Fátækt í skugga velmegunar - blekkingar umræðunnar

Guðmundur Steingrímsson er með athyglisverða bloggfærslu um blekkingar þær sem viðhafðar eru í umræðunni um kaupmáttinn í landinu.  Hann gluggaði í hagtölur og komst að raun um að kaupmátturinn hefur fyrst og fremst aukist hjá þeim tíundahluta þjóðarinnar sem hæstar hefur tekjurnar. Sömuleiðis komst hann að því – með því að skoða opinberar tölur – að árleg kaupmáttaraukning  ráðstöfunartekna hefur yfirleitt verið mun meiri í tíð annarra ríkisstjórna en þeirrar sem nú situr.

Þetta varð mér hvatning til þess að skoða betur skýrslu sem vakti athygli mína fyrir fáeinum mánuðum – en það er skýrsla forsætisráðuneytisins um fátækt meðal barna. Ég hafði á sínum tíma lesið samantekt ráðuneytisins fremst í skýrslunni, en þar var fullyrt að ástandið hér á landi væri bara býsna gott: Ísland væri í hópi þeirra OECD-ríkja þar sem fátækt barna mælist hvað minnst; en 6,6% íslenskra barna munu hafa búið við fátækt á árinu 2004.  Jæja, ég ákvað að skoða samhengi hlutanna betur og fór að glugga í tölulegar upplýsingar skýrslunnar. Til samanburðar hafði ég skýrslu sem borgarhagfræðingur tók saman fyrir Reykjavíkurborg árið 2001 um sama efni.

Niðurstaðan er athyglisverð: Frá 2001 – 2004 þrefaldast fjöldi fátækra barna á Íslandi (úr 2,1%  í 6,6%).  Til samanburðar má nefna að á tímabilinu 1995-2001 lækkaði hlutfall fátækra barna hinsvegar úr  2,9% í 2,6%. Fátækt hefur ekki verið meiri meðal íslenskra barna en í annan tíma en í tíð núverandi ríkisstjórnar – og hefur ekki aukist meira á neinu öðru tímaskeiði sem þessar skýrslur ná til. Séu börn einstæðra foreldra skoðuð sérstaklega þá fjölgar fátækum í þeim  hópi um helming, úr 10,5% árið 2001 í 18% árið 2004.  

Það má líka geta þess – í ljósi digurmæla sem fallið hafa af vörum stjórnarherranna  um vaxandi kaupmátt og bætt lífskjör almennings – að fátækt meðal aldraðra hefur aukist mest á Íslandi af öllum Norðurlöndum. Í dag eru 20-30 þúsund manns undir fátæktarmörkum á Íslandi, og mælist fátækt meiri hér en í nokkru hinna Norðurlandanna. Fram hefur komið í fjölmiðlum að um 30% ellilífeyrisþega og 31% einstæðra foreldra lifi nú undir fátæktarmörkum á Íslandi. Til samanburðar má geta þess að í hinum norrænu löndunum búa 6,6-13,5%  einstæðra foreldra við fátækt.   

Já, svo segja þeir að þjóðin hafi aldrei haft það betra.

Ég hef samið nýtt spakmæli af þessu tilefni - það er svona: Frá háum turnum falla langir skuggar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Það er nú alltaf spurning um hvernig "fátækt" er skilgreind.  Samkvæmt einni algengri skilgreiningu myndi það til dæmis engin áhrif hafa á fátækt þótt ráðstöfunartekjur allra tvöfölduðust - sé "fátækt" miðuð við hvernig aðrir hafa það þá yrði hlutfallið áfram hið sama.  Púkanum finnst þess vegna mikilvægt að þeir sem tjá sig um meinta fátækt geri grein fyrir því hvaða skilgreiningu þeir nota.

Púkinn, 26.4.2007 kl. 15:25

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Skilgreiningin er sú hin sama og stjórnvöld nota - þegar fólk lifir undir þeim fátæktarmörkum sem menn hafa komið sér saman um að sanngjarnt sé að miða við.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 26.4.2007 kl. 15:39

3 Smámynd: Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Hvaðan hefur þú það, að fátækt hafi aukist mest á Íslandi? Í skýrslu Evrópusambandsins um fátækt og félagslega útskúfun, sem ég vísa til á bloggsíðu minni, kemur fram, að fátækt og hætta á fátækt (lágtekjumörk, 60% af miðtekjum) sé minnst meðal aldraðra á Íslandi í allri Evrópu, ef Lúxemborg er undanskilin. Í skýrslu Nososco, sem ég vísa líka til, kemur fram, að lífeyristekjur eru hér hæstar á Norðurlöndum og útgjöld til þjónustu á hvern aldraðan hæst. Í tölum Stefáns Ólafssonar kemur fram, að kjör fátækasta hlutans á Íslandi (10% tekjulægstu eftir skatt) bötnuðu að meðaltali um 2,7% á ári 1995-2004, en ég benti þá á, að kjör sama hóps bötnuðu að meðaltali í OECD ríkjunum um 1,8%. Með öðrum orðum bötnuðu kjör hinna fátækustu 50% hraðar hér en í OECD ríkjunum. Það kemur líka fram í skýrslu Evrópusambandsins, sem ég minntist á hér að ofan, að tekjuskipting er á Íslandi einna jöfnust í Evrópu, aðeins jafnari í Slóvakíu og Svíþjóð, sé miðað við hina landsfrægu Ginistuðla, sem starfsbræður mínir í háskólanum þreyttust ekki á að benda á haustið 2006. HHG

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, 26.4.2007 kl. 19:40

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Hannes.

Svo rétt sé eftir haft, þá segi ég "að fátækt hefur ekki verið meiri meðal íslenskra barna í annan tíma en stjórnartíð núverandi ríksistjórnar og hefur ekki aukist meira á neinu öðru tímaskeiði sem skýrslur þessar ná til". 

Ennfremur að "fátækt meðal aldraðra hefur aukist mest á Íslandi af öllum Norðurlöndum". Þetta hef ég úr sömu gögnum og ég vitna til bloggfærslunni.

Ég treysti mér ekki að svo stöddu til að rökræða við þig um upplýsingar sem koma fram í þeim skýrslum sem þú nefnir - þær hef ég ekki lesið, og held mig við það sem ég sannast veit að sinni.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 26.4.2007 kl. 22:18

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sammála Hannesi. Heyrði af ungri konu og heilsutæpri sem bjó ásamt þremur börnum í rúmgóðu herbergi með aðgangi að salerni og sturtu. Kom til fjölskylduhjálparinnar mánaðarlega og leitaði aðstoðar. Nú brá svo við að þegar átti að afhenda henni venjulegan skammt af hinum og þessum nauðsynjum neitaði konan að taka við þessu. Sagði að þessi aðstoð breytti ekki stöðu sinni á neinn hátt til frambúðar. Bað um nýjustu úttekt frá OECD um lífskjör fátækra á Íslandi ásamt líka nýjustu úttekt þessa efnis í samanburði Ginistuðla. Sagðist trúa því að með því að lesa þessi merkilegu rit reglulega, yrði hún alsæl með sín kjör.

Það er obbolítill munur á svona samfélagsþroska og déskotans kommabullinu.  

Árni Gunnarsson, 26.4.2007 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband