleipur.  Er svo dýrt að setja upp nokkur skilti, eða setja björgunarhring í fjöruna sem hægt væri að grípa til í tilviki sem þessu? Getur maður ekki beðið "ábyrga" aðila að reyna að fyrirbyggja svona atvik - jafnvel óbeðnir? Jafnvel þótt einhver annar ætti kannski (líka eða enn frekar )að gera það?

Fyrir fáum árum gekk ég frá Hornvík yfir í Hvannadal.  Leiðin er eiginlega ófæra um snarbratta fjallshlíð þar sem mörghundruð metrar eru niður fyrir björg og niður í sjó. Hann er ekki fyrir lofthrædda. Á kafla verður maður að fara á kaðli fyrir klettasnös, og fóta sig svo eftir einstigi, skref fyrir skref. Í þessari ferð fór næstum illa fyrir einum úr hópnum - honum skrikaði fótur og annar fótur hans rann fram af einstiginu. Ferðafélagi minn hafði ekkert að styðjast við annað en sinn eigin styrk að komast upp á hinn fótinn og rétta úr sér. Það voru erfið augnablik meðan þess var beðið. Hefði hann misst fótfestuna, hefði hann runnið viðstöðulaust niður fyrir björg og ekki þurft um sár að binda.

Allt fór vel, og útsýnið frá Hvannadal var stórkostlegt, enda blíðskaparveður og sólskin. Eftir á að hyggja var þetta þó ekki þess virði - því þarna skall hurð nærri hælum. Þarna var tekin áhætta sem er ekki ásættanleg. Sjálf vissi ég ekki hvað ég var að fara út í, og þó ég sé óhrædd og fótviss, þá skynjaði ég á þessu augnabliki hættuna.

Ég furða mig enn á því að ekki skuli fyrir löngu vera komið upp skilti sem varar ferðamenn við þessari leið. Ástæðan er sjálfsagt sú að enginn telur sér skylt að merkja þetta. En þeir sem hafa tekjur af því að stefna ferðamönnum inn í óbyggðirnar - selja aðgang að óbyggðunum - ættu að sjá sóma sinn í því að koma upp þokkalegum merkingum og hafa eftirlit með þeim sem ferðast þar fótgangandi. Jafnvel þó þeim beri ekki lagaskylda til þess.

Hvernig eiga útlendingar að vita um hætturnar á þekktum ferðamannaslóðum? Þeir þekkja ekki landið, eða íslenska veðráttu. Hvernig á þá að gruna að vegur sem sagður er torfær sé í raun lífshættulegur? Þegar útlendingur kaupir ferð undir leiðsögn telur hann sig öruggan. Hann gefur sér að honum verði ekki teflt í hættu. Þegar honum er sagt til vegar reiknar hann með því að vegurinn sé fær og að veður muni haldast til kvölds.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að erlent ferðafólk hafi vit fyrir sér í náttúru Íslands. Við verðum að hafa vit fyrir þeim sem koma hingað ókunnugir - þannig er það bara.

Það eru margir ábyrgir - eiginlega allir.

 


mbl.is Brimaldan sogaði konuna á haf út og ógnaði samferðamönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Þetta var hræðilegt slys sem  við getum ekki vitað hvort hefði orðið þó skilti hefði verið sett niður þarna í fjörunni. Ég þekki ekki aðstæður þarna í fjörunni hvort aðkoman er um einn veg eða hægt að koma víða að. En sé það þannig að maður komist víða að þessari fjöru þyrfti þá ekki að vera þarna skiltaskógur með þeirri sjónmengun sem því fylgdi og kostnaði sem enginn er tilbúinn að taka á sig. Ég sjálfur hef gaman að fylgjast með brimi en þó aldrei öðruvísi en úr öruggri fjarlægð, og sjálfsagt hafa þessir ferðamenn talið sig í öruggri fjarlægð frá úfnu briminu. En þetta er gamla spurningin um forræðishyggju og hvernig eigi að hafa vit fyrir öllu fólki hvar og hvenær sem er.

Gísli Sigurðsson, 21.5.2007 kl. 19:56

2 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Verða menn ekki að hafa smá vit fyrir sjálfum sér ?

Ég hel að það gangi ekki að drita niður skiltum um allt land.

Jens Sigurjónsson, 21.5.2007 kl. 23:03

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta var þörf ábending. Sjálfur þekki ég klettaklifur og varasöm einstigi frá árum mínum við bjargsig í Drangey. Engir aðrir en þeir sem lausir eru við lofthræðslu ættu að leyfa sér að ganga um varasamar klettaleiðir. Óttalaus maður er öruggur og hann er í margfalt minni hættu en sá sem býr við hræðsluna. Þessu stýrir einfalt lögmál sem þeir einir vita um sem þekkja. Og það er enginn aumingjaskapur að vera lofthræddur, öðru nær.

Strangar öryggisreglur og glöggar aðvaranir ættu að vera sjálfsögð skylda þeirra sem hagnast á ferðamönnum, og jafnframt skylda þeirra sem hafa umsjón með ferðamannastöðum.

Við segjum ekki:- Þú gast sjálfum þér um kennt!

Árni Gunnarsson, 22.5.2007 kl. 11:08

4 identicon

Get ekki orða bundist yfir þessari grein. Finnst einstaklega ósmekklegt að líkja þessu slysi saman við þegar stúlkurnar drukknuðu í Hollandi. Það er ljóst að samferðamenn konunnar lögðu sig í hættu við að reyna björgun og björgunarmenn lögðu sig í hættu við að finna lík hennar. Er viss um að skilti hefðu engu breytt í þessu tilfelli því eins og komið hefur fram varaði fararstjórinn við hættunni af sjónum. Hitt er annað mál að það er sjálfsagt að koma upp björgunarhring þarna. Finnst nú heldur langsótt að ætlast til þess að það sé vakt í fjörunni. Hvar á að draga mörkin og hver á að bera kostnaðinn. Eiga landeigendur að kosta gæslu þótt þeir hafi engar tekjur af því að fólk fái að fara um fjöruna. Eða á að fara að innheimta gjald fyrir að fá að fara niður í fjöru til að standa straum af kostnaði við gæslu. Ekki hef ég áhuga á að skattarnir mínir fari í að vakta svæði landsins til að ferðafólk fari sér ekki að voða. Slys koma líka fyrir þar sem gæsla er og fólk verður að bera ábyrgð á sjálfu sér og sínum gjörðum. Ef það á að fara að draga einhvern til ábyrgar fyrir svona slys þá verða svona stöðum lokað fyrir umferð og það er ekki það sem við viljum eða er það?

Dagrún Guðlaugsdóttir (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 10:18

5 Smámynd: Ingibjörg R Þengilsdóttir

ja ég er nú svolítið sammála þér Ólína - ég ferðast mikið og allstaðar þar sem ég kem sé ég merki um hve óvarlega er farið á svæðum sem eru mjög hættuleg - ég var nú bara umsjónarkona í skólaferðalagi með syni mínum hér á dögunum og fórum við meðal annars á svæðið við Geysi - nú við höfðum æfingu áður en við fórum af stað þar sem börnunum var skipt bróðurlega á milli okkar og þau áttu undantekningarlaust að leiða sinn umsjónarmann eða börnin í sínum hóp.  þar sem við gengum um svæðið með börnin kyrfilega klesst upp við okkur að þá dreif að í stórum hópum útlendinga af öllum stærðum og gerðum með myndavélar og gsm síma og þeir æddu beint af augum á blankskónum yfir allt sem fyrir var og þá varð einu barninu að orði "sjáiði þessir kunna ekki reglurnar"  og mikið var þetta rétt - því þarna eru jú merkingar og meira segja bönd sem loka af hættulegustu svæðin en það skipti engu máli og eftir smá stund voru þessir sömu ferðamenn á hlaupum undan stróknum úr Strokki - ja ég var nú bara hneyskluð.  en svona er þetta bara að því er virðist og þarna brenna sig nú margir á ári og virðist ekki duga til. til þess að gerðar séu almennilegar girðingar og þess háttar - það verður kannski gert þegar einhver verður dreginn harðsoðinn upp úr einhverjum hvernum.

kv

Ingibjörg Þengilsdóttir (ég er reyndar gamall nágranni þinn af Hjónagörðum) 

Ingibjörg R Þengilsdóttir, 27.5.2007 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband